24.10.1968
Sameinað þing: 5. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 424 í B-deild Alþingistíðinda. (369)

1. mál, fjárlög 1969

Birgir Finnsson:

Herra forseti, góðir hlustendur. Því hefur verið haldið fram í sambandi við það frv. til fjárl., sem hér er til umr., að réttara hefði verið að bíða með að leggja það fyrir þingið þangað til fyrir lægi, með hvaða ráðum yrði brugðizt við þeim mikla vanda í efnahagsmálum, sem nú þarf að leysa. Þessi kenning hefur við þau rök að styðjast, að vissulega munu væntanlegar aðgerðir í efnahagsmálum, hverjar sem þær verða, hafa stórfelld áhrif á fjárl. fyrir næsta ár og niðurstöður þeirra. Þetta er öllum þm. að sjálfsögðu ljóst, því að nokkrum sinnum hefur það komið fyrir, að efnahagsaðgerðir eða önnur lagasetning, eftir að fjárlög voru afgreidd, hafa raunverulega breytt fjárlögum.

Óneitanlega getur það verið bagalegt, að ekki sé hægt að standa við fjárl. í einu og öllu, og áreiðanlegt er, að enginn gerði sér leik að því að haga afgreiðslu mála þannig. Til þessa afgreiðslumáta á fjárl. annars vegar og því, sem við köllum úrlausnir efnahagsmálanna, hins vegar hafa jafnan legið fullgildar ástæður, sem eiga sér djúpar rætur, bæði í uppbyggingu íslenzks atvinnulífs og í því stjórnarkerfi, sem þjóðin býr við. Við Íslendingar erum í ríkari mæli en flestar aðrar þjóðir háðir framleiðslu fyrir erlenda markaði, og útflutningsframleiðsla okkar er tiltölulega einhæf. Um það bil 95% hennar eru sjávarafurðir. Aflabrögð og verðlag sjávarafurða eru háð snöggum breytingum, og höfum við bæði góða og slæma reynslu af því. Þegar snögg umskipti hafa átt sér stað til hins verra, höfum við oftast nær verið óviðbúnir að taka afleiðingunum. Hefur þá þurft tíma til úttektar á ástandinu og til þess að ná samkomulagi um, hvernig við skuli brugðizt. Slíkt samkomulag þarf oftast að nást milli ólíkra flokka hér á Alþ., og einnig þurfa að fara fram margvíslegar samningaumleitanir við aðila utan þings í atvinnuvegunum og launþegasamtökunum, áður en til endanlegra ákvarðana kemur. Þannig er nú einu sinni okkar stjórnarfar, og þótt mönnum finnist það oft þungt í vöfum, efast ég um, að margir vildu skipta fyrir eitthvað annað, þegar allt kemur til alls.

En því þá ekki að láta fjárl. bíða eftir heildarlausninni. þegar eins stendur á og nú, að mikill vandi er óleystur á sviði efnahagsmála? Þessu vil ég fyrir mitt leyti svara þannig, að svo mikil vinna liggur í því fyrir fjvn. og þm. að yfirfara fjárlagafrv., að ekki veitir af, að á því sé byrjað þegar í upphafi þings. Fjárl. eru jafnan einhver þýðingarmestu lög, sem hvert þing afgreiðir. Þess vegna mælir stjórnarskráin svo fyrir, að fjárlagafrv. skuli leggja fram í upphafi þings. Það hefur stundum verið undan því kvartað hér á þessum stað, að tími til afgreiðslu fjárlaga væri naumur, og rétt er það, að ríkisbúskapurinn hefur með hverju ári orðið umfangsmeiri. Einmitt þess vegna þarf að nota tímann vel til þess að undirbúa afgreiðslu fjárl. þegar frá þingbyrjun, enda þótt niðurstaðan af því verki kunni að breytast eitthvað síðar á þinginu.

