02.12.1968
Efri deild: 20. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 673 í D-deild Alþingistíðinda. (3676)

43. mál, hraðbrautir

Einar Ágústsson:

Herra forseti. Ég skal ekki níðast á því, að mér er gefinn kostur á að gera örstutta aths, við það, sem hæstv. ráðh. sagði síðast. Ég veit, að ræðutíminn er búinn.

Ég vil þá í fyrsta lagi þakka hæstv. ráðh. þá afdráttarlausu yfirlýsingu, að svona lagað eins og gert var þarna í sumar verði ekki gert aftur, að það verði hér eftir látið fara fram útboð á öllum þeim vegum, sem ríkisstj. eða vegagerðin lætur framkvæma eða framkvæmir ekki sjálf.

Ég get ekki fallizt á þá röksemdafærslu, sem hæstv. ráðh. flutti þessu máli til stuðnings. Ég sé ekki annað, en slík almenn rök megi eiginlega alltaf telja fram, þegar farið er fram hjá útboðsleiðinni. Það er sagt, að tilboðið hafi verið hagstætt miðað við þær áætlanir, sem verkfræðingar hafi gert. Þetta er venjuleg viðbára, þegar brotið er út af útboðsleiðinni. Við höfum oft heyrt þetta, bæði hér og annars staðar. Það veit vitanlega enginn fyrr en á reynir, hvaða tilboð koma og ég verð að segja með fullri virðingu fyrir áætlunum vegagerðarinnar og ýmissa annarra sérfræðinga um kostnaðarverð framkvæmda, að ég tek þær ekki svo hátíðlega, að það sé þar með fullsannað, að tilboðið hafi verið hagstætt. Ef hins vegar ástæðan var fyrst og fremst sú að fá Íslenzka aðalverktaka til þess að fjármagna verkið, þá mátti náttúrlega gjarnan bjóða það út með þeim skilmálum og reyna á það, eins og hæstv. ráðh. sagði áðan, hvort aðrir vinnuvélaeigendur væru þannig efnum búnir, að þeir treystu sér til þess að taka þetta verk að sér. Ég skal ekki spá um, hvernig sú útkoma hefði orðið. Vafalaust hefði það orðið erfitt, ég tel það alveg víst og kannske hefðu þeir alls ekki treyst sér til þess. En þá lá það líka fyrir.

Hæstv. ráðh. sagði, að Íslenzkum aðalverktökum væri gert að greiða tolla af vinnuvélum, þegar þær fara út af yfirráðasvæðum varnarliðsins til þess að vinna annars staðar. Þessa framkvæmd skil ég ekki alls kostar. Mér er ekki ljóst, hvernig hún er framkvæmd. Eru þá tollarnir endurgreiddir, þegar vélarnar fara inn á svæðið aftur, eða hvernig er þessu fyrir komið?

Herra forseti. Ég skal ekki lengur níðast á þolinmæði forsetastólsins og læt þessu lokið.