24.10.1968
Sameinað þing: 5. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 385 í B-deild Alþingistíðinda. (367)

1. mál, fjárlög 1969

Fjmrh. (Magnús Jónsson):

Herra forseti. Áður en ég geri grein fyrir fjárlagafrv. fyrir árið 1969, mun ég í stórum dráttum skýra afkomu ríkissjóðs a árinu 1967 og horfur í fjármálum ríkisins á yfirstandandi ári. Vegna breytinga á uppgjöri ríkisreiknings fyrir árið 1967, sem ég mun siðar gera nánari grein fyrir, var lokun reikningsins það síðbúin, að ég hafði ekki aðstöðu til að gera Alþ. grein fyrir afkomu ríkissjóðs það ár, áður en þingi lauk s.l. vor. Hlýt ég því að fara nokkuð fleiri orðum um reikninginn heldur en ella hefði verið, en mun þó takmarka mig við meginatriði og vísa um einstaka liði til ríkisreikningsins, sem lagður hefur verið á borð hv. þm.

Um síðustu áramót gengu að fullu í gildi lög frá 1966 um ríkisbókhald, gerð ríkisreiknings og fjárlaga. Í samræmi við þau lög voru fjárl. fyrir árið 1968 gerbreytt frá fyrri efnisskipan fjárlaga. Ríkisreikningurinn fyrir árið 1967 er í sama formi og hann hefur verið um langt árabil, en það er í síðasta sinn, sem ríkisreikningur verður gerður upp á þennan hátt, því að ríkisreikningurinn fyrir árið 1968 verður mjög breyttur til samræmis við ákvæði hinna nýju laga. Þótt reikningur ársins 1967 sé þannig hið ytra eins og hann hefur verið, ber að minnast þess, þegar hann er skoðaður, að ýmsar þær meginreglur, sem leiddar voru í lög með áðurnefndri lagasetningu um ríkisbókhald, eru notaðar við uppgjör reikningsins fyrir árið 1967. Er afleiðingin sú, að niðurstöður reikningsins eru að ýmsu leyti aðrar. En það er um bókhaldslegar aðgerðir að ræða, sem óumflýjanlegt var að gera í eitt skipti, til þess að reikningurinn fyrir árið 1968 geti í einu og öllu verið gerður samkv. nýju lögunum. Til þess að geta skoðað ríkisreikninginn fyrir árið 1967 í réttu ljósi og fengið eðlilegan samanburð við eldri ríkisreikninga verða menn að vita helztu atriði hinnar breyttu reikningsfærslu, en þau eru þessi:

1. Tekju- og eignarskattar eru færðir til tekna eins og þeir eru á lagðir á árinu í stað þess að vera færðir jafnótt og þeir voru innheimtir, svo sem var. Óinnheimtir skattar á áramótum eru þannig taldir með útistandandi skuldum og innheimtar eftirstöðvar þessara gjalda frá fyrri árum eru ekki færðar sem rekstrartekjur. Gjöld af innlendum tollvörum og söluskattur eru færð með sama hætti.

2. Sú aðferð, sem nokkuð hefur verið tíðkuð um árabil, að greiða fyrir fram af fjárveitingum næsta árs hefur verið lögð niður, þar eð hún samræmist ekki hinum nýju lögum um ríkisbókhald, og þær fjárhæðir, sem þannig voru greiddar 1967 og áttu að greiðast fyrir fram vegna ársins 1968, hafa allar verið færðar til gjalda ársins 1967. Veldur þessi aðferð umframgreiðslu á ýmsum liðum, þótt ekki sé raunverulega um neinn útgjaldaauka að ræða, því að áætlaðar fjárveitingar í fjárl. 1968 verða lækkaðar sem þessu nemur.

3. Í ýmsum tilfellum er reikningurinn fyllri en áður var, þannig að tölur færast brúttó í reikninginn, þar sem í eldri reikningum var aðeins færður mismunur fjárhæða. Getur þetta haft nokkur áhrif milli ára, t.d. sambandi við vaxtatekjur og vaxtagjöld, sem ekki færast alltaf innan sama reikningsárs.

Tekjur á rekstrarreikningi urðu árið 1967 samtals 5153.3 millj. eða 430 millj. kr. hærri en fjárlög gerðu ráð fyrir. Rúmlega 50 millj. kr. þessarar fjárhæðar stafa af ósambærilegri aðferð við færslu vaxtatekna í fjárl. og reikningi. Tekjur af sköttum og tollum eru samkv. reikningnum 295 millj. kr. hærri en fjárlög gerðu ráð fyrir, og tekjur af rekstri ríkisstofnana urðu 85 millj. kr. umfram áætlun. Af sköttum og tollum var tekju- og eignarskattur 84 millj. kr. umfram fjárlög, sem ástæða er til að halda, að stafi að nokkru leyti af betri framtölum, en að öðru leyti af raunverulega hærri tekjum manna en hafði verið reiknað með í fjárlagaáætlun. Aðflutningsgjöld urðu rúmum 168 millj. kr. hærri en fjárlagaáætlun, að mestu leyti vegna meiri innflutnings á árinu en gert hafði verið ráð fyrir, en að nokkru leyti vegna gengisbreytingarinnar. Álagt tollvörugjald varð rúmlega 8 millj. kr. umfram áætlun og gjald af bifreiðum og bifhjólum rúmlega 15 millj. kr. hærra en fjárlagaáætlun. Að öðru leyti voru tekjuliðir mjög í samræmi við áætlun fjárl. Munaði þannig aðeins 10 millj. kr. á áætlun og rauntölu söluskatts, sem varð samtals 1232 millj. Við mat á þessum tölum samán borið við fyrri ríkisreikninga ber að hafa í huga, að álagður tekju- og eignarskattur og gjald af innlendum tollvörum er hér allt fært til tekna án hliðsjónar af því, að hve miklu leyti þessar tekjur hafa innheimzt á árinu, en eftirstöðvar þessara gjalda frá fyrri árum eru hins vegar ekki látnar hafa nein áhrif á afkomu ársins. Með auknu eftirliti og ítrekuðum áminningum til innheimtumanna hefur síðustu árin verið lögð rík áherzla á að bæta innheimtu opinberra gjalda. Hefur því miður innheimtunni verið fylgt mjög misjafnlega eftir af hinum einstöku innheimtumönnum og það valdið misræmi og raunar misrétti, einkum varðandi söluskatt og tolla. Þótt sums staðar vanti enn töluvert á, að innheimta þessara gjalda sé komin í viðunandi horf, hefur þó ótvírætt færzt í betri átt. Hafa flestir innheimtumenn verið heimsóttir nú í sumar af hálfu rn. til þess að fylgja eftir fyrirmælum þess, og nýlega hefur rn. ákveðið að beita heimild tollheimtulaga til þess að kæra til sakadómsmeðferðar, ef afgreiddar eru, teknar út eða teknar eigin hendi ótollafgreiddar vörur. Þá hafa einnig verið settar nýjar reglur um tollvörugjald, sem eiga að tryggja traustara eftirlit með skilum þess. Sums staðar hefur gengið erfiðlega um innheimtu eldri vanskila á söluskatti, einkum þar sem svo standa sakir, að aðeins er ein verzlun í byggðarlagi og sýslumaður því veigrar sér við að loka henni. En rn. telur ekki auðið að láta menn skáka í því skjólinu, þegar um vanskil á innheimtufé er að ræða. Vegna minnkandi tekna og almennra efnahagserfiðleika hefur hins vegar innheimta tekju- og eignarskatta torveldazt verulega á árinu 1967, og verður þess vart, að gjaldendur láta útsvör til sveitarfélaga sitja í fyrirrúmi, þar sem þau eru frádráttarbær við álagningu næsta árs útsvars. Innheimtur tekju- og eignarskattur á árinu 1967 varð 579 millj. kr., en óinnheimtar eftirstöðvar af álögðum sköttum 226 millj. í árslok. Tekjur af rekstri Áfengis- og tóbaksverzlunar ríkisins urðu 55 millj. kr. hærri en fjárlög gerðu ráð fyrir. Kom þar bæði til aukin neyzla og einnig hækkaði útsöluverð hinn 10. október 1967. Reksturshagnaður Pósts og síma varð 25.7 millj. kr., en ekki hafði verið gert ráð fyrir. hagnaði í fjárl.

Gjöld á rekstrarreikningi ríkissjóðs árið 1967 urðu samtals 4716.8 millj. kr. Urðu rekstrargjöld umfram fjárlagaáætlun 253.3 millj. Meginorsök umframgjaldanna eru útgjöld samkv. l. nr. 4 1967 um ráðstafanir vegna sjávarútvegsins og svo niðurgreiðslur á vöruverði og uppbætur á útfluttar landbúnaðarafurðir umfram fjárlagaáætlun.

Að venju var ekki auðið að fá heildarmynd af afkomu sjávarútvegsins og þörf hans fyrir fjárhagsaðstoð fyrr en eftir að fjárlög höfðu endanlega verið afgreidd. Höfðu í fjarlögum verið áætlaðar 80 millj. kr. til aðstoðar við sjávarútveginn á árinu 1967 auk 40 millj. kr. aðstoðar við togaraflotann, en skipting fjárins látin bíða frekari lagasetningar. Niðurstaðan varð hins vegar sú, að sjávarútvegurinn var talinn þurfa á miklum mun meiri aðstoð að halda, og var sú aðstoð og fjáröflun til hennar ákveðin í áðurnefndum sérlögum. Þar var einnig ákveðið, að 80 millj. kr. fjárlagafjárveitingunni til sjávarútvegsins skyldi ráðstafað þannig, að 50 millj. kr. væru greiddar til hagræðingar í frystihúsum, 20 millj. kr. greiddar til verðbóta á línu- og handfærafisk og 10 millj. kr. til verðbóta á útfluttar skreiðarafurðir eða aðrar fiskafurðir. Að auki var ákveðið í l, að greiða skyldi sem svaraði 8% uppbót á fiskverð, og var ráðgert, að sú uppbót næmi 100 millj. kr. Til að mæta þessum 100 millj. kr. útgjöldum var ríkisstj. í l. heimilað að lækka greiðslu til verklegra framkvæmda á vegum ríkisins og greiðslu framlaga til verklegra framkvæmda annarra aðila í fjárlögum ársins 1967 um 10%. Var áætlaður sparnaður af þessari ráðstöfun um 65 millj. kr. Að auki var framlag til Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga lækkað um 20 millj. kr. og loks áætlað framlag til Ríkisábyrgðasjóðs lækkað um 15 millj. kr. Loks var akveðið að ráðstafa 140 millj. kr. af greiðsluafgangi ársins 1966 til þess að greiða verðbætur vegna verðfalls á frystum fiskafurðum, sem framleiddar voru á árinu 1967, öðrum en síldar- og loðnuafurðum. Skyldu bæturnar greiddar eftir ákveðnum reglum, en því fé, sem þá yrði eftir, skyldi ráðstafað sem stofnfjárframlagi til Verðjöfnunarsjóðs fiskiðnaðarins. Þótt sparnaðarráðstafanirnar tækjust að verulegu leyti, urðu framlögin af greiðsluafgangi ársins 1966 að sjálfsögðu að færast til útgjalda ríkissjóðs á árinu 1967 og hafa því áhrif á afkomu þessa árs.

Vegna verðstöðvunarlaganna varð að grípa til ýmissa aukinna niðurgreiðslna á vöruverði fyrri hluta ársins 1967 til þess að koma í veg fyrir hækkun vísitölunnar. Þar eð niðurgreiðslur voru hins vegar lækkaðar verulega síðustu mánuði arsins, var umframgreiðsla á þessum lið ekki nema 48.6 millj. kr., og eru tæpar 29 millj. kr. mismunur daggjalda á sjúkrahúsum, sem ríkisstj. ákvað að greiða sem lið í framkvæmd verðstöðvunarinnar. Lögákveðnar uppbætur á útfluttar landbúnaðarafurðir urðu rúmum 20 millj. kr. hærri en áætlun fjárlaga.

Vaxtaútgjöld urðu um 950 þús. kr. umfram fjárlagaáætlun vegna versnandi stöðu ríkissjóðs, og kostnaður við forsetaembættið varð 400 þús. kr. umfram áætlun. Alþingiskostnaður varð lítið eitt undir áætlun, en kostnaður við stjórnarráðið hins vegar rúmar 10 millj. kr. umfram áætlun. Fellur sá kostnaðarauki allur undir svonefndan annan kostnað rn., sem verið hefur safnliður allra rn. fyrir margvíslegan aukakostnað, sumpart laun lausráðins starfsfólks, en að ýmsu leyti alls konar annar kostnaður, sem oft er ógerlegt að sjá fyrir, þegar fjárlög eru afgreidd, og hefur yfirleitt verið ætíð of naumt áætlaður. En það hefur líka áreiðanlega veitt rn. minna aðhald, að þessi útgjöld hafa verið greidd af sameiginlegri fjárveitingu stjórnarráðsins. Og var því í fjárlögum yfirstandandi árs algerlega aðskilinn fjárhagur hinna einstöku rn., og kemur þá glöggt í ljós, hvaða rn. aðallega eyða umfram heimildir fjárlaga.

Útgjöld til utanríkismála urðu 1 millj. umfram áætlun. Raunverulega er þó ekki um umframgreiðslu að ræða á fjárlagaliðunum sjálfum, því að meðal útgjalda á árinu 1967 kemur tæplega 2 millj. kr. kostnaður vegna nýs sendiráðs Íslands hjá NATO, sem fjárlög höfðu ekki gert ráð fyrir. Tillög til alþjóðastofnana fóru 2.2 millj. kr. fram úr áætlun vegna aukaframlaga til flóttamannahjálpar og útgjalda vegna flutnings aðalstöðva NATO frá París til Brüssel, sem heimilað var í 22. gr. fjárl. að veita fé til.

Í heild var kostnaður við dómgæzlu og lögreglustjórn nokkru lægri en fjárlög gerðu ráð fyrir, og kostnaður við landhelgisgæzlu varð mun lægri en fjárlög áætluðu. Hefur kostnaðaráætlun Landhelgisgæzlunnar sýnilega verið of há og hún ekki gagnrýnd nægilega.

Kostnaður við innheimtu tolla og skatta varð rúmlega 15 millj. kr. hærri en fjárlagaáætlun. Munar hér mestu um kostnað við ríkisskattanefnd og skattstofur. rúmar 11 millj. kr. umfram fjárlög. Stafar þetta fyrst og fremst af naumri áætlun, því að hin mikla hækkun tilkostnaðar við skattálagningu á undanförnum árum hefur valdið því, að rn. hefur þrjózkazt við að taka að fullu til greina útgjaldaáætlanir skattyfirvalda og lagt áherzlu á að spyrna eftir föngum gegn útgjaldaaukningu. Það hefur hins vegar reynzt svo, að með núverandi aðferðum við endurskoðun skattgagna og álagningu skatta hefur ekki tekizt að halda útgjöldum skattstofanna innan ramma fjárlaga. Kenna skattstjórar um vaxandi fjölda gjaldenda og vaxandi fjölda gjalda, sem þeim ber að leggja á samkv. l. Er nú um að ræða 14 mismunandi gjöld, og gjaldendur hvers gjalds eru frá 1355–76000. Vil ég láta — það koma fram, að engin ástæða er til að álíta, að hinn mikli kostnaður við skattálagningu og skatteftirlit stafi af lélegum vinnubrögðum eða lélegri stjórn, og ég hef ekki talið gerlegt að fyrirskipa sparnaðaraðgerðir á þessu sviði, sem mundu leiða til lakara skatteftirlits, heldur er miklu fremur nauðsynlegt að auka það og skerpa. Það er engum efa bundið, að hið aukna skatteftirlit hefur þegar skilað mjög jákvæðum árangri, þó að enn vanti mikið á, að skattsvik hafi verið upprætt, en vel má hugsa sér ýmsar skipulagsbreytingar við álagningu skatta, og leiddu slíkar breytingar, sem gerðar voru á þessu ári, til þess, að auðið reyndist að ljúka álagningu skatta mun fyrr en undanfarin ár, sem jafnframt auðveldaði sveitarstjórnum skjótari álagningu útsvara. Af hálfu skattyfirvalda og fjmrn. er unnið að endurbótum á skattálagningu og skatteftirliti, eftir því sem frekast eru föng á, og hefur nú nýlega verið haldin ráðstefna með öllum skattstjórum til að skipuleggja þessi viðfangsefni, og önnur ráðstefna verður haldin nú á næstunni. Jöfnum höndum miðar þessi viðleitni að því að halda útgjöldum skattkerfisins í skefjum og að gera starfsemi skattyfirvalda virkari, til að skattalög gangi sem jafnast yfir borgarana. Er þar í senn um mikið nauðsynjamál ríkissjóðs og brýnt réttlætismál að ræða.

