04.12.1968
Sameinað þing: 17. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 701 í D-deild Alþingistíðinda. (3705)

80. mál, Vestfjarðaáætlun

Lúðvík Jósefsson:

Herra forseti. Það var aðeins eitt atriði, sem ég vildi minnast á í sambandi við þær upplýsingar, sem hér voru gefnar af hæstv. ráðh. um þetta mál.

Hann skýrði frá því, að einn mikilvægur þáttur í hinni svo nefndu Vestfjarðaáætlun væri nú framkvæmdur að mest öllu leyti. Var það samgöngumálaþáttur þessarar áætlunar? Hann gat þess, að kostnaður við þennan þátt næmi í kringum 202 millj. kr. og að þessu hefði verið unnið í 5 ár.

Nú vitum við, eins og hér hefur komið fram, að þessi Vestfjarðaáætlun er aðeins ein af nokkrum, sem nú er farið að ræða um af svona byggðaáætlunum. Ég verð að segja, að ég kann mjög illa við, að sá háttur sé hafður á um stórframkvæmdir í landinu, sem unnar eru af opinberum aðilum, framkvæmdir, sem eru upp á nokkur hundruð millj. króna, að alþm. sé ekki gerð grein fyrir slíkum áætlunum, þegar þær hafa verið gerðar, svo að maður fái í aðalatriðunum að fylgjast með því, hvað er verið að gera fyrir þær fjárhæðir, sem ríkið leggur fram eða hefur tekið að láni. Ætti þetta t.d. að fara þannig, að þegar búið er að gera Norðurlandsáætlun, sem nú sér fyrir endann á, eins og sagt hefur verið, að þá verði unnið að henni kannske upp á 300–500 millj. Þegar svo því verki væri lokið, heyrðu alþm. fyrst, hvað þarna hefði verið á ferðinni. Þetta tel ég með öllu óhafandi vinnubrögð. Auk þess erum við þm. búnir að heyra ár eftir ár og nokkrum sinnum á ári, að þm. úr þessum kjördæmum kvarta undan því, að þeir hafi ekki fengið að sjá þessa áætlun. Stundum hafa þeir fengið að sjá eitthvert hrafl af henni á erlendri tungu og svo er sagt á öðrum tímum, að það hafi verið búið að þýða þessa kafla. En hvað sem þessu líður, held ég, að það eigi að viðurkenna, að taka þarf upp þá starfshætti í þessum efnum, að þegar svona áætlanir hafa verið gerðar, jafnvel þó að aðeins um einn þátt af þeim sé að ræða, á vitanlega að birta þessar áætlanir. Þá á að gera Alþ. kunnugt um þessar áætlanir. Allt annað er auðvitað ósæmilegt.

Mér sýnist hins vegar á því, sem hér hefur verið upplýst, að þessi þáttur, sem snýr að samgöngumálunum þar fyrir vestan, sé merkilegur og mikilvægur og að mörgu leyti þýðingarmikill fyrir íbúa þessa landshluta. Eflaust er ekkert nema gott um þennan þátt að segja. En ég vildi sem sagt vekja athygli á þessum vinnubrögðum og óska eftir því, að hæstv. ráðh., sem með þessi mál hefur að gera, sjái svo um, að t.d. Vestfjarðaáætlunin verði birt, það sem til er, og eins verði gert með Norðurlandsáætlun, svo menn sjái, hvernig fjármunum hefur verið veitt í hina ýmsu þætti, sem þarna hefur verið um að ræða. Það á ekki að vinna að þessum málum með neinu sérstöku pukri og alls ekki þannig, að einstakir þm. úr vissum flokkum geti verið að veifa einhverjum plöggum á framboðsfundum, sem nánast eru eins og leyniplögg gagnvart öðrum þm. Hér er um framkvæmdir að ræða fyrir forgöngu ríkisins og það ber auðvitað að standa að þessu með allt öðrum hætti. Þetta vildi ég, að hæstv. ráðh. tæki til sérstakrar athugunar í sambandi við framhald þessara mála.