13.11.1968
Sameinað þing: 11. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 616 í D-deild Alþingistíðinda. (3616)

261. mál, Áburðarverksmiðjan

Landbrh. (Ingólfur Jónsson):

Herra forseti. Hv. fyrirspyrjandi hefur tekið að sér það hlutverk hér í dag að kenna hv. þm. áburðarfræði og að nokkru leyti efnafræði, líkt og hann ætlaði að gera á fundinum á Flúðum á s.l. vori, þegar hann hélt sams konar ræðu. Það var bændafundur og bændurnir brostu. Þeir brostu, þegar þessi hv. þm. hélt því fram, að uppskeran af túnunum væri svo miklu minni nú heldur en hún hefði áður verið. Þeir brostu vegna þess, að þeir vissu, að þeir fluttu ekki allt grasið af túnunum í hlöður síðustu árin, eins og áður var. Flestir eru hættir að tvíslá túnin, þeir slá túnin flestir einu sinni, en nota þau jafnframt til beitar. Og bændurnir vita, að það gras, sem kýrnar bíta á túnunum, sem ærnar bíta á vorin og kindurnar bíta á haustin, eftir að þær koma af fjalli, það gras verður ekki flutt í hlöður. Þeir vita það, bændurnir, að túnin hafa oftast sprottið mæta vel síðustu árin, enda þótt áraskipti hafi orðið á þessu nú, eins og alltaf áður.

Það er alveg rangt að halda því fram, að bændur hafi ekki átt kost á að fá þann áburð, sem þeim hentar. Hv. þm. talar um Kjarna og sér ekkert nema Kjarnann. Kjarninn er þó ekki nema rúmlega helmingurinn af því áburðarmagni, sem íslenzkir bændur nota. Og Kjarninn er köfnunarefnisáburður, og Kjarninn er góður áburður, ef hann er ekki misnotaður. Það er þetta, sem margir hafi villzt á, kenna kalið í túnunum Kjarnanum og halda því jafnvel fram, að köfnunarefnið í Kjarnanum sé eitthvað verra efni en köfnunarefnið í öðrum köfnunarefnisáburði. Kjarninn er því aðeins slæmur, að hann sé misnotaður. Jarðvegurinn þarf að fá öll þau efni, sem nauðsynleg eru til næringar, til þess að hann geti borið fulla uppskeru til lengdar. Það er hægt að pína upp gras í eitt eða tvö ár af vel ræktuðum túnum með því að bera köfnunarefnisáburðinn á einan, en þegar til lengdar lætur verður jörðin að fá algildan áburð. Og það er það, sem Áburðareinkasalan hefur séð um hin síðustu ár.

Hv. þm. heldur því fram, að Áburðareinkasalan sé ekki lengur til. Hún er þó til samkv. lögum. Það hefur ekki enn þótt tímabært að afnema þessi lög. En Áburðarverksmiðjunni hefur verið falinn rekstur þessa fyrirtækis, til þess að unnt væri að nýta þau tæki og hús, sem eru í Gufunesi, þær skrifstofur, sem þar eru og þann mannafla, sem þar er, heldur en að vera með sérstaka skrifstofu, sérstakan forstjóra hér í Reykjavík og leigja pakkhús þar, sem varð miklu dýrara og það er sannað, að fyrsta árið, sem Áburðarverksmiðjan tók að sér rekstur Áburðareinkasölunnar, spöruðust 4 millj. kr.

Hv. þm. segir, að einkaaðilar hafi stjórnað Áburðarverksmiðjunni allt til þessa og einkaaðilar hafi ráðið því, hvers konar áburður væri fluttur til landsins. Það er sennilegt, að maðurinn viti ekki betur. Ég vil ekki halda því fram, að hann fari með vísvitandi ósannindi. Hv. þm. veit, að ríkið á meirihluta í Áburðarverksmiðjunni og 3 stjórnarnefndarmenn af 5 eru kosnir hér á hv. Alþ. Hv. þm. hefði einnig átt að kynna sér málin, áður en hann kom með þessar ósæmilegu fullyrðingar áðan, að bændu byggju við einokun og fengju ekki þann áburð, sem þeir vildu. Þá hefði hann átt að kynna sér það, hvernig innkaupunum á áburðinum er hagað.