Til fróðleiks má geta þess, að kostnaður við ríkisskattanefnd og skattstofur var á árinu 1967 1.5% af heildarupphæð þeirra gjalda, sem skattstofurnar safna gögnum um og/eða leggja á. Samsvarandi hlutfall fyrir árin á undan er: 1966 1.5%, 1965 1.6%, 1964 1.4% og 1963 1.5%. Má af þessum tölum ráða, að þótt kostnaður við skattálagningu og skatteftirlit hafi aukizt verulega, þá hefur hann ekki vaxið í hlutfalli við álögð gjöld, og hefur þó kostnaður við rannsóknardeild ríkisskattstjóra ekki komið til fyrr en frá árinu 1964.

Framlög til heilbrigðismála urðu tæplega 13 millj. kr. undir áætlun, aðallega vegna 10% lækkunar á framlögum til byggingar sjúkrahúsa og læknisbústaða og vegna breyttra daggjalda.

Samgöngur á sjó fóru um 4.3 millj. fram úr áætlun vegna hærri rekstrarhalla Skipaútgerðar ríkisins en áætlaður hafði verið.

Vita- og hafnargerðir fóru 4 millj. kr. fram úr áætlun. Annars vegar urðu greiðslur af lánum vegna landshafnanna hærri en áætlað hafði verið, og hins vegar voru færðar til gjalda á árinu fyrirframgreiðslur vegna fjárlaga ársins 1968.

Nettó umframgreiðslur vegna flugmála urðu 3 millj. kr. Útgjöld fóru 9 millj. kr. fram úr áætlun, m.a. vegna vaxta, sem láðst hafði að áætla, en tekjur fóru sömuleiðis verulega fram úr áætlun. Þrátt fyrir margvíslegt eftirlit af hálfu samgmrn. og fjmrn. hefur því miður reynzt mjög erfitt að hafa hemil á útgjöldum flugmálastjórnarinnar.

Kostnaður af veðurþjónustu varð 1.3 millj. kr. umfram áætlun, og ýmis önnur mál á vegum samgmrn. urðu 2.1 millj. kr. umfram fjárlagaáætlun. Munar þar verulega um Skipaskoðun ríkisins, en tekjur hennar hafa reynzt mun lægri en áætlað var, og rekstrarhalli Ferðaskrifstofu ríkisins hefur orðið 1.2 millj. kr. umfram fjárlagaáætlun.

Samtals fara framlög til kennslumála um 15 millj. kr. fram úr áætlun. Ýmsar helztu stofnanir í þessari grein, svo sem Háskólinn, Lánasjóður namsmanna, menntaskólarnir í Reykjavík, Kennaraskólinn og fleiri skólar standast áætlun, en ýmsir aðrir gera það síður, og mestur hluti umframgreiðslunnar er vegna barnaskóla og gagnfræðaskóla.

Framlög til opinberra safna, bókaútgáfu og kostnaður við listastarfsemi fara nokkuð á 7. millj. kr. umfram áætlun. Stærstur hluti þeirrar fjárhæðar er halli á Þjóðleikhúsinu, sem er 6.6 millj. kr. hærri en þær 6.6 millj., sem áætlaðar voru í fjárl. umfram lögbundnar tekjur leikhússins. Þessi viðbótarhalli hefur þó ekki verið greiddur leikhúsinu, heldur kemur fram sem skuldasöfnun, m.a. með þeim hætti, að Þjóðleikhúsið hefur ekki getað greitt hluta sinn í reksturskostnaði sinfóníuhljómsveitarinnar. Halli á rekstri Þjóðleikhússins árið 1967 varð því alls 21.3 millj. kr. Þar af greiðast 8.1 millj. af skemmtanaskattinum.

Framlög til landbúnaðarmála urðu á 8. millj. kr. undir áætlun, aðallega vegna þess að lögbundin framlög samkv. jarðræktarlögum urðu talsvert minni en áætlað hafði verið.

Hin föstu framlög til sjávarútvegsmála urðu einnig nokkuð undir áætlun, en þau eru þó aðeins lítill hluti af heildarframlögum ríkissjóðs á árinu til sjávarútvegsins.

Framlög til iðnaðarmála urðu 1 millj. kr. umfram fjárlög, aðallega vegna færslu á fyrirframgreiðslu til Iðnlánasjóðs. Sömuleiðis varð kostnaður vegna rannsókna á undirbúningi stóriðju, sem greiddist á árinu 1966, um 1.4 millj. kr. umfram áætlun, og var hér um að ræða lokauppgjör áfallins kostnaðar. Hins vegar hafa byggingarstyrkir til tveggja iðnskóla ekki verið greiddir, svo sem ráðgert hafði verið.

Framlög til raforkumála hafa samtals farið 2.7 millj. kr. fram úr áætlun. Kostnaður við undirbúning, rannsóknir og áætlanir um nýjar raforkuframkvæmdir umfram tekjur hefur orðið 5.2 millj. hærri en fjárlög ráðgerðu. Hins vegar hafa ýmis framlög orðið lægri en gert var ráð fyrir í fjárl., aðallega vegna 10% lækkunar fjárveitinga til opinberra framkvæmda. Framlög til rannsókna í þágu atvinnuveganna eru um 1.8 millj. kr. undir fjárlagaáætlun.

Framlög til félagsmála urðu 34 millj. kr. undir áætlun, að verulegu leyti vegna lægri daggjalda á sjúkrahúsum, sem komu fram sem aukning á niðurgreiðslum. Þá voru framlög til sjúkratrygginga og atvinnuleysistrygginga lægri á árinu en áætlað hafði verið. Framlög vegna eftirlauna og tillag til lífeyrissjóða höfðu einnig verið ofáætluð um 9 millj. kr.

Óviss útgjöld fóru samtals 3.8 millj. kr. fram úr áætlun.

Hinar venjulegu eignahreyfingar samkv. 20. gr. ríkisreiknings þarfnast óverulegrar skýringar. Þess er þó vert að geta, að sú ráðagerð, að framlag til Ríkisábyrgðasjóðs á árinu 1967 yrði 15 millj. kr. lægra en fjárlög gerðu ráð fyrir í sambandi við lög um aðstoð við sjávarútveginn, hélt ekki, þegar til átti að taka, vegna þess hversu miklar ábyrgðir féllu á sjóðinn til greiðslu. Reyndist ekki aðeins nauðsynlegt að greiða framlagið óskert, heldur varð ríkissjóður síðast á árinu að greiða 15 millj. kr. viðbótarframlag til Ríkisábyrgðasjóðs, svo að hann gæti staðið við skuldbindingar sínar. Að öðru leyti eru útgreiðslur á eignahreyfingum eins og ráð var fyrir gert í öllum meginatriðum. Stofnkostnaður tækniskólans var þó töluvert hærri en gert var ráð fyrir vegna húsakaupa á árinu, og á nokkrum liðum gætir þess, að á árinu eru færðar fyrirframgreiðslur t.d. í sambandi við byggingar við Menntaskólann á Laugarvatni. Á hinn bóginn eru veitt lán samkv. 20. gr., óvenjuháar fjárhæðir. Munar þar mestu um lán af innborguðu fé spariskírteinalána og svo lán af aðflutningsgjöldum til Landsvirkjunar, Rafmagnsveitna ríkisins og Kísiliðjunnar. Að því er varðar Landsvirkjun er hér um að ræða færslu á aðflutningsgjöldum sem lán, þar til gert hefur verið upp, að hvaða marki þessi aðflutningsgjöld skuli falla niður samkv. 1. þar um. Meðal þessara lána er sömuleiðis útlagður kostnaður vegna undirbúnings á hægri umferð, sem lagður er út úr ríkissjóði og greiðist síðan með sérstökum skatti. Þarna koma líka fleiri bráðabirgðalán, svo sem í sambandi við síldarleitarskipið Árna Friðriksson, atvinnumálanefnd Norðurlands, tollalán til Strætisvagna Reykjavíkur í sambandi við skipti þeirra á vögnum við tilkomu hægri umferðar og fleira af slíku tagi. Það veldur einnig óvenjumiklum halla á 20. gr. fjárl., að vangreiddar tekjur frá innheimtumönnum eru mjög háar eða rúmum 64 millj. kr. hærri í reikningi ársins 1967 en í reikningi ársins 1966, eða rúmlega helmingi hærri. Þá verkar í sömu átt, að greiðslur af geymslufé 1967, sem áður hafa verið færðar til gjalda á ríkisreikningi, eru nær 95 millj. kr. hærri en ónotaðar fjárveitingar 1967, sem færast til gjalda í árslok. Þessu var öfugt farið 1966, þegar ónotaðar fjárveitingar 1966, sem færðar voru til gjalda þá í árslok án þess að greiðast út, voru 134 millj. kr. hærri en greiðslur af geymdu fé. Af þessu leiðir mjög verulegan halla á eignahreyfingum samkv. 20. gr. eða sem svarar 432.6 millj. kr.

Rekstraryfirlit ríkissjóðs á árinu 1967 sýnir 73.3 millj. kr. halla. Við mat á þessari niðurstöðu ber að hafa það í huga, sem ég hef áður gert grein fyrir, að reikningurinn er nú færður með nokkuð öðrum hætti en áður. Skiptir þar mestu máli, að færðir eru til tekna á árinu álagðir beinir skattar, þótt þeir hafi ekki verið greiddir, en hins vegar eru ekki meðtaldir innheimtir eldri skattar. Til þess að auðvelda samanburð hef ég því látið athuga, hver greiðslujöfnuður yrði, ef hin eldri aðferð við uppgjörið hefði verið notuð, en samkv. því mundi hagnaður á rekstrarreikningi lækka sem nemur 125.5 millj. kr. og greiðsluhalli samtals verða sem næst 199 millj. Sannleikurinn er hins vegar sá, að það er ekki hinn raunverulegi rekstrarhalli eða rekstrarafgangur, hvort sem hann reikningslega telst 73 millj. eða 199 millj., sem meginmáli skiptir um stöðu ríkissjóðs og áhrif ríkisbúskaparins í þrengri merkingu á hagkerfið, heldur greiðslustaða ríkissjóðs eða sjóðstaða, sem einkum birtist í viðskiptastöðu ríkissjóðs í Seðlabankanum. Rekstrarafkoma ríkissjóðs hefur aldrei verið eins góð og árið 1966, en þá nam greiðsluafgangur ríkissjóðs um 430 millj. kr. Vegna þeirrar miklu nauðsynjar að afla fjár til aðstoðar við sjávarútveginn, til verðstöðvunar og nokkurra annarra nytjamála freistuðust menn til að ráðstafa á árinu 1966 til útborgunar hátt á 3. hundrað millj. af þessum reikningslega greiðsluafgangi. Þessi útdeiling greiðsluafgangs hefur leitt til mjög versnandi stöðu ríkissjóðs í Seðlabankanum, því að hér var ekki um neina hreina inneign að ræða á viðskiptareikningi í Seðlabankanum. Þar var inneign á viðskiptareikningi í árslok 1966 aðeins um 90 millj. kr. vegna þeirrar miklu yfirdráttarskuldar, sem myndazt hafði í Seðlabankanum á árunum 1964 og 1965, og þann viðskiptayfirdrátt varð að sjálfsögðu að greiða, því að lántaka til að standa undir almennum rekstrarútgjöldum ríkissjóðs er að sjálfsögðu fráleit, a.m.k. á góðæristímum. Það er því ekkert að undra, þótt greiðslustaða ríkissjóðs gagnvart Seðlabankanum hafi versnað mjög á árinu 1967, þegar þess er gætt, hversu miklu fé var ráðstafað á því ári umfram þær 90 millj. kr., sem í ársbyrjun voru til ráðstöfunar á reikningi ríkissjóðs í Seðlabankanum. Má raunar segja, að greiðslustaðan hafi versnað minna heldur en ætla hefði mátt, því að í árslok nam yfirdráttur á aðalviðskiptareikningi ríkissjóðs í Seðlabankanum um 200 millj. kr. Ef staðan á sjóðsyfirliti er skoðuð, sýnir hún greiðsluhalla á árinu 1967, sem nemur 268 millj. Það kann að vera, að einhverjir álykti sem svo, að með öllum þessum tölum og mismunandi útreikningsaðferðum sé ég að reyna að villa um fyrir mönnum, en því fer víðs fjarri. Ég tel mér aðeins skylt að draga fram alla drætti myndarinnar, því að eins og efnahags- og fjármálum þjóðarinnar er nú háttað vegna hinna óvenjumiklu og langvarandi erfiðleika, sem að steðja, skiptir það meginmáli, að menn geri sér almennt rétta grein fyrir ástandinu og réttu samhengi hinna margþættu efnahagsvandamála, sem við er að glíma.

Ég mun nú gera nokkra grein fyrir horfum um afkomu ríkissjóðs á yfirstandandi ári, eftir því sem bezt verður vitað. Þótt 3/4 hlutar ársins séu nú að baki, eru þó enn svo veigamikil atriði óljós, að ógerlegt er á þessari stundu að gera sér fullnægjandi grein fyrir endanlegri útkomu ársins. Gengisbreytingin í nóvember í fyrra hafði lítil áhrif á afkomu ríkissjóðs árið 1967, en hennar hefur gætt allt þetta ár. Þegar gengið var frá tekjuáætlun fjárlaga fyrir árið 1968, var 250 millj. kr. af áætluðum tekjuauka af aðflutningsgjöldum vegna gengisbreytingarinnar haldið utan tekjuáætlunar fjárl., þar eð ríkisstj. áformaði að beita sér fyrir tollalækkunum. sem námu allt að þeirri upphæð. Fjárlög voru afgreidd með 54 millj. kr. tekjuafgangi, en þar eð ekki er komið til framkvæmda að leggja söluskatt á þjónustu Pósts og síma, er áætlað var, að gæti gefið 45 millj. kr. tekjur, var raunverulega ekki um neinn afgang að ræða. Við endanlegt mat á afkomuhorfum sjávarútvegsins við síðustu áramót kom í ljós, að gengisbreytingin nægði ekki til að tryggja áframhaldandi rekstur sjávarútvegsins, heldur varð að veita honum verulega viðbótaraðstoð. Var um það efni sett löggjöf í byrjun ársins, sem mönnum er í það fersku minni, að ég sé ekki ástæðu til að rekja hana hér. En þessi nýja aðstoð lagði á ríkissjóð byrðar, sem áætlað var að næmu um 330 millj. kr. Var ákveðið að afla fjár til þessarar nýju aðstoðar við sjávarútveginn með:

1. Að draga úr fyrirhuguðum tollalækkunum, sem svaraði 90 millj. kr.

2. Að lækka fjárveitingar til margvíslegra rekstursútgjalda ríkissjóðs, er ákveðnar höfðu verið í fjárlögum, um 138 millj. kr.

3. Að fella niður úr fjárlögum fjárveitingar til byggingar sjúkrahúsa og menntaskóla, samt. 62.6 milljónir króna, og fjármagna þessar framkvæmdir með lántökum.

4. Að hækka verð á áfengi og tóbaki, er áætlað var, að gæti gefið um 40 millj. kr. viðbótartekjur.

Hér var að ýmsu leyti teflt á tæpasta vað, einkum varðandi sparnað ríkisútgjalda, því að ljóst var, að ýmislegt af þeim sparnaði mundi ekki skila sér fyrr en á næsta ári. Og enn fremur var, vegna minnkandi greiðslugetu, hægt að gera ráð fyrir því, að um yrði að ræða samdrátt í sölu tóbaks og áfengis. Engu að síður þótti óumflýjanlegt að freista þess að ná saman endum með þessum hætti, þar eð mikilvægt var að forðast almenna kjaraskerðingu og því nauðsynlegt að þurfa ekki að leggja á nýja skatta. Augljóst er nú, að þetta dæmi ætlar ekki að standast. Þótt innflutningur fyrstu 9 mánuði ársins hafi orðið mun meiri en gjaldeyrisforði leyfir, hefur engu að síður orðið nokkru meiri samdráttur í innflutningi en fjárlög ársins gerðu ráð fyrir. Tekjuáætlun, sem gerð var við undirbúning fjárlagafrv. og mátti telja bjartsýna, benti ótvírætt til þess, að ekki aðeins mundu ekki skila sér þær 90 milljónir, sem gert hafði verið ráð fyrir að yrðu afgangs úr tollalækkunardæminu, heldur mundi til viðbótar vanta a.m.k. 40 millj. kr. á tekjuáætlun fjárlaga, sem stafaði fyrst og fremst af minnkandi innflutningi bifreiða og lækkun á söluskatti, enda þótt tekjuskattur yrði um 30 millj. kr. hærri en áætlað hafði verið. Enn fremur var ljóst, að vegna verulegs samdráttar í sölu tóbaks og áfengis mundi lítið sem ekkert skila sér af síðustu verðhækkun. Loks er sýnilegt, svo sem hafði verið gert ráð fyrir, að sparnaðarráðstafanirnar mundu ekki allar verða að veruleika á þessu ári, og mun þar væntanlega halla á um 30–40 millj. kr.

