13.11.1968
Sameinað þing: 11. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 675 í D-deild Alþingistíðinda. (3680)

263. mál, öryggisráðstafanir vegna hafíshættu

Fyrirspyrjandi (Gísli Guðmundsson):

Herra forseti. Árið 1965 var hafísár og árið, sem nú er að líða, er einnig hafísár. S.l. vetur lagðist ís að landinu nálægt áramótum og ekki varð íslaust í námunda við landið fyrr en komið var fram í júnímánuð. En um tíma þokaðist ísinn lítið eitt frá landinu, svo að skipaleiðir urðu færar og vannst þá ráðrúm til að koma birgðum sjóleiðis á hafnir á Norðurlandi, Vestfjörðum og Austfjörðum. Svo tepptist sigling aftur á útmánuðum og ísinn rak suður með Austfjörðum, allt á Hornafjörð, sem er fátítt og firðir lokuðust. Síðast mun ís eða ísjakar á sveimi hafa verið í augsýn frá landi, eftir því sem mér er tjáð, 26. júní.

Mörgum hefur áreiðanlega orðið til þess hugsað, hvernig farið hefði, ef ísinn hefði verið landfastur allan tímann frá áramótum fram undir sólstöður og það vitum við vel, Íslendingar, að getur gerzt og hefur gerzt.

Á Alþ. var borin fram og samþ. 5. apríl s.l. með shlj. atkv. svo hljóðandi till. til þál.:

Alþ. ályktar að kjósa 5 manna n. til að athuga, hvaða ráðstafanir þurfi að gera til að koma í veg fyrir, að skortur verði á olíu og kjarnfóðri og öðrum brýnustu nauðsynjavörum, er ís leggst að landi og siglingar teppast með ströndum fram af þeim sökum. N. velur sér formann.“

Að flutningi þessarar till. stóðu 22 alþm., en 1. flm. og frsm. málsins var hv. 5. þm. Norðurl. e., Stefán Valgeirsson. Hann minnti m.a. á það í framsöguræðu sinni 5. apríl, að í 47 ár eftir 1918 hefði ís ekki orðið hér landfastur, svo að heitið gæti og þjóðin hefði lítinn viðbúnað haft til að mæta slíku ástandi, en atvinnu– og lifnaðarhættir breytzt þannig, að almenningur ætti nú miklu meira undir aðflutningum en fyrr á tímum og skemmdahætta væri mikil í frosthörkum, ekki sízt, ef skortur er á eldsneyti. Hann nefndi sérstaklega nokkur atriði, sem gefa þyrfti gaum að.

Í fyrsta lagi, að gerðar verði ráðstafanir til eða gengið úr skugga um, að til séu á öllum verzlunarstöðum á hafíshættusvæðinu olíugeymar, sem taki nokkurra mánaða birgðir.

Í öðru lagi, að ráðstafanir séu gerðar til að koma öllum nauðsynjum á þessa staði fyrir einhvern ákveðinn tíma svo snemma vetrar, að öruggt sé talið, að siglingaleiðir séu þá enn færar.

Í þriðja lagi að koma upp fóðurbirgðastöðvum og þá fyrst og fremst með innlendu fóðri.

Og í fjórða lagi að athuga, hvað gera þurfi, til þess að gangsetning dísílvéla verði öruggari, en nú í miklum frosthörkum. Í þessu sambandi benti frsm. á, að talið væri, að flestar dísilvélar, t.d. í vöruflutningabifreiðum og snjóruðningstækjum, þyrftu sérstaka rafhitara til gangsetningar, ef frost færi yfir 17–20 stig og á hafisárinu 1918 hefði frostið orðið 30–40 stig.

Hafísnefndin var kosin af Alþ. þegar eftir að till. hafði verið samþ., svo að auðsætt er, að menn töldu, að hafa bæri hraðan á. Okkur, sem nú hreyfum þessu máli, er tjáð, að n. hafi á s.l. hausti skilað áliti og till. til ríkisstj., en alþm. hafa allt að þessu ekki fengið þessar till. í hendur. Nú er komið fram undir miðjan nóvembermánuð og athuganir veðurfræðinga gefa til kynna, að vetur sá, sem nú er byrjaður, verði einnig ísavetur. Gæti því svo farið, að hafís yrði hér landfastur eftir nokkrar vikur. Þess vegna og af því að till. hafísnefndar höfðu ekki verið birtar, þegar þessi till. var lögð fram á Alþ., þá höfum við 4 alþm. lagt fram svo hljóðandi fsp. til hæstv. ríkisstj.:

„l. Hverjar eru till. hafísnefndar um öryggisráðstafanir vegna hafíshættu?

2. Hvað hefur verið gert til þess að koma slíkum ráðstöfunum í framkvæmd?“

Ég sá það raunar áðan, að nú fyrir stuttri stundu hefur prentað álit hafísnefndar ásamt einhverjum fleiri skjölum verið lagt á borð þm., en ég hef ekki lesið þetta plagg og veit ekki, hvað í því stendur og óska þess vegna eftir því, að fsp. verði svarað.