Stjórn Áburðarverksmiðjunnar skrifar á hverju ári Búnaðarfélagi Íslands, Stéttarsambandi bænda og Rannsóknastofnun landbúnaðarins og spyr, hvaða áburðartegundir þessir aðilar telji hentugast að flytja inn til þess að fullnægja þörfum landbúnaðarins. Og það eru jarðvegsfræðingar og alls konar fagmenn, sem þetta er borið undir. Og það er fluttur inn algildur áburður, áburðarblöndur, sem þykja henta íslenzkum landbúnaði og eru góðar saman við Kjarnann. Þess vegna er þetta út í bláinn að vera að tala um það, að ekki fáist full uppskera af túnunum, vegna þess að bændur hafi ekki átt kost á þeim áburði, sem þeim hentar. Það er ekki sök stjórnar Áburðarverksmiðjunnar, þótt einn og einn bóndi beri ekki á túnið eins og eðlilegt er. Og það má vel vera, að það megi finna þess dæmi. En flestir bændur munu spyrja ráðunauta og lesa sér nokkuð til um það, hvernig skuli búið, hvaða áburð túnið þurfi að fá til þess að fá eðlilega uppskeru. Og sem betur fer er nú komin betri aðstaða en áður hefur verið til þess að láta fara fram jarðvegsrannsóknir almennt. Og það er nauðsynlegt að gera, enda þótt íslenzk tún séu óskemmd og beri fullan arð. Þá er nauðsynlegt, til þess að tryggja þetta enn betur, að bændur sendi jarðvegsprufur til Rannsóknastofnunar landbúnaðarins, sem nú hefur fengið aðstöðu til þess að framkvæma þessar rannsóknir við það að vera komin í betri og rýmri húsakynni heldur en hún bjó við.

Fullyrðingar hv. þm. um mál, sem hann hefur ekki gefið sér tíma til þess að setja sig inn í, eru ósæmilegar. Það eru aðdróttanir til bændasamtakanna, til Búnaðarfélagsins, til Stéttarsambandsins, Rannsóknastofnunar landbúnaðarins og þeirra manna, sem stjórna Áburðarverksmiðjunni. Það eru ósæmilegar aðdróttanir. Og þessar aðdróttanir á bændafundum, t.d. á Flúðum, urðu til þess, að menn brostu. Þeir brostu vegna þess, að þeir vissu, að þessi maður var ekki inni í þeim málum, sem hann var að ræða um. Það var þetta, sem ég hefði nú búizt við, að hv. þm. léti sér nægja, að hafa einu sinni talað um áburðarmálin. En svo er ekki. Hitt er ekkert óeðlilegt, þótt þessi hv. þm. beri fram fsp., eins og þessa, sem hér er um að ræða og hann hefði spurt eftir svari við henni. Það er allt annað mál. Og það er ekki nema eðlilegt, að það sé spurt um framkvæmd þeirra laga, sem voru samþ. hér á hv. Alþ. á s.l. vori. Þar var sem sagt ríkisstj. gefin heimild til þess að kaupa hlutabréf í Áburðarverksmiðjunni á allt að fimmföldu verði. Ríkisstj. hefur hugsað sér að nota þessa heimild með vissum skilyrðum. Þess vegna var öllum hluthöfum Áburðarverksmiðjunnar skrifað á s.l. sumri svo hljóðandi bréf, með leyfi hv. forseta:

„Með lögum nr. 45 2. maí 1968 var ríkisstj. heimilað að kaupa fyrir hönd ríkissjóðs hlutabréf Áburðarverksmiðjunnar h/f, sem eru í einkaeign, á allt að fimmföldu nafnverði hlutabréfanna. Ríkisstj. hefur samþ. að nota þessa heimild og óskar að kaupa hlutabréfin á fimmföldu nafnverði. Andvirðið greiðist á 5 árum með hæstu leyfilegu fasteignaveðsvöxtum. Svar við þessu tilboði óskast sent rn. sem fyrst.“

Það eru margir aðilar, sem hafa svarað, en það eru nokkrir, sem enn hafa ekki svarað þessu bréfi. Flestir af hinum stærri hluthöfum hafa gefið játandi svar. Það eru þó 2 eða 3 stórir hluthafar, sem enn hafa ekki svarað og ég hringdi í þá í morgun. Þeir töldu, að þeir mundu svara í næstu viku, sennilega játandi, þó er það ekki alveg víst. En þá eru það nokkrir litlir hluthafar, sem hafa svarað neitandi og það eru helzt þeir hluthafar, sem eiga 1.000 kr. bréf eða þar um, en þeir eru þó nokkuð margir. Aðrir hafa talið, að þeir væru ekki búnir að taka afstöðu til málsins.

