30.10.1968
Sameinað þing: 6. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 605 í D-deild Alþingistíðinda. (3594)

258. mál, fjárveitingar til vísindarannsókna

Fyrirsyrjandi (Magnús Kjartansson):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. menntmrh. svör hans við fsp. mínum. Svörin staðfestu því miður það, sem ég hafði grun um, að við værum fjarskalega illa á vegi staddir í þessu efni. Og raunar kom í ljós, að við vorum enn verr á vegi staddir, en ég ímyndaði mér. Hlutfallstala okkar, miðað við sams konar samanburðargrundvöll og tíðkast annars staðar, er á sama stigi og í löndum eins og Grikklandi, Spáni og Portúgal, vanþróuðustu löndum í Evrópu. Samanburðartölur þær, sem hæstv. ráðh. nefndi frá öðrum löndum, voru dálítið gamlar, – frá 1963 og 1964 að því er mér skildist. Ég hef séð nýrri tölur um þetta efni. Árið 1965 var framlag til vísindarannsókna og tilrauna í Bandaríkjunum 3.61% af þjóðartekjunum og þá var Vestur–Evrópa með framlög, sem voru 2.01%. Þá hafði orðið um mjög mikla aukningu að ræða á árunum á undan, og það er ráðgert, að einnig verði um að ræða mjög öra aukningu á næstu árum. T.d. er áætlað að í Bandaríkjunum verði framlög til vísindarannsókna og tilrauna komin upp í 4.6% af þjóðarframleiðslunni 1970 og þá verði hliðstæð framlög í Vestur-Evrópu komin upp í 2.5%. Við erum þarna fjarskalega miklir eftirbátar annarra og þó finnst mér einna ískyggilegast, að hæstv. ráðh. greindi frá því, að árið 1958 hefði hlutfallstalan á Íslandi verið 0.31%, en 1966 hafði hún ekki aukizt nema upp í 0.38%. Þarna má heita, að um sé að ræða algera stöðnun einmitt á því árabili, sem við höfðum yfir að ráða meiri fjármunum, en nokkru sinni fyrr. Það tímabil hefðum við sannarlega þurft að nota til þess að búa í haginn fyrir atvinnuþróun á hærra stigi, en verið hefur á Íslandi að undanförnu. En frá hæstv. ríkisstj. hefur ekki verið um að ræða neina slíka forustu hvað fjárframlög snertir, eins og hæstv. ráðh. hefur staðfest hér.

Ég er algerlega sammála hæstv. ráðh. um það, að fjárveitingarnar einar saman skera ekki úr. Það verður að koma til skynsamlegt skipulag eða skynsamleg stefna í vísindarannsóknum. Ég lít svo á, að það hafi verið eitt af verkefnum þessa hæstv. ráðh. að beita sér fyrir því, að slík stefna væri mótuð, og hæstv. ráðh. er búinn að vera svo lengi í starfi menntmrh., að honum hefur unnizt mjög góður tími til þess að sinna þessum verkefnum. Hann er sannarlega enginn nýliði á þessu sviði.

Það er alveg rétt hjá hæstv. ráðh., að aðstaða okkar er mjög frábrugðin því, sem tíðkast víða annars staðar. Hér eru sama og engin fyrirtæki, sem leggja fram fé til vísindarannsókna, eins og mikið tíðkast í öðrum löndum. Þó vil ég benda hæstv. ráðh. á, að framlög ríkisvalds eru víða um lönd mjög há, einnig í Bandaríkjunum. Á ýmsum sviðum vísindarannsókna í Bandaríkjunum eru framlögin frá ríkinu mikill meirihluti alls þess, sem í rannsóknir er lagt, — enda þótt þar séu mörg stór fyrirtæki, sem leggja fram mikla fjármuni, aðeins vegna þess, að stjórnarvöld þar telja, að þarna sé um að ræða sjálfan vaxtarbroddinn í iðnþróun og efnahagsþróun. En einmitt vegna þess, að Ísland er svona smátt þjóðfélag, verður að koma til meiri forusta ríkisvaldsins, en í nokkru öðru nálægu landi. Við ráðum ekki við þessi verkefni, ef ríkisstj. hefur ekki forustu og aflar þeirra fjármuna, sem til þess þarf.

Nú er það svo hér á Íslandi, að framlög þau, sem þó hafa komið frá ríkisstj., hafa áreiðanlega nýtzt mun verr en skyldi, einmitt vegna þess að þarna hefur skort eðlilegt skipulag. Við verjum til að mynda í það miklu fé að mennta vísindamenn, raunvísindamenn, en háskalega stór hluti af þessum raunvísindamönnum notar ekki kunnáttu sínatil starfa í þágu Íslendinga, heldur ræður sig í störf erlendis. Það hefur verið mikið ánægjuefni, að stofnaður hefur verið vísindasjóður á Íslandi, sem hefur getað veitt hæfileikamönnum hærri styrki en áður hafa tíðkazt, en mér hefur skilizt, að háskalega stór hluti af þeim hæfu mönnum, sem þar hafa fengið fjármuni, hafi setzt að erlendis. Þarna erum við að fjárfesta í menntun og þekkingu handa öðrum þjóðum. Þarna verður að koma til eðlilegt samhengi. Ef við erum að mennta vísindamenn, verðum við einnig að tryggja þeim starfsaðstöðu á Íslandi.

Oft er talað um það, að vísindamenn fari til útlanda, vegna þess að þeim bjóðist þar hærra kaup og eflaust eru mikil brögð að slíku, en ég hygg, að aðalástæðan sé sú, að erlendis bjóðast vísindamönnum betri rannsóknaskilyrði, betri aðstaða. Það er ekki eðlilegt, að vísindamaður vilji koma heim til Íslands til þess að kenna unglingum í skóla. Þarna verður, eins og hæstv. ráðh. sagði, að móta skynsamlega stefnu og ég tel, að það eigi að vera verkefni þessa hæstv. ráðh. að beita sér fyrir því, að sú stefna sé mótuð.

Í þessu sambandi má minna á þá staðreynd, að hjá öflugustu stétt raunvísindamanna á Íslandi, verkfræðingum, er nú svo ástatt, að af þeim starfa erlendis um 80 menn, en áætla má, að fjárfesting í menntun þeirra nemi 500 millj. kr. Þarna erum við hreinlega að leggja fram fjármuni handa öðrum.