19.11.1968
Sameinað þing: 16. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 633 í D-deild Alþingistíðinda. (3632)

42. mál, lýðræði í æðri skólum

Fyrirspyrjandi (Tómas Karlsson):

Herra forseti. Á þskj. 43 hef ég leyft mér að bera fram fsp. til menntmrh. um lagasetningu um aukið lýðræði í æðri skólum. Fsp. er í tveimur liðum, svo hljóðandi:

„Hyggst hæstv. menntmrh. beita sér á þessu þingi fyrir lagasetningu um aukið lýðræði í æðri skólum landsins, m.a. með verulegri hlutdeild nemenda í stjórn skólanna?

Ef svo er, í hvaða skólastofnunum telur hæstv. ráðh. brýnast að gera slíkar breytingar?“

Það má segja, að umræður standi nú yfir í öllum æðri skólum landsins um nauðsyn þess að auka lýðræði í stjórn skólanna og veita nemendum hlutdeild í ákvörðunar valdi um stjórn þeirra, starfsháttu og skipulag. Þetta er ekki sér íslenzkt fyrirbrigði, síður en svo, því að kröfur nemenda í æðri skólum um breytingar á starfi skólanna og hlutdeild stúdenta í þeim breytingum og í stjórn skólanna hafa fallið sem flóðbylgja um alla heimsbyggðina svo að segja. Kröfugöngur, uppþot og óeirðir stúdenta, er þeir hafa lagt áherzlu á kröfur sínar, hafa farið sem eldur í sínu frá einum háskóla til annars, úr einu landi í annað vestan hafs sem austan. Hvergi varð ástandið þó verra í þessum efnum en í Frakklandi, þar sem segja má, að ríkið hafi rambað á barmi borgarastyrjaldar af þessum orsökum. Neistann að því uppreisnarbáli höfðu stúdentar tendrað. Af þessum ástæðum voru í haust gerðar mjög róttækar breytingar í lýðræðisátt á stjórn æðri skóla í Frakklandi.

Allir geta sjálfsagt verið sammála um það, að æskilegast sé, að eðlilegar breytingar til samræmis við þróun þjóðfélagsins fari í þessum efnum sem öðrum fram með friðsamlegum hætti og í sem beztri samvinnu allra aðila, sem hlut eiga að máll. Sú skoðun mun líka eiga sér fáa formælendur, að ekki beri að veita nemendum í æðri skólum hlutdeild í stjórn skólanna og ákvörðunum um starfsháttu þeirra.

Þetta mál hefur lengi verið baráttumál stúdenta við Háskóla Íslands og þar hefur þetta mál nokkuð þokazt fram í rétta átt. Hins vegar telja samtök og félög stúdenta við Háskóla Íslands, að enn sé of skammt gengið til móts við eðlilegar óskir stúdenta í þessum efnum og hafa þau öll, þessi félög og samtök, gert meiri og minni kröfur til þess, að hlutdeild stúdenta í háskólaráði og deildaráðum skólans verði aukin.

En það er í ýmsum fleiri skólastofnunum í landinu, en háskólanum, sem æskilegt væri að koma á hlutdeild nemenda í ákvörðunarvaldi um starf skólanna. Það má nefna menntaskólana, kennaraskólann, vélskólann og stýrimannaskólann, iðnskóla og fleiri skóla. Eins og ég sagði, er hér um mikið áhugaefni nemenda þessara skóla að ræða og umr. um þessi mál og hugsanlega skipan þeirra eru fjörugar á meðal nemenda og kennara.

Af ályktunum síðasta flokksþings Alþfl. má ætla, að hér sé um áhugamál hæstv. menntmrh. að ræða og einnig má ætla, að hann hyggist hafa frumkvæði um aðgerðir í þessu máli, eins og líka segja má, að heppilegast og eðlilegast sé.

Tilgangurinn með því að bera þessa fsp. fram er sá að fá fram upplýsingar um hugmyndir og fyrirætlanir hæstv. ráðh. í þessu máli, þannig að þær gætu orðið grundvöllur frekari umr. um þessi mál í skólum og meðal allra þeirra, sem áhuga hafa á þessum málum, þannig að athugasemdir, hugmyndir og ábendingar þeirra, sem hér eiga hlut að máli, gætu komið fram í tæka tíð, jafnframt því, sem það mundi koma þessum umr. öllum í fastari og skynsamlegri farveg, sem yki vonir um heppilegar niðurstöður þessara umr. og víðtækt samkomulag um málið að lokum.

Ég vænti þess, að hæstv. menntmrh. sjái sér fært að svara þessari fsp. minni svo ýtarlega, að svör hans gætu orðið sá umræðugrundvöllur, sem vænzt er.