13.11.1968
Sameinað þing: 11. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 684 í D-deild Alþingistíðinda. (3684)

263. mál, öryggisráðstafanir vegna hafíshættu

Fyrirspyrjandi (Gísli Guðmundsson):

Herra forseti. Ég leyfi mér að þakka hæstv. forsrh. fyrir svör hans og sömuleiðis vil ég þakka hæstv. dómsmrh. fyrir þá skýrslu sem hann gaf um þann þátt málsins, sem hann hefur tekið að sér. Í því sambandi hefði náttúrlega verið æskilegt, að hliðstæð skýrsla hefði komið fram frá hæstv. viðskrh., því að mér skildist á hæstv. forsrh., að hann hefði einnig tekið að sér þátt í þessu máli, sem er þýðingarmikill. Enn fremur vil ég þakka nm. úr hafísnefnd, hv. 5. þm. Norðurl. e., fyrir upplýsingar, sem hann gaf vegna n. og ég vil þakka, að nú skuli hafa verið útbýtt á þingi áliti hafísnefndar, sem auðvitað er sjálfsagt að gera, enda venjulegt um mþn., því að ekki er hægt að ætlast til þess, að þm. almennt kynni sér slík álit n., sem þeir hafa kjörið, í handriti í stjórnarráðinu.

Þetta álit hafísnefndar liggur hér fyrir og ég sé, að það hefur verið dags. 27. sept. og viðbótarálit 16. okt. Ég verð að segja, að mér finnst hafísnefnd hafa verið nokkuð seint á ferð með þessar till. og veit ekki, hvað því veldur, en hv. formaður n., sem á sæti á þingi, gæti sjálfsagt gert grein fyrir því. En ég hlýt að ganga út frá því, að hæstv. ríkisstj. hafi hvatt n. til þess að skila sem fyrst till. sínum, því að það skipti auðvitað miklu máli, að þessar till. lægju sem allra fyrst fyrir. Að vísu má segja, að sumt af því, sem fram kemur í áliti hafísnefndar, hafi þegar verið fram komið á síðasta Alþ., m.a. við flutning þeirrar þáltill., sem ég nefndi áðan og stjórnarvöldum hafi því verið fullkunnugt um eða athygli þeirra hafi verið vakin á brýnustu verkefnum, sem hér hlutu að vera fyrir hendi að allra dómi.

Till., sem hér liggja fyrir í nál., eru í fimm liðum. Tveir fyrstu liðirnir fjalla um ískönnunarflug og hafísbát og hefur hæstv. dómsmrh. þegar rætt nokkuð um það atriði. 3. till. er um geymslurými fyrir gasolíu, 4. till. um aðstoð peningastofnana og 5. till. um ísbrjót.

Ég verð að segja, að ég áttaði mig ekki fyllilega á því, sem þeir sögðu, annars vegar hæstv. forsrh. og hins vegar sá hafísnefndarmaður, sem talaði, um það, hver talin væri þörf á olíugeymum til langs tíma, þ.e.a.s. hve mikið menn þyrftu að geta geymt, en ég sé það í nál., sem ég hef hérna fyrir framan mig og hafði ekki áður lesið, að n. áætlar þetta í tvennu lagi: Í fyrsta lagi á Vestfjörðum og sunnanverðum Austfjörðum, að þar þurfi geyma til þriggja mánaða, en á Norðurlandi og nyrzt á Austfjörðum til allt að 5 mánaða. Þegar á það er litið, að það kemur fram, að geymslurými sé of litið, held ég, að það sé mjög alvarlegt mál. Hvort hægt sé að treysta á það, að bændur hafi olíugeyma á heimilum sínum, sem nægi og hvort þeim þá tekst að afla sér olíu til þess að fylla þessa geyma, skal ég ekki ræða, en vil samt draga það í efa að svo komnu máli.

Hér er ekki tími til þess að fara út í langar umr. um þetta mál. En ég vil segja, að mér þykir það gallað fyrirkomulag, að þeir, sem þurfa á aðstoð að halda í þessum efnum og þurfa að snúa sér til stjórnarvalda, skuli þurfa að leita til margra aðila, að þeir þurfi að leita til margra rn. og kannske fleiri stofnana, sem hafi þessi mál á sínum vegum. Ég held, að það væri mikið hagræði að því, sem hv. 5. þm. Norðurl. e. drap reyndar á, að ríkisstj. setti til þess einn ákveðinn mann að vera í fyrirsvari um þessi mál, svo að menn gætu snúið sér til hans og hann hefði þá milligöngu við þau rn., sem með þetta hafa að gera. Og sá maður gæti að sjálfsögðu verið einhver fyrirsvarsmaður opinberrar stofnunar, þannig að ekki þyrfti að vera af þessu mikill aukakostnaður, en það má ekki horfa allt of mikið í kostnað, þegar um slíkt mál er að ræða sem þetta. Það er stundum greitt fé af minna tilefni og það mikið fé, en til þessa vil ég mælast við hæstv. ríkisstj. og taka þar með undir ummæli hv. 5. þm. Norðurl. e., að hún komi þessu svona fyrir, að þeir, sem einhvers þurfa með í þessum málum, geti snúið sér til eins aðila, hvort sem þar er um að ræða flutning, vörur eða geymslurými. Það er áreiðanlega miklu hentugra fyrir alla.

Ég er ákaflega hræddur um, að nú, þegar komið er fram í nóvembermánuð, sé orðið nokkuð seint t.d. að stækka geymslurými fyrir olíu. Slíkt hefði þurft að gera fyrr. Ég er því að vísu ekki kunnugur, hvað slíkar byggingarframkvæmdir taka langan tíma, en ég er hræddur um, að það sé orðið nokkuð seint. Þó vildi ég mjög eindregið mælast til þess, að athugaðir væru möguleikar í tæka tíð, sem enn kunna á því að vera. En við vitum, að í kringum áramótin, eftir svona 6 vikur eða svo, megum við alveg eins búast við því, að ísinn komi upp að landi. Þess vegna er ekki langur tími til stefnu.

Ég hefði gjarnan viljað ræða meira um þetta mál og drepa á einstök atriði og nefna eitt og annað, sem kom fyrir á s.l. vetri í sambandi við ísinn. En hér er ekki tími til þess. Ég vil sem sagt þakka fyrir þær upplýsingar, sem fram hafa komið og eindregið mælast til þess, að menn verði vel vakandi í þessu máli.