20.11.1968
Sameinað þing: 13. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 642 í D-deild Alþingistíðinda. (3639)

54. mál, sjónvarpsmál

Menntmrh. (Gylfi Þ. Gíslason):

Herra forseti. Ég ætla fyrst að svara þeim fsp., sem hv. þm. bar fram beinlínis, en síðan bæta við nokkrum orðum um dreifingu sjónvarpsins um landið almennt skoðað.

Hv. þm. spyr, hvað liði dreifingu sjónvarps um Vestfirði og Norðurland vestra. Ég ætla fyrst að svara spurningunni varðandi Vestfirði.

Verið er að ljúka við að koma upp 4 endurvarpsstöðvum á Vestfjörðum, þ.e.a.s. á Bæjum á Snæfjallaströnd, á Arnarnesi við Skutulsfjörð, við Bolungarvík og á Patreksfirði. Allar þessar stöðvar munu verða teknar í notkun um eða upp úr næstu áramótum. Þá mun verða tekin í notkun um sama leyti stöð í Stykkishólmi, sem er aðalstöð fyrir dreifingu sjónvarpsmynda til allra Vestfjarða að Strandasýslu undanskilinni, en hún fær sjónvarp frá stöð á Blönduósi, með endurvarpsstöð á Hólmavík og e.t.v. víðar. Blönduósstöðin er á framkvæmdaáætlun fyrir árið 1969, fyrir næsta ár. Á árinu 1970 er ráðgert að koma upp endurvarpsstöð í Önundarfirði og í Dýrafirði, en á árunum 1971 og 1972 er ráðgert að koma upp tveimur stöðvum í Arnarfirði og einnig stöð á Sveinseyri í Tálknafirði og í Súðavík.

Þá vík ég að Norðurlandi vestra. Það mun fá sjónvarp að mestum hluta á árinu 1968 og 1969. Í Skagafirði verða tvær stöðvar teknar í notkun um eða upp úr næstu áramótum. Önnur á Eggjum, en hin í Hegranesi. Á árinu 1969 er ráðgert, að Siglufjörður og Ólafsfjörður fái sjónvarp. Ennfremur svæðið, sem nýtur stöðvar á Hnúki við Blönduós og stöðvar á Hrútafjarðarhálsi. Þess má geta, sem ég hef raunar áður skýrt frá á hinu háa Alþ. og annars staðar, að Akureyri mun fá sjónvarp í desembermánuði 1968 eða n.k. desembermánuði, svo og Dalvík og byggðir Eyjafjarðar. Verið er að ljúka við stöð á Skipalóni í Hörgárdal, á Hóli við Dalvík og á Hálsi hjá Saurbæ fyrir Eyjafjarðardali. Einnig er þessa dagana verið að ljúka við uppsetningu bráðabirgðastöðvar á Vaðlaheiði og er sú stöð aðallega fyrir Akureyrarbæ, sem kunnugt er. Auk þess verða byggðar á þessu svæði nokkrar smærri stöðvar, sem ekki hefur enn verið endanlega valinn staður.

Að því er varðar síðari lið fsp., þ.e.a.s. hvenær sé talið mögulegt bæði tæknilega og fjárhagslega, að sjónvarpið nái til allra íbúa á umræddu svæði, er það að segja, að frá tæknisjónarmiði er þessari spurningu mjög vandsvarað. En þó get ég sagt í tilefni af ummælum hv. fyrirspyrjanda í ræðu hans áðan, að hér er fyrst og fremst, að ég ekki segi einvörðungu, um tæknivandamál að ræða, en ekki fjárhagsvandamál, nema að svo miklu leyti sem segja má, að öll tæknivandamál hafi fjárhagslega hlið, en séu ekki í innsta eli sínu fjárhagsvandamál. Með þessu á ég við það, að auðvitað eru því viss kostnaðartakmörk sett, hversu fjarri frá aðalstöðvum er hægt að setja hinar smæstu endurvarpsstöðvar, þ.e.a.s. það er auðvitað fræðilega séð, ef menn hafa eingöngu tæknisjónarmið í huga, hægt að koma sjónvarpsmynd inn á hvert einasta heimili í landinu. En af því hlytist svo mikill kostnaður, að ég geri ráð fyrir, að allir væru sammála um, að í slíku væri ekki nein skynsemi. Það, sem hér þarf að gera, er verið að gera og hefur verið gert á því landssvæði, sem þegar nýtur sjónvarpsins og mun verða gert áfram í öðrum landshlutum, er að finna skynsamlegan meðalveg milli þess, sem er tæknilega og fjárhagslega framkvæmanlegt. Það hefur tekizt á Suðvesturlandi á því svæði, sem sjónvarpið tekur nú til, og ég sé enga ástæðu til að ætla annað, en það muni einnig takast í öðrum landshlutum, þó að því sé ekki að leyna, að staðhættir séu dálitið misjafnir, hvað þetta snertir. En að lokum mun það alltaf verða nokkurt matsatriði, hversu langt inn í dall eða út á annes rétt sé að teygja sjónvarpsmyndina. Og er þetta að sjálfsögðu ekki íslenzkt vandamál heldur alþjóðlegt, þar sem um sjónvarpsdreifingu er að ræða.

