11.12.1968
Sameinað þing: 19. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 726 í D-deild Alþingistíðinda. (3748)

270. mál, gengistap áburðarverksmiðju og áburðarverð

Landbrh. (Ingólfur Jónsson):

Herra forseti. Hv. þm. vildi fá að vita, hver hækkunin hefði orðið á áburðinum 1968 vegna gengisbreytingarinnar 1967. Það er hægt að svara því. Gengistapið var þá 11 millj. og 15 þús. og þetta er lán í Alþjóðabankanum og Export–Import–bankanum, annað lánið með 2.5% vöxtum og hitt með 4.75% vöxtum. Ef þessu verður deilt jafnt og sagt, að það væru 3.5% af 11 millj., þá eru vextirnir tæplega 400 þús. kr., en það eru aðeins vextirnir, sem voru látnir ganga inn í áburðarverðið. Það eru 400 þús., en salan á áburði á þessu ári var 272 millj. og þá er auðvelt að finna út, hvaða prósenta þetta er.

Um hitt atriðið vil ég segja, að í því skuldabréfi, sem stjórn Áburðarverksmiðjunnar skrifaði undir fyrir hönd Áburðareinkasölunnar, ætla ég að það hafi verið skilyrði að þetta gengistap yrði greitt með því að leggja það á áburðarverðið. Ég held, að það sé alveg rétt. En þetta skuldabréf hef ég reyndar ekki séð, en ég held, að það sé alveg öruggt, að þetta skilyrði sé þar.

Um hitt atriðið, hvort ríkisstj. hafi ekki verið beðin um að útvega lán fyrir hönd Áburðareinkasölunnar til þess að borga áburðinn fyrir gengisbreytingu, þá get ég játað, að þetta kom til tals, en það var nokkru áður en gengisbreytingin varð, sem þegar höfðu orðið nokkrar takmarkanir um niðurfærslu gjaldeyris í bönkum, — að þær reglur voru settar í bönkunum að greiða aðeins það, sem væri gjaldfallið. Víxlar Áburðareinkasölunnar gjaldféllu hins vegar ekki fyrr en 30. nóv. Og af hverju var gjalddaginn miðaður við 30. nóvember? Það var vegna þess, að þá gerðu þeir aðilar, sem keyptu áburð á s.l. vori, ráð fyrir því að hafa möguleika til þess að greiða áburðinn. Þetta er ástæðan fyrir því, að það var ekki yfirfært fyrir gengisbreytinguna, að þeir, sem höfðu fengið áburðinn í vor, voru ekki tilbúnir til þess að greiða hann fyrr en þetta. Það má vel vera, að ríkisstj. hefði átt að grípa þarna í taumana og hlaupa undir baggann og lána þessum fyrirtækjum til þess að losna við gengistapið. En þetta er náttúrlega ekki svo einfalt. Það voru margir, sem sóttu á um yfirfærsluna í bönkunum, þegar grunur lék á, að gengisbreyting væri í vændum og ég held, að það sé ekkert undarlegt, þótt settar hafi verið reglur í bönkunum um það að binda yfirfærslurnar við það, sem gjaldfallið var. Ef það hefði ekki verið gert, hefði verið erfitt að stjórna þessum málum. Þá hefði einhver talað um, að það væri misrétti í frammi haft.

Ég ætla, að þetta séu nægilegar skýringar.