11.12.1968
Sameinað þing: 19. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 725 í D-deild Alþingistíðinda. (3746)

270. mál, gengistap áburðarverksmiðju og áburðarverð

Landbrh. (Ingólfur Jónsson):

Herra forseti. Um er spurt:

„Hvað hefur gengistap Áburðarverksmiðju ríkisins numið háum fjárhæðum í íslenzkum kr. frá og með árinu 1960 til þessa dags?“

Því er til að svara: Árið 1960 34.443.457 kr., árið 1961 7.120.629 kr., 1967 11.015.585 kr., árið 1968 23.321.889 kr., eða alls 75.901.892 kr.

Erlendar skuldir Áburðarverksmiðjunnar nú eru: Alþjóðabankinn 5 millj. 853 þús., Import–Export—banki 60 millj. 363 þús., eða 66 millj. 216 þús.

Þá er það liður nr. 2:

„Hvað kemur verð á áburði frá Áburðarverzlun ríkisins til með að hækka mikið í prósentum miðað við íslenzka krónu vegna gengisbreytinga 1967 og 1968?“

Það er vitanlega erfitt að svara þessu, vegna þess að áburðurinn hefur ekki verið verðlagður enn og þess vegna ekki hægt að reikna þetta nákvæmlega út í krónum. En ef við tökum þetta svona nokkurn veginn, þá má komast nærri þessu. Gengistap Áburðareinkasölu ríkisins hefur orðið 49 millj. 316 þús. kr., vegna þess að það var ógreiddur áburður, þegar gengisbreytingin varð og innfluttar birgðir hafa numið 5 millj. 311 þús., sem hefur verið dregið frá, og er þá raunverulegt gengistap einkasölunnar 44 millj., sem stjórn Áburðarverksmiðjunnar hefur tekið að láni fyrir hönd Áburðareinkasölunnar hjá Seðlabankanum. Ef gert væri ráð fyrir, að þetta væri greitt á 5 árum og gengistap Áburðarverksmiðjunnar verði sett inn í áburðarverðið, aðeins sem nemur vöxtum, en afborganir settar inn í fyrningu, eins og yfirleitt hefur verið, þá verður hækkunin um 12 millj. kr. sem kæmi til með að dreifast á áburðinn á þessu ári.

Gert er ráð fyrir, að Kjarninn verði um 25 þús. tonn eða 500 þús. sekkir og innfluttur áburður 37 þús. tonn eða 752 þús. sekkir, samtals 1.257 þús. sekkir. Þá mætti reikna út, hver hækkunin yrði á sekk. Við getum kannske líka gert okkur nokkurn veginn grein fyrir því, hvað þetta væri í prósentum. 1968 var innfluttur áburður seldur fyrir 160 millj. kr. og Kjarni fyrir 112 millj. eða samtals 272 millj. Nú vil ég endurtaka, að ég veit ekki, hver hækkunin verður á næsta vori. En ef við segðum, að það væri til jafnaðar 30%, sem mér finnst fullmikið, en segjum það til jafnaðar og þegar Kjarni kemur líka inn í dæmið, þá væri salan um 350 millj. á næsta vori og þá væri þetta ca. 30% hækkun.

Ég ætla, að þetta sé e.t.v. fullnægjandi svar við þeim fsp., sem hér er um að ræða og mér verði virt til vorkunnar, þótt ég geti ekki sagt nákvæmlega, hver hækkunin verður í prósentum, á meðan ekki er vitað, hvert áburðarverðið verður á næsta vori.