Þeir þættir ríkisbúskaparins, sem fjárl. grípa yfir, eru margbrotnir og mikilvægir, og þótt væntanlegar efnahagsaðgerðir vegna atvinnuveganna hafi einnig í verulegum atriðum áhrif á fjárreiður ríkisins, er ekki rétt að flesta afgreiðslu fjárl. með öllu af þeim sökum. Verkefnin eru eftir sem áður ótalmörg, eins og hv. hlustendum má vera ljóst af hinni yfirgripsmiklu ræðu hæstv. fjmrh. hér áðan. Að þessu sinni fylgdist fjögurra manna undirnefnd úr fjvn. nokkuð með undirbúningi þess fjárlagafrv., sem hér liggur fyrir, einkum að því er varðar sparnað í útgjöldum á nokkrum ákveðnum liðum. Sú reynsla, sem fengizt hefur af þessu starfi, bendir tvímælalaust til þess, að rétt sé að auka það, eins og hæstv. fjmrh. vék að í ræðu sinni og raunar einnig hv. síðasti ræðumaður.

Eins og nú er ástatt veitir sannarlega ekki af að spara útgjöld alls staðar, þar sem því verður við komið, en vonandi renna aftur upp þeir tímar, að unnt verði að auka fjárveitingar til margra þarfra og gagnlegra hluta, sem nú er ekki hægt að sinna, og þegar þar að kemur, á fjvn. einnig í því efni að láta meira til sín taka en oft áður. Samkv. rekstrarreikningi fjárlagafrv. nema ríkisútgjöldin alls 6 milljörðum 472 millj. 386 þús. kr. En samandregið yfirlit yfir rekstrarútgjöld, fjárfestingar og yfirfærslur ríkisins, ríkisfyrirtækja og sjóða í ríkiseign sýnir, að heildarútgjöld þessi nema 9 milljörðum 817.6 millj. kr. Þessar tvær tölur gefa glöggt til kynna, hversu mikið fjármagn fer um ríkissjóð og ríkisfyrirtæki, og af síðari tölunni eru 2422.7 millj. kr. launagreiðslur til þess mikla fjölda fólks, er starfar í þjónustu ríkisins og fyrirtækja þess. Þetta tel ég styðja þá skoðun, að fjöldamörg atriði önnur en peningahliðina þurfi að athuga gaumgæfilega í sambandi við fjárl. og þá vinnu beri að framkvæma þrátt fyrir ríkjandi óvissu um efnahagsaðgerðir.

En hver er hann þá þessi mikli vandi, sem veldur slíkri óvissu, að erfitt er að afgreiða fjárl. fyrir íslenzka ríkið? Honum hefur verið lýst þannig, að minnkun framleiðsluverðmætis útflutningsframleiðslunnar frá 1966 og fram eftir þessu ári sé sem næst 40% eða 2/5 hlutar. Árið er ekki alveg á enda runnið, og eins og horfir, er því miður engan veginn loku fyrir það skotið, að þessi prósentutala eigi eftir að breytast til hækkunar. Hvað þýðir svo þessi prósentutala? Mér skilst, að ef gengi krónunnar hefði staðið óbreytt s.l. haust, hefði þessi gífurlega verðmætislækkun útflutningsframleiðslunnar numið um 2 milljörðum og 400 millj. kr. Vegna gengisbreytingarinnar verður lækkunin um 11/2 milljarður. Sýnir þetta, að gengisbreytingin s.l. haust hefur nokkru bjargað, en samt sem áður hefur hún verið langt frá því að vera fullnægjandi. Við þann 11/2 milljarð, sem þannig vantar til þess, að útflutningsframleiðslan fái sambærilegar tekjur við árið 1966, mun svo mega bæta allríflegri fúlgu vegna taprekstrar, og er þá sennilega ekki fjarri lagi að áætla, að útflutningsframleiðsluna vanti um 2 milljarða kr. upp á það, að hún hafi sambærilegar tekjur á þessu ári miðað við árið 1966. Þetta er e.t.v. ekki sú tala, sem staðnæmzt verður við í væntanlegum aðgerðum, en hún gefur nokkra vísbendingu um stærð dæmisins.

