19.11.1968
Sameinað þing: 16. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 636 í D-deild Alþingistíðinda. (3633)

42. mál, lýðræði í æðri skólum

Menntmrh. (Gylfi Þ. Gíslason):

Herra forseti. Í gildandi lögum um Háskóla Íslands eru ákvæði um þátttöku stúdenta í stjórn háskólans. Þessi lög eru frá árinu 1957. Ég flutti frv. til þeirra á sínum tíma fyrir hönd þáverandi ríkisstj., ríkisstj. Hermanns Jónassonar og var ekki ágreiningur um nein meginatriði þeirrar lagasetningar. Þáverandi stjórnarandstaða, hv. Sjálfstfl., studdi frv. í öllum meginatriðum, þannig að það var afgreitt í öllu, sem máli skipti, samhljóða frá hinu háa Alþ.

Eitt af þeim ákvæðum, sem ég taldi horfa til mestra nýmæla og vera til mestra bóta í þessu frv., var einmitt ákvæði frv. um þátttöku stúdenta í stjórn háskólans, en hún er samkvæmt gildandi lögum með þeim hætti, að einn stúdent á sæti í háskólaráði með fullum tillögu– og atkvæðisrétti, en ennfremur eiga stúdentar sæti á deildafundum með tillögurétti, en ekki atkvæðisrétti.

Ísland mun hafa verið annað landið í Vestur-Evrópu, sem mér er kunnugt um, sem tók þess konar ákvæði um aðild stúdenta að stjórn háskólanna inn í löggjöf um háskólann. Noregur var á undan og var fyrirmyndin að þessum ákvæðum, sem þarna voru tekin upp í stjórnarfrv. Ég tel, að þessi háttur hafi gefizt sérstaklega vel og það er bjargföst sannfæring mín, að ein af mörgum ástæðum þess, að hér á Íslandi hefur kveðið minna að svonefndum stúdentaóeirðum, hefur kveðið minna að misklíð milli stúdenta annars vegar og háskólayfirvalda hins vegar, en víðast hvar annars staðar, séu einmitt þessi ákvæði, sem nú eru orðin rúmlega 10 ára gömul, um aðild stúdenta að stjórn háskólans.

Það er rétt, sem fram kom hjá hv. fyrirspyrjanda, að mál þetta hefur verið nokkuð á döfinni undanfarið, þ.e. hugmyndir um að auka rétt stúdenta að stjórn háskólans, frá því sem nú er, í ljósi fenginnar reynslu. Einnig hafa verið uppi hugmyndir, að tímabært væri að taka upp svipað fyrirkomulag að því er snertir stjórn hinna æðri ríkisskóla, þ.e. gera tilraun um að koma upp við æðri skóla nemendaráðum, sem séu skólastjórum og kennarafundum til leiðbeiningar við stjórn skólanna. Vísi að slíkum stofnunum hefur raunar nú þegar verið komið á fót í sumum æðri skólum og þá að frumkvæði nemenda og ég veit ekki annað en af hálfu stjórnar skólanna hafi slíkri viðleitni af hálfu nemenda ávallt verið vel tekið. Ég minni t.d. á ráðstefnu menntaskólanemenda, sem haldin var á s.l. ári og gerði mjög skynsamlegar og ábyrgar till. í málefnum menntaskólanna, sem síðan hefur verið að unnið. Stjórnendur skólanna og menntmrn. hafa kynnt sér þær mjög vandlega og hrundið sumum af þeim í framkvæmd. Sú hugmynd hefur einnig komið upp og er hún ásamt öllum þessum málum til athugunar í menntmrn., að útvega nemendum þeirra framhaldsskóla, sem reknir eru sameiginlega af ríki og sveitarfélögum, aðild að skólanefndum skólanna, en til þess mundi þurfa lagabreytingu, eins og reyndar líka er nauðsynleg, ef auka á hlutdeild stúdenta í stjórn háskólans. Hins vegar tel ég, að ekki þyrfti lagabreytingu til að koma á fót nemendaráðum í hinum æðri ríkisskólum, það mætti gera með einföldu ráðherrabréfi til stjórnenda skólanna og samtaka nemendanna, þar sem upp á slíkri tilhögun yrði stungið. Er þetta í undirbúningi, eins og ég mun síðar koma að í svari mínu við þessari fsp.

