18.12.1968
Sameinað þing: 24. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 728 í D-deild Alþingistíðinda. (3755)

271. mál, Sementsverksmiðja ríkisins

Dómsmrh. (Jóhann Hafstein):

Herra forseti. Svör mín við þessum fsp. verða eftirfarandi:

Við 1. lið. Fyrirspyrjandi mun eiga við stofnlán verksmiðjunnar, en ekki venjulegar viðskiptaskuldir, sem alltaf eru einhverjar á hverjum tíma og mjög breytilegar. Stofnlán til langs tíma eru í dollurum, þýzkum mörkum, svissneskum frönkum, dönskum krónum og íslenzkum krónum. Í árslok 1958 eru þessi lán 588 millj. kr. og eru þá erlendu lánin reiknuð á gengi dagsins í dag. Í árslok 1968 eru lán til langs tíma alls 277 millj. kr., einnig reiknað á gengi í dag. Nettólækkun lánanna er því 311 millj. kr. á þessum 10 árum, miðað við núverandi gengi íslenzku krónunnar. Þess ber þó að geta, að ógreiddar gjaldfallnar afborganir nema um 22 millj. kr.

2. liður. Til ársloka 1967 og frá ársbyrjun 1959 hafa fjárfestingar numið alls 133 millj. kr., ef það er reiknað, eins og bókfært er á hverjum tíma. Aðalliðir þessarar fjárfestingar eru kaup á m.s. Freyfaxa, bygging pökkunarstöðvar á Ártúnshöfða og kaup á nýjum sementsflutningabílum. Stofnkostnaður verksmiðjunnar hefur síðan verið hækkaður um gengistap á föstum, erlendum lánum, þegar gengislækkanir hafa orðið á undanförnum árum. Þannig mun stofnkostnaður verksmiðjunnar í árslok 1968 hækka af þessum ástæðum um rúmlega 100 millj. kr.

3. liður. Á árunum 1958 til ársloka 1967 námu hreinar tekjur samt. 12.6 millj. kr. samkvæmt rekstrarreikningum. Á sama tíma nema afskriftir af fastafjármunum alls 183 millj. kr.

Þetta eru þær upplýsingar, sem mér hafa verið látnar í té af fyrirsvarsmönnum verksmiðjunnar til þess að svara þeim fsp., sem hér liggja fyrir.