04.12.1968
Sameinað þing: 17. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 707 í D-deild Alþingistíðinda. (3710)

80. mál, Vestfjarðaáætlun

Fjmrh. (Magnús Jónsson):

Herra forseti. Hv. síðasti ræðumaður, 1. þm. Vestf., lýsti mikilli gleði yfir svari mínu, og ég er honum þakklátur fyrir það, að honum hefur fallið það vel í geð. En mér skildist, að sú ánægja stafi aðallega af því, að hann hefði lagt í svarið þann skilning, að ég hefði játað, að Vestfjarðaáætlun hefði aldrei verið birt, nema hvað snertir vegina. Nú veit ég ekki, hvort um þetta hefur út af fyrir sig verið deila, hvað hefur verið birt og ekki birt. Um það held ég, að geti varla verið deila. Mér hefur alltaf skilizt, að deilan væri um það, hvort Vestfjarðaáætlun yfirleitt hefur verið gerð eða ekki. (Gripið fram í.) Það er náttúrlega ekki hægt að birta það, sem ekki hefur verið gert. Það er auðvitað rétt hjá hv. þm. En það er mikill eðlismunur á því, hvort eitthvað hefur verið birt eða hvort það hefur verið samið og það hefur verið gerð áætlun um vegamál og samgöngumál yfirleitt á Vestfjörðum að undanskildum strandsiglingum. Það er rétt. En um samgöngumálin almennt, bæði vegi, hafnargerðir og flugvelli, hefur verið gerð áætlun, sem m.a. kemur fram í því, að það var samþ. á hinu háa Alþ. lántaka til þessara framkvæmda til þess að framkvæma þessa áætlun á sinni tíð. Og það liggur í augum uppi, að þá hlýtur að hafa verið til áætlun, úr því að hægt var að taka lán til framkvæmda hennar og það lán var ekki hægt að fá, nema því aðeins að viðkomandi sjóði væri gerð grein fyrir því, til hverra hluta þetta fé ætti að ganga. Menn geta svo verið óánægðir eða ánægðir eftir atvikum yfir því, að þessi áætlun hafi ekki verið birt. Út í það skal ég ekki fara. En það liggur ótvírætt fyrir, að til er rammaáætlun varðandi framkvæmdamál á Vestfjörðum almenn, sem ekki er útfærð í einstökum atriðum og svo fullgerð samgöngumálaáætlun, sem hefur verið í framkvæmd síðustu 4 árin og sér nú fyrir endann á. Það auðvitað merkir ekki, að það sé í þessari áætlun lagning vega um hvern einasta hrepp á viðkomandi svæði og menn þurfa ekki að halda, að áætlanagerð feli í sér slíkt. Þetta er byggt á vissum sjónarmiðum, sem ég skal ekki fara út í, en hv. fyrirspyrjandi vék raunar að, að tengja héruðin með vegasambandi við ákveðna byggðakjarna, en að það felist í því að taka hvern einasta veg, sem hugsanlegt er, að þurfi að leggja, það er annað mál. Það held ég, að hafi aldrei verið meiningin með þessari áætlun.

Hins vegar skal ég geta þess að, að því leyti hefur þessi áætlun jafnan verið birt, að í grg. fjmrh. um framkvæmdaáætlun á hverju ári og í skýrslum, sem um það hafa verið gefnar, hefur verið gerð grein fyrir því, hvað ætlunin væri að vinna í Vestfjarðaáætlun og í hvaða verkum þar ætti að vinna á hverju ári.

Varðandi vinnubrögð um áætlanir er það alveg rétt, sem hv. 1. þm. Austf. sagði, að áætlun sem slík hefur auðvitað ekkert lagagildi. Það er hárrétt, og ég efast sannast sagna um það, að áætlun verði lögð fyrir Alþ. til samþykktar. Það efast ég stórlega um. Það, sem kemur vitanlega til samþykktar Alþ., er spurningin um það, hvort Alþ. vill veita fé, eftir því. sem efni standa til og ástæða er til í sambandi við ríkisframkvæmdir til þessara tilteknu framkvæmda og þá væntanlega með hliðsjón af áætluninni og framkvæmd hennar og svo í annan stað, hvort Alþ. vill veita lántökuheimildir, eftir því sem þörf er á í sambandi við aðrar framkvæmdir, annaðhvort beint til þeirra eða til sjóða, sem eiga að vinna að þessum framkvæmdum. Ég efast sem sagt um það, – ég vil ekkert fullyrða um það, — ég efast um, að framkvæmdaáætlunin t.d. fyrir Norðurland verði með þeim hætti, að hún verði lögð fyrir Alþ. til samþykktar, heldur verði það fyrst og fremst skýrsla, sem Alþ. verði gefin. Þetta er vinnuplan og ég vil taka það fram varðandi framhald áætlunargerðar, að í lögum um Atvinnujöfnunarsjóð er beinlínis gert ráð fyrir, hvernig að þessum málum verði staðið.