10. sept. s.l. fékk menntmrn. sendar ályktanir stúdentaþings Stúdentaráðs Háskóla Íslands og Sambands ísl. stúdenta erlendis um menntamál. Ein þeirra ályktana, sem þar voru gerðar, var einmitt um þetta atriði og leyfi ég mér að lesa hana, með leyfi hæstv. forseta:

„Þátttaka stúdenta í stjórn Háskóla Íslands:

Stúdentaþing 1968 ályktar, að þegar beri að auka til muna ábyrga þátttöku stúdenta í stjórn Háskóla Íslands. Telur þingið, að í háskólaráði skuli sitja tveir fulltrúar stúdenta, tilnefndir af Stúdentaráði Háskóla Íslands, og deildafundi skuli einnig sitja tveir fulltrúar stúdenta, tilnefndir af deildafélögum. Hafi þeir fullan atkvæðisrétt og tillögurétt um öll mál. Ennfremur telur þingið, að við hverja deild skuli starfa 4–6 manna ráðgjafarnefnd um kennslumál, sem skipuð sé jafnmörgum fulltrúum stúdenta og kennara. Deildaráð tilnefndi kennara, en deildafélög stúdenta. Nefndin taki til meðferðar öll mál, er varða námsfyrirkomulag eða kennsluhætti og verði deildarráðinu til ráðuneytis.“

Þessi ályktun mun hafa verið birt opinberlega í blöðum.

23. sept. fékk menntmrn. bréf frá Stúdentaráði Háskóla Íslands eða nánar tiltekið menntamálanefnd Stúdentaráðs Háskóla Íslands, dags. 20. sept. Fjallar þetta bréf um þetta mál og skýrir það bezt, á hvaða vegi athugun málsins er stödd, að ég lesi bréfið og hef ég til þess samþykki stúdentaráðsins, þó að það hafi ekki verið birt opinberlega. Bréfið hljóðar svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Þátttaka stúdenta í stjórn Háskóla Íslands hefur til þessa verið næsta lítil. Hafa prófessorar og aðrir kennarar verið einráðir um skipan allra mála háskólans, enda eru um það skýlaus ákvæði í reglugerð Háskóla Íslands. Er nú svo komið, að stúdentar una ekki lengur við núverandi skipulag og mun Stúdentaráð Háskóla Íslands leggja fram tillögur um róttækar breytingar á næstunni. Hér fara á eftir upplýsingar um núverandi stjórnskipan háskólans og svo nokkur orð um stefnu, sem mörkuð var á stúdentaþingi 1968 og Stúdentaráð Háskóla Íslands mun fylgja.

Núverandi skipulag: Samkvæmt reglugerð um Háskóla Íslands á einn fulltrúi stúdenta að sitja deildafundi, séu mál, er varða stúdenta deildarinnar almennt, á dagskrá. Hefur fulltrúi stúdenta þar málfrelsi, en ekki atkvæðisrétt. Þessu ákvæði hefur ekki verið framfylgt jafnstranglega í öllum deildum og má segja, að aðeins í læknadeild hafi fulltrúi stúdenta verið jafnaðarlega boðaður á deildarfundi.

Það er álit stúdenta, að velflest mál, er rædd kunna að verða á deildafundum, hljóti að koma stúdentum við, og er það því réttlætiskrafa, að þessu ákvæði verði stranglega framfylgt í framtíðinni.

Stúdentar við Háskóla Íslands eiga einn fulltrúa í háskólaráði. Hefur hann fullan atkvæðisrétt og tillögurétt.

Nefndir: Við lækna– og lagadeild eru n., sem vinna að undirbúningi reglugerðarbreytinga. Í læknadeild er n. skipuð fjórum kennurum og einum stúdent, en það samkomulag hefur orðið meðal nm., að ekkert mál verður samþykkt í n. gegn vilja stúdenta. Hefur samstarfið í nefndinni verið með ágætum.

Í lagadeild er n. skipuð tveimur kennurum og tveimur stúdentum, en lítið liggur enn eftir n. þessa.

Í nokkrum deildafélögum eru starfandi kennslumálanefndir. Vinna þær að endurskoðun ríkjandi kennslufyrirkomulags.

Úrbætur: Nýlega var lögð fram í háskólaráði till. um stofnun menntamálanefndar við hverja háskóladeild og skulu þær vera deildaráðum til ráðuneytis um mál, er varða kennara og nemendur hverrar deildar. Eins skulu þær fylgjast með þróun í kennslumálum. Í till. er gert ráð fyrir tveimur kennurum og einum fulltrúa stúdenta. Það er álit Stúdentaráðs Háskóla Íslands, að n. komi ekki að fullum notum fyrir stúdenta, nema þeir eigi tvo fulltrúa þar, einn frá deildafélagi og annan frá Stúdentaráði Háskóla Íslands. Hefur því stúdentaráðið lagt til, að skipan n. verði breytt í samræmi við þetta sjónarmið.

Stefna Stúdentaráðs Háskóla Íslands: Eins og fram kom í ályktunum stúdentaþings 1968“ — þeim ályktunum, sem ég las áðan einn hluta af, — „telja stúdentar, að þegar beri að auka ábyrga þátttöku stúdenta í stjórn Háskóla Íslands. Það er álit Stúdentaráðs Háskóla Íslands, að í deildaráðum skuli sitja tveir fulltrúar stúdenta með fullum tillögu– og atkvæðisrétti. Eins skulu sitja í háskólaráði tveir fulltrúar stúdenta með fullum tillögu— og atkvæðisrétti.

