13.11.1968
Sameinað þing: 11. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 680 í D-deild Alþingistíðinda. (3682)

263. mál, öryggisráðstafanir vegna hafíshættu

Dómsmrh. (Jóhann Hafstein):

Herra forseti. Það voru aðeins örfáar upplýsingar, sem ég vildi koma að, sem snerta beint og óbeint það málefni, sem hér er spurt um og svarað hefur verið af hæstv. forsrh. Og það er sérstaklega vegna Landhelgisgæzlunnar.

Ég get vitnað til þeirrar skýrslu, sem útbýtt hefur verið um þátt Landhelgisgæzlunnar í vetur í sambandi við ísflug og aðra fyrirgreiðslu, en ég vil vekja athygli á því, að þar kemur fram, að dómsmrh. hafi heimilað víðtæka notkun varðskipa og flugvéla Landhelgisgæzlunnar til hvers konar nauðsynlegra ísathugana og aðstoðar við skip eða afskekkta staði, sem kynnu að þurfa á fyrirgreiðslu að halda. Þessi mál voru sérstaklega rædd í ríkisstj. oftar en einu sinni, en í þessu sambandi verður að gera mönnum ljóst, að það er auðvitað ekki nema að vissu marki, sem er hægt að ætlast til þess, að Landhelgisgæzlan geti sinnt slíkum hlutum með þeirri aðstöðu, sem hún hefur, nema til þess sé sérstaklega ætlað fé af hálfu fjárveitingavaldsins.

Ég vil minna á, að á Alþ. var fyrir tveimur árum síðan að ég hygg sett ný löggjöf um Landhelgisgæzluna og einnig voru gerðar breytingar á lögum um almannavarnir. Þá kom fram í sambandi við löggjöfina um Landhelgisgæzluna og einnig í löggjöfinni eða breytingu laganna um almannavarnir, að vissir þættir almannavarna og Landhelgisgæzlu í sambandi við mál, sem við erum að ræða, eru mjög nátengdir. Það var t.d. tekið fram í einum lið 1. gr. hinna nýju laga, að hlutverk Landhelgisgæzlunnar væri að aðstoða við framkvæmd almannavarna, almennrar löggæzlu, lækna–, toll– og vitaþjónustu, eftir því sem aðstæður leyfa eða ákveðið kann að verða sérstaklega. Og í hinum nýju lögum um almannavarnir var sérstaklega tekið fram, að forstöðumaður almannavarna skyldi fylgjast með og stuðla að athugunum vegna hættu af ísalögum, eldgosum og annarri vá. Nú hefur það atvikazt þannig, að forstöðumaður almannavarna hafði sagt upp starfi sínu frá 1. okt. að telja og af hálfu dómsmrn. var þá tekin sú ákvörðun að setja forstjóra Landhelgisgæzlunnar fyrst um sinn til þess að gegna forstöðumannsstarfi almannavarna. Og mér er, eins og sakir standa, efst í huga, að það muni fara bezt á því hjá okkur, að þessi starfsemi verði varanlega samræmd, almannavarnastarfið að vissu marki a.m.k. og Landhelgisgæzlan. Þetta hefur ekki komið fram, en ég vildi segja frá því, að þannig hefur þessu verið skipað nú. En það getur hins vegar vel verið, að gera þurfi ráð fyrir, áður en endanlega er gengið frá fjárlögum, einhverjum sérstökum fjárveitingum í þessu skyni. Hvort það verður til Landhelgisgæzlu eða almannavarna er hægt að athuga nánar, en eflaust færi betur á því, að menn hefðu af einhverju að taka hjá almannavörnum á þessu sviði, sem gengi þá yfir til Landhelgisgæzlunnar fyrir þessum aukna kostnaði, sem ekki er eðlilegt að blanda inn í hina almennu og venjulegu reikninga Landhelgisgæzlunnar. Ég vil einnig láta þess getið, að hið nýja varðskip, Ægir, var styrkt sérstaklega vegna hættu, sem skipið kynni að verða fyrir vegna siglinga í hafís. Og það hafði verið ráðgert, að Óðinn yrði einnig styrktur með því að styrkja fyrst og fremst síður skipsins í sjólínu meðfram vélarúmi vegna áfalla, sem skipið hefur orðið fyrir vegna siglinga í hafís, en til þessa hefur ekki komið enn, en mér þykir líklegt, að eins og aðstaða er hjá okkur, þurfi mjög fljótt að huga að því.

