02.12.1968
Efri deild: 20. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 667 í D-deild Alþingistíðinda. (3673)

43. mál, hraðbrautir

Landbrh. (Ingólfur Jónsson):

Herra forseti. Ég vil í fáum orðum svara þeim fsp., sem eru á þskj. 44 í fjórum liðum.

Liður a: „Hvað líður undirbúningi, áætlunum og teikningum hraðbrauta, sem fyrirhugað er að leggja varanlegu slitlagi í framtíðinni?“

Því er til að svara, að lokið er frumáætlun frá enda Miklubrautar vestan við Elliðaár og upp að Leirvogi ásamt tengingu við Þingvallaveg. Á fyrsta kaflanum, frá Miklubraut upp að Höfðabakka, er nú unnið að lokaáætlunum. Ætti þeim að verða lokið um næstu áramót. Á kaflanum Rofabær–Höfðabakki vinna Íslenzkir aðalverktakar að framkvæmdum, og ætti væntanlega að verða hægt að hefja framkvæmdir á fyrsta kaflanum, yfir Elliðaár, þegar upp úr áramótum, að því er áætlunargerð viðvíkur. Og það má geta þess, að það hefur verið ákveðið, að á næsta ári þarf að taka Ártúnsbrekkuna og Elliðaárbrýrnar og væntanlega eitthvað meira, en vegáætlunin verður samin og frá henni gengið á þessu þingi.

Þá má geta þess, að áætlanir liggja fyrir um veg með tveimur akreinum samsíða núverandi vegi og er það fyrsti áfangi að endurbyggingu þess vegar, þ.e. Hafnarfjarðarvegar.

Suðurlandsbraut. Lokið er frumáætlun um kaflann frá Reykjanesbraut hjá Blesugróf upp með Elliðaám að Rauðavatni. Þessum vegi er ætlað að koma á þessum stað í framtíðinni, en er ekki þjóðvegur samkv. gildandi vegáætlun, en samkv. skipulagi Reykjavíkurborgar. Vegagerðin telur heppilegast til frambúðar að láta hann liggja þarna. En það er áreiðanlegt, að sá kafli verður jafnvel lagður síðast af Suðurlandsveginum eða Austurvegi. Þá má geta þess, að um kaflann frá Lækjarbotnum að Svínahrauni hafa einnig verið samdar áætlanir. Frumáætlun um kaflann frá Rauðavatni að Lækjarbotnum ætti að geta legið fyrir um eða upp úr áramótum, en um kaflann frá Svínahrauni að Selfossi í marz eða apríl. Tekið skal fram, að kaflinn upp með Elliðaánum frá Reykjanesbraut mun væntanlega ekki koma til framkvæmda fyrr en lagður hefur verið vegur eftir Fossvogsdal samkv. aðalskipulagi Reykjavíkur, en allmörg ár munu vafalaust líða, áður en það verður gert.

Þá er það Gufunesvegur. Þessi vegur á samkv. aðalskipulagi Reykjavíkur að tengja saman Vesturlandsveg og Suðurlandsbraut síðar meir. Síðari áfanginn á þessum vegi, frá Bæjarhálsi að Suðurlandsbraut, yrði eðlilegur fyrsti áfangi af framkvæmdum við Suðurlandsveg.

Reykjanesbraut. Hér er átt við þann hluta Reykjanesbrautar, sem liggur frá Blesugróf austan Kópavogs og Garðahrepps á núverandi Reykjanesbraut ofan Hafnarfjarðar. Gert er samkv. skipulagi ráð fyrir fjögurra akreina vegi frá Miklubraut að Breiðholtsbraut, sem tengir þennan veg nýbyggða hverfinu í Breiðholti. Mun frumáætlun þessa áfanga verða lokið um eða eftir áramót. Í næsta áfanga er gert ráð fyrir tveggja akreina vegi, er tengdur verði Hafnarfjarðarvegi frá Arnarnesi. Er frumáætlun þessa kafla lokið. Af seinasta áfanga Reykjanesbrautar hefur verið gerð gróf frumáætlun, til þess að unnt verði að ákveða legu vegarins í landinu og fá hugmyndir um kostnað.

