13.11.1968
Sameinað þing: 11. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 626 í D-deild Alþingistíðinda. (3622)

261. mál, Áburðarverksmiðjan

Landbrh. (Ingólfur Jónsson):

Herra forseti. Hv. 4. þm. Austf. talaði um það, að ég hafi misnotað mína aðstöðu og talað of lengi um annað, en kom þessari fsp. við. En það var nú einhver, sem skaut fram í hjá hv. þm. áðan, að ég hefði notað tímann til þess að halda skammaræðu og svara skammaræðu, sem hv. fyrirspyrjandi hafi haldið. Við skulum láta það liggja á milli hluta, hvort það hafi verið skammaræða, sem hv. 6. þm. Sunnl. flutti eða hvort ég hafi flutt skammaræðu. En það held ég, að engum geti blandazt hugur um, að ég þurfti að nota nokkurn tíma og eðlilegt var að ég notaði hann til þess að svara því, sem hv. 6, þm. Sunnl. talaði um áburðarmálin og ekki kom þessari fsp. við, sem hér er til umr. Ég held, að hv. þm. hafi talað nærri 15 mínútur, áður en hann kom að því að ræða fsp. Hv. 4. þm. Austf. hefur ekkert við þetta að athuga. Stundum hefði nú verið sagt, að þetta væri hlutdrægni. En ég skal ekki tímans vegna fara út í það. Það er oft, að menn eru blindir í eigin sök og ég skal ekki fara að dæma hv. 4. þm. Austf., þótt því sé samt þannig farið með hann.

Hv. þm. talaði um, að það væri táknrænt, að hér hefði komið upp í pontuna bóndi úr Eyjafirði, hv. 5. þm. Norðurl. e. og lýst óánægju yfir Kjarnanum. En það var þá einnig táknrænt, að þessi hv. þm. lagði áherzlu á, að Áburðarverksmiðjan væri stækkuð sem fyrst og hún framleiddi fjölbreyttan áburð. En er það í samræmi við það, sem hv. 4. þm. Austf. var að tala um hér? Er það í samræmi við það að segja, að innflutningur á áburði eigi að vera frjáls? Ég held, að við getum hætt þessum orðaleik. Um leið og við viljum stækka Áburðarverksmiðjuna og búa þannig um, að hún geti framleitt nægilegan áburð fyrir landsmenn og fjölbreyttan áburð, verður auðvitað að tryggja, að framleiðsla verksmiðjunnar seljist. Og það verður einnig að tryggja, að framleiðsla Sementsverksmiðjunnar seljist. Hv. 4. þm. Austf. segist hafa varað við þessu, þegar rætt var um EFTA–sáttmálann. En skyldi það þá ekki vera eitt af þeim atriðum, einn af þeim fyrirvörum, sem við þurfum að hafa, þegar við göngum í EFTA, svo að við getum a.m.k. selt framleiðslu þessara verksmiðja í landinu? Ef við getum fengið eins hagstæðan markað erlendis fyrir þessa framleiðslu, þá gæti verið, að ekki kæmi að sök, þó að fluttur væri inn áburður. En það verður vitanlega að vera nr. 1, að við getum selt framleiðslu þessara verksmiðja, annars getum við ekki rekið þær. Við skulum tala í fullri hreinskilni um það. En um leið og við viljum tryggja, að vörurnar seljist, verður að búa þannig um hnútana, að þessar vörur seljist til landsmanna, að það sé fært að selja þær til landsmanna á samkeppnisfæru verði og það hefur Sementsverksmiðjan gert, það hefur Áburðarverksmiðjan gert til þessa og þannig þarf einnig að verða eftirleiðis.