Útgjalda megin verður þróunin hins vegar í öfuga átt. Launahækkun hefur orðið hjá opinberum starfsmönnum í samræmi við launahækkanir annarra stétta, og hefur verið áætlað, að sú launahækkun nemi á þessu ári um 38 milljónum króna, en fyrir þeirri hækkun var ekki áætlun í fjárlögum. Þá reyndist óumflýjanlegt til þess að koma síldveiðiflotanum af stað í vor að taka á ríkissjóð nokkra hækkun síldarverðs eða sem nemur 7 aurum á kg. Hversu há sú fjárhæð verður, fer eftir aflabrögðum, en áætlað var, að hún gæti numið um 25 millj. kr. Vegna enn frekara verðfalls á frystum fiski en reiknað var með um áramótin, þegar aðstoð til frystihúsanna var ákveðin, hefur ríkisstj. talið óumflýjanlegt að lofa frystihúsunum enn nokkurri viðbótaraðstoð til þess að koma í veg fyrir stöðvun þeirra. Sú aðstoð er ekki miðuð við ákveðna upphæð, heldur veilt sem viðbótarframlag til Verðjöfnunarsjóðs fiskiðnaðarins, þannig að sjóðurinn geti frá vissum tíma til áramóta greitt 75% af verðlækkuninni. Áætlað hefur verið, að þessi aðstoð gæti numið til áramóta um 30 milljónum króna.

Þá hefur alllengi verið til athugunar hjá ríkisstj. beiðni frá saltfiskframleiðendum um aðstoð til þess að mæta miklu verðfalli á vissum tegundum af saltfiski. Gæti sú aðstoð numið um 20–25 milljónum kr. á þessu ári.

Loks kemur það til, að togaraflotinn hafði vegna rekstrarörðugleika á síðasta ári fengið greiddan fyrirfram allan rekstrarstyrkinn á þessu ári. Enda þótt afli togaranna í ár hafi verið góður og mun betri en á s.l. ári og gengisbreytingin hafi bætt hag togaraútgerðarinnar, hefur enn frekara verðfall valdið því, að óumflýjanlegt hefur reynzt að greiða togurunum 40 millj. kr. á þessu ári til þess að koma í veg fyrir stöðvun þeirra, sem hefði orðið mjög alvarlegt áfall vegna atvinnuörðugleika.

Hverjar umframgreiðslur verða á einstökum fjárlagaliðum, er ekki auðið að vita með vissu á þessu stigi, enda þótt hið nýja skipulag á ríkisbókhaldinu hafi gerbreytt til hins betra aðstöðu rn. til að fylgjast mánaðarlega með þróun einstakra útgjaldaliða ríkissjóðs. Virðist þróunin til þessa ekki gefa ástæðu til að halda, að um verulegar umframgreiðslur verði að ræða, enda þótt óhugsandi sé að koma í veg fyrir, að þær verði einhverjar, því að alltaf koma til einhver óvænt útgjöld eða mistök í áætlunum. Vitað er þó nú, að um verulegar umframgreiðslur verður að ræða á styrk til jarðræktarframkvæmda. Virðist jarðrækt og framræsla hafa stóraukizt á s.l. ári umfram það, sem gert var ráð fyrir, og eru horfur á, að jarðræktarstyrkir og styrkir til framræslu kunni að fara um 15 millj. kr. fram úr áætlun á þessu ári.

Vegna hinna miklu greiðsluerfiðleika margvíslegra atvinnufyrirtækja, sem fengið hafa ríkisábyrgð á lánum sínum, er mikil hætta á því, að Ríkisábyrgðasjóður þurfi viðbótarframlag á þessu ári. Áður en innflutningsgjaldið kom til sögunnar, voru horfurnar því mjög ískyggilegar. Augljóst var af síðustu áætlunum, að tekjur mundu verða a.m.k. 160 millj. kr. lægri en ráðgert var, og sennilegt, að umframgreiðslur og umframútgjöld vegna atvinnuveganna, sem getið var hér að framan, yrðu önnur eins fjárhæð. Samkv. því gat rekstrarhalli ríkissjóðs orðið yfir 300 millj. kr. Gat þá vel svo farið, að enn vantaði stórar fjárhæðir útgjalda megin, því að í viðræðunum við síldarkaupendur og síldarseljendur fyrir síldarvertíðina í sumar töldu þessir aðilar afkomuhorfur svo óvissar, að ógerlegt væri að hefja síldveiðar nema fá einhver vilyrði um aðstoð, ef illa færi. Féllst ríkisstj. því á í þessum viðræðum að beita sér fyrir því við Alþ., að síldarútgerðarmenn fengju með skip sín aðild að Stofnfjársjóði bátaútvegsins, ef útkoman á síldveiðunum yrði svo bágborin, að það yrði talið óumflýjanlegt, og jafnframt var síldarverksmiðjunum gefið vilyrði um, að ríkisstj. beitti sér fyrir fjáröflun þeim til handa á sömu forsendum. Enn verður ekkert um það sagt, að hve miklu leyti fullnægja þarf þessum fyrirheitum, en segja má, að í sumar hafi síldveiðin svo til algerlega brugðizt, þó að menn voni, að fram til áramótanna geti síldveiðarnar eitthvað rétt sig af. En þótt svo fari, breytir það lítið í jákvæða átt þeim dæmum, sem upp hafa verið sett um útflutning og tekjuöflun þjóðarbúsins, því að í öllum þeim dæmum hefur einmitt verið reiknað með því, að síldveiðarnar síðustu mánuði ársins yrðu álíka og á sama tíma á s.l. ári, og virðist nú augljóst, að sú bjartsýni er óraunhæf.

Í sambandi við undirbúning fjárlagafrv. fyrir árið 1969 var í ágústmánuði lögð áherzla á það að draga upp sem gleggsta mynd af efnahags- og fjárhagsvandamálinu, þótt á því stigi væri auðvitað ógerlegt að sjá, hversu stór vandi atvinnulífsins og þá fyrst og fremst sjávarútvegsins mundi verða miðað við árið í fyrra. Engu að síður var þó ljóst, að við stórkostlegan vanda yrði að fást, enda þótt menn enn væru það bjartsýnir að reikna með, að síldveiðarnar mundu fram til áramóta gefa svipaðan afla og á sama tíma í fyrra. Síldveiði hafði alveg brugðizt sumarmánuðina, og verðlag helztu útflutningsvara hafði enn lækkað. Reyndist því óumflýjanlegt að endurmeta útflutningsáætlun ársins og lækka hana enn mjög verulega eða niður í 4.6 milljarða kr., sem er um 40% lækkun útflutningstekna frá árinu 1966. Mikið vantaði hins vegar á, að innflutningur hefði dregizt saman að sama skapi, og hafði gjaldeyrisvarasjóðurinn frá ársbyrjun til 1. ágúst minnkað um 500 millj. og nam þá aðeins um 550 millj. Hafði þó sjóðurinn í rauninni rýrnað enn meir, því að á þessu tímabili hafði ríkissjóður tekið 2 millj. sterlingspunda lán í Bretlandi, þannig að án þeirrar lántöku hefði gjaldeyrisvarasjóðurinn raunverulega verið þrotinn í byrjun september. Það var því mat ríkisstj., að til þess að forðast öngþveiti yrði strax í byrjun septembermánaðar að grípa til róttækra aðgerða til þess annars vegar að draga úr gjaldeyriseyðslu og hins vegar að bæta nokkuð greiðslustöðu ríkissjóðs, því að mikill greiðsluhalli ríkissjóðs leiðir að sjálfsögðu til sambærilegrar aukningar á eftirspurn eftir gjaldeyri. Þann 1. okt. nam yfirdráttarskuld á aðalreikningi ríkissjóðs í Seðlabankanum 847.4 millj. kr., en var á sama tíma í fyrra 431.4 millj., og hafði því staðan gagnvart Seðlabankanum á þessu tímabili versnað um 416 millj., og var líklegt, ef til engra aðgerða hefði verið gripið, að um næstu áramót hefði yfirdráttarskuld ríkissjóðs við Seðlabankann numið 500–600 millj. kr. og greiðslustaðan því versnað á árinu um 300–400 millj. Rétt er þó að geta þess, að líklegt er, að staða aðalviðskiptareiknings gagnvart innheimtufjárreikningi vegna annarra aðila verði þá 100 millj. kr. betri en við síðustu áramót. Enn þá er ekki hægt að gera sér grein fyrir, hvaða áhrif hið nýja innflutningsgjald hefur, hvorki á eftirspurn eftir gjaldeyri síðustu mánuði ársins né á afkomu ríkissjóðs. Í bráðabirgðaáætlun hefur verið reiknað með því, að innflutningur muni minnka og sá samdráttur innflutnings sennilega valda ríkissjóði um 60 millj. kr. tekjumissi í aðflutningsgjöldum. Hið nýja innflutningsgjald gæti gefið á móti tekjur til 1. des., er næmu 220 milljónum kr., þegar undanþáguákvæði í lögunum hafa verið tekin til greina. Komi 4. gr. þeirra 1. til framkvæmda, má gera til viðbótar ráð fyrir endurgreiðslukröfum, er geti numið um 90 millj. kr. Um töluverða tekjuaukningu ætti þó að verða að ræða fyrir ríkissjóð, sem þó mun engan veginn nægja til að jafna greiðslustöðuna við Seðlabankann. Hins vegar er brýn nauðsyn, að menn geri sér almennt grein fyrir því, að stöðvun á greiðsluhalla ríkissjóðs sé óhjákvæmileg forsenda þess, að hægt sé að skapa nauðsynlegt jafnvægi milli framboðs og eftirspurnar erlends gjaldeyris. Greiðsluhalla ríkissjóðs vegna áranna 1967 og 1968 verður einnig að jafna, ef ríkissjóður á ekki að verka með óheilbrigðum hætti á fjármálaþróunina. Það er jafnframt nauðsynlegt að gera sér grein fyrir því, að ekki verður skilið á milli fjárhagsvandamála ríkissjóðs og vandamála atvinnuveganna. Hinir gífurlegu erfiðleikar sjávarútvegsins hafa fært þjóðinni stórkostlegan vanda, sem krefst skilnings og ábyrgra viðbragða allra stétta og stjórnmálaflokka, ef takast á að leysa hann án stórfelldrar kjaraskerðingar þjóðarinnar. Ríkisstj. hefur því beitt sér fyrir viðræðum milli allra flokka, sem staðið hafa nú í nokkrar vikur, til þess að kanna, hvort sameiginleg viðbrögð í þessum miklu vandamálum séu hugsanleg. Sú afstaða ríkisstj. markast hins vegar engan veginn af því, að hún hafi gefizt upp við að stjórna landinu og geti ekki fundið úrræði til lausnar vandamálunum, heldur af því, að henni er ljóst, að nú er svo mikið í húfi, að þjóðareiningar er þörf.

Þar sem efnahagsvandamálin í heild verða rædd hér á hinu háa Alþ. við önnur tækifæri, mun ég ekki gera þau almennt frekar hér að umtalsefni.

Fjárlagafrv. fyrir árið 1969 markast í senn af hinum miklu efnahagsörðugleikum, sem blasa við augum, og hinni miklu óvissu fram undan. Það voru sjálfsögð og eðlileg viðbrögð að takmarka ríkisútgjöldin sem allra mest, og hefur því þeirri meginstefnu verið fylgt í frv. að synja um allar fjárveitingar til nýrrar starfsemi í ríkisrekstrinum og skera fjárveitingar almennt til allra ríkisstofnana svo við nögl, sem frekast var unnt. Vitanlega veldur þessi harkalega aðferð því að synja verður um fjárveitingar til margvíslegra nytjamála, og er erfitt að þurfa að framfylgja slíkri niðurskurðarstefnu tvö ár í röð. En ég vænti þess þó, að menn skilji almennt nauðsyn þessa sterka aðhalds, því að óhjákvæmilegt er að halda ríkisútgjöldum í föstum skorðum, þegar rýra þarf kjör borgaranna almennt. Gert er ráð fyrir að framfylgja einnig á næsta ári þeim niðurskurði ríkisútgjalda, sem ákveðinn var með sparnaðarlögunum snemma á þessu ári.

Framlög til styrktar atvinnuvegunum eru hin sömu og í fjárl. yfirstandandi árs. Undanfarin ár hefur aðstoðin við sjávarútveginn og tekjuöflun hennar vegna verið ákveðin árlega með sérstakri lagasetningu í byrjun ársins, og var svo einnig á yfirstandandi ári. Hefur þessi aðferð ekki stafað af neinni viðleitni til þess að halda þessum útgjöldum utan fjárl., heldur hefur ástæðan verið sú, að ekki hefur reynzt auðið að fá endanlega mynd af afkomu útgerðarinnar og aðstoðarþörf hennar, fyrr en eftir að fjárl. hafa verið afgreidd. Segja má, að í ár hafi verið í gangi stöðug athugun á afkomu ýmissa þátta sjávarútvegs og fiskvinnslu vegna nýrra og nýrra vandræða, en þótt fyrr hafi verið hafizt handa um athugun á heildarvandamálum sjávarútvegsins og raunar atvinnuveganna almennt en áður hefur verið, var auðvitað í byrjun septembermánaðar, þegar fjárlagafrv. var lokað, ógerlegt að gera sér nokkra grein fyrir endanlegri afkomu atvinnuveganna á þessu ári. Stærsti þáttur dæmisins var að sjálfsögðu sjávarútvegurinn, en jafnframt hafði verið hafizt handa um athugun á afkomu bænda í ýmsum héruðum landsins, en þeirri athugun var heldur ekki lokið þá. Fjárlagafrv. sýnir því aðeins mynd af ríkisrekstrinum sjálfum, og er gert ráð fyrir, að með sterku útgjaldaaðhaldi verði auðið að standa straum af kostnaði við hann á næsta ári með núverandi tekjustofnum ríkissjóðs. Er þá ekki reiknað með tekjum af nýálögðu innflutningsgjaldi, en jafnframt vil ég vekja sérstaka athygli á því, að þótt tekjuáætlunin sé miðuð við lítið eitt óhagstæðari viðskiptaþróun og veltu en á yfirstandandi ári, mundi verulegur samdráttur í innflutningi, viðskiptaveltu og tekjum almennings gera óumflýjanlegt að afla ríkissjóði annaðhvort nýrra tekna eða skera ríkisútgjöldin enn frekar niður. Verður því að endurskoða tekjuáætlunina, eftir að endanlega hefur verið ákveðið, til hverra aðgerða í efnahagsmálum verði gripið.

Fjárlagafrv. fyrir árið 1969 er annað fjárlagafrv., sem útbúið er í samræmi við hin nýju lög um ríkisbókhald og gerð fjárlaga. Þar sem bæði formi og efnisskipan fjárl. var gerbreytt með þessum lögum, hlutu ýmsir annmarkar að verða á fyrsta frv. í þessum búningi, þótt þeir hafi raunar verið minni en gera hefði mátt ráð fyrir. Reynt hefur verið að bæta úr þessum annmörkum í fjárlagafrv. fyrir árið 1969 og gera það í ýmsum efnum fyllra og skýrara, og vona ég, að hv. þm. telji þær breytingar allar í jákvæða átt.

Grg. með frv, er það ítarleg, að ég sé ekki ástæðu til þess að rekja efni frv. í einstökum atriðum, heldur læt mér nægja að gera grein fyrir niðurstöðutölum og nefna einstök atriði, sem ég tel sérstaka ástæðu til að vekja athygli á.

Þar eð allar ríkistekjur eru nú teknar í fjárl., einnig þær tekjur, sem með sérlögum er ráðstafað til ákveðinna þarfa, er erfitt að gera samanburð á milli ára á breytingum tekna og gjalda ríkisrekstrarins í þrengri merkingu. Af þessum sökum hefur verið tekið saman sérstakt yfirlit og samanburður við fjárl. ársins 1968, sem birt er með frv. og sem ég vona, að auðveldi mönnum talnasamanburð.