Þá skal ég gera grein fyrir því, hvað líður framkvæmdum samkvæmt áætlun um dreifingu sjónvarps til annarra landshluta. Áætlað er, að á næsta ári, '69, verði byggð stór stöð á Vaðlaheiði, sem liður í dreifingu sjónvarps til Norðausturlands og Austurlands aðallega, svo og til Siglufjarðar og Ólafsfjarðar, eins og ég mun hafa nefnt áðan. Þá er ætlunin, að á árinu 1969, á næsta ári, komi stöðvar á Húsavík og á Fljótsheiði. Síðan er gert ráð fyrir stórri stöð á Gagnheiði á næsta ári og stöðvum fyrir Neskaupstað og Seyðisfjörð. Stöðin á Gagnheiði þjónar beint meginhluta Fljótsdalshéraðs, en dreifir auk þess sjónvarpsmyndunum til endurvarpsstöðva, sem ráðgert er að koma upp í flestum Austfjarðanna á árunum 1970–1972.

Nú er unnið að bráðabirgðastöð á Höfn í Hornafirði og bráðabirgðastöðin á Háfelli hjá Vík í Mýrdal hefur nýlega verið stækkuð til þess að bæta móttökuskilyrði um bráðabirgðastöðina í Hornafirði. Hornafjarðarstöðin verður væntanlega tekin í notkun fyrir lok þessa árs. Þess má og geta, að síðar verður byggð stærri stöð á Háfelli, og eru áætlanir um byggingu þeirrar stöðvar miðaðar við árið 1970.

Ég hef oft áður tekið það fram á hinu háa Alþ., að ég tel stefnuna í sjónvarpsmálum eiga að vera þá að gera öllum landsmönnum kleift að njóta sjónvarps svo fljótt sem framast er unnt og er unnið að þessum málum samkvæmt áætlun, sem ég hef áður skýrt hinu háa Alþ. frá í einstökum atriðum. Hingað til hefur þessi áætlun staðizt fullkomlega. Á ýmsum stöðum hefur framkvæmd hennar gengið hraðar, en upphaflega var gert ráð fyrir. Hvergi hefur henni miðað hægar áfram, svo orð sé á gerandi, en gert var ráð fyrir.

Það, sem gert hefur kleift að hafa framkvæmdahraða þann, sem hann hefur orðið, er, að tolltekjur af sjónvarpstækj um á árinu 1968 hafa farið nokkuð fram úr áætlun. Þess má og geta í þessu sambandi sem sérstaks máls eða sérstaks viðfangsefnis, að Hvammstangi og Blönduós hafa sótt um að fá að setja upp á eigin kostnað endurvarpsstöðvar. Þessi leyfi hafa verið veitt með sérstökum skilyrðum, þ.e.a.s. að tæki séu valin og staðsett í samráði við landssímann, ríkisútvarpinu að kostnaðarlausu, en svo kaupi ríkisútvarpið að sjálfsögðu þessi tæki, þegar röðin kemur að þessum stöðum í áður birtri og hinni opinberu framkvæmdaáætlun um sjónvarpsdreifinguna.

Þá er rétt að taka fram að, að loknum framkvæmdum um dreifingu sjónvarps á þessu ári, þ.e.a.s. á árinu 1968, munu um það bil 25 þús. nýir sjónvarpsnotendur bætast í hóp þeirra, sem þegar njóta sjónvarpsins. Þetta eru þær nýjustu upplýsingar, sem ég get gefið hinu háa Alþ. um framkvæmd áætlunarinnar um dreifingu sjónvarps um landið og núverandi framkvæmdastig í þessum efnum.

Ég hef á undanförnum árum hvað eftir annað gert hinu háa Alþ. grein fyrir framvindu þessa máls, eins og ég tel raunar sjálfsagt, svo mikið hagsmunamál og menningarmál sem hér er um að ræða fyrir landið allt.

