06.11.1968
Sameinað þing: 8. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 609 í D-deild Alþingistíðinda. (3604)

35. mál, vegabætur við Skeiðhól í Hvalfirði

Fyrirspyrjandi (Halldór E. Sigurðsson):

Herra forseti. Á s.l. sumri var unnið nokkuð að vegagerð hjá Skeiðhóli í Hvalfirði. Framkvæmdin var með þeim hætti, að þarna var ruddur spotti af vegi, en af þeirri vegagerð eru engin not, þar sem þessi vegur er ekki tengdur aðalveginum.

Það er skoðun þeirra, er bezt þekkja, að hér hafi í framkvæmdinni átt sér stað mistök, þar sem þetta hafi ekki verið stærra verk en svo, að eðlilegt hefði verið að láta það bíða, þangað til hægt væri að leysa verkið í einum áfanga og draga þannig úr kostnaði. Nú má vera, að einhverjar skýringar séu á þessu, sem okkur vegfarendum dyljast og af þeirri ástæðu hef ég ásamt hv. 4. landsk. þm., Jónasi Árnasyni, leyft mér að flytja fsp. á þskj. 35, þar sem spurt er, hvað kostnaður hafi verið mikill við þessa vegaframkvæmd á s.l. sumri og hvað þurfi mikið til að koma þessari vegagerð í samband við aðalveginn.