Það kann að hljóma undarlega í eyrum, en samt er það svo, að vegna góðærisins á árunum 1962–1965 verður í veigamiklum atriðum erfiðara en ella að leysa þann mikla vanda, sem við er að glíma. Aukning þjóðarteknanna bætti að vísu lífskjör almennings og bætti þannig skilyrðin til þess að mæta erfiðleikum síðar, en hún kom einnig fram sem aukinn framleiðslukostnaður atvinnuveganna, og eitt mesta vandamálið nú er að leiðrétta það mikla misræmi, sem skapazt hefur milli tilkostnaðarins og greiðslugetu útflutningsatvinnuveganna. Þessar staðreyndir um þá dökku mynd, sem nú blasir við, munu flestum ljósar. En hvað verður gert? Það er sú spurning, sem ekki er hægt að svara á þessu stigi málsins. Enginn þarf að furða sig á því, þótt stjórnarflokkarnir hafi, eins og komið er, viljað reyna viðræður við stjórnarandstöðuna til þess að kynna henni málin til hlítar og kanna, hvort um geti verið að ræða samkomulag um úrræði. Hér er slík hætta á ferðum fyrir þjóðarheildina, að víðtæk samstaða annars andstæðra afla í þjóðfélaginu er nauðsynleg, til þess að ekki fari illa, og ekki er óeðlilegt, að í sambandi við lausn vandans sé rætt um myndun þjóðstjórnar í fullri alvöru. Með slíkum viðræðum gerir ríkisstj. skyldu sína, án þess að þær boði nokkra uppgjöf af hennar hálfu. Málin hafa verið upplýst í þessum viðræðum eins vel og framast er kostur, og þær leiða þannig til þess, að stjórnmálaflokkarnir hafa allir jafna aðstöðu til að taka afstöðu til þeirra úrræða, sem til greina koma.

E.t.v. næst ekki í þessum viðræðum það samkomulag, er leiði til myndunar þjóðstjórnar, en engu að síður er hugsanlegt, að það beri einhvern jákvæðan árangur, og á ég þá við það, að eftir slíkar viðræður kunni viðbrögð núverandi stjórnarandstöðuflokka að verða önnur en þau hefðu orðið, ef engar slíkar viðræður hefðu farið fram.

Um þessar mundir er stjórnarflokkunum oft álasað fyrir að hafa ekki fyrr gripið í taumana til þess að koma í veg fyrir þá örðugleika, sem nú þarf að mæta. Erfiðleikarnir hófust fyrir tveimur árum, og hvað svo sem stjórnarandstæðingar segja um hið gagnstæða, var engin tilraun gerð til þess að dylja þá í kosningunum á síðasta ári. Annað mál er það, að þá var bent á, að þjóðin væri sæmilega undir það búin að mæta erfiðleikum svipuðum þeim, sem við höfðum fram að þeim tíma átt að venjast, og er ekki hægt að álasa neinum fyrir það að hafa þá ekki séð fyrir, að erfiðleikarnir mundu verða margfalt meiri en nokkurn tíma áður í sögu okkar. Í byrjun erfiðleikatímabilsins átti þjóðin um 2 milljarða kr. í gjaldeyrisvarasjóði, sem ætlaður var til þess að mæta verðfalli á útflutningi og minnkaðri framleiðslu, þegar telja mætti, að þetta hvort tveggja væri tímabundið. Gjaldeyrisvarasjóðurinn og verðstöðvun gerði það að verkum, að hægt var að bíða í rúmt ár, án þess að annað væri að gert, og þannig var komið í veg fyrir, að erfiðleikarnir út á við yllu þegar í stað kjaraskerðingu hjá þjóðinni. Eftir að séð varð, að þetta nægði ekki, var gripið til ýmissa róttækra ráðstafana svo sem lækkunar niðurgreiðslna og hækkunar ýmissa skatta og aukinnar aðstoðar við sjávarútveginn og loks til gengisbreytingarinnar fyrir tæplega ári síðan, sem ég minntist á áðan. Við þessar ráðstafanir voru þær vonir bundnar, að þær gætu tryggt útflutningsatvinnuvegunum hallalausan rekstur og stöðvað minnkun gjaldeyrisvarasjóðsins. Raunin hefur orðið önnur og vandinn vaxið miklu meira en nokkurn gat órað fyrir. S.l. haust var gert ráð fyrir, að afli þessa árs mundi verða 8% hærri en hann reyndist 1967 og að meðalverð ársins í útflutningi gæti orðið um 3% hærra en það var í fyrra. Þetta hefur alveg snúizt við, og 20% innflutningsgjaldið, sem sett var a með brbl. nýlega, er hrein bráðabirgðaráðstöfun til þess að draga úr hinni öru rýrnun gjaldeyrisvarasjóðsins og afla ríkissjóði tekna, til þess að hann geti staðið við þegar lofaða aðstoð við útflutningsatvinnuvegina.