Það hefur komið greinilega í ljós undanfarin misseri, að stúdentar hvaðanæva úr heiminum vilja ekki lengur búa við „prófessoraeinveldi“ það, er nú ríkir í flestum háskólum heims, heldur kefjast þeir aukins lýðræðis í stjórnarmálum háskólanna. Jafnvel krefjast stúdentar að fá að ráða málefnum háskólans til jafns við kennara. Þykir því rétt að benda á, að ofangreindar till. Stúdentaráðs Háskóla Íslands eru ekkert lokamark, heldur aðeins fyrsti áfangi í leið að fullkomnara lýðræði innan veggja Háskóla Íslands.

F.h. menntamálanefndar Stúdentaráðs Háskóla Íslands,

Högni Öskarsson.

Til menntamálaráðuneytisins.“

Eins og fram kemur í upphafi þessa bréfs, var það boðað 20. sept., að stúdentaráðið mundi leggja fram till. um róttækar breytingar á næstunni. Ég hef haft samband við stúdentaráðið um þetta mál og get skýrt hv. Ed. frá því, að annað kvöld mun verða haldinn fundur í stúdentaráði til að ganga endanlega frá till. stúdenta í þessu máli. Mér hefur verið tjáð, að stúdentaráðið muni fyrst senda till. sínar til háskólaráðs, sem að sjálfsögðu mun um þær fjalla og síðan munu till. stúdentaráðsins ásamt umsögn háskólaráðs berast til menntmrn., nákvæmlega hvenær get ég að sjálfsögðu ekki sagt. En allt frá því að þessi skjöl bárust menntmrn. síðast í sept., þ.e. ályktanir stúdentaþingsins og þetta bréf Stúdentaráðs Háskóla Íslands, hefur málið verið til gaumgæfilegrar athugunar þar. Það hefur verið rætt við ýmsa aðila. Ég vil ekki skýra frá endanlegri afstöðu minni til málsins, eins og ég vona, að hv. fyrirspyrjandi og allir hv. dm. skilji, fyrr en ég sé endanlegar till. stúdenta og umsögn háskólaráðs um málið. En það get ég sagt nú þegar, að ég er þeirrar skoðunar, að það væri til gagns, til eindregins gagns að auka áhrif stúdenta, bæði á almenna stjórn háskólans, þ.e. á störf háskólaráðs og þá ekki síður á störf einstakra deilda.

Það liggur í hlutarins eðli, að ekki kemur til mála, að stúdentar hafi áhrif á bókstaflega öll mál, sem um er fjallað innan háskólans eða háskólayfirvöld þurfa að taka ákvarðanir um, enda munu stúdentar sjálfir ekki ætlast til þess. Þeir munu að sjálfsögðu ekki geta vænzt þess að fá að fjalla nákvæmlega um próf eða val á kennurum, vegna þess að stúdenta skortir eðlilega aðstæður til að dæma þar um með fullri hlutlægni. En hins vegar tel ég, að í miklu ríkari mæli eigi hér eftir en hingað til að hlusta á skoðanir stúdenta um kennslutilhögun, jafnvel próftilhögun og kennsluefni. Slíkt getur aðeins orðið til góðs og á þeim grundvelli mun ég byggja afstöðu mína til þeirra till. sem koma fram, en að sjálfsögðu ekki taka afstöðu til málsins, fyrr en ég hef heyrt umsagnir háskólaráðsins og einstakra deilda, sem kunna að vilja láta til sín heyra um málið.

Ég hef einnig viljað láta ákvörðun um stofnun nemendaráða við hina æðri ríkisskóla bíða, þangað til fengizt hefur tækifæri til að athuga þessa tillögu stúdentanna um aukna hlutdeild í stjórn háskólans, því að ýmis framkvæmdaatriði varðandi nemendaráð hinna æðri ríkisskóla kunna að vera komin undir því, sem umr. um þetta efni leiða í ljós.

Sama er að segja um það þriðja, sem ég nefndi, þ.e. hugmyndina um að fá nemendum áhrif í skólanefndum þeirra skóla, sem reknir eru sameiginlega af ríki og sveitarfélögum. Ég tel líka rétt að láta það bíða þar til gefizt hefur tækifæri til ýtarlegra viðræðna við stjórn æðstu menntastofnunar okkar, Háskóla Íslands og við fulltrúa stúdenta við þá stofnun.

Að lokum þetta: Endanlegar till. frá stúdentaráði og umsögn háskólans munu vera alveg á næstu grösum og þegar í stað eða a.m.k. mjög fljótlega eftir að mér berast þau plögg, mun ég efna til fundar með háskólaráði og stúdentaráði til þess að ræða þessi mál. Ósk mín er sú, að samstaða geti náðst milli stúdentanna, háskólaráðs og menntmrn. almennt um aukna hlutdeild stúdenta í almennri stjórn háskólans og þá ekki síður í starfrækslu einstakra deilda.