Norðurlandsáætlun verður til með sérstökum hætti eins og Vestfjarðaáætlun. Hún var á sínum tíma ákveðin af ríkisstj. og Norðurlandsáætlunin einnig í framhaldi af samningum við stéttarfélögin, sem ég vék að og að þessum áætlunum er unnið eftir sérstöku fyrirlagi ríkisstj. Hins vegar er í lögum um Atvinnujöfnunarsjóð gert ráð fyrir því, að Atvinnujöfnunarsjóður láti, eftir því sem hann sér ástæðu til, gera byggðaáætlanir, annaðhvort heildaráætlanir eða áætlanir um einstaka framkvæmdaþætti. Og það er gert ráð fyrir því, að Efnahagsstofnunin vinni að þessum áætlunum, en í samráði við Atvinnujöfnunarsjóð. Og það er þar af leiðandi í rauninni Atvinnujöfnunarsjóðs að leggja blessun sína yfir þessa áætlunargerð. Það kemur þá meira til kasta Alþ., að mínu mati, að segja til um það, hvort það vill samþykkja þessa áætlunargerð á þann hátt að veita það, sem til þarf, til að hún geti orðið að veruleika, þ.e.a.s. fjármagn eftir atvikum hverju sinni. (Gripið fram í: Er nokkuð á móti því að lofa okkur að sjá áætlunina?) Ég geri ekki ráð fyrir, að nokkuð sé á móti því. En það er ekki hægt að dreifa áætlun, áður en búið er að gera hana. Og ég geri ráð fyrir, að flestir hv. þm. hafi aðstöðu til þess að fylgjast með áætlunargerðinni, vegna þess að hún er unnin í samráði við byggðarlögin, forustumenn þar í atvinnulífi og sveitarstjórnum, sem eðli málsins samkvæmt sinna þessum málum fyrst og fremst á hverjum stað. Og ég tel alveg víst, að hv. þm. geti fylgzt með eftir því sem þeim sýnist og sjálfsagt er, að þeir geti gert það. En auðvitað verður ekkert birt, fyrr en áætlunin er fullgerð.

Hv. 1. þm. Austf. sagðist vera óánægður með biðina varðandi Austfjarðaáætlun, sagðist að vísu ekki hafa vikið að því, nema af því að ég vék að Norðurlandsáætlun. Það var ekki ætlun mín að fara að ræða hana, heldur gaf fsp. tilefni til þess í rauninni, vegna þess að það var eðlilegt, að ég skýrði frá, hvernig stæði á því, að ekki hefði verið haldið sleitulaust áfram með atvinnumálaáætlun Vestfjarða, en það stafaði af því atvinnuástandi, sem skapaðist á Norðurlandi, að talið var rétt að vinna að þeirri áætlun á undan. Ég geri ráð fyrir, að allir hv. þm. taki vafalaust undir það með hv. 1. þm. Austf., að þeir hefðu gjarnan viljað sjá áætlunargerð sem fyrst varðandi sín héruð og sín byggðarlög. En ég vil aðeins leggja áherzlu á, að þessi áætlunargerð er ekkert einfalt mál. Þetta er mjög flókið vandamál, sem er þess eðlis, að þetta kostar geysilega skoðun og ýtarlega, til þess að þetta verði ekki hreint glundroðaverk, sem ekki komi að neinu haldi.

Hv. 1. þm. Norðurl. e. vildi fá yfirlýsingu mína um það, hvenær Norðurlandsáætlun yrði til. Ég get ekki svarað um það nánar, en ég sagði áðan, að ég vonaðist til, að það færi að sjá fyrir endann á því. Hún gæti ekki endanlega orðið til fyrir áramót, það veit ég nú. Að því var stefnt og ég lagði fyrir Efnahagsstofnunina að reyna með öllum ráðum að ljúka verkinu fyrir þann tíma. Það hefur komið í ljós, sem raunar mátti gera ráð fyrir, að það eru svo margir þættir, sem þarna koma inn og þarf að athuga, að það tekur allt lengri tíma. Og það þarf að hafa samráð við þessa aðila um verkið, eftir því sem því miðar áfram. Það er vitanlega eðlilegt, að sérfræðingar vinni verkið fyrst, eftir að hafa kynnt sér og safnað þeim upplýsingum, sem þeir telja nauðsynlegar. En síðan, áður en frá hverjum kafla er gengið, verði haft samráð við þá aðila, sem málið varðar. Þannig er að þessu unnið. En það verður auðvitað hlutur sérfræðinganna að semja áætlunina. Ég get ekki annað sagt en það, að ég mun leggja á það alla áherzlu, að áætlunin verði tilbúin sem fyrst og tel þá sjálfsagt, að í framhaldi af henni verði tekin fyrir þau byggðarlög, sem brýnust þörf er að sinna vegna atvinnuvandamálanna. Það er vitanlegt, að það er víða um landið, sem slík vandamál blasa við, bæði á Vestfjörðum, Austfjörðum og raunar víðar á landinu. Það er auðvitað ekki svo, að þessum vandamálum hafi ekkert verið sinnt, enda þótt áætlanir væru ekki til. Atvinnujöfnunarsjóður og eftir atvikum ríkisvaldið sjálft eða ríkisstj. hafa sinnt þeim verkefnum á margan hátt, sem upp hafa komið, til að forða vandræða ástandi. Það þekkjum við og ég veit, að allir hv. þm. þekkja það úr sínum byggðarlögum. Og vitanlega verður því haldið áfram og töf á áætlunargerð hefur engin áhrif í því sambandi.