Það ástand, sem nú ríkir, hefur að vonum beint athygli manna að því, hvernig atvinnuvegir okkar eru upp byggðir. Finnst mörgum ekki lengur fýsilegt að treysta á sjávarútveg í jafnríkum mæli og gert hefur verið, og mikið er rætt um eflingu iðnaðar og stóriðju sem líklegasta ráðið til þess að taka við vaxandi fólksfjölda á vinnumarkaðinum á næstu árum. Þessar hugleiðingar eru góðra gjalda verðar, en sú þróun, sem þær gera ráð fyrir, tekur langan tíma og leysir ekki vandamál þau, sem nú er brýnast að leysa. Þau verða ekki leyst með öðrum hætti en þeim, að sjávarútvegurinn geti starfað af fullum krafti. Hann er eina atvinnugreinin, sem er þess megnug að standa undir nægilegri gjaldeyrisöflun til þeirra margvíslegu þarfa, sem íslenzkt þjóðfélag útheimtir nú á tímum. Við náum ekki því takmarki að halda uppi fullri atvinnu í landinu, ef sjávarútvegurinn verður lengi eins lamaður og hann er nú orðinn. Brýnasta verkefnið er að skapa honum starfsskilyrði á ný.

Sjálfsagt er þó að miða jafnframt væntanlegar aðgerðir í efnahagsmálum við það, að unnt verði að efla iðnað og koma fótum undir nýjar greinar útflutningsframleiðslu. Slíkar ráðagerðir eru þó til lítils gagns, nema markaður sé fyrir hendi. Í því efni höfum við möguleika hjá fríverzlunarbandalaginu, sem væntanlega verða kannaðir til hlítar með umsókn um aðild nú á næstunni, að því er hæstv. forsrh. hefur boðað. Ber að fagna því.

Á ýmsum stöðum, þar sem góð skilyrði eru til útgerðar og fiskvinnslu, hefur nú skapazt mjög alvarlegt ástand vegna rekstrarstöðvunar einstakra fyrirtækja, sem um langt skeið hafa veitt íbúum staðanna atvinnu og lífsbjörg. Þetta ástand má rekja til ýmissa orsaka, svo sem verðfalls, aflaleysis á vetrarvertíð, misheppnaðra tilrauna til síldarútgerðar á liðnum árum, lélegrar skipulagningar á rekstri og loks til óviðráðanlegrar skuldabyrði. Má vel vera, að sums staðar, þar sem svona er komið, sé ekki um annað að ræða en að gera einstök fyrirtæki upp, en það er aðgerð, sem tekur langan tíma. Athugun á rekstri hraðfrystihúsa með hagræðingu fyrir augum hefur nú staðið yfir í eitt eða tvö ár, og munu liggja fyrir hjá Seðlabankanum og viðskiptabönkunum miklar upplýsingar um það, hvernig hraðfrystiiðnaðurinn sé nú á vegi staddur, en hann er einn aðalatvinnuvegurinn á þeim stöðum, sem ég á við, t.d. á Vestfjörðum og Snæfellsnesi. Þessar upplýsingar mega ekki rykfalla í lánastofnunum landsins. Þær ber að nota til leiðbeininga í sambandi við ráðstafanir til þess að hefja á ný rekstur vinnslustöðva, sem nú eru óstarfræktar, hvort sem þær vinnslustöðvar verða síðar gerðar gjaldþrota eða ekki. Ef nauðsyn krefur, ber að reka viðkomandi fyrirtæk; undir opinberu eftirliti þeirra lánastofnana, sem hlut eiga að máli, meðan gengið er úr skugga um, hvernig stjórn þeirra og rekstri verði hagað í framtíðinni. Í sjávarþorpum víða um land hagar þannig til, að tiltölulega fátt fólk framleiðir mikil útflutningsverðmæti. Þjóðin þarf nú á þeim útflutningsverðmætum að halda, og ekkert tækifæri til sköpunar þeirra má fara forgörðum. Fólkið við sjávarsíðuna á sannarlega annað og betra skilið en að standa uppi kauplaust og atvinnulaust, eigandi það á hættu að tapa algjörlega vinnulaunainnistæðum og fiskandvirði, sem nemur milljónum króna. Úrlausn þessa vanda þolir enga bið, einkanlega að því er varðar Vestfirði. Þar er haustið notað til róðra með línu, og aflast þá oft sæmilega af fyrsta flokks fiski til vinnslu og útflutnings.

