11.12.1968
Sameinað þing: 19. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 721 í D-deild Alþingistíðinda. (3736)

272. mál, Aflatryggingasjóður

Fyrirspyrjandi (Jón Árm. Héðinsson):

Herra forseti. Ég vil þakka hæstv. ráðh. fyrir þetta yfirlit. Þó að maður nái ekki öllum þessum tölum, sem hann las upp, þá er augljóst, að hér hefur breytzt til hins verra, þ.e.a.s. síldveiðideildin hefur orðið að taka á móti nær 4 tugum millj. til greiðslu á hlutum sinna skipshafna, en árið 1965 voru aðeins 5.3 millj. greiddar en 1967 nærri 40 millj. Og í ár er örugglega augljóst mál, að síldveiðideildin mun hafa þörf fyrir miklar greiðslur. Það er því augljóst mál, að bráð nauðsyn er, að þessari endurskoðun verði flýtt og ef n. sem slík getur ekki komið sér saman um sameiginlegar till., verður að leggja endurskoðunina fyrir Alþ. Það hlýtur að vera undarlegt, ef Alþ. ályktar, að lög eigi að endurskoða, að það megi dragast endalaust. Það finnst mér alveg furðulegt, jafn mikilvæg lög og hér er um að ræða. Hvernig fer fyrir skipshöfnum, ef þær fá ekki greiddan hlut sinn, þegar aflabrestur er eins gífurlegur og núna, ef þessi sjóður bregzt? Það verður ekki skemmtilegt fyrir jólin eða um áramótin fyrir þær skipshafnir. Þess vegna er það brýn nauðsyn, að lög um Aflatryggingasjóð sjávarútvegsins verði endurskoðuð og niðurstaðan verði lögð fyrir Alþ. hið fyrsta. Það segir í svari hæstv. ráðh., að n. muni skjótlega skila niðurstöðum, og ég vænti þess, að hér séu ekki orðin tóm, að efndirnar komi fram hið fyrsta.