Mig langar að síðustu að vekja athygli á því, hvaða meginstefna var mótuð í málefnum sjónvarpsins, þegar ákvörðun var um það tekin að taka upp sjónvarp á Íslandi. Það má segja, að meginstefnuatriðin hafi verið þrjú, sem ákvörðun var tekin um:

1) Að aðflutningsgjöld af innfluttum sjónvarpstækjum skuli greiða stofnkostnað við sjónvarpið og kostnað við dreifingu þess um landið.

2) Að afnotagjöld skuli standa undir rekstrarkostnaði sjónvarpsins.

3) Að dreifing sjónvarpsins um landið skuli ganga fyrir lengingu dagskrárinnar.

Hér var um að ræða mjög veigamikil stefnuatriði í byrjun, og ég skýrði þegar frá þessum grundvallarstefnuatriðum á hinu háa Alþ. um leið og ákvarðanir voru teknar og mér til mikillar ánægju kom þá í ljós, að um þessi meginstefnuatriði var ekki ágreiningur á hinu háa Alþ., enda hefur framkvæmd málsins engri gagnrýni sætt á Alþ. svo að ég hafi orðið var. En það er rétt að vekja sérstaka athygli á þessum grundvallarstaðreyndum, vegna þess að það er algengt að sjá þess getið af mönnum, sem ekki hafa fylgzt nógu vel með eða eru hnútum ekki nógu kunnugir, að mönnum vex mjög í augum heildarstofnkostnaður sjónvarpsins og enn fremur hinn mikli rekstrarkostnaður þess. Og oft og einatt er þannig talað, að hér sé um að ræða gífurlega byrði á almenningi í landinu, á skattgreiðendum í landinu eða þá á ríkissjóði, en hvort tveggja er misskilningur. Ríkissjóður hefur ekkert fé lagt sjónvarpinu að því fráskildu, sem ber sannarlega að meta, að ríkissjóður hefur gefið eftir tolltekjur af innfluttum sjónvarpstækjum. En að öðru leyti fær sjónvarpið engin bein framlög frá ríkissjóði, — það fær óbein framlög í þessu formi, en einnig má með sanni segja, að stofnkostnaðurinn sé með þessu móti greiddur af notendum sjónvarpsins sjálfum og það verður ekki meiru eytt í stofnkostnað sjónvarpsins, en notendur greiða í aðflutningsgjöld af innfluttum sjónvarpstækjum. Ríkið greiðir heldur engin framlög til dagskrár sjónvarpsins frekar en útvarpsins. Afnotagjöldin eru við það miðuð, að hægt sé að halda uppi þeirri dagskrá, sem nú er og verið hefur í stórum dráttum óbreytt í rúmt eitt ár. Þau afnotagjöld, sem nú eru í gildi og verða í gildi á næsta ári, munu duga til þess að standa undir dagskránni í aðalatriðum óbreyttri, bæði hvað lengd og efnisval snertir. Og þannig höfum við talið, að þetta ætti að vera meðan væri verið að koma sjónvarpinu í aðalatriðum um land allt. Þegar þeirri framkvæmdaáætlun er lokið, þegar sjónvarpið er komið til allra landshluta, þá verður tímabært að taka nýja grundvallarákvörðun í málefnum sjónvarpsins, þ.e.a.s., hvort ríkissjóður á aftur að fá þann tekjustofn, sem hann gaf þessari menningarstarfsemi eftir, þegar tekin var ákvörðun um að stofna sjónvarpið eða hvort sjónvarpið á að fá að halda þessum tekjustofni og nota hann þá til þess að lengja dagskrána eða bæta hana eða gera hvort tveggja. En ákvörðun um þetta verður ekki tímabær, fyrr en á árinu 1972, þegar framkvæmdum við dreifingu sjónvarps í alla landshluta hefur verið lokið.

En eins og ég sagði áðan, vildi ég leggja sérstaka áherzlu á, að sú áætlun, sem gerð var um þetta efni, hefur staðizt í einu og öllu, bæði tæknilega og fjárhagslega séð. Það er auðvitað mikilvægt og vona ég að það eigi sinn þátt í því, að ekki hefur orðið vart neins grundvallarágreinings um þá meginstefnu, sem ríkisstj. mótaði upphaflega í þessu máli og gerði Alþ. þegar í stað grein fyrir, án þess að andmælum sætti. Þess vegna hefur hún haldið áfram framkvæmdum í samræmi við upphaflega gerða áætlun og mun gera áfram.