Heildarútgjöld á rekstrarreikningi nema 6 milljörðum 472.4 millj. kr. Til þess að fá raunhæfan samanburð við fjárlagaútgjöld 1968 verður að hafa í huga, að með sparnaðarlögunum, sem sett voru í byrjun ársins, voru rekstrarútgjöld ríkissjóðs lækkuð um 137.7 millj. Heildarhækkun útgjalda á frv. nemur því 470.3 millj., en hér er hins vegar ekki um raunverulega hækkun ríkisútgjalda að ræða, því að í hækkunartölu þessari er innifalin 240.9 millj. kr. hækkun útgjaldaliða, sem fjár er aflað til með sérlögum, og vegur í þeirri tölu langmest fjáröflun til Vegasjóðs, sem samþ. var á síðasta Alþingi. Útgjaldaaukning ríkissjóðs sjálfs er 229.5 millj., og er það aðeins um 4.8 % hækkun frá fjárl. ársins 1968. Mun ég nú í stórum dráttum gera grein fyrir því, í hverju þessi útgjaldahækkun er fólgin.

Með úrskurði kjaradóms á s.l. ári voru opinberum starfsmönnum ákvarðaðar launahækkanir í samræmi við launahækkanir annarra stétta. Er í fjárlagafrv. nú reiknað með 10% launahækkun af þessum ástæðum á laun upp að vissri upphæð. Heildarútgjaldahækkun af þessum sökum mun vera 40 millj. kr. Ég tel það mjög miður farið, ef launabreytingar opinberra starfsmanna þurfa alltaf að fara fyrir kjaradóm, en ástæðan til þess, að ekki tókust samningar við opinbera starfsmenn í þetta skipti, var sú, að ríkisstj. taldi sér ekki fært að bjóða meiri kauphækkanir en voru í samræmi við samninga verkalýðsfélaganna, þótt ég játi, að efra skerðingarmarkið í þeim samningum var ekki raunhæft. BSRB gerði hins vegar hærri kröfur, og hlaut því málið að koma til úrskurðar kjaradóms. Við samningu fjárlagafrv. var fylgt þeirri meginstefnu að synja öllum beiðnum um nýja starfsmenn, nema þar sem það var algerlega óumflýjanlegt af einhverjum sérstökum ástæðum, og á þess þá að vera getið í grg. frv.

Fjárveitingar til rn. sjálfra eru skertar með sama hætti og gert var með sparnaðarlögunum, en nokkur hækkun verður þó á viðskmrn. vegna tveggja stórra nefnda, sem starfa á þess vegum, önnur í sambandi við athugun á aðild Íslands að EFTA og hin við athugun á álagningarreglum og afkomu verzlunarinnar. Í sparnaðarlögunum var gert ráð fyrir því, að kostnaður við utanríkisþjónustuna yrði á árinu 1968 lækkaður um 3 millj. kr. Upphaflega var í því sambandi hugleitt að leggja niður tvö sendiráð, en það reyndist á því stigi svo miklum erfiðleikum bundið, að frá því var horfið, en hins vegar gert ráð fyrir að fækka nokkuð starfsmönnum utanríkisþjónustunnar. Úr þessu varð þó því miður ekki á þessu ári. En utanrrn. gerði þó ráðstafanir til að lækka annan kostnað sendiráðanna um 2 millj. kr. Síðan hefur í samræmi við ályktun Alþ. verið skipuð sérstök mþn. til þess að gera heildarathugun á skipulagi utanríkisþjónustunnar og tillögur um frambúðarskipan hennar. Þykir því óeðlilegt að raska í meginefnum núverandi skipan sendiráða, áður en þessi nefnd hefur lokið störfum. Hins vegar hefur orðið um það samkomulag á milli fjmrn. og utanrrn., að fylgt verði fyrst um sinn þeirri meginreglu, að í hverju sendiráði verði auk sendiherra aðeins einn sendiráðsritari. Hefur í samræmi við það verið ákveðið að kveðja nú þegar heim tvo sendiráðsritara til viðbótar því, að lagt hefur verið niður starf sérstaks sendiherra hjá Evrópuráðinu. Bein lækkun á kostnaði við utanríkisþjónustuna verður því 4 millj. kr., þar eð til viðbótar fellur niður sérstakur kostnaður; sem varð á þessu ári við sendiráðið hjá NATO í Brüssel.

Í samræmi við ákvæði sparnaðarlaganna voru þegar á þessu ári gerðar ráðstafanir til þess að draga úr kostnaði við löggæzlu á Keflavíkurflugvelli, en í athugun er, hvort koma megi við enn frekari sparnaði á þeim útgjaldalið.

Bróðurparturinn á útgjaldahækkun fjárlagafrv. er á framlögum til fræðslumála, sem hækkar samt um 86.5 millj. kr. Þessi liður hækkar mikið frá ári til árs, en hækkunin er þó sérstaklega mikil í þetta sinn, vegna þess að með hinum nýju skólakostnaðarlögum, sem sett voru á síðasta ári, var gerð sú breyting, að vissir kostnaðarliðir, sem ríkissjóður hefur áður greitt eftir á, verða nú greiddir jafnóðum og þeir falla til, og veldur þetta 34.5 millj. kr. útgjaldaauka í eitt skipti.

Kostnaður við barnafræðsluna hækkar um 32.7 millj. kr. og við gagnfræðamenntun um 7.8 millj. kr.

Hin nýju skólakostnaðarlög tóku gildi nú á þessu hausti, en því miður hefur komið í ljós, að ákvæði laganna um ákvörðun hlutdeildar ríkissjóðs í reksturskostnaði skólanna eru að ýmsu leyti óákveðin og óljós og geta orkað tvímælis. Ég álít, að ýmislegt í þeim lögum hafi verið til bóta og þá fyrst og fremst ákvæðið um byggingarkostnað, en breytingarnar á rekstrarkostnaðarákvæðunum eru hæpnar og hafa áreiðanlega leitt til aukinnar ásóknar á ríkissjóð. Og því skiptir miklu máli, að eftirlit með framkvæmd laganna sé traust og þess vandlega gætt, að fyllsta hagsýni ríki í rekstri skólanna og varðandi fjölda kennara. Samkomulag var um þann skilning milli fjmrn. og menntmrn., að þótt kostnaðarhluttaka ríkis og sveitarfélaga sé ákveðin með öðrum hætti en áður var, hafi það verið meginstefna laganna að auka ekki kostnaðarhlutdeild ríkissjóðs, enda augljós hagnaður sveitarfélaganna af því, að ríkið skuli nú jafnóðum greiða sinn kostnaðarhluta, sem vissulega var sanngirnismál. Hin nýju ákvæði skólakostnaðarlaganna um skólabyggingar leiða til þess, að ekki er auðið að hafa jafnmarga skóla í smíðum samtímis og verið hefur, en hins vegar greiðir ríkissjóður jafnóðum hluta sinn af byggingarkostnaðinum, sem er til mikils hægðarauka fyrir viðkomandi skólahéruð og á að stuðla að því, að skólabyggingum geti orðið lokið á miklu skemmri tíma en áður, sem ætti að gera kleift að koma við útboðum og hagkvæmari vinnubrögðum, er geri byggingarnar ódýrari. Bygging nægilegs skólahúsrýmis er eitt af meiri háttar vandamálum okkar litla þjóðfélags, og er því hin brýnasta nauðsyn að leita allra úrræða til að draga úr kostnaði við skólabyggingar. Framlög ríkissjóðs verða hér eftir miðuð við ákveðna upphæð á teningsmeter skólahúsrýmis, miðuð við hagkvæma gerð skólahúss, og ætti það að vera sveitarfélögunum hvatning til þess að Stuðla að sem lægstum byggingarkostnaði skólanna.

Vegna mikillar nemendafjölgunar í menntaskólunum og þó raunar enn meiri í Kennaraskólanum hækkar fjárveiting til þessara skóla um tæpar 9 millj. kr. Nokkur hækkun verður á fjárveitingu til Háskólans, vegna þess að nú verður í haust tekin þar upp kennsla í náttúrufræðum við verkfræðideild. Er hér um svo mikið nauðsynjamál að ræða, að talið hefur verið óumflýjanlegt að fallast á þessa nýju starfsemi, en að öðru leyti hefur ekki verið talið auðið að fallast á óskir Háskólans um kennarafjölgun á næsta ári. Í síðustu fjárlagaræðu benti ég á nauðsyn þess að athuga, hvort ekki mætti nýta betur kennslukrafta Háskólans, og hefur menntmrn. það mál nú til athugunar í samráði við Háskólann.

Framlög til Lánasjóðs ísl. námsmanna hækka um 3.4 millj. kr., og hefur við ákvörðun þeirrar hækkunar, annars vegar verið miðað við verðlagshækkanir og hins vegar við fjölgun þeirra námsmanna, sem lána geta notið. Í sambandi við málefni stúdenta tel ég rétt að skýra frá því, að fallizt var á á þessu ári að veita aðstoð ríkisins til að koma upp dagheimili fyrir börn stúdenta, sem stunda nám við Háskólann. Stóð til boða hentugt hús, sem fékkst við hagkvæmu verði án útborgunar. Er leitað heimildar í fjárlagafrv. til kaupa á þessu húsi, og er gert ráð fyrir, að Félagsstofnun stúdenta fái það til umráða, en heimilið verði rekið á vegum Sumargjafar.

Bygging félagsheimilis stúdenta er nú eitt af helztu áhugamálum þeirra. Hefur háskólaráð fyrir sitt leyti samþykkt að styðja byggingu félagsheimilisins með framlagi af happdrættisfé. Veittar hafa verið í fjárl. síðustu ára samt. nær 4 millj. kr. til félagsheimilisins, en reikna verður með, að ríkissjóður þurfi að leggja fram samtals 5 millj. kr. til viðbótar. Í fjárl. yfirstandandi árs eru veittar samtals 1.8 millj. kr. til félagsheimilisins og endurbóta á Nýja Garði. Fjárhæðin er í fjárlagafrv. hækkuð í 2.5 millj., sem veittar eru í einu tagi til Fétagsstofnunar stúdenta, og verður það því ákvörðunaratriði stjórnar stofnunarinnar í samráði við menntmrn., hvernig fé þessu verður skipt milli væntanlegs félagsheimilis og viðgerða á stúdentagörðunum.

Í sparnaðarlögunum var ákveðin lækkun á framlögum til fræðslumálaskrifstofunnar, m.a. vegna fækkunar námstjóra. Hafa þessar ákvarðanir þegar komið til framkvæmda.

Beðið hefur verið um mikla hækkun fjárveitinga til hinna ýmsu rannsóknastofnana atvinnuveganna. Er hér á mörgum sviðum um hina mikilvægustu starfsemi að ræða, en ekki hefur þó verið talið fært að verða við þessum fjárbeiðnum. Er reyndar ástæða til að halda, að starfsemi stofnana þessara sé ekki eins vel skipulögð og æskilegt væri og samvinnu innan sumra stofnananna a.m.k. á ýmsan hátt ábótavant. Gildir þó ekki hið sama um allar þessar stofnanir. En mér sýnist margt benda til þess, að rannsóknastofnanirnar ættu að vera í nánari tengslum við Rannsóknaráð ríkisins og nauðsynlegt samráð um það haft milli stofnananna, að hin æskilegustu viðfangsefni séu ætíð látin sitja í fyrirrúmi. Ég tel reynsluna ótvírætt hafa leitt í ljós, að nauðsynlegt sé, að rannsóknaráðið fái til mats og umsagnar hverju sinni fjárhagsáætlanir hinna einstöku rannsóknastofnana.

Þegar fjárlagafrv. var samið, var ekki vitað um verðlag eða framleiðslumagn búvöru á næsta ári, en gert var ráð fyrir, að uppbætur á útfluttar landbúnaðarafurðir mundu hækka um 22 millj. kr. Þar eð hækkun búvöru varð meiri en áætlað var, mun þessi upphæð þurfa að hækka enn um 57 millj. kr. Þá hefur ekki verið talið varlegt annað en hækka framlag til jarðræktar og framræslu um 10 millj. kr., þar eð þessi framlög munu í ár fara um 15 millj. kr. fram úr áætlun fjárl.

Fjárveitingin til Landnáms ríkisins var lækkuð um 7.5 millj. kr. í fjárlagafrv., svo sem gert var í ár með sparnaðarlögunum. Hlýtur þó mjög að koma til álita miðað við allar aðstæður, hvort ekki sé nauðsynlegt að taka starfsemi landnámsins í heild til athugunar vegna breyttra aðstæðna, og jafnframt er æskilegt að endurskoða jarðræktarstyrkina, ekki í því skyni að draga úr ræktun landsins, því að aukin ræktun er brýn nauðsyn, ekki sízt til þess að geta dregið úr óhæfilegri notkun fóðurbætis, heldur vegna þess, að ástæða er til að álíta. að vissar tegundir jarðræktarframkvæmda njóti nú orðið óeðlilega hárra styrkja vegna nýrrar tækni.

Í sparnaðarlögunum var 30 millj. kr. fjárframlag til Fiskveiðasjóðs fellt niður í ár, þar eð talið var, að framlag ríkisins til Stofnfjársjóðs fiskiskipa, er fyrst og fremst var ætlað að standa undir afborgunum og vaxtagreiðslum af lánum úr Fiskveiðasjóði, mundi bæta svo fjárhagsaðstöðu sjóðsins, að auðið væri að fella þetta ríkisframlag niður í ár. Því miður hefur staða Fiskveiðasjóðs versnað mjög mikið allra síðustu árin og stafar í senn af miklum skipakaupum, stórauknum vanskilum og nú síðast minnkandi tekjum vegna minni sjávarafla. Í ár tókst að leysa vanda Fiskveiðasjóðs, þar eð hann fékk i sinn hluta verulega fjárhæð af gengismun, og að auki fékk sjóðurinn 64 millj. kr. af enska láninu. Var þannig um að ræða 180 millj. kr. fjáröflun, sem ekki kemur til á þessu ári. Eru því horfur á stórfelldri fjárvöntun sjóðsins á næsta ári, nema hægt sé að leysa svo fjárhagsörðugleika útgerðar og fiskvinnslu, að þessar atvinnugreinar geti staðið að fullu í skilum um skuldbindingar sínar gagnvart Fiskveiðasjóði og hækkun verði aftur á tekjum sjóðsins á útflutningsgjaldi. Er þess að vænta, að fjárhagshorfur Fiskveiðasjóðs verði ljósari, áður en fjárlagaafgreiðslu lýkur, og þá metið, hvort óumflýjanlegt reynist að taka upp einhverja fjárveitingu til sjóðsins að nýju.

Í fjárlagafrv. er gert ráð fyrir, að framlagið til Aflatryggingasjóðs verði skert með sama hætti og gert var með sparnaðarlögunum á þessu ári. Ógerlegt hefur reynzt að fá greiðsluáætlun fyrir sjóðinn, og verður að reyna að kanna það betur, áður en fjárlög verða afgreidd, hvort sjóðurinn geti ekki, þrátt fyrir þessa skerðingu, staðið undir skuldbindingum sínum.

Með hinum nýju lögum um Fiskmat ríkisins, þar sem hinar ýmsu matsgreinar eru sameinaðar undir einni yfirstjórn, var að því stefnt, að matið gæti í senn orðið virkara og ódýrara. Var í sparnaðarlögunum ráðgert að lækka fjárveitingu til fiskmats samtals um 3 millj. kr. Lögin komu það seint til framkvæmda, að þessi sparnaður verður ekki að veruleika á þessu ári, en á það hefur verið lögð áherzla við yfirstjórn fiskmatsins, að hinn fyrirhugaði sparnaður verði að vera raunhæfur á næsta ári, og eru fjárveitingar við það miðaðar.

Kostnaður vegna breytingar í hægri umferð, sem áætlaður var 34.6 millj. kr. í fjárlögum, fellur nú niður. Raunverulega var þó ekki um bein útgjöld ríkissjóðs á þessum lið að ræða í ár, vegna þess að að svo miklu leyti sem kostnaðurinn ekki greiddist af skattgjaldi á bifreiðar, var hann greiddur með sérstakri lántöku í samræmi við sparnaðarlögin. Heildarkostnaður við breytingu í hægri umferð er talinn hafa orðið 68.5 millj. kr. Hið sérstaka gjald á bifreiðar, sem á var lagt til að mæta þessum kostnaði og átti að greiðast á 4 árum, mun væntanlega ekki nægja til að standa undir þessum kostnaði, en ég tel óumflýjanlegt, að þetta gjald verði innheimt lengur, svo að auðið verði að greiða kostnaðinn eins og til stóð.

Í sparnaðarlögunum var ákveðið að stefna að því að lækka heildarkostnað við löggæzlu um 5%. Skýrði ég í umr. um frv. frá því, að litlar líkur væru til, að sá sparnaður gæti orðið raunhæfur á þessu ári, heldur bæri fremur að taka þessar till. sem stefnumörkun. Sérstök n. hefur unnið að athugun málsins í sumar, og hefur hún þegar skilað bráðabirgðatill. til dómsmrn., sem eru þar í athugun. Er þess að vænta, að auðið verði að framkvæma hinn fyrirhugaða sparnað, þótt gera megi ráð fyrir, að flestar ráðstafanir í þá átt mæti meiri eða minni andbyr, þegar reiknað er með þessari lækkun í fjárlagafrv. nú.

