11.12.1968
Sameinað þing: 19. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 723 í D-deild Alþingistíðinda. (3741)

273. mál, fiskiðnskólanefnd

Fyrirspyrjandi (Ingvar Gíslason):

Herra forseti. Ég vil þakka hæstv. ráðh. fyrir svarið.

Það virðist koma í ljós, að fiskiðnskólanefndin hafi skilað áliti fyrir um það bil tveimur árum, enda eru 4 ár síðan n. var skipuð og eftir svari ráðh. hefur n. skilað ákveðnum till. um það, hvernig slíkur skóli skuli starfa. En síðan virðist eins og hæstv. ráðh. hafi ekki verið ánægður með það álit, sem þarna hefur komið fram og telji, að það þurfi að fara aðrar leiðir, en í nál. segir, eða svo skilst mér. Að vísu hef ég ekki séð þetta nál. og get því ekki fullyrt um þetta, en æskilegt hefði verið, að ég og aðrir þm. hefðum fengið aðstöðu til þess að sjá, hvernig n. gengur frá þessu máli í sínu áliti. Ég álít, að það hefði þurft að kanna það miklu betur, hvort ekki sé rétt að fara þá leið sem n. leggur til, því að hún var til þess valin að kanna þetta mál og finna á því heppilegustu lausnina og í n. voru einmitt menn bæði frá fiskiðnaðinum og ýmsum stofnunum sjávarútvegsins og þannig þeir fulltrúar, sem áreiðanlega þekkja þetta mál hvað bezt. En sem sagt, mér sýnist, að þetta mál sé komið í hendur ríkisstj. og það væri eðlilegt að hefja framkvæmdir og einmitt svo myndarlegar, að það sé tekið undir þær till., sem n. virðist hafa gert.

Þar er till. um stofnun fiskiðnskóla eða skóla, sem á að mennta fiskvinnslufræðinga, ef svo mætti segja. Þetta eru ekki neinir hálærðir menn, heldur menn, sem eru færir um það að gegna verkstjórastörfum og vera framkvstj. í fiskiðjuverum. Og það er alveg augljóst mál, að það er mikil þörf fyrir slíkan skóla og e.t.v. meiri þörf fyrir slíkan skóla en marga aðra, sem við erum að stofna. Íslendingar eru fiskveiðaþjóð og við vitum, að aðalundirstaða efnahagslífsins er fiskurinn. Það er fiskurinn og fiskafurðirnar. Þannig er það og ég hygg, að svo muni verða um mjög langa framtíð og ég hygg líka, að það sé eitt af okkar stærstu verkefnum að nýta sjávaraflann sem bezt. Við getum ekki einhliða lagt áherzlu á veiðimennskuna, ekki það að auka sífellt aflann, þó að það kunni að vera eðlilegt líka, en fyrst og fremst á aukinn fiskiðnað og á nýtingu aflans. Við verðum að auka verðmæti sjávaraflans. Þannig hygg ég, að við munum vinna bezt að framförum í atvinnumálum. Og það á að vera eitt aðalatriðið í okkar stefnu í atvinnumálum, að slíkt sé gert. Ég vil því hvetja mjög til þess, að þetta mál verði ekki látið niður falla, heldur verði það enn athugað, hvað sú n., sem um þetta fjallaði, hafði um þetta að segja, því að ég hygg, að þeir menn, sem um það fjölluðu, hafi haft bezta þekkingu á því og getað lagt það til, sem við ættum eftir að fara.