27.11.1968
Sameinað þing: 15. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 665 í D-deild Alþingistíðinda. (3667)

265. mál, akstursmælar í dísilbifreiðum

Guðlaugur Gíslason:

Herra forseti. Það hefur komið fram hér, bæði hjá hv. fyrirspyrjanda og hæstv. ráðh., að mjög sé eðlilegt, að heimild sú í vegalögum um, að settir verði mælar í dísilbifreiðar, sem vöruflutninga annast, verði notuð.

Ég hygg, að sú reynsla, sem þegar er komin á þetta mál á þeim stutta tíma, sem lögin hafa verið í gildi, bendi mjög til þess, að þarna sé um mjög mikið sanngirnismál að ræða. Og ég vil lýsa ánægju minni yfir þeim undirtektum, sem þetta hefur fengið hjá hæstv. samgrh., og þeim aðgerðum, sem hann hefur þegar látið framkvæma í sambandi við það.

Það hefur verið bent á þá sérstöðu, sem væri t.d. hjá bifreiðum í Vestmannaeyjum, og er það allglöggt dæmi, því að ef ég man rétt, kom það fram, þegar breytingin var gerð á lögunum á síðasta þingi, að gengið var út frá, að dísilbifreiðar mundu aka 30–35 þús. km á ári. Nú hef ég kynnt mér, að úti í Eyjum munu bifreiðar fæstar fara yfir 10 þús. km akstur á ári. Það gerir að sjálfsögðu, að þar er um mjög stuttar vegalengdir að ræða og akstur þeirra verður þar af leiðandi styttri samanlagt yfir árið. Þetta sýnir auðvitað, að það er mjög eðlilegt og mikil rök eru fyrir því, að mælar verði teknir upp og bifreiðar greiði gjald í vegasjóð eftir því, sem þær nota vegina, eftir akstri þeirra. Kemur þá að sjálfsögðu einnig til greina sú sérstaða, sem er á þessum stað, sem ég tilgreindi, að það er má segja undantekningalaust, að bifreiðar fari ekki inn á þjóðvegakerfi landsins.