13.11.1968
Sameinað þing: 11. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 627 í D-deild Alþingistíðinda. (3623)

261. mál, Áburðarverksmiðjan

Vilhjálmur Hjálmarsson:

Herra forseti. Það var nokkuð talað um það, þegar ráðgerð var bygging Áburðarverksmiðjunnar, að það mundi stafa sprengihætta af Kjarnanum og það hefur á sannazt nú og áður, þótt það hafi verið með nokkuð öðrum hætti, en menn gerðu þá ráð fyrir.

Það er oft eins og það sé erfitt að tala um áburðarmálin af fullri rósemd. Menn gerðu sér strax grein fyrir sprengihættunni, þó með nokkuð öðrum hætti, en vænzt var. En það er svo að sjá, að menn hafi síður gert sér grein fyrir því í byrjun, að áburðarframleiðslan, Kjarninn, var einhliða áburður, köfnunarefni eingöngu. Og ég er hræddur um, að það hafi skort nokkuð á fullnægjandi leiðbeiningastarfsemi í sambandi við notkun Kjarnans og við notkun tilbúins áburðar yfirleitt, allt frá því að farið var að nota tilbúinn áburð á Íslandi. Hitt er svo óumdeilanlegt, að framleiðsla verksmiðjunnar var gölluð frá byrjun að því leyti, að kornastærðin var allt of lítil. Hún lagaðist lítils háttar frá því, sem hún var í upphafi, en ekki nándar nærri svo að viðunandi væri. Það hafa verið gerðar töluvert miklar og kostnaðarsamar tilraunir til þess að laga kornastærðina, en þær hafa allar mistekizt að mestu og situr við það enn. Og framleiðslan er gölluð að þessu leyti. En ég hygg, að það hafi ekki verið sannað, að efnasamsetningin í Kjarna sé óeðlileg né frábrugðin efnasamsetningu annars nítratáburðar, sem er með stærri kornum.

Það er ákaflega brýn nauðsyn fyrir bændastéttina og landbúnaðinn, að framleiðslunni í Gufunesi verði breytt, að það verði byggð ný verksmiðja, sem geti framleitt áburð af venjulegri kornastærð og af fleiri gerðum, heldur en nú er hægt að framleiða þar. Og ég verð að segja, að í því máli finnst mér illa rekin tryppin af hálfu hv. ríkisstj. undir forustu hv. landbrh., því þetta er ekki nýtt, þetta mál hefur verið í undirbúningi lengi og ég veit ekki betur en það hafi farið fram mjög miklar kannanir til margra ára varðandi nýja verksmiðju, en ekkert orðið af framkvæmdum enn. Og það fást aldrei neinar ákveðnar upplýsingar um það, hvenær þeirra megi vænta, sem er þó aðalatriðið.

Hér hefur verið rætt um verzlun með tilbúinn áburð og það gagnrýnt, að hún skuli vera á einni hendi. Þetta hefur oft verið gagnrýnt á ýmsum fundum bænda. En hins vegar hafa landssamtök bænda hikað við að krefjast þess, að verzlun með innfluttan áburð yrði gefin frjáls. Það var alls ekki út í bláinn, að sett var á fót einkasala á þessari vörutegund á sínum tíma. Það var gert fyrir tilstuðlan stjórnmálamanna, sem voru nátengdir bændastéttinni. Og það er ýmislegt komið til í sambandi við innflutning á tilbúnum áburði, eins og hv. ráðh. vék aðeins að, sem gerir það að verkum, að það er jafnvel ennþá nauðsynlegra en það var þá að hafa áburðarinnflutninginn á einni hendi, á einum stað og fer ég ekki nánar út í það tímans vegna. En ég vil láta það koma fram hér, að landssamtök bænda hafa hikað við að krefjast þess, að verzlun með tilbúinn áburð yrði gefin frjáls að þessu leyti. Hins vegar hafa bæði almennir bændafundir og einnig landssamtök bænda óskað eftir meira valfrelsi um innfluttan áburð. Valfrelsið hefur þá fyrst komið til greina, að því er köfnunarefnisáburðinn varðar, þegar búið er að nota Kjarnann frá Áburðarverksmiðjunni.

Vissulega er stjórnarvöldum töluverður vandi á höndum, því ef reka á Áburðarverksmiðjuna í Gufunesi, þá verður auðvitað að vera hægt að selja hennar framleiðslu. En það hefði vissulega verið í meira samræmi við ýmsar aðrar aðgerðir hv. ríkisstj. varðandi innlendan iðnað að láta menn sjálfráða um það, hvaða áburð þeir keyptu. En það er augljóst, að þarna er stjórnarvöldum töluverður vandi á höndum. Það er hins vegar rétt, að stjórn Áburðarverksmiðjunnar og þá um leið Áburðarsölunnar, eins og hún er núna rekin, hefur haft nokkurt samráð um það við forustumenn bænda gegnum Búnaðarfélagið og Stéttarsambandið, hvað inn er flutt af tilbúnum áburði með fyrrnefndum takmörkunum þó.

Með þessari fsp. hv. fyrirspyrjanda er komið inn á mjög alvarlegt mál, sem hefur verið bændum um langa hríð þungt áhyggjuefni því afraksturinn af túnunum hin síðari ár hefur ekki svarað til aukinnar túnstærðar og aukinnar áburðarnotkunar. En ég verð að segja, að a.m.k. að sumu leyti fannst mér hv. fyrirspyrjandi ganga nokkuð langt, er hann komst svo að orði, að það mætti jafnvel reikna með því, að bændur hefðu haft 400 millj. betri afkomu á s.l. ári ef ekki hefðu þeir goldið Kjarnans. Þarna grípur náttúrlega svo ótalmargt inn í, eins og hann reyndar kom líka inn á sjálfur í sinni ræðu, m.a. beitin haust og vor og kólnandi veðurfar, sem er ákaflega stórgjörandi í þessu efni. — Það hafa verið birtar fróðlegar skýrslur um það frá löngu árabili, hvernig kólnandi veðurfar á ýmsum tímum hefur haft stórkostleg áhrif á afrakstur landbúnaðarins. — Það er erfitt að gera það upp í einstökum atriðum, hvað veldur hverju. En minnkandi afrakstur af túnum er alvörumál. Og það verður kannske ennþá ljósara, hversu alvarlegt þetta mál er, ef litið er á heildarmagn afurða landbúnaðarins annars vegar og notkun kjarnfóðurs og áburðar samanlagt hins vegar. Þá kemur í ljós, að þrátt fyrir aukningu í mjólkurframleiðslu, er ekkert samræmi þar á milli. Og þá er það spurningin, hvað af þessu er af völdum veðurs og hvað af öðrum ástæðum og þá hverjum. Hér er, eins og svo víða í okkar atvinnumálum og þá ekki síður í landbúnaði, en öðrum, að það er geysilega mikið verk óunnið á sviði rannsókna og tilrauna. Og það eru í sjálfu sér aðalatriðin í þessu máli, sem hér hefur komið fram í fyrirspurnarformi, annars vegar það, að rannsóknir verði efldar stórlega og hins vegar, að bráður bugur verði undinn að því að endurbæta áburðarframleiðsluna íslenzku.