11.12.1968
Sameinað þing: 19. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 732 í D-deild Alþingistíðinda. (3761)

91. mál, ráðstafanir til að bæta úr rekstrarfjárþörf atvinnuveganna

Fyrirspyrjandi (Einar Ágústsson):

Herra forseti. Út af svari hæstv. forsrh. vil ég í fyrsta lagi fagna því, að ríkisstj. hefur gert sér ljóst, að nú þurfi að auka útlán til atvinnufyrirtækjanna af þeim ástæðum, sem ég rakti í fyrri ræðu minni.

Mér er það algerlega ljóst, að rekstrarfjárþörf og skortur fyrirtækjanna stafar ekki af því, að Seðlabankinn hafi þrengt um útlán, enda væri nú annað hvort. Rekstrarfjárskorturinn stafar af gengisfellingunni, eins og hæstv. forsrh. sagði. Og ég tel augljóst, að útlánastefnu hæstv. ríkisstj. hljóti nú að verða breytt, enda væri að öðrum kosti ekkert samræmi í henni.

Undanfarin ár höfum við fengið að hlýða á það hér, að það væri hygginna manna háttur og hagfræðilega rétt að draga úr fjármagnsútlánum, þegar þensluár væru í þjóðfélaginu. Við skulum láta það liggja á milli hluta, hvernig þessi kenning út af fyrir sig stenzt. En það er augljóst, að rökrétt afleiðing og ályktun af þessari kenningu hlýtur að vera sú, að þegar í ári þrengir, eins og nú hefur gert, séu viðbrögðin að auka útlánin. Og það hlýtur að verða niðurstaðan.

Það er vissulega engum ofsögum sagt af því hjá hæstv. forsrh., að fyrstu áhrif gengislækkunarinnar eru neikvæð. Þau eru geysilega neikvæð, eins og dæmin sanna. Og ég tel í sambandi við útlánaaukningu hjá Seðlabankanum, að það komi ekki til greina að haga henni, eins og gert hefur verið að mestu, á þann hátt, að bankarnir séu látnir borga miklu hærri vexti af þeim lánum, sem þeir taka í Seðlabankanum, heldur en þeir hafa leyfi til að endurlána fjármagnið. Ennfremur hlýtur hæstv. ríkisstj. að breyta þeirri reglu, sem hún tók upp snemma á valdaferlinum, að draga úr afurðalánum. Afurðalánin voru lengi vel 67% af skilaverði til útflutnings, en fljótlega eftir að hæstv. ríkisstj. kom til valda, var þessum útlánum breytt og þau voru lækkuð niður í það að vera 53–55% og hafa verið það síðan. Og ég heyrði ekki betur en hæstv. forsrh. segði beinlínis, að þessu mundi breytt og er þá ástæða til að taka eftir því.

Ég held, að það ætti að gera fleira. Ég held, að það ætti að skoða þær ábendingar, sem Alþýðusambandsþing gerði og ég drap lauslega á áðan, að reyna að lækka tilkostnaðinn við framleiðsluatvinnuvegina, eins og t.d. lækka vextina, en það var ein af fyrstu aðgerðum hæstv. ríkisstj. að hækka vextina til þess að ná stjórn á peningamálum, sem svo var kallað, og skapa samræmi milli framboðs og eftirspurnar á lánamarkaðinum. Þetta hefur að sjálfsögðu ekki tekizt. Það er óþarfi að fara fleiri orðum um það. Allir, sem eru hér viðstaddir, vita, að eftirspurn hefur allan þennan tíma verið langtum meiri, en framboð á peningamarkaðinum, þrátt fyrir háa vexti. Og ég tala nú ekki um, þegar svo er komið sem núna.

Það hefur oft verið haft til afsökunar fyrir því að hafa vextina háa, að það væri verið að gæta hagsmuna sparifjáreigenda og við, sem störfum í bönkum, höfum oft heyrt þessa röksemd. En hvaða sparifjáreigendur eru það, sem verið er að vernda? Ég er kannske ekki að segja í víðri veröld, en a.m.k. í nágrannalöndum eru þeir ekki til, sem hafa verið grár leiknir, en íslenzkir sparifjáreigendur, þegar svo er komið, að maður, sem gat keypt fyrir innistæðu sína 1.000 dollara fyrir nokkrum árum, getur núna keypt 400 dollara. Hann hefur þó getað haft 10% vexti af þessu sparifé sínu, ef hann hefur viljað binda það til eins árs í bönkunum, en þó hann hefði gert það, er hann ekki betur settur en ég var að segja. Það er því ekki einhlítt að hafa háa vexti.

Ég skal ekki, herra forseti, tala lengur en þingsköp leyfa. Ég endurtek, að það verður áreiðanlega tekið mjög stíft eftir því núna á næstunni, hvernig þær ráðstafanir, sem hæstv. forsrh. boðaði, reynast í framkvæmd, vegna þess að á þeim er ekki einungis þörf, heldur lífsnauðsyn.