12.12.1968
Sameinað þing: 27. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 737 í D-deild Alþingistíðinda. (3768)

81. mál, landhelgismál

Dómsmrh. (Jóhann Hafstein):

Herra forseti. Ég vil aðeins út af ummælum hv. þm, um þyrilvængjuna geta þess, sem ég hefði kannske átt að geta í upphafi, en ég held, að ég hafi upplýst það áður á þingi, að áhugi Landhelgisgæzlunnar hefur mjög beinzt að því að auka þyrilvængja kost sinn og þá hefur einkum verið höfð í huga verulega stór þyrilvængja, tveggja hreyfla, sem væri úthafsflugvél og gæti sjálf fært togara eða veiðiskip, sem ólöglegt væri tekið, til hafnar, en slíkar þyrlur geta mjög vel gert það með því að setja niður menn í skipin og síðan flogið yfir þeim og fylgt þeim, ekkert síður en varðskip. Það var leitað tilboða í slíka þyrilvængju og þær reyndust vera mjög dýrar. Við forstjóri Landhelgisgæzlunnar skoðuðum slíkar þyrilvængjur á Jótlandi í fyrra og ég held, að okkur hafi báðum komið saman um, að hér væri um verulega þýðingarmikið tæki að ræða fyrir Landhelgisgæzluna, ekki aðeins til að gæta sjálfrar landhelginnar, heldur mundum við vera mjög vel settir og aukin okkar aðstaða til björgunar við strendur landsins með slíkri þyrilvængju. Þær hafa sýnt sig í reyndinni að geta athafnað sig í miklu veðri, allt að 12 vindstigum, til björgunar á skipum, sem hafa lent í sjávarháska og farþegum úr slíkum skipum úr björgunarbátum eða beinlínis tínt þá upp úr sjó. Þetta er þess vegna að mínu áliti sú framtíðarstefna, sem við eigum að reyna að keppa að, að koma sem fyrst í framkvæmd. En af ýmsum ástæðum, — vegna erfiðs árferðis og fjárhagserfiðleika, — lögðum við þetta mál til hliðar í bili. Það er upp úr því, sem horfið var að því til þess að festa ekki mikla fjármuni nú að leigja þessa tvo Grumman—Albatross flugbáta, sem ég gat um áðan, um óákveðinn tíma, meðan við athuguðum hitt málið nánar eða meðan okkur skapast aðstaða, sem við tæplega höfum í dag til kaupa, einnig vegna mjög mikillar fjárfestingar í bili í nýja varðskipinu, Ægi. En ég held, að slík þyrilvængja mundi verða þeim mun þýðingarmeiri, sem hægt væri að skapa henni betri aðstöðu með skýlum, bæði á Austurlandi og Vesturlandi, Suðurlandi og Norðurlandi. Slíkt tæki er tvímælalaust það álitlegasta að mati Landhelgisgæzlunnar og rn. til þess að auka getu Landhelgisgæzlunnar, bæði til gæzlu sjálfrar landhelginnar og til björgunarstarfa.