02.12.1968
Efri deild: 20. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 674 í D-deild Alþingistíðinda. (3677)

43. mál, hraðbrautir

Landbrh. (Ingólfur Jónsson):

Herra forseti. Aðeins örfá orð. Tollarnir, sem þeim er gert að greiða, eru ekki endurgreiddir. En það er sérstök útreikningsaðferð, sem er framkvæmd í fjmrn. og tollarnir eru innheimtir eftir því, hve mikið verk það er, sem vélunum er ætlað að vinna.

Ég vil segja hv. þm. það, að enda þótt ég segi, að framkvæmdir í hraðbrautum verði boðnar út eftirleiðis, þá er það ekki afleiðing af því, að þessi ákvörðun var tekin í haust að láta Aðalverktaka vinna. Og ég er ekki að biðjast afsökunar á því, að sú ákvörðun var tekin, vegna þess að það er talið af þeim, sem kunnugastir eru, að það hafi verið hagstætt tilboð, sem þarna fékkst og það hafi verið rétt að gera það. Og það var ákveðið áður að láta tilboð yfirleitt fara fram í framkvæmdirnar.

Hv. þm. sagði, að það hefði mátt bjóða þessa framkvæmd út með þeim skilmálum, að þeir einir kæmu til greina, sem gætu lánað. En það gæti verið, ef sú aðferð hefði verið viðhöfð, að þá hefði ekki fengizt það samkomulag eða sá samningur, sem núna er unnið eftir. Það gæti verið, að vegagerðin hefði þá mátt horfa framan í óhagstæðara tilboð en það, sem að lokum var samið um á frjálsum grundvelli.

Ég tel svo ekki ástæðu til að fjölyrða meira um þetta að sinni.