06.11.1968
Sameinað þing: 8. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 612 í D-deild Alþingistíðinda. (3610)

260. mál, bækistöðvar Atlantshafsbandalagsins í Hvalfirði

Utanrrh. (Emil Jónsson):

Herra forseti. Fyrsta fsp., sem hér er borin fram, er svo hljóðandi:

„Hverjar eru þær framkvæmdir, sem nýlokið er í Hvalfirði í þágu Atlantshafsbandalagsins?"

Þessu get ég svarað þannig, að byggð hefur verið í Hvalfirði fyrir Atlantshafsbandalagið olíubirgðastöð, sem eingöngu er ætluð til geymslu á svartolíu. Mannvirki þessi eru í öllum aðalatriðum sams konar þeim, sem notuð hafa verið í Hvalfirði fram að þessu og tilheyra venjulegri olíubirgðastöð. Grafnir hafa verið í jörð fjórir olíugeymar, sem taka rúmlega 12 þús. tonn af svartolíu hver. Frá þeim liggja olíuleiðslur út á bryggju, sem er 233 m í sjó fram, en bryggjuhausinn er með 300 m viðleguplássi. Þar er fyrir komið öllum nauðsynlegum útbúnaði, svo sem brunadælum, vatns– og sjóleiðslum o.s.frv. Byggð hefur verið olíuhreinsunarþró og í sambandi við hana er lítill geymir til þess að skilja olíu frá sjó, en leiðslur allar eru hreinsaðar með sjó. Sérstök rafstöð sér stöðinni fyrir rafmagni, m.a. til þess að knýja allar dælur. Ketilhús er notað við upphitun olíunnar, en svartolía er það þykk, eins og menn vita, að hún rennur afar hægt, nema hún sé hituð. Í sambandi við vatnsveitu stöðvarinnar hefur verið byggður vatnsgeymir, hús hafa einnig verið byggð fyrir skrifstofur, til efnagreiningar olíu, fyrir mötuneyti og fyrir slökkviliðsbifreið. Tvennum legufærum fyrir skip verður komið fyrir við stöðina.

Í öðru lagi er spurt: „Hverjar aðrar framkvæmdir eru fyrirhugaðar í Hvalfirði?“

Því get ég svarað þannig, að þegar þessum framkvæmdum er að fullu lokið, er ekki gert ráð fyrir frekari framkvæmdum í Hvalfirði fyrir Atlantshafsbandalagið, a.m.k. hafa engar óskir borizt um það.

Þriðja spurningin er svo hljóðandi:

„Hvernig verður bækistöð Atlantshafsbandalagsins í Hvalfirði starfrækt, þegar framkvæmdum er lokið?“

Þessu get ég svarað þannig, að Íslenzkir aðalverktakar, sem byggðu stöðina, hafa með samningi tekið að sér að starfrækja hana og verða þar eingöngu íslenzkir starfsmenn á þeirra vegum.

Þetta vænti ég, að sé í stuttu máli nægilegt svar. við fsp. þm., en hér er ekki ætlazt til að vera langorður um hlutina, eftir því sem mér skilst.