27.11.1968
Sameinað þing: 15. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 692 í D-deild Alþingistíðinda. (3694)

263. mál, öryggisráðstafanir vegna hafíshættu

Forsrh. (Bjarni Benediktsson):

Herra forseti. Ég vil einungis vitna til hæstv. forseta um það, hvort ég hafi misskilið hann, en hann hefur sagt mér í þrígang, að það sé eftir tilmælum þessa hv. þm. sjálfs, að málið hefur ekki fengizt tekið fyrir á tveimur miðvikudögum í röð. Hæstv. forseti hefur skýrt mér frá því. Ég hef reynt að vera viðstaddur til þess að geta svarað þessum viðbótar fsp., ef þær kæmu fram. Þær komu ekki fram í dag, og hæstv. forseti hefur sagt mér, að það sé þessi hv. þm., sem hafi óskað eftir því, að málið sé ekki tekið á dagskrá. Hitt kann að vera, að vegna þess að hæstv. aðalforseti var ekki við, þegar málinu var frestað, og hæstv. 2. varaforseti var þá einn í forsetastólnum og hafi þurft að fara burt, þá hafi ekki verið hægt að halda fundinum áfram af þeim sökum. Það getur verið í það skipti, en hv. þm. er tvisvar búinn að hlutast til um, að því er mér er sagt, að fá málinu frestað.