Ætla verður nú fyrir sérstöku framlagi til Landhelgissjóðs 5.4 millj. kr. til greiðslu vaxta og afborgana af lántöku í sambandi við smíði nýja varðskipsins Ægis. Engu að siður verður um að ræða allverulegan sparnað hjá Landhelgisgæzlunni, sem stafar af því, að með tilkomu nýja varðskipsins er ætlunin að leggja hinum minni skipum, sem hafa verið mjög dýr í rekstri og óhagkvæm, og sömuleiðis er nú aftur ákveðið ráð fyrir því gert, að Landhelgisgæzlan yfirtaki vitaskipið, og er í því sambandi felld algerlega niður fjárveiting til rekstrar þess á vegum vitamálanna. Raunverulega var tekin um þetta ákvörðun við afgreiðslu síðustu fjárl., en eitthvert óskiljanlegt tregðulögmál hefur valdið því, að ekki hefur tekizt, þrátt fyrir ítrekaðar kröfur, að fá þessa breytingu framkvæmda, og vil ég ekki ásaka einn né neinn í þessu efni, en hér er aðeins gott dæmi um það, hversu oft er erfitt að koma við skipulagsbreytingum. Með því að taka fjárveitinguna nú alveg af vitamálaskrifstofunni verður ekki lengur auðið að spyrna gegn þessari skipulagsbreytingu, sem tvímælalaust virðist geta leitt til mjög verulegs sparnaðar, enda þótt ekki sé reiknað með að skerða í neinu nauðsynlega þjónustu við vitana.

Áætlað er, að rekstrarhalli ríkisspítalanna muni hækka um rúmar 20 millj. kr. á næsta ári, og er þá miðað við óbreytt daggjöld. Enda þótt erfitt sé að meta starfsmannaþörf sjúkrahúsa, hefur ekki verið fallizt á beiðni um viðbótarstarfslið, nema þar sem sýnilegt var vegna nýrrar starfsemi, að þörf var á viðbótarstarfsliði.

Nýlega hefur verið fengið til Landsspítalans tæki til meðferðar vissra nýrnasjúkdóma, sem hingað til hefur orðið að framkvæma á sjúkrahúsum erlendis, og jafnframt hefur verið fengin aðstaða til greiningar hjartasjúkdóma, sem ekki hefur heldur verið fyrir hendi hér á landi. Var talið sjálfsagt að veita fé til þessarar auknu heilsugæzlu. Annars er það hið brýnasta nauðsynjamál að kanna varðandi sjúkrahús eigi síður en skóla, hvernig þessari lífsnauðsynlegu þjónustu við borgarana verði sem hagkvæmast fyrir komið, því að hér er um þungan og sívaxandi bagga að ræða. Virðast ýmsar leiðir koma til greina, sem ég hef ekki ástæðu til að gera hér að umtalsefni, en leitað hefur verið sérfræðiaðstoðar til að athuga skipan sjúkrahúsmála hér, sem til þessa hefur því miður þó ekki skilað þeim árangri, sem vonazt var til, en nauðsynlegt er að kanna öll tiltæk úrræði til þess að geta veitt sem bezta heilbrigðisþjónustu á sem hagkvæmastan hátt.

Á síðasta þingi var gerð veigamikil breyting varðandi ákvörðun daggjalda á sjúkrahúsum með það fyrst og fremst fyrir augum að dreifa réttlátar en áður kostnaði við rekstur sjúkrahúsanna. Ýmis vandamál koma í ljós, er framkvæma á þessi nýju lög, og hefur ekki endanleg ákvörðun verið tekin um það, hversu bregðast skal við þeim vanda, sem fyrst og fremst er fólginn í kostnaðarskiptingunni, og því, að daggjöld þurfa að vera mjög mismunandi há á hinum ýmsu sjúkrahúsum. Endanleg niðurstaða varðandi daggjöldin verður auðvitað að liggja fyrir áður en fjárlög eru afgreidd, en vafalaust reynist óumflýjanlegt vegna hagsmuna sjúkrahúsa sveitarfélaganna að hækka eitthvað daggjöldin, sem mun valda ríkissjóði hreinum útgjaldaauka, þótt rekstrarhallinn á ríkisspítölunum lækki.

Heildarframlög vegna lífeyris, sjúkra- og slysatrygginga að meðtöldum iðgjöldum atvinnurekenda og hinna tryggðu eru áætluð 1 milljarður 490 millj. á næsta ári, sem er 196 millj. kr. hækkun frá fjárlögum 1968. Raunveruleg hækkun er þó ekki svona mikil, og verður að hafa það í huga við mat á þessum tölum, því að sú skipulagsbreyting kemur til framkvæmda á þessu ári, að Tryggingastofnunin yfirtekur ríkisframfærsluna, en sá kostnaður nemur rúmum 121 millj. kr. í fjárl. yfirstandandi árs. Aukning á beinu framlagi ríkissjóðs í kerfið er rúmar 35 millj. kr., sem skiptast þannig, að til sjúkratrygginga að meðtalinni ríkisframfærslu er hækkun 40.3 millj., til atvinnuleysistrygginga 4 millj., en framlag til lífeyristrygginga lækkar um 9.2 millj., vegna þess að ríkissjóður hafði greitt óeðlilega hátt framlag til þeirra á s.l. ári. Framlög til sjúkratrygginganna eru áætluð í frv. eftir hinum eldri lögum, en komi til hækkunar daggjalda, verður sú fjárhæð að hækka.

Hafin er almenn athugun á hinum mörkuðu tekjustofnum, og mun ég ekki nú gera þá að umtalsefni, en tel þó rétt að minnast á einn þeirra, þar sem hækkunin er langmest, en það er Vegasjóður. Samkv. bráðabirgðaáætlun er gert ráð fyrir, að tekjur hans hækki um 165.9 millj. kr. vegna nýrrar tekjuöflunar til sjóðsins, sem samþ. var á síðasta þingi.

Í A-hluta fjárlagafrv. er gerð lausleg áætlun um ráðstöfun á fé til vegagerðar á næsta ári, en til þess að koma í veg fyrir misskilning skal tekið fram, að hér er um algerar áætlunartölur að ræða, sem samgmrn. er ekki ábyrgt fyrir, því að svo sem hv. þm. er kunnugt á samkv. vegal. að samþykkja á þessu þingi nýja vegáætlun, þar sem að sjálfsögðu verður að ákveða endanlega, hvernig fé Vegasjóðs verður ráðstafað, og má því ekki skilja áætlunartölur fjárlagafrv. sem neina ákvörðun eða ákveðna till. um ráðstöfun á fé Vegasjóðs. Lagningu vegarins milli Reynihlíðar og Húsavíkur vegna Kísiliðjunnar verður lokið á þessu ári, og fellur því niður 15 millj. kr. fjárveiting til þess vegar, en í þess stað þarf að taka upp sérstaka fjárveitingu til greiðslu lána vegna vegarins, 8 millj. kr.

Tekin er upp ný fjárveiting vegna Skipaútgerðar ríkisins, 25 millj. kr., vegna byggingarkostnaðar nýju strandferðaskipanna. Hafa verið gerðir samningar við Seðlabankann um lánsfjáröflun til þessara framkvæmda, en samningsverð beggja skipanna er um 110 millj. kr. Átti Skipaútgerðin sjálf aðeins um 12.6 millj. kr. til að standa straum af byggingarkostnaði skipanna, og mun því ríkissjóður á næstu árum verða að leggja fram verulegt fé til greiðslu byggingarkostnaðarins. Verður að sjálfsögðu á þessu stigi engu um það spáð, hversu há endanleg framlög ríkissjóðs þurfa að verða, en þótt gert sé ráð fyrir, að hin nýju skip geri kleift að lækka verulega rekstrarhalla Skipaútgerðarinnar, er það væntanlega of mikil bjartsýni að gera ráð fyrir því, að útgerðin geti staðið undir nema mjög takmörkuðum hluta byggingarkostnaðar skipanna, og gæti þó orðið um þennan hagnað að ræða fyrir ríkissjóð, þegar höfð eru í huga hin háu framlög til greiðslu rekstrarhalla Skipaútgerðarinnar nú. Þar til hin nýju skip verða tiltæk, mun þurfa að gera ýmsar bráðabirgðaráðstafanir til þess að halda uppi nauðsynlegri þjónustu Skipaútgerðarinnar við landsbyggðina, því að í síðasta lagi næsta vor verður að taka Esju úr umferð, en hún hefur reynzt mjög dýr og óhagkvæm í rekstri, og virðist ótvírætt hagkvæmara að leysa flutningavandamálin tímabundið með leiguskipum.

Flóabátamálin hljóta einnig að koma til rækilegrar endurskoðunar. Vegna mjög bættra samgangna hefur t.d. starfsgrundvelli að verulegu leyti verið kippt undan Norðurlandsbáti, og óviðunandi er með öllu að þurfa að greiða stórfé til styrktar á rekstri farþegaskips milli Reykjavíkur og Akraness eingöngu vegna þess. hversu núverandi skip er óhagkvæmt í rekstri.

Áætlað er, að á næsta ári verði fylgt sömu reglum um niðurgreiðslur á vöruverði, og hækka því fjárveitingar aðeins um 1 millj. kr.

Fjárveiting vegna kostnaðar við toll- og skattheimtu er hækkuð um 2 millj. kr. Er þó mjög vafasamt, að sú áætlun geti staðizt miðað við raunverulegan kostnað á þessu ári og umframgreiðslur á árinu 1966. En svo sem ég hef áður vikið að, verður að leita allra úrræða til að draga úr kostnaði við toll- og skattheimtu, án þess þó að draga úr nauðsynlegu öryggi varðandi eftirlit með toll- og skattstigum.

Framlög til lífeyrissjóða hafa verið ofáætluð í fjárl. yfirstandandi árs, og lækka þau framlög um rúmar 6 millj. kr.

Fjárveitingar til annarra mála á vegum fjmrn. hækka samtals um 19.3 millj. kr. 10 millj. af þeirri hækkun stafa af stórhækkuðum vaxtaútgjöldum vegna hinnar slæmu stöðu ríkissjóðs gagnvart Seðlabankanum. 1 millj. kr. er áætluð til greiðslu ýmiss málskostnaðar og greiðslu dómskrafna; sem kunna að falla á ríkissjóð. Er alltaf um verulegan árlegan kostnað að ræða vegna ýmissa málssókna á hendur ríkissjóði, og hefur ekki sérstaklega verið áætlað fyrir þeim útgjöldum áður.

Loks er framlag til Ríkisábyrgðasjóðs hækkað um 9 millj. kr. og verður þá 85 millj. kr. Er það þó mun lægri fjárhæð en framkvæmdastjórn Ríkisábyrgðasjóðs áætlar, að þurfi til að standa straum af skuldbindingum sjóðsins á næsta ári. Frá því að lög um Ríkisábyrgðasjóð voru sett, bötnuðu skilyrði ríkisábyrgðalána stöðugt ár frá ári, þar til á árinu 1967, að þáttaskil urðu í þeim efnum vegna stórvaxandi erfiðleika atvinnuveganna. Varð útkoman á því ári sú, að í stað þess að framlag til Ríkisábyrgðasjóðs var lækkað um 15 millj. kr. í sambandi við fjáröflun til aðstoðar við útgerðina á því ári reyndist óumflýjanlegt að greiða til sjóðsins 15 millj. kr. umfram fjárveitingu á árinu, og varð því heildarfjárveiting til sjóðsins á því ári 65 millj. kr. Var orsökin fyrst og fremst sú, að á þessu ári féllu á Ríkisábyrgðasjóð mjög háar ábyrgðagreiðslur vegna tveggja aðila. Heildargreiðslur Ríkisábyrgðasjóðs á árinu 1967 vegna ábyrgðarskuldbindinga urðu um 251 millj. kr., en á árinu innheimtust ekki nema 176 millj. kr. Vissar stórar ábyrgðarskuldbindingar, sem féllu á sjóðinn á s.l. ári, hafa síðan verið teknar til rækilegrar rannsóknar, og vonast ég fastlega til, að ekki verði um svipuð áföll að ræða á þessu ári, en engu að síður er mjög mikil hætta á því vegna almennra greiðsluerfiðleika, að Ríkisábyrgðasjóður verði fyrir verulegum áföllum á þessu ári og verði því ekki raunhæf sú 10 millj. kr. lækkun á framlagi til sjóðsins, sem sparnaðarlögin gerðu ráð fyrir. Hefur afkoma atvinnuveganna að sjálfsögðu grundvallarþýðingu fyrir stöðu Ríkisábyrgðasjóðs.

Í sambandi við stöðu Ríkisábyrgðasjóðs er rétt að víkja að einni tegund ríkisábyrgða, sem veitt hefur verið hömlulaust sem sjálfskuldarábyrgð, þrátt fyrir hin nýju lög um ríkisábyrgðir þar til nú á þessu ári, að þær ábyrgðir eru veittar með sama hætti og aðrar ríkisábyrgðir. Á ég hér við ábyrgðir af lántökum vegna hafnargerða, sem breyttust með lögfestingu laga um hafnargerðir á s.I. ári. Margar hafnargerðir standa í óbættum sökum við Ríkisábyrgðasjóð, en lögum samkv. er ekki leyfilegt að veita ríkisábyrgðir þeim aðilum. um eru í vanskilum við sjóðinn. Hefur þetta valdið miklum erfiðleikum í ár á ýmsum stöðum. Þennan vanda tel ég. að verði að leysa með þeim hætti að gera verður sér grein fyrir óhjákvæmilegum hafnarbótum á viðkomandi stöðum og kostnaði við þær á næstu árum, athuga greiðslugetu viðkomandi hafnarsjóða og sveitarsjóða og undir hversu háum afborgunum og vaxtagreiðslum þessir sjóðir fái risið. Samið verði síðan við Ríkis­ ábyrgðasjóð um greiðslu vanskilanna til nokkurs tíma. en Hafnarbótasjóður taki síðan að sér að greiða þann hluta afborgana og vaxta, sem sjáanlegt er, að ekki verði undir risið heima fyrir, og verði gengið út frá því, að slík aðstoð verði endurgreidd Hafnarbótasjóði, þegar viðkomandi hafnargerð verður þess megnug. Sjálfsagt er, að þær hafnargerðir, sem slíkrar sérstakrar aðstoðar njóta, verði undir sterku fjárhagseftirliti hafnarmálastjórnar eða samgmrn. Svipuð hugsun mun hafa legið að baki n. þeirrar, sem undirbjó nýju hafnalögin, er hún gerði ráð fyrir nýrri tekjuöflun til Hafnarbótasjóðs. Því miður neitaði Alþ. að fallast á hina nýju tekjuöflun, en breytti hins vegar ekki fyrirhuguðum skuldbindingum sjóðsins. Ég geri mér ljósa grein fyrir því, að með 8 millj. kr. árlegu ríkisframlagi eru litlar líkur til þess, að Hafnarbótasjóður fái staðið undir þeim skuldbindingum, er leiða mundu af þessum vinnubrögðum. En ég tel miklum mun æskilegra að auka fjárveitingu til Hafnarbótasjóðs heldur en halda áfram að leysa fjárhagsmál hafnanna með því að greiða óreiðuskuldir þeirra úr Ríkisábyrgðasjóði. Mundi sú lausn heldur ekki verða hugsanleg, eftir að farið er að veita aðeins einfaldar ábyrgðir af lánum vegna hafnagerða.

Varðandi skiptingu fjárveitingar til einstakra hafna vona ég, að um það geti tekizt samkomulag eins og við afgreiðslu fjárl. yfirstandandi árs, að fjárveitingar til einstakra hafnagerða verði við það miðaðar að greiða að fullu ríkishlutann. sem á mundi falla á næsta ári.

Meginstefna fjárlagafrv. varðandi fjárveitingar til opinberra framkvæmda er sú, að þær fjárveitingar eru hinar sömu og í fjárl. yfirstandandi árs að frádregnum þeim fjárveitingum, sem í sparnaðarlögunum voru felldar niður í ár til bygginga, sem fyrirhugaðar eru, en ekki hefur verið byrjað á. Hins vegar eru teknar í fjárlagafrv. þær 62.6 millj. kr. til byggingar menntaskóla og ríkissjúkrahúsa, sem felldar voru úr fjárl. með sparnaðarlögunum og fjármagnaðar í ár með lántöku, þar eð sams konar lántökur á næsta ári til þeirra framkvæmda eru óhugsandi. Hafa því fjárveitingar ríkissjóðs til verklegra framkvæmda raunverulega verið hækkaðar sem þessu nemur í fjárlagafrv. Líklegt er þó, að fjárveitingar til opinberra framkvæmda þurfi enn að hækka um 50–60 millj. kr., og mun ég nánar ræða þann vanda, er ég kem að framkvæmdaáætlun ríkisins fyrir næsta ár.

