27.11.1968
Sameinað þing: 15. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 693 í D-deild Alþingistíðinda. (3696)

263. mál, öryggisráðstafanir vegna hafíshættu

Fyrirspyrjandi (Gísli Guðmundsson):

Herra forseti. Ég skal ekki á neinn hátt misnota þann tíma, sem hæstv. forseti hefur leyft mér til þess að tala um þingsköp og skal ekki tala um annað en meðferð málsins, enda þótt ég hafi hug á að ræða málið sjálft.

Hæstv. forsrh. sagði og mér virtist honum vera nokkuð mikið niðri fyrir í þessu máli, að sá möguleiki væri til fyrir mig og aðra að flytja þetta málefni í öðru formi inn á Alþ. — sem þáltill. eða frv. Mér er þetta vel kunnugt og þarf ekki neinna ábendinga við um að flytja þáltill. eða frv. En það er nokkuð annað, þegar um er að ræða öryggismál eins og hafísmálið, hvort hægt er að koma fram málefnalegum atriðum í því sambandi í dag eða t.d. með nýrri fsp., sem rædd yrði eftir eina eða tvær vikur, eða á annan hátt, sem tekur sinn tíma að fá inn í þingið til umr.

Ég veit, að hæstv. forsrh. hlýtur að gera sér ljóst, að á þessu er töluvert mikill munur. Og ég leyfi mér, af því að hæstv. ráðh. hefur farið að tala hér um það, hvort menn hafi verið viðbúnir að taka þátt í umr. um mál, að minna hann á, að á sinum tíma hafði ég hugsað mér að bera fram fsp. utan dagskrár í þessu máli og ræddi það við ráðh., en hann benti mér á það, eins og hann er að benda mönnum á nú, að hægt væri að bera fram formlega fsp. og hann vildi heldur óska eftir því, að það yrði gert, og ég varð við þeim tilmælum. Þetta þýddi, að málið komst ekki á dagskrá fyrr en allt að hálfum mánuði síðar en ella hefði orðið. Og nú vil ég mælast til þess, af því að um slíkt mál er að ræða sem hér, að hæstv. forseti beri upp þessa till. mína um undanþágu frá þingsköpum, að veita megi nokkru rýmri ræðutíma, en þingsköpin ákveða og er ég ekki að fara fram á annað en þar verði einhver tilhliðrun veitt. Ég vil leggja það í vald hæstv. forseta, hvað hann teldi þar eðlilegt. En ég kann ekki við þetta, þar sem um slíkt mál er að ræða, að farið sé svona bókstaflega eftir ákvæðum þingskapanna og vil þá reyna þessa leið, sem að sjálfsögðu er einnig í samræmi við þingsköp, að óska eftir, að leyfð verði undanþága frá þingsköpunum. Í þessu sambandi vil ég benda á, að nú er komið fram í desembermánuð og eftir reynslunni að dæma, getum við búizt við því, að eftir þrjár vikur eða svo verði ís orðinn landfastur. Við vonum öll, að það verði ekki. En slíkt hefur gerzt alveg nýlega og við megum ekki gleyma því, þó að nú sé þíðviðri og ekki útlit fyrir breytingu, að hana getur borið brátt að.