11.12.1968
Sameinað þing: 19. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 718 í D-deild Alþingistíðinda. (3730)

267. mál, Fiskimálaráð

Matthías Bjarnason:

Herra forseti. Út af svari hæstv. ráðh. við þeirri fsp., sem 2. þm. Reykn. hefur borið fram, vil ég segja, að ég tel, að það hafi gengið sorglega seint að skipa í þetta Fiskimálaráð, því að ráðh. hafði það í hendi sér að setja þessum aðilum ákveðinn frest til þess að skipa í þetta ráð. Hann gat gefið eina aðvörun um það, að þeir hefðu þurft að ljúka því fyrir ákveðinn tíma. Ef þeir hefðu ekki sinnt því, hafði ráðh. fulla heimild til þess að skipa fulltrúa í ráðið samkv. lögum. Og ég tel, að sá dráttur, sem hér hefur orðið á, sé mjög slæmur, því að ég var 1. flm. þessa frv. og flutti það af þeirri sannfæringu, að ég taldi mikið gagn að því fyrir sjávarútveginn í heild og ég hef ekki farið ofan af þeirri skoðun. Hins vegar verður auðvitað hvorki gagn að þessu máli eða öðrum, ef aldrei á að kalla menn saman til starfa. En ég vænti þess, eftir þá yfirlýsingu, sem hæstv. ráðh. gaf, að nú kalli hann ráðið saman, því að það er hans að kalla ráðið saman, en ekki þeirra annarra, sem hafa verið skipaðir í það. Ég tel, að verkefni séu næg framundan og það er auðvitað mjög mikið komið undir því, hvernig tekst til með að kjósa framkvæmdanefnd, sem 8. gr. laganna gerir ráð fyrir, enda munu störfin hvíla á henni að verulegu leyti og hún sker úr um hvort þetta ráð og þessi hugmynd, sem felst í þessum lögum, verður til framdráttar sjávarútvegi eða ekki. Ég vænti þess því fastlega eftir þetta svar hæstv. ráðh., að það muni ekki líða á löngu, að hann kalli ráðið saman.