Heildartekjur á rekstrarreikningi fjárlagafrv. eru áætlaðar 6 milljarðar 592.1 millj. kr., sem er 350.6 millj. kr. hækkun frá fjárl. 1968. Af þessari fjárhæð nema fyrir fram ráðstafaðir tekjustofnar 1 milljarði 469.4 millj. kr., sem er 240.9 millj. kr. hækkun frá fjárl. 1968 eða 19.6%. Er bróðurpartur þeirrar hækkunar vegna nýrrar fjáröflunar til Vegasjóðs. Gert er ráð fyrir, að ríkistekjur að frátöldum þessum ráðstöfuðu tekjustofnum hækki um 109.7 millj. eða aðeins 2.2%. Rekstrarafgangur verður þá 119.7 millj. kr., en þar sem halli á lánahreyfingum nemur 68.2 millj., verður greiðsluafgangur í heild 51.5 millj. kr.

Tekjuáætlun þessi er byggð á mjög ótraustum grundvelli, því að í ágústmánuði skorti ótal forsendur til þess að gera sér raunhæfa grein fyrir tekjuhorfum ríkissjóðs á næsta ári. Í meginatriðum má segja, að tekjuáætlunin sé byggð á því, að innflutningur, atvinnustig og viðskiptavelta verði í heild ekki lakari á næsta ári en í ár. Er þó ekki reiknað með þeirri aukningu, sem eðlileg er á venjulegum tíma vegna fólksfjölgunar. Verður auðvitað að endurskoða tekjuáætlunina frá grunni, eftir að ákvarðanir hafa verið teknar um meginstefnuna í efnahagsmálum og til hvaða ráða verður gripið til þess að rétta við hag útflutningsframleiðslunnar. Ég tel því á þessu stigi ekki ástæðu til þess að ræða nánar einstaka tekjustofna ríkissjóðs, en samkv. frv. er gert ráð fyrir því, að núverandi tekjustofnar miðað við þær forsendur, sem ég hér hef nefnt, muni nægja á næsta ári til þess að standa straum af kostnaði við ríkisreksturinn, ef því stranga aðhaldi er beitt, sem fjárlagafrv. gerir ráð fyrir varðandi útgjöld ríkissjóðs. Sérhverjum nýjum kröfum á ríkissjóð verður hins vegar að mæta með nýrri tekjuöflun, og það er meginviðfangsefni, sem Alþ. þarf nú að leysa.

Á undanförnum árum hefur framkvæmdaáætlun ríkisins fyrir ár hvert ekki komið til kasta Alþ. á annan veg en þann, að leitað hefur verið heimildar þingsins fyrir lántökum til ýmissa framkvæmda í framkvæmdaáætluninni og Alþ. jafnframt verið gerð grein fyrir áætluninni í einstökum atriðum jafnhliða því, sem flutt hefur verið skýrsla um heildarþróun framkvæmda og fjárfestingar í landinu og horfur á því tiltekna ári. Hefur framkvæmdaáætlunin náð bæði til einstakra þátta ríkisframkvæmda, þar sem gerð hefur verið grein fyrir nauðsynlegri fjáröflun umfram fjárveitingar fjárl. hverju sinni og leiðum til fjáröflunar, og einnig til fjárfestingarlánasjóða atvinnuveganna, bæði fjárþarfa þeirra og fjáröflunarúrræða. Með löggjöfinni um Framkvæmdasjóð ríkisins var þeim sjóði fengið það viðfangsefni að afla fjár til stofnsjóða atvinnuveganna, og er því sá þáttur framkvæmdaáætlunarinnar í rauninni ekki lengur nema óbeint verkefni ríkisstj. Eftir er þá aðeins að gera sér grein fyrir stefnunni varðandi ríkisframkvæmdirnar sjálfar og fjáröflun til þeirra. Í sambandi við afgreiðslu Alþ. á lántökuheimildum vegna framkvæmdaáætlunar ársins 1968, sem voru nokkuð seint á ferðinni vegna hinnar miklu óvissu í efnahags- og fjármálum, lýsti ég því yfir, að ég mundi stefna að því, að drög að framkvæmda- og fjáröflunaráætlun gæti fylgt fjárlagafrv. fyrir árið 1969. Jafnhliða undirbúningi fjárlagafrv. í júlí- og ágústmánuði var því unnið að drögum að framkvæmdaáætlun fyrir árið 1969 varðandi ríkisframkvæmdir, sem kemur þá ásamt fjárlagafrv. til athugunar í fjvn. og síðan endanlegrar ákvörðunar Alþ. á sama hátt og fjárl. Er hér vitanlega aðeins um drög að framkvæmdaáætlun að ræða til þess ætluð að draga upp mynd af annars vegar ríkisframkvæmdum, sem óhjákvæmilegt er talið að vinna að umfram það, sem gert er ráð fyrir í fjárlagafrv., og jafnframt hugsanlegri fjáröflun til þeirra framkvæmda. Mun ég nú í stuttu máli gera grein fyrir þessari framkvæmdaáætlun.

Vegna 2 millj. sterlingspunda lántöku á þessu ári reyndist auðið að leysa fjárhagsvandamál stofnsjóða atvinnuveganna og afla nauðsynlegs lánsfjár vegna framkvæmdaáætlunar ríkisins. Slík stór lántaka erlendis til þess að leysa almenn framkvæmdavandamál í landinu er óhugsandi aftur á næsta ári. og vegna stöðugt aukinna erfiðleika á peningamarkaði innanlands verður ekki auðið að afla samsvarandi fjárhæðar á innlendum markaði nema með því að þrengja óhæfilega lánsfjáraðstöðu atvinnuveganna eða tefla greiðslustöðunni út á við í stórfellda hættu. Er því óhugsandi að ætla bankakerfinu sjálfu stærri hluta en að leggja fram hluta af sparifjáraukning til stofnlánusjóða atvinnuveganna, eins og gert hefur verið undanfarin ár og er því ekki um aðra fjáröflun að ræða til ríkisframkvæmda umfram fjárveitingar í fjárl. en annars vegar útgáfu spariskírteinalána og hins vegar hugsanlega notkun PL-480 láns, sem þó hefur ekki enn þá samizt um við Bandaríkjastjórn. Eins og ástatt er í peningamálum, virðist óraunhæft með öllu að gera ekki ráð fyrir einhverri lækkun spariskírteinaláns á næsta ári, og er á þessu stigi áætlað, að sala nýrra spariskírteina og endurgreiðslur af spariskírteinalánum, sem ekki ganga til innlausnar á bréfum, geti numið um 120 millj. kr. á næsta ári og PL-480 lán geti numið 50 millj. kr. Gæti því heildarfjáröflun til ríkisframkvæmda orðið 170 millj. kr. í stað 330 millj. kr. á þessu ári. Með hliðsjón af atvinnuástandi yrði það að sjálfsögðu eðlileg stefna að geta aukið verulega opinberar framkvæmdir á næsta ári á sama hátt og eðlilegt var að takmarka þessar framkvæmdir meðan ofþensla var á vinnumarkaðinum. Með hliðsjón af þessari nauðsyn var einmitt enska lánið tekið á þessu ári. Því miður er hins vegar vandinn sá, að hinn almenni samdráttur í framkvæmdum einkaaðila stafar af stórfelldum allsherjarefnahagserfiðleikum þjóðarinnar, sem torveldar stórlega lánsfjáröflun til opinberra framkvæmda svo sem til annarra framkvæmda og torveldar jafnframt nýjar skattaálögur vegna almennrar kjaraskerðingar. Það er líka ljóst, að opinberar framkvæmdir geta aldrei leyst meginvanda atvinnulífsins, og þess vegna má fjáröflun til þeirra ekki verða til þess að auka enn á erfiðleika atvinnuveganna. En það sýnist hins vegar augljóst, að vilji menn nú verulegar opinberar framkvæmdir, verður það að gerast með nýrri skattheimtu, en ekki með lántökum. Það getur auðvitað orkað tvímælis, hvaða opinberar framkvæmdir eigi að sitja í fyrirrúmi, en það er sammerkt með öllum þeim framkvæmdum, sem taldar eru í drögum að framkvæmdaáætlunum ársins 1969, það þær eru flestar eða allar óumflýjanlegar af ýmsum ástæðum, og hefur það sjónarmið ráðið vali framkvæmdanna. Hugsanlegt er þó með einstakar þessara framkvæmda, að þeim megi fresta.

Gert er ráð fyrir, að 168 millj. af hugsanlegri 170 millj. kr. lánsfjáröflun verði varið þannig:

Í fyrsta lagi 50 millj. kr. til Búrfellsvirkjunar, sem er 25 millj. kr. lægri fjárhæð en afla þurfti í framkvæmdaáætlun yfirstandandi árs. Vegna aukins kostnaðar við Búrfellsvirkjun er þessi fjáröflun óumflýjanleg.

Í öðru lagi verði 55 millj. ráðstafað til annarra raforkuframkvæmda, þar af 15 millj. vegna gufuaflsstöðvar í Námaskarði, sem ákveðið hefur verið, að Laxárvirkjun reisi, og jarðborana í sambandi við þá stöð vegna Kísiliðjunnar. Þessi fjáröflun er einnig óumflýjanleg. 40 millj. kr. er áætlað, að þurfi til ýmissa framkvæmda á vegum Rafmagnsveitna ríkisins, m.a. vegna áframhalds Smyrlabjargaárvirkjunar, sem nú þegar hefur verið samið um, og til lagningar háspennulína til þess að geta lagt niður dísilrafstöðvar, sem eru óhagkvæmar í rekstri. Hugsanlegt gæti verið að fresta einhverri þessara framkvæmda, og er það í nánari athugun.

Í ár og í fyrra þurfti að afla mikils lánsfjár vegna landshafnanna til þess að ljúka framkvæmdum, sem verksamningar höfðu verið gerðir um. Á næsta ári ætti að vera auðið að draga verulega úr framkvæmdum við þessar hafnir, og eru því áætlaðar 7 millj. kr. til þeirra vegna brýnna viðbótarframkvæmda í stað 40 millj. kr. á yfirstandandi ári.

Þá hafa skuldbindingar verið gefnar um aðstoð til fjáröflunar vegna Hafnarfjarðarvegar í Kópavogi. Var aflað 10.9 millj. kr. lánsfjár í ár til þeirrar framkvæmdar, en lánsfjárþörfin hefði getað orðið allt að 36 millj. kr. á næsta ári. Virðist þessi lánsfjáröflun vera óumflýjanleg. Rétt er, að það komi fram, að þessi dýra vegarframkvæmd verður að lokum borin uppi af Kópavogskaupstað sjálfum á þann hátt, að vegasjóðsframlag það, sem kaupstaðurinn á rétt á, gengur til framkvæmdanna, og er því hér aðeins um fjáröflun að ræða.

Þá er loksins hið stöðuga fjáröflunarvandamál vegna Reykjanesbrautar, en greiðslur vaxta og afborgana vegna hennar eru mjög þungar á næstu árum og miklu þyngri en tekjur brautarinnar af veggjaldi og framlagi til hennar í vegáætlun, eins og það er nú ákveðið. Hér er því um fjáröflun að ræða til lengingar lánum, og er áætlað, að afla þurfi 20 millj. kr. í því skyni, sem þó er ófullnægjandi nema aðrar ráðstafanir verði gerðar til fjáröflunar, annaðhvort með hækkun framlags úr Vegasjóði eða hækkun umferðargjaldsins eða hvort tveggja. Verður það að metast í sambandi við afgreiðslu vegáætlunar, að óumflýjanlegt er að finna viðhlítandi lausn á greiðsluvandamálum þessarar vegagerðar, því að án aukinna óafturkræfra framlaga til hennar er óhugsandi að losna við skuldabaggann. Þessi fjáröflun verður einnig að teljast óumflýjanleg. Með þessum hætti yrði ráðstafað öllu hugsanlegu lánsfé til ríkisframkvæmda á næsta ári. Engu að síður eru ótaldar ýmsar framkvæmdir, sem mjög mikilvægt verður að teljast að afla fjár til en sem ekki er sjáanlegt, að hægt sé að afla fjár til nema með beinum fjárveitingum í fjárl.

Þar sem meginstefna fjárlagafrv. er sú að halda óbreyttum fjárveitingum til opinberra framkvæmda miðað við fjárl. yfirstandandi árs eins og frá þeim var gengið fyrir áramótin í fyrra, hefur á þessu stigi málsins ekki þótt rétt að gera ákveðnar till. um beinar fjárveitingar til þessara framkvæmda, heldur talið eðlilegt, að það verði metið í samráði við fjvn., að hve miklu leyti þessar framkvæmdir verði taldar óumflýjanlegar, og þá eftir að endanleg tekjuáætlun hefur verið gerð, að hve miklu leyti þær geti rúmazt innan greiðslugetu ríkissjóðs á næsta ári.

Ríkisstj. hefur talið nauðsynlegt í ár að veita nokkra viðbótarfjárveitingu til þess að hraða eftir föngum athugun á saltvinnslu á Reykjanesi, sem er forsenda sjóefnavinnslu og vítissódaverksmiðju, sem hugsanlegt er, að samningar gætu tekizt við Swiss Aluminium um að reisa hér á landi. Reynist þessar bráðabirgðaathuganir nægilega jákvæðar, er nauðsyn verulegs fjár til framhaldsrannsókna, og svo sem ástatt er í þjóðfélaginu, er augljós nauðsyn þess, að slíkar framhaldsrannsóknir stöðvist ekki sökum fjárskorts. Er því talið nauðsynlegt að áætla 12 millj. kr. til þeirra framkvæmda og jarðborana í því sambandi.

Þá væri og mikilvægt að geta haldið áfram byggingarframkvæmdum vegna rannsóknastofnana atvinnuveganna á Keldnaholti. Rannsóknastofnun landbúnaðarins er þegar flutt þangað, en húsnæði það, sem henni var upphaflega ætlað, er óhóflega stórt miðað við núverandi aðstæður, og væri aðstaða til að koma þar einnig fyrir Rannsóknastofnun iðnaðarins, en til þess mundi þurfa 15 millj. kr. fjáröflun. Vegna mikilla húsnæðiserfiðleika Háskólans væri einnig brýn nauðsyn að geta losað sem fyrst núverandi húsnæði iðnaðardeildar í húsi Atvinnudeildar Háskólans og því af mörgum ástæðum æskilegt, að hægt væri þegar á næsta ári að útbúa húsnæði fyrir iðnaðardeildina á Keldnaholti.

Á síðustu árum hefur verulegs fjár verið aflað til framkvæmda í flugmálum með lántökum, og er áætlað, að afla þurfi á næsta ári 10 millj. kr. til viðbótar núverandi fjárveitingum til flugvallagerðar. Enn á langt í land að ljúka framkvæmdum við Landspítalann. Er tekin aftur í fjárlagafrv. 37 millj. kr. fjárveiting til þeirrar framkvæmdar, sem fjármagna varð með lántöku á yfirstandandi ári. Gert er ráð fyrir, að þessi fjárhæð þurfi enn að hækka um 7 millj.

Enn fremur er talið, að þurfi að afla 7 millj. kr. vegna byggingar lögreglustöðvarinnar í Reykjavík; og er það sama fjárhæð og aflað var í framkvæmdaáætlun yfirstandandi árs.

Þá er loks óumflýjanlegt að afla 6 millj. kr. umfram fjárlagafjárveitingu til byggingar menntaskólanna. Hefði fjárþörfin raunverulega verið enn meiri miðað við áætlanir um þær framkvæmdir, en með því að fresta sumum framkvæmdanna á að vera auðið að leysa hin brýnustu viðfangsefni á þessu sviði með slíkri viðbótarfjáröflun.

Mér er það vel ljóst, að margvíslegum öðrum opinberum framkvæmdum væri æskilegt að hraða eða hefjast handa um, og eru hér aðeins nefndar þær framkvæmdir, sem erfiðast sýnist vera að komast undan að sinna. Hvort mönnum við nánari athugun kann að sýnast eitthvað annað mikilvægara eða hvort menn telja auðið að sinna fleiri viðfangsefnum, skal ég ekki fullyrða um á þessu stigi. en legg aðeins enn og aftur ríka áherzlu á það, að tilgangslaust er að hugsa sér fjárhagslega lausn slíkra mála á þann hátt að veita ríkisstj. almennar lántökuheimildir, því að þeir lánamöguleikar eru ekki til staðar.

