04.12.1968
Sameinað þing: 17. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 703 í D-deild Alþingistíðinda. (3707)

80. mál, Vestfjarðaáætlun

Gísli Guðmundsson:

Herra forseti. Ég hafði ekki ætlað mér að taka þátt í umr. um þessa fsp. En í tilefni af fyrri ræðu hæstv. fjmrh. vil ég leyfa mér að fara nokkrum orðum um tvö atriði, sem fram komu í þessari ræðu.

Ég vil þá byrja á því eða minna á það, að vorið 1965 var gerður samningur um það milli hæstv. ríkisstj. og verkalýðsfélaga á Norðurlandi, að gerð yrði Norðurlandsáætlun. Ætla ég, að einkum hafi vakað fyrir verkalýðshreyfingunni fyrir norðan í því sambandi, að sú áætlun tæki fyrst og fremst til atvinnumála.

Hinn 4. júní 1967 skýrði einn af hæstv. ráðh. í ríkisstj. frá því opinberlega, að Norðurlandsáætlun kæmi á árinu 1967. Þetta þóttu að vonum góð tíðindi. Af því varð samt því miður ekki og á síðasta þingi bar ég ásamt fleiri þm. Norðurl. fram fsp. til ríkisstj. um það, hvenær mætti vænta Norðurlandsáætlunar. Hæstv. fjmrh. varð þá fyrir svörum og skýrði frá því, að Norðurlandsáætlun kæmi á þessu ári, þ.e. á árinu 1968. Ég gerði þá aths. í sambandi við þessar upplýsingar hæstv. ráðh., að úr því áætlunin ætti að koma á árinu 1968, væri mjög æskilegt, að hún yrði komin fyrir þann tíma, er Alþ. færi að fjalla um ýmsar áætlanir, sem hér eru til meðferðar, eins og vegáætlun og hafnaáætlun, og áður en fjárl. kæmu til afgreiðslu. Af því varð ekki og áætlunin er ekki komin enn. En nú upplýsti hæstv. ráðh., að það sæist fyrir endann á henni og ég vil því spyrjast fyrir um það, hvort þetta þýði, að það verði, eins og sagt var, þegar fsp. var svarað í fyrra og áætlunin komi fyrir áramótin eða ef það verður síðar, eins og hæstv. ráðh. gaf í skyn, hvort hann treysti sér þá til að nefna þann tíma, sem búast má við, að áætlunin komi.

Ég verð að drepa á það, að hæstv. ráðh. gat þess, að búið væri að semja byrjunina á þessari áætlun og sagði, að þar væri m.a. rætt um mannfjöldaþróun. Ég vil leyfa mér að skjóta því inn, að ég held, að hér kunni að hafa verið byrjað á öfugum enda. Ég held, að mannfjöldaþróunin á Norðurlandi hljóti að fara nokkuð eftir því, hver þróunin verður t.d. í atvinnumálum, menntamálum og samgöngumálum í þessum landshluta.

Í öðru lagi vil ég minnast á, að hæstv. ráðh. svaraði fsp. um raforkumál á Vestfjörðum á þá leið, að sérstök raforkumálaáætlun hefði ekki verið gerð fyrir Vestfirði og biði eftir því að raforkumálaáætlun væri gerð fyrir allt landið. Í því sambandi vil ég leyfa mér að minna á, að við höfum nokkrir alþm. á mörgum þingum undanfarið flutt till. til þál. um það, að slík áætlun um rafvæðingu landsins í heild yrði gerð á tilteknum tíma og á tiltekinn hátt. Hæstv. ríkisstj. hefur jafnan á þessum þingum beitt sér fyrir því, að þessu máli hefur verið vísað frá. Nú vil ég spyrjast fyrir um það, hvort hæstv. ráðh. telur e. t. v., að ríkisstj. mundi á þessu þingi vilja fallast á, að Alþ. fjallaði um þetta mál og gerði ráðstafanir til þess, að slík áætlun væri gerð með ákveðið markmið fyrir augum og á ákveðnum tíma? Fleira skal ég ekki nefna í þetta sinn.