30.10.1968
Sameinað þing: 6. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 601 í D-deild Alþingistíðinda. (3588)

257. mál, skólarannsóknir

Ingvar Gíslason:

Herra forseti. Það kom greinilega fram í svari hæstv. ráðh., að hægt miðar í skólarannsóknunum og ég verð að segja fyrir mína parta, að það er mjög illt til þess að vita, að einmitt sá þátturinn, sem hér hefur verið gerður að umræðuefni, skuli hafa verið látinn mæta afgangi. Ég efast ekkert um, að sá þáttur skólarannsóknanna, sem sérstaklega hefur verið látinn hafa framgang á þessu ári og jafnvel látinn ryðja til hliðar ákveðinni áætlun, sem gerð hafði verið um skólarannsóknir á þessu ári, — ég efast ekki um, að þar er um mikilvægt atriði að ræða. En ég vil benda á það, sem ég raunar gerði fyrir nokkrum dögum hér á hv. Alþ., að það, sem er hvað brýnast og alvarlegast í okkar fræðslumálum, er einmitt, hve mikill mismunur er á í fræðslumálunum, hvað t.d. dreifbýlið er aftur úr í sambandi við skólabyggingar og framkvæmd skólaskyldunnar. Þetta er atriði, sem hefur verið vanrækt stórlega mörg undanfarandi ár.

Eins og þetta mál var upphaflega byggt upp í fræðslulögunum frá 1946, var hugmyndin að koma á jafnri skólaskyldu og jafna allan aðstöðumun í skólamálum á einum 6–7 árum. Þessu átti sem sagt að vera lokið fyrir u.þ.b. 15 árum. En því er ekki lokið enn og það er greinilegt, að þetta mál er enn haft í undandrætti. Þetta tel ég ástæðu til að átelja og það er vonandi, að betur verði að þessu staðið eftirleiðis.