Á undanförnum árum hefur bæði af mér og öðrum oft verið vikið að nauðsyn þess að veita fjvn. betri aðstöðu til þess að kynna sér ríkisreksturinn, þannig að n. geti gert ákveðnar till. um útgjaldalækkanir eða skipulagsbreytingar, sem ekki hefði verið talið auðið að undirbúa nægilega raunhæfi á þeim skamma tíma, sem n. hefur fjárlagafrv. til meðferðar. Reynt hefur verið að bæta starfsaðstöðu n. á þann hátt, að um alllangt árabil hefur form. fjvn. jafnan unnið með fjmrn. að undirbúningi fjárlagafrv., og síðan hefur með tilkomu fjárlaga- og hagsýslustofnunar fjmrn. skapazt ný og bætt aðstaða til að bæta áætlunargerðir við undirbúning fjárl. og vinna að hagræðingu og bættri skipan í einstökum þáttum ríkisrekstrarins. Hygg ég, að allir, sem til þekkja, muni vera sammála um, að þessi nýskipan mála horfi til mikilla bóta og hafi nú þegar skilað verulegum árangri.

Þótt ágreiningur hljóti að sjálfsögðu alltaf að vera á milli stjórnmálaflokka um meginstefnu í efnahagsmálum og fjármálum, þá tel ég brýna nauðsyn bera til þess, að þeir aðilar, sem á hverjum tíma eiga að hafa yfirumsjón með fjárgæzlu ríkisins og reyna að tryggja sem skynsamlegasta og hagnýtasta notkun ríkisfjár, fjmrn. og fjvn. Alþ., geti haft nána samvinnu án allra flokkadrátta um það viðfangsefni. Reynslan hefur ávallt sýnt, að mikillar tregðu gætir jafnan í sambandi við skipulagsbreytingar og fagráðuneytin hafa jafnan tilhneigingu til að standa með sínum stofnunum. Það er því mjög hætt við því, að jákvæðar og raunhæfar hagsýsluaðgerðir strandi oft á þessu tregðuskeri, ef ekki er traust samstaða milli fjmrn. og fjvn. Ég tel ákveðið, að slík samstaða sé forsenda flestra róttækra breytinga í ríkiskerfinu, en slíkar athuganir og breytingar tel ég hina brýnustu nauðsyn að kanna til hlítar, ekki sízt miðað við núverandi fjárhagsástand þjóðarinnar. Og ég tel, að hægt sé að halda slíku samstarfi utan við alla flokkadrætti.

Á síðasta Alþ. kom fram þáltill. um skipun sérstakrar nefndar til þess að rannsaka ríkisbúskapinn og gera till. til sparnaðar í samvinnu við hagsýslustjóra. Ég lýsti þá þeirri skoðun minni, að mun æskilegra væri að efna til nánara sambands milli fjvn. Alþ. og fjmrn. á þann hátt, að fjvn. kysi sérstaka undirnefnd, sem starfaði allt árið í samráði og samvinnu við hagsýslustjóra að athugunum á hinum ýmsu þáttum ríkiskerfisins og kæmi síðan till. sínum og aðfinnslum á framfæri við fjmrn. eða eftir atvikum Alþ. í sambandi við afgreiðslu fjárl. Með þessu móti ætti að vera lagður nægilegur grundvöllur til þess, að fjvn. gæti með fullnægjandi rökstuðningi gert brtt., þar sem hún teldi vera um óeðlilegt eyðslufé að ræða. Fljótlega eftir að þingi lauk s.l. vor var þeim tilmælum beint til allra þingflokkanna, að þeir tilnefndu hver um sig einn fulltrúa úr fjvn. til þess að mynda undirnefnd, er gera skyldi í sumar athuganir á þeim þáttum ríkiskerfisins, er nm. þætti sérstök ástæða til að gefa gaum að með sparnað fyrir augum og bætt vinnubrögð. Og jafnframt var undirnefndinni gefinn kostur á að kynna sér eftir vild fjárlagatill. einstakra stofnana og rn. Undirnefnd þessi hefur haldið marga fundi í sumar undir forustu form. fjvn., og hefur verið hin ágætasta samvinna milli undirn. og fjárlaga- og hagsýslustofnunarinnar, og vil ég nota þetta tækifæri til þess að þakka öllum undirnefndarmönnum fyrir störf þeirra til þessa og ágæta samvinnu, því að ljóst var, að allir vildu leggja sig fram um að láta gott af sér leiða, skoða viðfangsefnin af raunsæi og fullri alvöru. Tel ég reynsluna af þessu samstarfi rn. og fjvn. svo góða, að ég lýsi hiklaust þeirri skoðun minni, að stefna eigi að framhaldi slíks samstarfs og mun ræða við alla þingflokkana um það, með hverjum hætti því verði bezt fram haldið. Hefur fullt tillit verið tekið til ábendinga undirnefndarinnar um ýmis atriði í sambandi við fjárlagafrv., og önnur atriði, sem tekur lengri tíma að gera sér grein fyrir, eru í athugun hjá fjárlaga- og hagsýslustofnuninni.

Ég tel rétt í stórum dráttum að víkja að þeim viðfangsefnum, sem unnið hefur verið að á vegum fjarlaga- og hagsýslustofnunarinnar í því skyni að stuðla að aukinni hagkvæmni í opinberum rekstri og stuðla að sparnaði og hagkvæmri notkun ríkisfjár. Um tveggja ára bil hefur verið unnið að heildarathugun á bifreiðamálum ríkisins. Lauk þeirri athugun á s.l. vetri, og í tilefni fsp. gaf ég Alþ. yfirlit um bifreiðaeign ríkisins og bifreiðastyrki. Ríkið á um 530 bifreiðar, og af því eru 79 bifreiðar til afnota fyrir einstaka embættismenn ríkisins. Auk þess hafa yfir 400 starfsmenn bílastyrki, sem nema samtals 13–14 millj. kr. á ári. Er því hér um mjög mikið fjarhagsatriði að ræða, en málið er mjög vandasamt úrlausnar og því ekki að undra, þótt einhvern tíma taki að leggja grundvöll að till. til frambúðarlausnar, enda hafa þær tilraunir oft strandað áður. Auðvitað verður ekki komizt hjá því, að ríki og ríkisstofnanir hafi allverulega bílaútgerð. En því er ekki að neita, að bifreiðaumráð og bifreiðastyrkir hafa þróazt of tilviljanakennt á síðustu áratugum og mikilvægt er að setja um þetta efni fastar reglur. Það eru mikil hlunnindi fyrir embættismann að hafa ríkisbifreið til afnota, sem ríkið greiðir allan rekstrarkostnað af, og því eðlilegt, að óánægju gæti, þegar ósamræmi er milli einstakra embætta varðandi svo mikil hlunnindi. Ýmsir embættismenn þurfa nauðsynlega á bifreið að halda vegna starfs síns, en í öðrum tilfellum er ljóst, að hér er fyrst og fremst um launauppbót að ræða. Ég skal fúslega játa, að mjög torvelt er að finna reglur, sem ekki mundu valda verulegri óánægju hjá mörgum. En hér er um svo mikilvægt kostnaðarmál að ræða fyrir ríkið, auk þess sem alltaf er nauðsynlegt að uppræta misrétti, að ekki má gefast upp fyrir viðfangsefninu. Nú stendur yfir endurmat á öllum bílastyrkjum, og drög hafa verið samin að föstum reglum um rétt embættismanna til afnota af ríkisbifreiðum. Hefur undirnefnd fjvn. reglur þessar nú til umsagnar, og er þess að vænta, að auðið verði að ganga frá málinu innan ekki langs tíma.

Ríki og ríkisstofnanir leigja víðs vegar um land húsnæði fyrir miklar fjárhæðir. Nauðsynlegt er í senn að gæta þess, að ríkisstofnanir taki ekki á leigu stærra húsnæði en brýnasta þörf krefur, og jafnframt þarf að gæta þess, að samræmi sé í leigumálum. Hefur því ríkisstj. ákveðið, að allir leigumálar ríkisstofnana skuli vera háðir samþykki hagsýslustjóra.

Ríkið og stofnanir þess eiga nú 12 skip, sem gerð eru út undir yfirstjórn ýmissa aðila. Hagsýslustjóra var ásamt fulltrúum þeirra rn., sem útgerð þessara skipa heyrir undir, falið að gera á því athugun, hvort ekki mundi hagkvæmast og til sparnaðarauka að sameina útgerðarstjórn allra þessara skipa á eina hendi. Athugunin leiddi í ljós, að svo mundi tvímælalaust vera, og hefur ríkisstj. nú ákveðið að gera nauðsynlegar skipulagsbreytingar á Skipaútgerð ríkisins, til þess að hægt sé að fela henni að annast rekstrarstjórn allra ríkisskipa. Vitanlega verða sérstofnanir þær, sem skipin eiga að þjóna, ekki sviptar umráðum yfir skipunum, heldur yrði hin almenna rekstrarstjórn skipanna í höndum Skipaútgerðar ríkisins, þar eð ýmsar þessar stofnanir hafa hvorki aðstöðu né sérþekkingu til þess að sjá um skipaútgerð.

Þá hefur um nokkurt skeið verið unnið að rækilegri athugun á framtíðarskipan verkstæðisreksturs á vegum ríkis og ríkisstofnana. Hefur sérstakri n. verið falið að móta hugmyndir um það efni og benda á æskilegustu leiðir til að koma málinu í framkvæmd. Kemur í senn til greina rekstur Landssmiðjunnar, sem hefur átt við vaxandi örðugleika að stríða, og þau sérstöku verkstæði, sem eru rekin á vegum flestra eða allra hinna stærri framkvæmdastofnana ríkisins. Virðist full ástæða til þess að halda, að sameining þessarar verkstæðisþjónustu að öllu eða einhverju leyti ætti að geta leitt til betri nýtingar starfskrafta og véla og þar af leiðandi til aukins sparnaðar. N. hefur fyrir skömmu skilað bráðabirgðaáliti, sem nú er til athugunar.

Verulegs misræmis hefur oft gætt varðandi ákvörðun þóknunar til hinna ýmsu nefnda, sem á hverjum tíma starfa að ýmiss konar viðfangsefnum á vegum ríkisins. Var því ákveðið, að við skipun allra nefnda skyldi það tekið fram, að þóknun til nefnda væri háð endanlegu mati sérstakra trúnaðarmanna, og hefur hagsýslustjóra og deildarstjóra launamáladeildar fjmrn. verið falið að annast þetta mat.

Rækileg athugun hefur verið gerð á möguleikum til hagkvæmari reksturs flugþjónustu og flugvalla. Dregið hefur verið nokkuð úr rekstri verkstæða, og viðræður standa yfir við Reykjavíkurborg um, hvort eigi sé hagkvæmt fyrir báða aðila að sameina slökkvilið Reykjavíkurflugvallar og Reykjavíkurborgar. Loks er talið auðið að loka alveg Reykjavíkurflugvelli að nóttu, en á þeim tíma er aðeins 1.5% umferðarinnar um völlinn, aðallega einkaflugvélar. Mundi þessi ráðstöfun leiða til mikils sparnaðar og gera kleift að fækka um 13 starfsmenn. Er í frv. lagt til, að þessi skipulagsbreyting verði gerð. Vegna núverandi atvinnuörðugleika er erfitt að segja mönnum upp starfi, og verður því að leita eftir því að koma starfsmönnum þessum að í öðrum greinum ríkiskerfisins, þar sem störf losna.

Hagsýslustofnunin hefur á árinu í samráði við viðkomandi rn. unnið að margvíslegum athugunum á rekstri ýmissa ríkisstofnana og ríkisembætta. Hafa þessar athuganir sums staðar leitt í ljós ýmsar misfellur og annmarka, sem lögð hefur verið áherzla á að ráða bót á. Þá hefur stofnunin ásamt viðkomandi rn. unnið að því að tryggja framkvæmd þeirra sparnaðarákvarðana, sem teknar hafa verið á þessu ári. Loks hafa margvíslegar athuganir verið gerðar og upplýsingum safnað fyrir undirnefnd fjvn. Þá hefur stofnunin hlutazt til um, að menn væru sendir utan til þjálfunar í hagræðingu í opinberum rekstri á vegum hagræðingarstofnunar norska ríkisins, sem veitt hefur mjög mikilsverða og þakkarverða aðstoð.

Hér er auðvitað ekki um neina tæmandi upptalningu að ræða á þeim viðfangsefnum, sem fjárlaga- og hagsýslustofnunin hefur fengizt við auk undirbúnings fjárlagafrv., sem að sjálfsögðu hefur verið meginviðfangsefni stofnunarinnar, heldur er hér aðeins drepið á nokkur atriði til dæmis um viðfangsefnin og til að vekja athygli á því, hvernig leitazt er við að stuðla að aukinni hagkvæmni í ríkisrekstri. Gott samstarf hefur verið við önnur rn. um önnur viðfangsefni, og yfirmenn stofnana hafa yfirleitt sýnt áhuga og skilning á nauðsyn hagkvæmustu vinnubragða. Þá skal þess getið, að ríkisstj. setti í ársbyrjun ýmsar hömlur á utanferðir á kostnað ríkisins.

Í lok næstsíðasta þings lagði ríkisstj. fram frv. um skipulag opinberra framkvæmda. Var þar í mörgum efnum um algerlega nýja starfshætti að ræða á þessu sviði, en fjv. var þá í rökréttu framhaldi af þeim skipulagsbreytingum, sem gerðar hafa verið varðandi framlög til hafnargerða og skólabygginga, sem beinast að því að undirbúa sem bezt viðkomandi framkvæmd og tryggja síðan fjármagn til hennar með þeim hætti, að ekki verði um óeðlilegan seinagang í byggingu að ræða, og þannig koma í veg fyrir margvíslegt tjón, sem af slíkum seinagangi oftlega hefur leitt. Frv. var þá sýnt til að kynna hugmyndirnar, sem lágu því til grundvallar, en augljóst var, að málið þarfnaðist nánari athugunar, til að hægt væri að lögfesta það. Hefur frv. síðan verið í mjög ítarlegri og rækilegri endurskoðun. Leitað var m.a. álits aðalsérfræðings Alþjóðabankans um gerð framkvæmdaáætlana, og í sumar hefur málið enn verið kannað frá öllum hliðum undir forystu hagsýslustjóra í samráði við fulltrúa frá Sambandi ísl. sveitarfélaga og Efnahagsstofnunina. Er þess að vænta, að frv. verði lagt fyrir þetta þing, og sýnist ljóst, að ef okkur auðnaðist að ná samkomulagi um málið, mundi skipulag opinberra framkvæmda verða komið í betra horf hér á landi en með flestum öðrum þjóðum.

Í samræmi við samkomulag á milli fjmrn. og BSRB hefur nú að undanförnu verið unnið að skipulögðu starfsmati. og var í samkomulaginu ákveðið, að því starfsmati skyldi lokið fyrir næstu áramót. En launabreytingar, sem kynnu að verða samkv. starfsmatinu, skyldu taka gildi frá ársbyrjun 1968. Er hér tvímælalaust um mjög mikilvægt viðfangsefni að reða, sem vonandi er, að takist að leysa með samkomulagi og forðast þannig stöðugt stríð um það, hvar eðlilegt sé að skipa opinberum starfsmönnum í launaflokka. Lokið er endurskoðun kjarasamningalaganna, en það frv. hefur þó ekki verið lagt fram vegna sívaxandi ágreinings um samningsaðild, þar eð stórir hópar opinberra starfsmanna hafa neitað því, að BSRB færi með samningsaðild þeirra vegna, og er hér fyrst og fremst um ýmsa hópa háskólamenntaðra manna að ræða. Þarfnast málið því nánari athugunar, áður en hægt er að leggja það fyrir Alþ. Þá stendur yfir endurskoðun á l. um réttindi og skyldur opinberra starfsmanna.

Á sviði skattamála hefur ýmislegt veigamikið verið að gerast. Hefur n. sú, sem Alþ. kaus til framhaldsathugunar á staðgreiðslukerfinu, stöðugt unnið að sínu umfangsmikla verkefni, og hefur mikill tími farið í að leita álits ýmissa aðila, svo sem fyrir var mælt í ályktun Alþ. Líkur eru til, að n. geti lokið störfum í byrjun næsta árs. Verði það ofan á, að innleiða beri staðgreiðslukerfið. sýnist augljóst, að gera þurfi allvíðtækar breytingar á skattatögum. ekki hvað sízt tekjustofnalögum sveitarfélaga, til þess að draga úr þeim frávikum, sem þar eru heimiluð frá lögum. Koma þar mörg atriði til greina, sem ekki eru tök á að gera hér að umtalsefni, en hinn mikli ágreiningur, sem kom hér fram á síðasta þingi um ýmis atriði í tekjustofnalögum sveitarfélaga, leiddi glöggt í ljós, að nauðsynlegt er að taka þau lög til allrækilegrar endurskoðunar. Tel ég þó ekki tímabært að gera það fyrr en séð verður, hvaða áhrif staðgreiðslukerfið sjálft óhjákvæmilega hlýtur að hafa á þessa löggjöf. Reynslan hefur þó þegar sýnt, að aðstöðugjald er í mörgum tilfellum varasöm skattlagning og gera þarf auknar ráðstafanir til að bæta hag vanmegnugra sveitarfélaga, annaðhvort með sameiningu eða jöfnunarframlögum. Þá er brýnt viðfangsefni að endurskoða reglur um vaxtafrádrátt. Er þar um erfitt mál að ræða, en hömlulaus vaxtafrádráttarréttur hefur tvímælalaust stuðlað að spákaupmennsku og verðbólgufjárfestingu.