Ég vil þá einnig geta þess, að ísflug Landhelgisgæzlunnar er mjög kostnaðarsamt og til þess höfum við í raun og veru aðeins haft Sif, sem er stór fjögurra hreyfla vél, sem Landhelgisgæzlan hefur haft til afnota og hefur hún gert mikið gagn á undanförnum árum. Það er rétt, að hún hefur í öllu tilliti verið dýr í rekstri, en samt sem áður var hún keypt á sínum tíma, vegna þess, hve hægt var þá að gera góð kaup á henni sem gamalli vél. Hún var keypt frá Portúgal og fjármagnskostnaðurinn hefur þá verið miklu minni að sjálfsögðu, en hinn beini rekstrarkostnaður meiri.

Nú minni ég á í þessu sambandi, að ég hafði gert þinginu grein fyrir því fyrir ári síðan, að við hefðum ráðagerðir uppi um það í rn. og Landhelgisgæzlu að freista þess að festa kaup á stórri þyrlu til Landhelgisgæzlunnar og til almennrar björgunarstarfsemi. Og eftir því, sem ég hef getað kynnt mér þau mál, tel ég, að það sé mjög mikið framtíðarmál fyrir okkur Íslendinga að geta eignazt stórar þyrlur. Þær mundu verða mjög afkastamiklar að mínum dómi til landhelgisgæzlu, en þó kannske enn þá fremur til almennra björgunarstarfa hér á landi. Þessar stóru þyrlur geta athafnað sig í miklu veðri, í miklum stormi og eru þess vegna líklegri til þess að geta verið við björgun við allt önnur skilyrði en við höfum haft aðstöðu til fram til þessa. Ég minnist þess, að Skagerak, sem var skip í förum milli Noregs og Danmerkur fyrir nokkrum árum, fórst í ofviðri á leið sinni þarna á milli og það munu hafa verið a.m.k. 12–13 vindstig og það var með svo skjótum hætti, að skipið lagðist á hliðina, að ekki komst nema hluti af fólkinu í björgunarbáta og björguðust við illan leik. En endanlega björguðust þó allir og m.a. vegna þess, að stórum þyrlum lánaðist að tína upp úr sjónum allt það fólk, sem hafði bara kastað sér með björgunarbelti í sjóinn í þessu ofsaveðri, sem þarna var og skipti tugum manna. En þær voru margar að verki, bæði frá Danmörku, Svíþjóð og Noregi. Við höfum ekki getað tekið ákvarðanir um að eignast slíka þyrlu, vegna þess hversu dýr tæki þetta eru. Það var leitað tilboða og ef ég man rétt, lágu þau einhvers staðar á milli 70–80 millj. kr. eða um það bil. Við höfum því frestað málinu í bili og eitthvað hefur heyrzt um það á opinberum vettvangi að grípa til annarra ráða, m.a. af fjárhagslegum ástæðum, en Sif er komin það til ára sinna, að það er aðeins skammur tími, sem talið er, að við getum haft not af henni ennþá. Það voru því hafnar viðræður við sendiráð Bandaríkjanna hér og einnig haft samráð við varnarliðið um, að við fengjum léða tvo björgunarbáta, Grumman–flugbáta, sem kallaðir eru og hafa mjög mikið flugþol og geta lent bæði á sjó og landi. Og þessa björgunarbáta, flugbáta, fær Landhelgisgæzlan til afnota um áramótin. Það vakir að vísu ekki fyrir okkur að gera út í senn tvo báta, en vegna þess að við höfum fengið þessa báta með góðum leigukjörum, er megintilgangurinn að reka annan bátinn í senn, en hafa hinn bátinn til taks, þegar mikið er um að vera og mikil þörf er, manna hann þá með leiguáhöfn frá flugfélögum hér, en að öðru leyti að hafa þá tvo tiltæka, þannig að þeir þyrftu ekki að hverfa frá eða falla út úr sínu hlutverki, þegar til aðgerða og eftirlits kemur. Einnig mundi það vera okkur til hagræðis, vegna þess að þá yrðu minni frátafir og minni eftirvinna.

Ég geri mér miklar vonir um það, að þessir tveir flugbátar, sem Landhelgisgæzlan kemur til með að hafa til afnota, muni henta mjög vel og vera verulega ódýrari í rekstri einmitt til ísflugsins, sem vænta má, að enn þurfi að halda áfram eða a.m.k. að vera reiðubúnir til þess að framkvæma í vetur og þá í framtíðinni, ef þess þarf með.

Ég skal svo ekki lengja þennan spurnartíma með öðru en því, sem ég hef sagt, sem er í aðalatriðum upplýsingar fyrir hv. þm., sem mér fannst tilhlýðilegt að koma á framfæri við þetta tækifæri.