18.12.1968
Sameinað þing: 24. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 728 í D-deild Alþingistíðinda. (3756)

271. mál, Sementsverksmiðja ríkisins

Fyrirspyrjandi (Halldór E. Sigurðsson):

Herra forseti. Ég leyfi mér að þakka hæstv. iðnrh. fyrir svör hans, en vil um þau segja, að ég held, að það sé alveg nýr háttur á hv. Alþingi, að skuldir fyrirtækja séu gefnar upp í erlendri mynt, en ekki í íslenzkum kr. Og ég skil það svo, að þegar hæstv. ráðh. gefur upp skuldir Sementsverksmiðjunnar 1958, sé búið að margfalda þær með ca. 414, sem er hækkun á erlendum gjaldeyri. (Gripið fram í.) Það sem ég átti að sjálfsögðu við, voru reikningsniðurstöður fyrirtækisins, samkvæmt þessum reikningi og skuldir, eins og þær eru bókfærðar í árslok 1958 og eins og þær eru í dag.

Út af öðru, sem fram kom í svörum hæstv. ráðh., hef ég ekki aths. að gera.