13.11.1968
Sameinað þing: 11. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 620 í D-deild Alþingistíðinda. (3617)

261. mál, Áburðarverksmiðjan

Fyrirspyrjandi (Karl Guðjónsson):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðh. fyrir svör hans, enda þótt ég geti ekki jafnframt hælt því mjög, að þau hafi verið glögg eða greinileg.

Það kemur að vísu fram í svari við 1. lið fsp., að ríkissjóður hefur boðizt til þess að kaupa hlutabréfin, þessi umræddu hlutabréf, á fimmföldu nafnverði og er þess þá ekki að vænta, að þau verði keypt á lægra verði, enda þótt í lögum segi að heimildin sé bundin við kaup á allt að fimmföldu nafnverði. Manni hefur nú skilizt á hæstv. ráðh., að hann væri býsna duglegur í því í viðskiptum fyrir ríkisins hönd að prútta niður verð, sbr. Sjálfstæðishúsið hér við Austurvöll, sem mér skilst að hafi tekið hann alllangan tíma að prútta niður í það verð, sem það var svo keypt á. En hann reynir það ekkert með hlutabréfin í Áburðarverksmiðjunni. Það getur vel verið, að ríkissjóður þurfi ekkert að halda sparlega á hlutum. En reynandi fyndist manni nú samt á erfiðum tímum að gera það í samræmi við lög.

Varðandi það að öðru leyti, að hér sé ekki einokun og bændur geti vel við unað og það sé ósæmileg aðdróttun að bændasamtökunum eða þeirra mönnum að kalla þá verzlunarhætti, sem hér tíðkast á áburði, einokun, þá verð ég bara hreinlega að liggja undir því að drótta því að hverjum þeim, sem neitar því að svo sé og hefur ráð á því að stjórna þessari verzlun.

Ég veit það ofur vel, að menn hafa getað fengið keyptar aðrar tegundir af áburði en Kjarna, en ekki fyrr en búið var að kaupa Kjarnann upp. Áburðarverksmiðjan hefur gert áætlun um það, a.m.k. sum árin, hvað mikið hún gæti framleitt. Ef það hefur verið við skulum segja helmingur af áætlaðri þörf, hafa bændur fengið að panta helming af sínum áburði frá öðrum aðilum, en Áburðarverksmiðjunni, en ekki sem sagt fyrr en Kjarnanum hafði öllum verið komið út. Það er einmitt þetta, sem ég kalla einokun. Og þá hef ég eitthvað brenglaðar hugmyndir um það, hvað mitt móðurmál þýðir, ef þetta er ekki einmitt einokun.

Ráðh. segir, að bændur austur í Hrunamannahreppi brosi að þessum niðurstöðum, sem fengnar eru beint úr opinberum skýrslum. Ja, ef það er svo, að bændur geti haft það sem skemmtiatriði, að töðufengurinn af túnum þeirra minnkar um 10 hestburði af hektara á 15 árum, er minni vandi að matreiða fyrir þá skemmtiefni en annað fólk í landinu. Ég vil aðeins geta þess, að það er heldur óhægt um vik fyrir mig að rökræða þetta í einstökum og smáum atriðum við hæstv. ráðh., þar sem ég hef takmarkaðan ræðutíma, en hann ekki. Þó skal ég aðeins minnast á það af gefnu tilefni, að á þeim fundi austur á Flúðum í Hrunamannahreppi, þar sem ég skýrði þetta mál hreinlega upp úr Tölfræðihandbókinni, sem Hagstofa Íslands hefur gefið út, — á þeim fundi var hæstv. ráðh. staddur, en þar sagði hann ekki neitt. Hann hefur sjálfsagt ekki viljað spilla skemmtun bænda. En hvað um það, ég lít svo á, að það ætti að vera ekki einasta þessum ráðh., heldur allri ríkisstj. stórt umhugsunarefni og ég beini því til hennar allrar. Hún telur sig þurfa að gangast fyrir frjálsari verzlunar háttum en hér ríktu fyrir hennar tíð. Og hún hefur gert það í ýmsum atriðum, ég viðurkenni það. En í þessum atriðum hefur hún gengið hina leiðina. Hún hefur gert einokunina harðari og þungbærari bændum, en í nokkru öðru atriði.

Ég hef gert till. hér ásamt fleiri þm. um það, að verzlun með áburð verði gefin frjáls, eins og önnur verzlun í landinu, og nú vil ég spyrja ríkisstj. alla, ekki bara hæstv. landbrh., heldur líka ríkisstj. alla: Hver eru rökin til þess, að hún hefur komið á harðari einokun með áburð en var fyrir hennar tíð, á sama tíma sem hún hefur talið nauðsynlegt að gera aðra verzlun í landinu frjálsari? Það má vel vera, að hægt hafi verið að segja, að einhverjir þeir aðilar, sem fyrir voru í landinu, hafi getað sagt: Við flytjum inn þessa eða hina vöru, matvöru, hreinlætisvöru eða hvað það nú var, á lægsta hugsanlegu heimsmarkaðsverði. Við ættum að fá að selja hana einir. — Þetta hefur ekki verið gert nema í þessu eina tilviki, það ég veit. Um áburðinn hefur verið hert á öllum einokunarviðjum, og ég spyr: Hver er skýringin á því?