Hér er aðeins drepið á fá atriði, en kynni mín af skattamálum, tollamálum og ríkisfjármálum almennt hafa sannfært mig um það, að mjög æskilegt væri og nauðsynlegt að taka skattkerfi okkar í heild til gagngerðrar athugunar jafnhliða tekjuskiptingu ríkis og sveitarfélaga og með hliðsjón af þróun þjóðarbúskaparins, til þess annars vegar að gera sér grein fyrir því, hverjir gallar kunna að vera á núverandi skipulagi skattheimtunnar, bæði að efni og formi, og einnig til að gera sér grein fyrir því, hvort óeðlilega stór hluti þjóðartekna verði tekinn til opinberra þarfa. Athuganir hafa raunar leitt i ljós, að Ísland er alls ekki í hópi þeirra þjóða, sem stærstan hlut taka til hinna sameiginlegu þjóðfélagsþarfa. En það kann þá engu að síður að vera rétt að gera sér grein fyrir því, hvort við e.t.v. getum leyft okkur að ganga lengra í þessu efni og þá hvort byrðunum er eðlilega skipt niður og þá ekki hvað sízt, hvort skattheimtan kunni að verka á einhvern hátt lamandi á nauðsynlegar framfarir og atvinnuþróun í þjóðfélaginu.

Þetta stóra viðfangsefni hefur verið til umr. að undanförnu í samráði við alla okkar helztu sérfræðinga í þessum efnum, og var það samdóma álit þeirra, að slíkrar heildarrannsóknar væri þörf. Viðbótarröksemd í málinu var og sú, að ef kæmi til aðildar okkar að EFTA, sem væntanlega verður tekin ákvörðun um á þessu þingi, er óumflýjanlegt að minnka hlut tolltekna í heildartekjum ríkissjóðs og rannsaka skattgreiðslur félaga og fyrirtækja hér á landi til samanburðar við hliðstæða aðila í öðrum EFTA-löndum. Þótt við höfum ýmsum ágætum sérfræðingum á að skipa, sem eru vel hæfir til að framkvæma slíka rannsókn, eru þeir sérfræðingar störfum hlaðnir við önnur viðfangsefni. Er þetta vandamál hins vegar svo umfangsmikið, að ekki voru tök á að sinna því í hjáverkum nema á óeðlilega löngum tíma, og að auki gat verið mjög fróðlegt og nytsamlegt að fá mat utanaðkomandi hlutlauss aðila. Varð því niðurstaðan sú, að leitað var eftir aðstoð Alþjóðagjaldeyrissjóðsins, sem hefur á að skipa ýmsum mjög færum sérfræðingum á þessu sviði, og hefur forstjóri Alþjóðagjaldeyrissjóðsins góðfúslega fallizt á, að sérfræðingar sjóðsins tækju þetta viðfangsefni að sér í samráði við íslenzka sérfræðinga. Hefur sérfræðingur frá sjóðnum verið hér í nokkrar vikur, og er álitsgerðar frá honum að vænta í byrjun næsta árs. Hvað sem líður viðbrögðum við því endanlega áliti, þegar það liggur fyrir, þá er ég ekki í vafa um, að slík athugun hlutlausrar alþjóðastofnunar getur verið okkur mjög gagnleg til mats á því, hvar við erum á vegi staddir í þessum þýðingarmiklu málum, sem vissulega eru á meðal hinna áhrifamestu þátta efnahags- og fjármálakerfisins.

Það hefur verið venja mín undanfarin ár að gera Alþ. í fjárlagaræðu grein fyrir störfum skattrannsóknardeildar ríkisskattstjóraembættisins, og tel ég rétt að gera svo einnig nú. Hefur ötullega verið unnið að skattrannsóknum á árinu undir forystu nýs skattrannsóknarstjóra og upplýstar ýmsar alvarlegar misfellur í skattframtölum. Þótt ekki sé venja að minnast á einstaka aðila í þessu sambandi, get ég ekki stillt mig um að nefna misferli forstöðumanna Sementsverksmiðjunnar, af því að þar er um ríkisfyrirtæki að ræða. Það er sannast sagna ekki að undra, þótt erfitt sé um aðhald í þessum efnum, þegar ekki er einu sinni hægt að treysta opinberri stofnun. Því tel ég nauðsynlegt að taka mjög hart á misferli slíks fyrirtækis. Tvö fyrirtæki hafa af dómstólunum verið dæmd í þung viðurlög fyrir skattsvik, og nýlega er upplýst stórt skattsvikamál, er skýrt hefur verið frá í dagblöðum.

Frá 1. sept. 1967 til 31. ágúst 1968 hefur rannsóknardeildin tekið 171 mál til rannsóknar, og hafa þegar 134 þessara mála verið fullrannsökuð. En frá því að deildin tók til starfa fyrir 4 árum hefur verið lokið rannsókn 393 mála. Ríkisskattanefnd hefur á s.l. 12 mánuðum lokið skattaákvörðunum í 98 málum. Nema þær hækkanir alls rúmum 14 millj. kr. auk skattsekta, sem enn hafa ekki verið ákveðnar í mörgum þessum málum. Útsvör hafa á þessu tímabili verið hækkuð um 4.2 millj. hjá 66 aðilum, sem rannsóknardeildin hefur haft til meðferðar. Í sambandi við þau 393 mál, sem skattrannsóknardeildin hefur lokið rannsókn á á fjögurra ára starfstíma sínum, hefur ríkisskattanefnd ákveðið 41.6 millj. kr. skatthækkanir, skattsektanefnd 9.2 millj. kr. skattsektir og framtalsnefnd hækkað útsvör um tæpar 12 millj., eða alls nemur heildarhækkun gjalda í sambandi við rannsóknir deildarinnar 62.8 millj. kr. Þótt þessar tölur sýni, að kostnaður við skattrannsóknardeildina hafi margfaldlega skilað sér, þá er þó mest um vert það mikla aðhald, sem þetta aukna eftirlit með skattsskilum hefur tvímælalaust veitt mörgum skattgreiðendum. Auðvitað veldur það gremju hjá ýmsum, sem verða fyrir barði skattrannsóknanna, er þeir sjá þá sleppa, sem e.t.v. eru sízt minna sekir. En því miður verður ekki náð til allra, a.m.k. ekki í einu. En það er sanngirniskrafa bæði hinna skilvísu gjaldenda og einnig þeirra, sem teknir hafa verið, að skattrannsóknunum verði ótrauðlega fram haldið og einskis látið ófreistað til þess að uppræta meinsemd skattsvikanna, og þeirri stefnu mun verða fylgt. Er enda ljóst, að þótt náðst hafi mjög mikilsverður árangur, koma enn miklar fjárhæðir ekki til skattlagningar. Er nú á grundvelli fenginnar reynslu unnið að því að gera skatteftirlitið enn virkara og jafnframt setja reglur um úrtök skattframtala, þannig að það verði ekki háð tilviljanakenndu mati skattyfirvalda, hvaða framtöl séu tekin til rannsóknar. Haggar það að sjálfsögðu ekki þeim nauðsynlegu starfsháttum að taka að auki til meðferðar öll tortryggileg framtöl.

Í tveimur síðustu fjárlagaræðum vék ég nokkuð að stóreignaskatti þeim, sem á var lagður 1958 en sem frestað hafði verið að mestu innheimtu á sökum stórfelldra málaferla, er leitt höfðu til meira en helmingslækkunar á hinum upphaflega skatti. Þótt skattheimta þessi væri að mörgu leyti vanhugsuð, taldi ég mér skylt að framfylgja l. um innheimtu skattsins og lét undirbúa innheimtuaðgerðir á árinu 1966. Þá voru ýmsir dómar enn ófallnir, og var innheimtuaðgerðum enn frestað nokkuð, þar eð umreikna varð vegna nýrra dóma skatta um 150 gjaldenda. S.l. vetur voru gefin fyrirmæli um aðför að eignum á grundvelli lögtaka, sem gerð voru á árinu 1959 og 1960, ef greiðslur fengjust ekki með öðru móti. Var þá uppboði mótmælt af hálfu gjaldenda á þeirri forsendu, að lögtaksgerðin væri fyrnd. Varð samkomulag um það að velja prófmál til að fá skorið úr gildi lögtakanna, bæði í lausafé og fasteignum. Undirréttur hefur nú fellt þann dóm, að lögtak í lausafé verði að teljast fyrnt, en dómur er ekki enn genginn um gildi lögtaks í fasteign. Eftir að dómar eru fallnir í prófmálunum verður að skoða að nýju réttarstöðuna varðandi skattheimtu þessa.

Snemma á þessu ári var gerð breyting á tollskránni, sem áætlað var, að mundi leiða til tollalækkunar um 160 millj. kr. á ári. Nýtt frv. til breytinga á tollskránni hefur verið lagt fyrir þetta þing. Er það frv. stórt í sniðum, en felur þó ekki í sér verulegar efnisbreytingar, heldur er fyrst og fremst um að ræða ýmiss konar leiðréttingar og lagfæringar á ýmsu ósamræmi, sem reynslan hefur leitt í ljós og leitt hafa til frávika frá Brüsseltollskránni, sem er grundvöllur tollflokkunar í íslenzku tollskránni. Ekki er á þessari stundu a.m.k. gert ráð fyrir að leggja fyrir þetta þing frekari breytingar á tollskránni, en ný heildarlöggjöf um tollheimtu og tolleftirlit, sem lögð var fyrir síðasta þing og varð þá ekki útrædd, verður aftur lögð fyrir þetta þing. Er í því frv. um ýmis veigamikil nýmæli að ræða, sem mjög æskilegt er að lögfesta, og vildi ég mega vænta þess, að frv. verði afgreitt nú án verulegrar tafar. Verði ákveðin aðild að EFTA, mun það hafa mikil áhrif á tollkerfi okkar í framtíðinni. Yrði þá smám saman að afnema alla verndartolla, en þeir nema mjög háum fjárhæðum, og yrði þá að sjálfsögðu um leið að sjá ríkissjóði fyrir nýjum tekjustofnum, sem mér sýnist eðlilegt, að gerðist þá með þeim hætti að hækka söluskattinn. En hann er nú mun lægri hér en í nálægum löndum. Einmitt vegna þess að gera mátti á næstu árum ráð fyrir lækkun innflutningsgjalda, sem eru hér óeðlilega há, þá hef ég verið andvígur því, að söluskatturinn væri hækkaður til annarra þarfa, enda hefur síðustu 3 árin engin hækkun verið gerð á söluskattinum. Tollabreytingar þessar mundu að sjálfsögðu verða í áföngum og á alllöngu árabili. Þótt við vitum ekki enn, hversu langan aðlögunartíma við kynnum að fá, ef kæmi til EFTA-aðildar, yrði við tollabreytingarnar að hafa nána hliðsjón af samkeppnisaðstöðu íslenzks iðnaðar. Þetta vandamál er margþætt, en ég sé ekki ástæðu til þess að gera það frekar hér að umtalsefni, því að þetta svið tollamálanna mun væntanlega koma til umr. hér á Alþ. í sambandi við umr. um aðild Íslands að EFTA. Samstarfsnefnd þingflokkanna um athugun að aðild að EFTA hefur nýlega skilað áliti, sem nú er til athugunar hjá þingflokkum.

Herra forseti. Ég hef þá í stórum dráttum gert grein fyrir afkomu ríkissjóðs á árinu 1967, horfum á þessu ári og fjárlagafrv. fyrir árið 1969, horfum varðandi ríkisframkvæmdir og hugsanlega fjáröflun til þeirra og loks rætt ýmis önnur atriði, er máli skipta varðandi ríkisbúskapinn. Hefði vitanlega verið freistandi að gera margt fleira að umtalsefni, en ræða mín er þegar orðin ærið löng, og því er þess ekki kostur.

Hið háa Alþ. og þjóðin öll hlýtur nú að verða að horfast í augu við þá staðreynd, að við eigum nú við stórfelldari efnahagsörðugleika að stríða en um áratugabil, örðugleika, sem eru hlutfallslega stærri en nokkur önnur þjóð á sambærilegu þróunarstigi á nú við að stríða. Þrátt fyrir hið harðbýla land, sem við byggjum, hafa Íslendingar á síðustu árum verið meðal þeirra þjóða, sem hafa haft hæstar þjóðartekjur á mann, og þótt margt hafi vitanlega farið forgörðum í peningaflóðinu, er þó síður en svo hægt að segja, að þessum miklu fjármunum hafi verið illa varið, því að fjármunamyndun hefur verið hér á landi hlutfallslega meiri en í flestum öðrum löndum. Af þessari ástæðu og einnig vegna skynsamlegrar stefnu í efnahags- og peningamálum hefur allt til þessa án stóráfalla fyrir atvinnulíf þjóðarinnar og fyrir lífskjör almennings tekizt að fleyta þjóðarskútunni yfir erfiðleika aflabrests og verðfalls útflutningsafurða, sem hefur verið sívaxandi nú um nær tveggja ára skeið og er komið á það stig, að áætlað er, að útflutningstekjur þjóðárinnar verði 40% lægri á þessu ári en á árinu 1966.

Þar eð megináherzla hefur verið á það lögð að skerða ekki kjör almennings umfram brýnustu nauðsyn, hefur atvinnuvegunum verið skorinn svo þröngur stakkur, að þeir eru í vaxandi mæli reknir með halla, sem hefur leitt til stöðugt vaxandi vanskila og þar af leiðandi stórvaxandi erfiðleika stofnsjóða atvinnuveganna, sem munu fara enn vaxandi á næsta ári og verða lítt viðráðanlegir, ef ekki tekst nú að koma atvinnuvegunum á næstu mánuðum á sæmilega traustan rekstursgrundvöll. Það getur verið réttlætanlegt og gerlegt að láta atvinnufyrirtæki um stundarsakir búa við hallarekstur. En til langframa getur það ekki gengið, og nú er mælirinn fullur. Verði undirstöðuatvinnuvegum þjóðarinnar og þá fyrst og fremst útflutningsframleiðslunni ekki komið á eðlilegan rekstrargrundvöll, blasir það við, sem er voðalegra en allt annað. atvinnuleysið. Gegn þeim vágesti verður að snúast með öllum tiltækum ráðum, og er þá umfram allt nauðsynlegt að marka efnahagsstefnu, sem verkar örvandi, en ekki lamandi á framtak og atvinnuuppbyggingu.

Það er engum efa bundið að sú efnahagsstefna, sem fylgt hefur verið undanfarin ár, er í meginefnum rétt, enda í samræmi við þau meginsjónarmið, sem allar þær þjóðir fylgja, sem tryggja vilja sér svipuð lífsskilyrði og við búum við, og í samræmi við grundvallarsjónarmið allra alþjóðlegra fjármálastofnana. Náist víðtækt samkomulag um lausn efnahagsvandamálanna, sem vissulega verður að vona, má auðvitað gera ráð fyrir ýmiss konar frávikum til að samræma skoðanir manna. En aldrei má þó fallast á þau frávik, sem geta leitt til þeirrar stöðnunar í hagvexti, sem var á haftaárunum, heldur verður að virkja og örva allt jákvætt framtak og athafnaþrá og framfaraviðleitni til þess að efla núverandi atvinnuvegi þjóðarinnar og leggja inn á nýjar brautir í atvinnuuppbyggingu til þess í senn að auka framleiðsluverðmæti, tryggja atvinnuöryggi og geta sem fyrst endurnýjað sóknina fram á við til betri lífskjara og betra þjóðfélags. Á þessum miklu erfiðleikatímum krefst þjóðarheill þess, að pólitískar ýfingar verði lagðar til hliðar og löngunin eftir pólitískum ábata af andstöðu við óhjákvæmilegar, óvinsælar og harðneskjulegar ráðstafanir og allir sameini kraftana um að ryðja torfærunum úr vegi. Takist að vinna að úrlausn vandamálanna í þessum anda, þá munu erfiðleikarnir aðeins verða til þess að stæla þjóðina og bæta hana og auðvelda henni lausn vandamála sinna á komandi árum.