13.11.1968
Sameinað þing: 11. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 630 í D-deild Alþingistíðinda. (3626)

262. mál, aðstoð við fátækar þjóðir

Fyrirspyrjandi (Magnús Kjartansson):

Herra forseti. 24. okt. s.l., á degi Sameinuðu þjóðanna, birtist opinber áskorun til Alþ. og ríkisstj. undirrituð af 125 einstaklingum frá öllum flokkum og stéttum að ég hygg. Þetta ávarp var svo hljóðandi, með leyfi hv. forseta:

„Við undirrituð beinum þeirri áskorun til Alþ. og ríkisstj., að á þessum vetri verði með löggjöf hafizt handa um undirbúning að aðstoð Íslands við þróunarlöndin.

Okkur er ljóst, að Ísland á í efnahagserfiðleikum um þessar mundir, en bendum á, að fjölmargar fjölmennar þjóðir í Afríku, Asíu og Suður-Ameríku eiga við ótrúlega neyð að búa. Við teljum, að það sé skylda íslenzku þjóðarinnar, þrátt fyrir núverandi örðugleika, að hefjast handa og aðstoða þessar nauðstöddu þjóðir.“

Nú í nokkur ár hafa hliðstæðar áskoranir verið samþykktar af mjög mörgum félagasamtökum í landinu, ekki sízt samtökum ungra manna af ýmsu tagi, bæði innan stjórnmálaflokka og utan þeirra og á það hefur verið bent í þeim ályktunum, að Ísland tæki ekki þátt í aðstoð, sem hefði vaxið mjög á undanförnum árum, frá ríkjum, sem hafa haft sæmilegan efnahag, efnahag svipaðan okkar. Mörg þessi ríki stefna nú að því að reyna að framkvæma það mark, sem Sameinuðu þjóðirnar samþykktu á sínum tíma, að við það yrði miðað, að slík aðstoð næði 1% af þjóðarframleiðslu. Ég hygg, að býsna margar þessar þjóðir stefni að því að reyna að ná því marki 1975. Skipulegt framtak okkar hefur hins vegar ekkert verið að öðru leyti en því, að fyrir 3 árum beitti ungt fólk sér fyrir söfnun af miklum dugnaði og undirtektir almennings undir þá söfnun urðu mjög góðar. Þá safnaðist miklu hærri upphæð á stuttum tíma, en menn gerðu sé vonir um. Þetta fé hefur verið notað og notkunin skipulögð af þeim samtökum, sem nefnast „Herferð gegn hungri“, en skipulegar aðgerðir af hálfu hins opinbera hafa engar orðið. Sé hins vegar ætlunin, að Íslendingar taki þátt í þessu starfi, þá verður ekki undan því komizt, að hv. ríkisstj. hafi forustu um það mál. Þarna er um að ræða það víðtæka aðstoð, að hún verður ekki skipulögð, án þess að hún sé tengd við aðra þætti í efnahagskerfinu og þess vegna hefi ég leyft mér að spyrjast fyrir um það hvort hv. ríkisstj. hyggist beita sér fyrir því, að slík áætlun um skipulega aðstoð Íslendinga við fátækar þjóðir verði gerð og stefnt að því marki, að aðstoðin verði 1% af þjóðarframleiðslunni árlega eftir einhvern tiltekinn tíma.