13.11.1968
Sameinað þing: 11. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 633 í D-deild Alþingistíðinda. (3629)

262. mál, aðstoð við fátækar þjóðir

Fyrirspyrjandi (Magnús Kjartansson):

Ég þakka hv. forsrh. svörin og hæstv. 12. þm. Reykv. fyrir frekari vitneskju. Það er í sjálfu sér gott, að n. hefur unnið að þessu að undanförnu, en mér finnst, að það hafi gengið óþarflega seint að komast að niðurstöðu um það, hvernig Íslendingar gætu háttað þátttöku sinni í þessari aðstoð. Þessi mál hafa verið rædd mikið á undanförnum árum og ég tel, að það hefði verið unnt fyrir hv. ríkisstj. að hefjast handa um skipulagða starfsemi á þessu sviði miklu fyrr, en gert hefur verið. Ég vil vænta þess, að á þessu fáist bót fljótlega.

Það er vissulega rétt, sem menn benda á, að efnahagsástæður okkar eru erfiðar um þessar mundir og mönnum finnst kannske, að við höfum sitthvað nærtækara að gera en að huga að vandamálum fátækra þjóða. Engu að síður skulum við gera okkur grein fyrir því, að þrátt fyrir þann samdrátt, sem orðið hefur á þjóðartekjum okkar, eru þjóðartekjur hér á mann einhverjar þær hæstu í heimi, og afkoma okkar er himinhátt yfir þeim kjörum, sem fólk á við að búa í fátækum löndum.

Aðstoð, sem nær einhverju verulegu marki, –það er talað um 1% af þjóðarframleiðslu, — verður að sjálfsögðu ekki skipulögð nema á löngum tíma og háttur annarra þjóða hefur verið sá að taka einhvern lítinn hluta af vexti þjóðarteknanna á hverju ári til þessa verkefnis. Þá finna menn í rauninni ekki fyrir þessu. Þá er aukning á þjóðarframleiðslu og þjóðartekjum notuð að einhverju litlu leyti til þessa verkefnis á alllöngu árabili. Þá er ekki verið að skerða neitt, sem menn hafa, heldur aðeins takmarka örlítið þann vöxt, sem fáanlegur er. Þetta er án efa mjög skynsamleg stefna og þessa leið tel ég, að við yrðum að fara, en til þess að gera það, verður að leggja á ráðin um þetta og ég vil vænta þess, eins og ég sagði áðan, að hv. ríkisstj. geti beitt sér fyrir einhverjum raunhæfum aðgerðum í þessu skyni, þegar á þessum vetri.

Hv. forsrh. sagði, að sér væri ókunnugt um, í hve ríkum mæli menn hefðu orðið við beiðni Sameinuðu þjóðanna um að stefna að því, að þessi aðstoð næði 1% af þjóðarframleiðslunni. Hér var dreift fyrir nokkru skýrslu frá Efnahags— og framfarastofnuninni. Þar var að finna allmargar greinar um þátttöku þeirra ríkja, sem eiga aðild að þessari aðstoð. Og hv. forsrh. á eflaust kost á að kanna þær frásagnir, en þar er sagt frá því m.a., að 5 ríki séu þegar komin yfir þetta 1% mark. Ég hygg að vísu, að þau framlög, sem þar er um að ræða, séu að sumu leyti dálítið annars eðlis en það, sem við mundum geta lagt af mörkum. En t.d. segir þarna, að framlög Danmerkur 1967 hafi verið 0.27% af þjóðartekjum, framlög Noregs 0.48% af þjóðartekjum og framlög Svíþjóðar 0.70% af þjóðartekjum og þarna er m.a. greint frá því að ætlun þessara ríkja sé að ná þessu marki, 1% af þjóðarframleiðslu. Ég tel, að okkur sé ekki annað sæmandi, en að taka þátt í þessu samstarfi eða þessum störfum þjóða, sem hafa hliðstæðan efnahag og við og vildi ennþá einu sinni ítreka þá áskorun mína, að hæstv. ríkisstj. hefji einhverjar skipulegar aðgerðir.