27.11.1968
Sameinað þing: 15. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 664 í D-deild Alþingistíðinda. (3666)

265. mál, akstursmælar í dísilbifreiðum

Fyrirspyrjandi (Jón Árm. Héðinsson):

Herra forseti. Ég vil þakka hæstv. ráðh. fyrir þetta svar. Og þó að hægt miði, virðist miða áfram í rétta átt, eins og lögin ætlast til. Ég vil sérstaklega undirstrika, að útilokað er annað en taka upp mælana, burt séð frá því, hvað aðrar þjóðir hafa gert í þessu efni, vegna þess hvað notkun á dísilbifreiðum hér á Íslandi er misjöfn. Þetta var ekki hugsað sem nefskattur og ég nefndi Vestmannaeyjar sem mjög einkennandi dæmi. Við getum auðvitað tekið bifreiðar á Neskaupstað, við sjávarútveginn þar, bifreiðar á Siglufirði, Patreksfirði, Ísafirði og víðar. Jafnvel þó að þessir staðir séu komnir í gott vegasamband núna, er mikið af bifreiðum, sem eru staðbundnar og fara ekki út fyrir sitt svæði. Er mjög óeðlilegt, þó að þær hafi 6 tonna þunga, að þær séu að borga miklu hærra hlutfall miðað við bifreið, sem er staðsett hér á þéttbýliskjarnanum eða t.d. á Akureyri og er í föstum akstri á milli með fullan þunga af vörum. Það sér hver einasti maður, að fyrst þungaskatturinn er hugsaður sem vegaskattur, — hann á að nema á yfirstandandi ári allt að 75 milljónum, — fyrst hann er hugsaður sem eins konar gjald vegna mikils álags á vegina, er eðlilegt, að þetta sé nokkuð flokkað eftir notkun.

Auðvitað er ekkert svo einfalt, að það liggi í lófa að framkvæma það, en til þess höfum við alla þessa sérfræðinga á ýmsum sviðum og þykir hv. Alþingi stundum ganga of langt í því efni, að þeir finni lausn á vissum hnútum.

Það er mjög ánægjulegt að heyra, að ein tegund mæla hafi verið hér í notkun, þó að ekki hafi verið nema 10 stykki, en þeir virðast duga sæmilega.

Ég held, að við verðum að taka undir það, að ef hugsanlegt er, verði þetta sett í dísilbifreiðar á miðju næsta ári. Ég vil líka undirstrika, að það borgar sig ekki að rasa um ráð fram í þessu efni fremur en öðru og þegar mælakerfið verður sett í bílana, þurfa þeir að vera öruggir. En engu að síður er hér um svo mikið réttlætismál að ræða, að það er ekki hægt annað en að leggja á það mikla áherzlu, að það verði athugað gaumgæfilega og því verði hrundið í framkvæmd, ef þess er nokkur kostur.