Herra forseti. Ég legg áherzlu á það, að hver sem lausnin verður á því mikla vandamáli að skapa sjávarútvegi landsmanna í heild nauðsynlegan starfsgrundvöll, þá verður ekki undan því komizt að grípa á vandamálum eins og þeim, sem ég hef gert hér að umtalsefni. Tel ég ekki ólíklegt, að engin heildarúrlausn komi að fullu gagni, nema jafnframt verði gerðar róttækar ráðstafanir til þess að létta skuldabyrðar fjölda fyrirtækja, bæði í útgerð og fiskiðnaði, eða breyta skuldum þeirra í hagkvæm lán til langs tíma. Einnig verður nauðsynlegt að rétta við fjárhag Fiskveiðasjóðs Íslands, þannig að hann geti á ný hafið útlán til nýsköpunar í þeim greinum útgerðar og fiskiðnaðar, sem dregizt hafa aftur úr í samkeppni við síldveiðar og síldarvinnslu, meðan mest uppgrip voru á síldveiðunum.

Góðir hlustendur. Alþfl. hefur jafnan gert sér far um að móta heilbrigða og farsæla stefnu í landsmálunum, og síðan hefur hann látið málefnin skera úr um það, hvort hann hefur tekið þátt í stjórnarsamvinnu eða ekki. Flokkurinn telur sig hafa komið ýmsum góðum málum á rekspöl í stjórnarsamstarfi með Sjálfstfl. á síðustu níu árum, og á flokksþingi Alþfl. var mörkuð sú stefna, sem flokkurinn vill beita sér fyrir í nánustu framtíð. Tel ég rétt að kynna hv. hlustendum þá stefnu með því að vitna til stjórnmálaályktunar Alþýðuflokksþingsins, en þar segir svo með leyfi hæstv. forseta um efnahags- og atvinnumál:

„Verðfall erlendis og aflabrestur hafa valdið miklum vanda í efnahagsmálum Íslendinga. Gjaldeyrisvarasjóður sá, sem þjóðin eignaðist í kjölfar stefnubreytingar þeirrar, er núverandi ríkisstj. gekkst fyrir í byrjun þessa áratugs, hefur undanfarin tvö ár verið notaður til þess að mæta þessu áfalli í von um, að hvorki verðfallið né aflabresturinn yrði varanlegt. Nú er gjaldeyrisvarasjóðurinn senn þrotinn og þess vegna óhjákvæmilegt að gera ráðstafanir til þess að aðlaga efnahagskerfið hinum nýju aðstæðum. En flokksþing Alþfl. leggur áherzlu á, að jafnframt atmennum ráðstöfunum til þess að tryggja heilbrigðan rekstur útflutningsatvinnuveganna og ná greiðslujöfnuði í viðskiptum þjóðarinnar við önnur lönd séu gerðar gagngerðar ráðstafanir til hagræðingar og kostnaðarlækkunar í öllum atvinnuvegum þjóðarinnar og aukins sparnaðar í rekstri ríkisins, bæjar- og sveitarfélaga.

Í sambandi við endurskipulagningu atvinnuveganna og fyrirgreiðslu hins opinbera við þýðingarmestu atvinnufyrirtæki á hverjum stað verði hlutaðeigandi launþegasamtökum tryggð aðstaða til að fylgjast með rekstri fyrirtækjanna og til þess að koma á framfæri tillögum um skipulag þeirra og rekstur.

Flokksþingið telur brýna nauðsyn bera til þess, að þeirri endurskipulagningu hraðfrystiiðnaðarins, sem unnið hefur verið að, ljúki hið fyrsta, þannig að unnt sé að reka þennan iðnað á sem hagkvæmastan hátt, jafnframt því sem tekið sé tillit til skilyrða til hráefnisöflunar og atvinnuaðstæðna. Það telur nauðsynlegt að athuga vandlega fjármál fyrirtækja í sjávarútvegi og gera ráðstafanir til þess, að þau komist á heilbrigðan grundvöll. Þá leggur þingið áherzlu á nauðsyn þess að vernda fiskistofnana.

