11.12.1968
Sameinað þing: 19. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 719 í D-deild Alþingistíðinda. (3734)

272. mál, Aflatryggingasjóður

Fyrirspyrjandi (Jón Árm. Héðinsson):

Herra forseti. Ég hef leyft mér á þskj. 115, lið 2, að beina svo hljóðandi fsp. til hæstv. sjútvrh. um Aflatryggingasjóð sjávarútvegsins:

„l. Hvað líður endurskoðun laga um Aflatryggingasjóð sjávarútvegsins?

2. Hverjar voru greiðslur sjóðsins árið 1967 og árið 1968 til 30. nóv.?

3. Hvernig öfluðust tekjur í ofantaldar greiðslur?“

Ég vil vitna hér í þáltill., sem hv. Alþ. samþ. 31. marz 1965, en hún hljóðar svo, með leyfi forseta: „Alþ. ályktar að fela ríkisstj. að skipa 7 manna n. til að endurskoða lög nr. 77 28. apríl 1962 um Aflatryggingasjóð sjávarútvegsins og gera till. um breytingar, eftir því sem henni þykir ástæða til. Formann skal skipa án tilnefningar, en aðra nm. samkvæmt tilnefningu Fiskifélags Íslands, Alþýðusambands Íslands, Sjómannasambands Íslands, Farmanna– og fiskimannasambands Íslands, Landssambands ísl. útvegsmanna og Félags ísl. botnvörpuskipaeigenda, einn frá hverjum aðila. N. skal sérstaklega gera sér far um að kynna sér skoðanir útvegsmanna og sjómanna í einstökum landshlutum varðandi málið og reynslu þeirra af starfsemi Hlutatryggingasjóðs og Aflatryggingasjóðs.“

Nú er það öllum vel kunnugt, sem við sjávarútveg fást, hversu þýðingarmikið hlutverk Aflatryggingasjóður hefur leyst af hendi og einmitt núna, þegar afli minnkaði, reyndi verulega á greiðslugetu sjóðsins. Það hefur æ ofan í æ komið fram í fundahöldum sjómanna og útvegsmanna, að þeir væru óánægðir með, að þessari endurskoðun skuli ekki ljúka. Enda er það vægast sagt furðulegt, að það skuli taka meira en 3 ár að komast að niðurstöðu í jafn þýðingarmiklu máli og hér er um að ræða, þótt það sé vitað mál, að skoðanir um þessi mál eru nokkuð skiptar innbyrðis eftir landshlutum, eins og gengur og gerist. Engu að síður er starfsemi þessa sjóðs svo mikilvæg og sérstaklega þegar hallar á í rekstri sjávarútvegsins, að ekki má endalaust geyma þessa endurskoðun og það mun sannarlega reyna á getu sjóðsins um áramótin, þegar gert verður upp við skipshafnir. Þess vegna fannst mér vel tímabært að ýta við þessari endurskoðunarnefnd og vita, hvort ekki væri hægt að fá niðurstöðu í þessu máli.