Þetta er í sambandi við a–lið fsp. og einnig að nokkru lið b, þegar spurt er um, hvað líði undirbúningi og könnun varðandi þessa vegi. En til viðbótar er í b–lið spurt um, hvað líði undirbúningi og könnun og öflun erlends lánsfjár til þessara framkvæmda. Það, sem hægt er að segja um það er, að rætt hefur verið við Alþjóðabankann um þessar vegaframkvæmdir, og það er unnið að allsherjarvegáætlun að nokkru leyti í samráði við hann og má geta þess, að danska fyrirtækið Kampsax hefur tekið að sér ásamt vegagerðinni og innlendum verkfræðingum þann undirbúning og má segja, að málaleitan um lán í Alþjóðabankanum til vegagerðar hér á landi hefur fengið góðar undirtektir, þótt ekki hafi enn frá neinu verið gengið formlega eða gefið ákveðið svar um það. En það er vitað mál, að Alþjóðabankinn hefur lánað til vegaframkvæmda í ýmsum löndum, t.d. tvisvar eða þrisvar í Finnlandi og hefur þá venjulega verið miðað við 40% af heildarkostnaðinum. Það hefur alltaf verið gert ráð fyrir því, að tekin væru erlend lán til hraðbrauta og í okkar frumáætlun hefur verið reiknað með, að erlendu lánin væru allt að 40%.

Þá er liður c: „Hvaða bráðabirgðaáætlanir liggja nú þegar fyrir um kostnað við þessar framkvæmdir?“

Eins og sagt var í svari við lið a, er ekki enn lokið við allar áætlanir á þeim hraðbrautum, sem næst liggur að ráðast í. En það er unnið að þessu af vegagerðinni og gert ráð fyrir, að þessu verði að mestu leyti lokið á næsta vori. En ég vil geta um þá vegakafla, sem áætlun liggur fyrir um.

Það er Miklabraut — Rofabær, þ.e. frumáætlun, 50 millj. kr., Rofabær — Höfðabakki 27 millj., Höfðabakki — Korpa 55 millj., Korpa — Leirvogur — Kaldakvísl 93 millj. Hafnarfjarðarvegur: Kópavogur — Engidalur 85 millj. Suðurlandsbraut: Reykjanesbraut — Rauðavatn, — þ.e. sá kafli, sem síðast mun verða ráðizt í, — 94 millj. Um Rauðavatn — Lækjarbotna liggur ekki enn fyrir áætlun, en henni verður lokið á þessum vetri. Lækjarbotnar — Svínahraun 95 millj., en um Svínahraun — Selfoss verður áætlun ekki lokið fyrr en í marz—apríl n.k. Gufunesvegur, frumáætlun, 26 millj., Bæjarháls — Suðurlandsvegur, frumáætlun, 27 millj., Reykjanesbraut, þ.e. Miklabraut — Breiðholtsbraut, frumáætlun ekki lokið, Breiðholtsbraut — Arnarnes 32 millj., Arnarnesvegur — Hafnarfjörður, ekki lokið.

Af þessu má sjá, að um miklar upphæðir er að ræða og þeir vegir, sem hér hafa verið nefndir, eru náttúrlega misjafnlega nauðsynlegir. Þeir kalla misjafnlega hratt eftir framkvæmdum, þótt segja megi, að æskilegt væri að flýta þeim öllum sem mest. En þegar verið var að ræða um hraðbrautir á síðasta þingi, var þess getið, að það væru um 300 km langir vegir, sem lægi mest á og gert ráð fyrir, að kosta mundi allt að 1.500 millj. að leggja þá með öruggu slitlagi. En þá lágu ekki fyrir neinar ákveðnar eða glöggar áætlanir. Þetta var frekar ágizkun er áætlun, en á þessum vetri mun þetta allt saman verða ljósara og verður þá vitanlega að reikna með því nýja verðlagi, sem orðið er. Það má líka vel vera, að hægt sé að gera varanlega vegi ódýrari, en ætlað var í fyrstu þegar rætt var um þessi mál, með því að beita við það nýjustu aðferðum í vegagerð og spara við það eins og mögulegt er. En hvað sem því líður, er ljóst, að hér er um dýra framkvæmd að ræða og þótt við höfum sett vegalög 1963, sem komu til framkvæmda 1964, held ég, að flestir hafi gert sér ljóst, að þrátt fyrir þá tekjuöflun, sem fékkst með þeim lögum, var ekki unnt að ráðast í miklar hraðbrautaframkvæmdir. Enda var það svo, að þegar vegáætlunin var samin 1964, var alls ekki gert ráð fyrir neinu verulegu framlagi til hraðbrauta.