Flokksþingið telur, að iðnaður sé sú atvinnugrein, sem bezt skilyrði muni hafa á næstu árum og áratugum til þess að veita góða atvinnu því fólki, sem við bætist á vinnumarkaðinum. Þess vegna þarf að bæta skilyrði iðnaðarins til aukinnar hagræðingar og vélvæðingar. Jafnframt þarf að stefna að því að koma hér á fót útflutningsiðnaði og stóriðju, er hagnýti vatnsorku og jarðhita landsins, bæði til framleiðslu útflutningsafurða og vöru og þjónustu til sölu innanlands.

Flokksþingið telur, að gerbreyta. þurfi stefnunni í íslenzkum landbúnaðarmálum. Gera þarf áætlun um að breyta framleiðslunni á nokkrum árum í það horf, að fyrst og fremst verði framleitt til sölu innanlands og fjölbreytni landbúnaðarframleiðslunnar aukin. Lagður verði niður búskapur á lökustu búunum. Útflutningsbætur minnki smám saman á áætlunartímabilinu og falli alveg niður í lok þess. Styrkir til landbúnaðarins, sem hvetja til offramleiðslu, verði felldir niður smám saman.

Flokksþingið telur, að stuðla þurfi að bættum rekstri og aukinni hagræðingu í vörudreifingu landsmanna til þess að draga úr verzlunarkostnaði og lækka vöruverð. Það telur nauðsynlegt að efla samtök neytenda og halda uppi verðlagseftirliti. Enn fremur álítur það tímabært að endurskoða verðlagslöggjöfina og taka upp ítarleg ákvæði til þess að koma í veg fyrir einokun og hringamyndun.

Flokksþingið telur æskilegt, að ríkisstj. kanni sem fyrst með umsókn, með hvaða hætti Ísland geti öðlazt hagkvæma aðild að Fríverzlunarsamtökum Evrópu, EFTA, enda er það brýnt hagsmunamál íslenzkra útflutningsatvinnuvega að öðlast sem tollfrjálsastan og hömlulausastan aðgang að mörkuðunum í aðildarríkjum fríverzlunarbandalagsins, auk þess sem vonir um íslenzkan útflutningsiðnað hljóta að vera tengdar frjálsum aðgangi að stórum markaði. Jafnframt verður að tryggja íslenzkum iðnaði hæfilegan aðlögunartíma og jafnrétti í samkeppni við iðnað annarra þjóða, bæði hér og erlendis.

Flokksþingið telur, að miða beri stjórn fjármála ríkisins og peningamála við þau markmið, sem stefnt er að í efnahagsmálum, og þær aðstæður, sem eru ríkjandi hverju sinni. Flokksþingið telur, að af hálfu bankakerfisins og fjárfestingarlánasjóða eigi að koma á fót sameiginlegri eftirlitsstofnun með því, að atvinnufyrirtæki séu rekin með fyllstu hagkvæmni, og tryggt verði, að þegar lánsfé er veitt til uppbyggingar nýrra fyrirtækja, sé fyrir hendi öruggur rekstrargrundvöllur og þau séu þjóðhagslega arðbær. Flokksþingið telur, að nauðsynlegt sé að beita áætlunargerð og heilbrigðri skipulagningu í vaxandi mæli við stjórn efnahagsmála og gerðar verði fleiri framkvæmdaáætlanir fyrir einstaka landshluta. Flokksþingið telur, að efla verði þær atvinnugreinar, sem fyrir eru, og leggja grundvöll að nýjum og stórauka í því sambandi hvers konar rannsóknir á auðlindum landsins og sjávarins og hagnýtingu þeirra. Flokksþingið telur brýna nauðsyn á, að haldið sé áfram skipulegum stórframkvæmdum í húsnæðismálum almennings og að séð verði fyrir nýjum og auknum tekjustofnum í því skyni. Flokksþingið telur tímabært orðið að gera nýtt átak í tryggingamálum landsmanna, m.a. með setningu löggjafar um lífeyrissjóð fyrir alla landsmenn. Flokksþingið leggur áherzlu á, að áðurnefnd atriði verði þáttur þeirra efnahagsaðgerða, sem fram undan eru til þess að ráða bót á þeim erfiðleikum, sem nú steðja að, og leggja nýjan grundvöll að auknum framförum og batnandi lífskjörum á Íslandi.“

