06.11.1968
Sameinað þing: 8. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 612 í D-deild Alþingistíðinda. (3609)

260. mál, bækistöðvar Atlantshafsbandalagsins í Hvalfirði

Fyrirspyrjandi (Magnús Kjartansson):

Herra forseti. 14. okt. s.l. afhentu íslenzkir verktakar framkvæmdir þær, sem þeir hafa unnið að í Hvalfirði nú um skeið, við hátíðlega athöfn, að því er virtist af fréttum. Hins vegar hafa ekki verið sendar út neinar opinberar grg. af hálfu íslenzkra stjórnarvalda um þessar framkvæmdir. Aðeins kom í nokkrum blöðum frásögn af ræðu, sem Stones aðmíráll hefði haldið við þetta tækifæri, en aðmíráll þessi er orðinn býsna ötull ræðumaður á Íslandi síðustu vikurnar. Það kom fram í frásögn aðmírálsins, að þarna hefur verið komið upp fjórum risastórum olíugeymum og búið þannig um þá, að þeir eru grafnir í jörðu niður, tyrft yfir þá. Enn fremur að þarna væri um að ræða býsna stóra bryggju og e.t.v. einhverjar framkvæmdir aðrar.

Af þessu tilefni hef ég leyft mér að biðja hæstv. utanrrh. að gera Alþ. grein fyrir þessum framkvæmdum. Það var á sínum tíma rætt all ýtarlega um þetta mál, þegar vitað var um samningsgerðina um það efni og ég tel eðlilegt, að Alþ. fái skýrslu um það, hvernig þessu máli er nú komið.

Einnig kom fram í ræðu Stones aðmíráls atriði, sem mér þótti dálítið forvitnilegt, en samkvæmt frásögn eins dagblaðsins talaði hann um þessar framkvæmdir í Hvalfirði sem skref í áttina til þess, að endanlega verði frá stöðinni gengið. Eftir því að dæma virðast vera fyrirhugaðar þarna enn þá meiri framkvæmdir og mér er forvitni á að frétta hjá hæstv. ráðh., hverjar þær framkvæmdir eru. Enn fremur var haft eftir aðmírálnum að þetta skref gerði það mögulegt, að NATO hafi eftirlit með stöðinni, en það eftirlit sé nauðsynlegt, til að stjórnendur NATO fallist endanlega á eldsneytisbirgðastöðina. Þess vegna langar mig einnig til að vita, hvernig fyrirhugað sé, að þessi bækistöð í Hvalfirði verði starfrækt, eftir að búið er að koma henni upp.