Á s.l. vori var stigið stærra spor til tekjuöflunar í vegasjóð en áður var og þá er fyrst farið að ræða um það í alvöru að ráðast í framkvæmdir hraðbrauta, sem er aðkallandi mál og það veit ég, að allir hv. alþm. eru sammála um. Og ég vænti þess líka, að menn séu sammála um það, að ekki sé unnt að gera þetta allt á örskömmum tíma. Það væri vitanlega æskilegt, ef hægt væri að fá í vegasjóð allar þær tekjur, sem fást af innflutningi bifreiða, varahluta til bifreiða o.s.frv., — allar tekjur af umferðinni, eins og það hefur verið kallað. Hv. fyrirspyrjandi talaði um, að þetta hefði ekki verið gert um sinn og gaf þá jafnvel í skyn, að þetta hefði verið svona áður. En ég minnist þess, að áður var lagður á benzínskattur og talsverður hluti af honum fór í ríkissjóð og þetta hefur alltaf verið þannig, að ríkissjóður hefur á hverjum tíma tekið til sín hluta af þeim tekjum, sem fást af umferðinni. Þetta hefur verið gert af illri nauðsyn og ef við tækjum allar tekjur af umferðinni af ríkissjóði, yrði að afla honum tekna með öðrum hætti. Vissulega væri æskilegt, ef unnt væri að koma því þannig fyrir, að ríkissjóður gæti misst þessar tekjur, því að sannarlega væri þörf á því, að vegasjóður hefði meira fjármagn til umráða, en hann hefur jafnvel nú eftir þá tekjuöflun, sem gerð var á s.l. vori.

Síðasti liður þessarar fsp., þ.e. d–liður, er svo hljóðandi: „Hafa áætlanir, er gerðar voru um tekjuauka vegasjóðs af nýjum tekjustofnum, er lögfestir voru á síðasta þingi, staðizt?“

Ég get svarað með því að lesa upp nokkrar línur frá vegamálastjóra, þar sem hann tók þetta saman í byrjun nóvembermánaðar eftir því, sem út leit fyrir þá. Hann segir:

„Skal upplýst, að með breyt. á vegalögum sem samþ. voru á Alþ. 9. apríl s.l., var gert ráð fyrir, að tekjuaukning vegasjóðs af hinum nýju tekjustofnum á yfirstandandi ári yrði alls 109 millj. kr.“

Tekjuáætlun vegasjóðs liggur fyrir. Allir alþm. hafa séð hana. En vegamálastjóri segir, að miðað við þá áætlun líti út fyrir, að tekjur af benzínskatti muni standast og tekjur af þungaskatti að mestu leyti. Tekið er þó fram, að ekki sé hægt að fullyrða alveg um þetta, hvort benzín– og þungaskatturinn standist nákvæmlega, þar sem nærri tveir mánuðir eru eftir af árinu, þegar þetta er tekið saman og þungaskatturinn er ekki allur kominn frá innheimtumönnunum. En það lítur út fyrir, að þetta muni standast. Hins vegar segir vegamálastjóri í byrjun nóv., að það sé útlit fyrir, að gúmmígjaldið standist ekki og það geti verið, að vanti allt að 9 millj. þar á. En ég býst við, að þar hafi orðið breyting á síðan vegamálastjóri gerði þessa áætlun, því að nú, þegar gengisbreytingin var gerð, hafa allar birgðir af gúmmíi verið keyptar upp, þannig að það gæti farið svo, að jafnvel gúmmígjaldið skilaði sér líka í þetta sinn, þótt litið hafi út fyrir, að á það vantaði nokkrar millj., þegar þessi grg. var samin. Vegamálastjóri segir, að sala á bifreiðagúmmíi hafi verið minni það sem af er þessu ári en s.l. 3 ár. En hann tekur fram, að það sé greinilega tímabundið fyrirbæri, þar sem bifreiðum landsmanna hefur fjölgað mjög mikið og það kemur vitanlega alltaf að því, að menn þurfa að kaupa gúmmí.

Ég ætla, að ég hafi svarað þessum fsp. nokkurn veginn. Ég vænti, að hv. fyrirspyrjandi telji það að mestu fullnægjandi. En hv. þm. talaði um, að það væri æskilegt að vita um, hvaða hraðbrautir væru í undirbúningi eða hvaða hraðbrautum væri verið að vinna að og það hefur verið minnzt á það hér. Það er Vesturlandsvegurinn og það er Kópavogur. En ég geri mér vonir um, þegar vegáætlun verður samin á þessu þingi, að Alþ. sjái sér fært að láta verulega fjárhæð til hraðbrauta, verulega fjárhæð, þannig að á næstu 4 árum sjáist verulegur árangur af því, sem áunnizt hefur í þessu efni. Vesturlandsvegurinn og Suðurlandsvegurinn eru vegir, sem kalla vissulega eftir aðgerðum og vegur út frá Akureyri, 20–30 km, er líka fjölfarinn. Ég geri ráð fyrir, að Akureyringar kalli eftir einhverju framlagi þar. En fáist erlent lán, við skulum segja 40% af kostnaði og möguleikar væru á að leggja ríflega fram af innlendu fé í vegáætlun næstu 4 árin, þá lengjast verulega þeir spottar, sem við getum ekið eftir á varanlegum vegum og enginn vafi er á því, að þörf er á þessu. En ég vil enn taka fram, að það er fyrst eftir tekjuöflunina á s.l. vori, sem nokkur grundvöllur var fyrir því að hefja þessar stórframkvæmdir.