Um sjálft stjórnmálaviðhorfið segir svo m.a. í ályktun flokksþingsins, með leyfi hæstv. forseta:

„Undir þeim kringumstæðum, sem nú eru í íslenzkum efnahagsmálum, telur flokksþingið það vera meginhlutverk Alþfl. að gera allt, sem í hans valdi stendur, til þess að leggja grundvöll að nýrri eflingu atvinnulífsins og koma í veg fyrir, að verðfallið og aflabresturinn leiði til atvinnuleysis, og stuðla að því, að byrðarnar dreifist réttlátlega á þjóðina.

Flokksþingið telur, að stjórnarsamstarf Alþfl. og Sjálfstfl. hafi í meginatriðum tekizt í samræmi við þær vonir, sem Alþfl. tengdi við það. Á því tímabili, sem samstarfið hefur staðið, hefur Alþfl. komið fram margháttaðri löggjöf til hagsbóta fyrir alþýðu og launafólk í landinu.

Flokksþingið felur miðstjórn og þingflokki að vinna að því, að meginmarkmið ráðstafana þeirra, sem verða gerðar, verði að leggja grundvöll að nýrri eflingu atvinnulífsins og verði um þær hafi náið samstarf við samtök launþega. Þingið telur nauðsynlegt, að eftirfarandi atriði verði þættir í væntanlegum efnahagsráðstöfunum: 1. Ráðstafanir til að tryggja öllum vinnufærum fulla atvinnu. 2. Aðgerðir í efnahagsmálunum miðist við það eitt að mæta aðsteðjandi vanda og að þeim byrðum, sem óhjákvæmilegt reynist að leggja á þjóðina, verði dreift réttlátlega á stéttir þjóðfélagsins og sérstakt tillit verði tekið til hagsmuna láglaunafólks, barnafjölskyldna og bótaþega almannatrygginga. 3. Ákvörðun um, að stofnaður verði lífeyrissjóður fyrir alla landsmenn eftir tiltekinn tíma og að almannatryggingar verði efldar. 4. Endurskoðun á ýmsum ákvæðum skattalaga í því skyni að gera skattkerfið einfaldara og réttlátara. 5. Ráðstafanir til að auka enn eftirlit með skattframtölum og tollgreiðslum til þess að koma í veg fyrir skattsvik og tollsvik. 6. Öflun nýrra tekjustofna til íbúðabygginga. 7. Endurskoðun á lögunum um ákvörðun verðs á innlendum landbúnaðarafurðum. 8. Ákvörðun um að breyta stefnunni í landbúnaðarmálum smám saman í það horf, að landbúnaðurinn framleiði fyrst og fremst fyrir innanlandsmarkað, þannig að útflutningsbætur sparist og sömuleiðis þeir núverandi styrkir, sem einkum hvetja til offramleiðslu.

Ef tekið verður tillit til þessara meginsjónarmiða, segir í samþykkt flokksþingsins, telur það, að Alþfl. eigi að standa að þeim ráðstöfunum á þessu hausti, sem nauðsynlegar reynast til þess að leggja grundvöll að nýrri eflingu atvinnulífsins, tryggja heilbrigðan rekstur atvinnuveganna og jafnvægi í greiðsluviðskiptum við aðrar þjóðir, enda verði haft náið samstarf við samtök launþega. Náist samstarf milli stjórnarfiokkanna um þessi meginatriði og önnur úrræði, sem Alþfl. getur fellt sig við, vill flokksþingið, að núverandi stjórnarsamstarfi verði fram haldið. Takist hins vegar ekki að koma á víðtæku samstarfi á þann hátt, sem að framan er lýst, til lausnar vanda efnahagsmálanna telur flokksþingið rétt, að ríkisstj. leggi úrræðin undir dóm þjóðarinnar við fyrsta tækifæri.“

Herra forseti, góðir hlustendur. Ræðutími minn er nú senn á enda, og þótt stjórnmálaályktun síðasta flokksþings Alþfl. fjalli að sjálfsögðu um mörg fleiri atriði en þau, sem ég hef nú lesið upp, þá sé ég ekki, að það sé tækifæri til þess að flytja hana hér í heild. Læt ég þetta því nægja að sinni og býð hlustendum góða nótt.