20.11.1968
Sameinað þing: 13. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 648 í D-deild Alþingistíðinda. (3645)

264. mál, bifreiðar í eigu ríkisins

Fyrirspyrjandi (Jón Árm. Héðinsson):

Herra forseti. Ég hef leyft mér að bera fram svo hljóðandi fsp. til hæstv. fjmrh. á þskj. 64:

„Hafa ákveðnar reglur verið settar um notkun á bifreiðum í eigu ríkisins, sem ákveðnir embættismenn hafa til einkaafnota? Ef svo er, hvernig hljóða þá þessar reglur?“

Þetta er gert í beinu framhaldi af ræðu, er hæstv. fjmrh. flutti 5. apríl hér í Sþ. sem svar við fsp. varðandi bifreiðaeign og bifreiðanotkun ríkisins. Í svari sínu þá, sem var mjög ýtarlegt, greindi ráðh. frá ýmsu varðandi bifreiðaeign ríkisins, og þar kom m.a. fram, að ríkið á 534 bifreiðar og þar af eru 190 fólksbifreiðar. Hann áætlaði þá verðmæti þessara bifreiða allt að 150 millj. Hann sagði einnig orðrétt, með leyfi forseta:

„Í fjórða lagi er spurt: „Hverjar reglur gilda um not og umráð bifreiða opinberra embætta og stofnana utan venjulegs vinnutíma?“ Um þetta atriði hafa ekki verið settar enn þá fastar reglur, en það eru m.a. þær reglur, sem nú er unnið að og ætlunin er, að verði settar alveg á næstunni á grundvelli þeirra athugana, sem ég gat um áðan, en að svo miklu leyti sem um þetta hafa verið reglur hafa þær verið nokkuð misjafnar frá einni stofnun til annarrar.“

Ég mun ekki hafa þennan inngang lengri og vænti þess, að svar fáist við fsp.