Varðandi það hins vegar, sem hv. 1. þm. Norðurl. e. sagði, að sér fyndist byrjað á öfugum enda að gera áætlun um mannfjöldaþróunina, þá get ég ekki verið honum sammála um það, vegna þess að mannfjöldaþróunin er auðvitað gerð með hliðsjón af mannfjöldaþróuninni í landinu yfirleitt. Og það er skoðað, hvernig þróunin hefur orðið varðandi þessi einstöku byggðarlög, í þessu tilfelli Norðurland, síðustu tvo áratugina. Það er hægt að áætla nokkurn veginn mannfjöldann í landinu, og þá er jafnframt hægt að gera sér grein fyrir því, hvað mundi falla til af þessum mannfjölda á Norðurlandi, ef allt væri með felldu og Norðurland fengi sinn hlut, miðað við mannfjöldann í landinu í dag, af aukningunni, eins og hún verður. Þetta þurfa menn auðvitað að skoða. Menn þurfa að vita, fyrir hve stóran hóp fólks á að skapa ný atvinnutækifæri. Þetta held ég, að verði að gerast á undan öðru. Það er alveg ljóst mál. Það er nákvæmlega þetta, sem hefur verið gert og ég held, að allir, sem hafa kynnt sér það, hafi talið, að þarna sé um mjög merkilegan fróðleik að ræða, sem hafi grundvallarþýðingu varðandi framhaldstök á þessu máli og þá m.a. í hvaða greinum þessi mannfjöldi verður og á hvaða sviðum þarf þess vegna að leggja áherzlu á að skapa ný atvinnutækifæri.

Hv. þm. spurðist fyrir um það, hvort þess mætti vænta, að fallizt yrði á till. um að gera sérstaka áætlun um dreifingu raforku um landið. Ég reikna með, að hann hafi þá átt við rafvæðingu strjálbýlisins, en ekki byggingu orkuvera. Hann vitnaði til þess, að ég hefði sagt, að raforkumál Vestfjarða yrðu tekin inn í almenna áætlun, sem yrði gerð um þetta. Ég held, að hv. þm. hafi misskilið mig í þessu efni. Ég sagði ekkert um það. Ég sagði aðeins, að unnið hefði verið að rafvæðingarmálum Vestfjarða eins og annarra byggðarlaga á grundvelli þeirra áætlana, sem um þetta hefðu verið gerðar. Þar hef ég vikið fyrst og fremst að 10 ára áætluninni og svo í framhaldi af því þeim viðbótaráætlunum, sem gerðar hafa verið til skemmri tíma og nú síðast áætlun, sem hefur verið samþ. af orkuráði og send ráðh. á s.l. ári um það, að ákveðið verði, eftir því sem fjárveitingar frekast leyfa og að því stefnt að reyna að ljúka því á árinu 1970 að leggja dreifiveitur frá samveitukerfinu til býla, þar sem meðalfjarlægð væri ekki yfir 1.5 km á býli. Frekari ákvarðanir hefðu ekki verið teknar um dreifingu raforku um strjálbýlið frá samveitum, en hins vegar hefðu aukizt mjög kaup bænda á dísilstöðvum á býlum, sem væru afskekktari og þess vegna mætti fara að sjá fyrir endann á rafvæðingunni út af fyrir sig, því að auðvitað er það rafvæðing, þótt um sé að ræða kaup á dísilstöð. Ég get því ekki sagt nánar um þetta á þessu stigi og tel hæpið, að menn séu reiðubúnir til þess að slá nokkru föstu um stefnuna í þessum efnum, enda í rauninni engin sérstök ástæða til þess, vegna þess að það tekur alltaf tvö ár að ljúka þeim framkvæmdum, sem nú þegar hefur verið ákveðið að ljúka upp að markinu 1.5 km á býli að meðaltali.