Ef stærstu hluthafarnir samþykkja þetta tilboð, þá sýnist ekkert vera til fyrirstöðu að breyta lögum Áburðarverksmiðjunnar, þannig að þetta verði hreint ríkisfyrirtæki. Ef stærstu aðilarnir ganga að því að selja fyrir fimmfalt verð, þá virðist vera kominn grundvöllur fyrir mati á þeim bréfum, sem ekki hefur verið gefið samþykki fyrir. Aðrir mundu segja, að ekki væri skaði, þó að nokkrir menn ættu þarna lítil hlutabréf. Þeir verða áhrifalausir, þeir fá engan mann í stjórn og þeir fá ekki heldur endurskoðanda. En flestir munu vera þeirrar skoðunar, að það sé eðlilegast að breyta þessu, breyta lögum Áburðarverksmiðjunnar, þannig að hún verði ríkisfyrirtæki. En um það hefur ekki verið tekin ákvörðun, en það er beðið eftir svari þessara stærstu, sem eiga eftir að svara. Síðan mun ríkisstj. taka ákvörðun um það, hvert framhaldið verður.

Þá er spurt: „Hverjar ráðstafanir hafa verið til þess gerðar, að bændur eigi þess kost í framtíðinni að fá keyptan nýtari áburð, en Kjarna á tún sín og önnur ræktarlönd eða að leysa þá úr einokunarviðjum þeim um áburðarkaup, sem ríkisvaldið og Áburðarverksmiðjan h/f hafa haldið þeim í á undanförnum árum?“

Það hefur ekki þótt heppilegt að dreifa verzluninni með áburð, að það væru margir að flytja inn áburð, eingöngu vegna þess, að með því að hafa þetta á einni hendi væri trygging fyrir því, að til landsins væri flutt hverju sinni nægilega mikið áburðarmagn. Það er einnig trygging fyrir því, að þegar boðin eru út kaupin á áburðinum í stærra magni, að það fáist lægsta og hagstæðasta verð á heimsmarkaðinum. Og það er enginn vafi á því, að með þeim útboðum, sem gerð hafa verið um kaup á áburði að undanförnu, hefur fengizt lægsta heimsmarkaðsverð á þeim áburði, sem hingað hefur verið keyptur. Eins og ég áðan minntist á, hefur val áburðartegunda, sem inn hafa verið fluttar, farið fram í samráði við færustu menn, Búnaðarfélagið, Stéttarsambandið og Rannsóknastofnun landbúnaðarins. Það er þess vegna alveg rangt að segja, að bændur hafi ekki átt kost á því að fá það bezta við hliðina á Kjarnanum.

En jafnvel þótt enginn Kjarni væri framleiddur í landinu, væri þörf á köfnunarefnisáburði og Kjarnaframleiðslan er ekki nægilega mikil í dag til þess að fullnægja köfnunarefnisþörfinni. Þess vegna hefur stundum verið fluttur inn köfnunarefnisáburður frá Noregi, svokallaður kalksaltpétur eða kalkammonsaltpétur.

Það, sem sumir hafa fundið að, er, að það hefur ekki verið kalk saman við Kjarnann. En kalk getur jörðin fengið, þó að hún fái það ekki saman við Kjarnann. Og þegar jarðvegsrannsóknirnar hafa farið fram, þá verður það upplýst, hvort kalk vantar. Það er vitanlega ekkert vit í því, að vera að kaupa kalk á jörð, sem er nægilega kalkrík, því að kalkið kostar peninga.

Ég geri ráð fyrir, að í þessum þriðja lið fsp. eigi að felast, hvað hafi verið gert til þess, að hérlendis verði framleiddur annar áburður en Kjarninn, þótt það sé ekki beinlínis sagt. Ég vil þá upplýsa það, að í undirbúningi er að stækka Áburðarverksmiðjuna, auka framleiðsluna um helming og gera ráðstafanir til þess, að þaðan geti fengizt allt að þrjár mismunandi áburðarblöndur, þannig að við verðum sjálfum okkur nógir með áburð, næstu árin a.m.k. Það er þetta, sem verið er að undirbúa og með þessu hafa bændasamtökin fylgzt og undir þau var borið, með hverjum hætti þessi stækkun ætti að verða, til þess að framleiða mætti þann áburð, sem hentar bezt íslenzkum jarðvegi.

Og þá held ég, að ég hafi svarað fsp., sem hér eru til umr. á þskj. 42 og læt ég svo útrætt um það, sem hv. fyrirspyrjandi talaði um utan við fsp. sjálfar.