13.12.1968
Sameinað þing: 21. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 444 í B-deild Alþingistíðinda. (377)

1. mál, fjárlög 1969

Frsm. meiri hl. (Jón Árnason):

Herra forseti. Fjvn. hóf störf sín og athugun á fjárlagafrv. þegar á fyrstu dögum þingsins og hefur alls rætt málið á 35 fundum. Auk þess hafa nm. heimsótt nokkrar stofnanir, rætt við forstöðumenn þeirra í því skyni að kynnast sem bezt þörfum stofnananna og því, sem að dómi n. væri óumflýjanlegt að mæta með auknum fjárveitingum eða annarri fyrirgreiðslu. Þá hefur n. einnig haft til athugunar og afgreiðslu fjölmörg erindi, sem henni hafa borizt, erindi, sem flest hafa falið í sér fjárbeiðnir til að tryggja framgang eða til stuðnings margvíslegum áhugamálum þjóðfélagsþegnanna, en n. hefur því miður í allt of fáum tilfellum séð sér fært að mæta þeim með nýjum fjárveitingum.

Það hefur nú sem fyrr komið í ljós, að verkefnin eru næg og þarfirnar miklar, en að hinu leytinu verður sú staðreynd ekki umflúin, að fjvn. og Alþ. hafa takmarkaðan sjóð úr að spila og við það hljóta störf n. að miðast.

Eins og jafnan áður hefur n. lagt á það áherzlu við athugun sína á fjárlagafrv., að aflað sé sem mestra upplýsinga um rekstur hinna ýmsu ríkisstofnana, og í því sambandi hefur n. átt viðræður við forsvarsmenn þeirra, eftir því sem föng hafa verið á. Þá hefur það auðveldað n. afgreiðslu fjárlagafrv. að þessu sinni, að eins og fram kom í ræðu hæstv. fjmrh. við 1. umr. málsins skipaði hann á s.l. sumri undirnefnd fjvn., sem í átti sæti einn fulltrúi frá hverjum stjórnmálaflokki, og starfaði hún með hagsýslustofnuninni að undirbúningi fjárlagafrv. og kom þá á framfæri till. sínum um það, sem hún taldi, að þyrfti sérstaklega að athuga. Ég tel víst, að þm. telji, að hæstv. fjmrh. hafi hér farið inn á rétta braut í þessum efnum og að áfram beri að halda á þeirri leið, sem gefur fjvn. betri aðstöðu til að fylgjast með og koma á framfæri till. sínum þegar við fyrstu gerð fjárlagafrv. Þá hefur n. nú sem áður notið góðrar aðstoðar hagsýslustjóra, dr. Gísla Blöndals, við afgreiðslu málsins, en þetta hvort tveggja hefur öðru fremur auðveldað störf n. og greitt fyrir afgreiðslu málsins. Ég vil því nota tækifærið og þakka þessum aðilum fyrir gott samstarf, um leið og ég þakka meðnm. mínum öllum fyrir sérstaklega gott samstarf og vel unnin störf. Ég vænti þess, að enda þótt leiðir nm. um afgreiðslu einstakra mála hafi ekki í öllum tilfellum legið saman, þá telji þeir sig ekki hafa verið órétti beitta í sambandi við vinnubrögð í n. eða afgreiðslu málsins í heild.

Eins og nál. meiri og minni hl. fjvn. bera með sér, náðist ekki samkomulag innan n. eða samstaða um afgreiðslu málsins. Ég vil þó taka það fram, að varðandi brtt. meiri hl. n. stendur minni hl. einnig að samþykkt þeirra flestra að öðru leyti en því, sem er bein afleiðing gengislækkunarinnar.

Eins og fram kemur í aths. við fjárlagafrv., vantaði enn mikið á, þegar frv. var samið, að lokið væri nauðsynlegum athugunum á hag atvinnuveganna og rekstrarlegri aðstöðu þeirra. Í frv. var því aðeins gert ráð fyrir þeim fjárveitingum til atvinnuveganna, sem eru til jafns við það, sem er í fjárl. yfirstandandi árs, en þá var sem kunnugt er vandi atvinnuveganna leystur með lögum, sem fólu í sér sérstakar ráðstafanir sjávarútveginum til handa. Með tilkomu gengislækkunarinnar, sem átti sér stað þann 15. nóv. s.l., raskaðist að sjálfsögðu allur grundvöllur fjárlagafrv. og varð því óumflýjanlegt að endurreikna flesta liði frv.

Varðandi tekjubálk frv. eru till. meiri hl. n. byggðar á nýjum upplýsingum frá Efnahagsstofnuninni og er þá stuðzt við þjóðhagsáætlun stofnunarinnar fyrir árið 1969, en hún er við það miðuð, að ekki eigi sér stað kauphækkanir á því ári. Ég mun með nokkrum orðum víkja að þeim upplýsingum, sem n. bárust og snerta aðaltekjustofna fjárlagafrv.

Um eignarskattinn segir, að sé gert ráð fyrir, að innheimtuhlutfall verði 72.5% af álagningu ársins, en mun lægra af eftirstöðvunum, megi ætla, að innheimtur eignarskattur einstaklinga verði 89.6 millj. kr. árið 1968, en félaga 28.6 millj. Þetta innheimtuhlutfall er mun hærra en náðist 1967, en þá var innheimtan af álagningu undir 70%. Með þessari till. er gert ráð fyrir óbreyttri álagningu eignarskatts og sama innheimtuhlutfalli á yfirstandandi ári. Innheimta eftirstöðva er hins vegar gert ráð fyrir, að aukist nokkuð frá því sem er, og áætlast því eignaskattur einstaklinga 95.4 millj. og félaga 31.3 millj.

Varðandi tekjuskattinn gerir Efnahagsstofnunin ráð fyrir sama innheimtuhlutfalli á yfirstandandi ári, þ.e. 72.5%. Hins vegar hefur tekjuþróunin 1968 verið mjög misjöfn og af þeim ástæðum erfitt að gera sér grein fyrir breytingum skattgjaldstekna. Launataxtar hafa hækkað um rúmlega 6% frá ársmeðaltali 1967 til ársmeðaltals 1968. En hér á móti vegur minnkandi atvinna. Talið er, að aflabrestur á síldveiðum vegi upp á móti auknum þorskafla og hækkun fiskverðs í heildaraflaverðmæti. Er gert ráð fyrir, að nettótekjur til skatts hækki um 4% í heild, og er þá tekið tillit til áhrifa hækkandi eignarskatts og eignarútsvars til frádráttar. Auk þess er gert ráð fyrir, að skattvísitalan verði hækkuð, þannig að álagður tekjuskattur á einstaklinga hækki jafnt og nettótekjur eða um 4%, en hér er lagt til, að tekjuskattur einstaklinga og félaga haldist óbreyttur frá því, sem hann er í frv.

Um aðflutningsgjöldin er talið, að samkv. því yfirliti, sem fyrir liggur um tollskyldan innflutning á fyrstu 10 mánuðum yfirstandandi árs, mætti búast við, að tollskyldur innflutningur á árinu hefði orðið 6 milljarðar 550 millj. kr. miðað við óbreytt gengi. Hér er gert ráð fyrir, að gengisfellingin valdi um 16% rýrnun magns þess innflutnings á árinu 1969 og að tollskyldur innflutningur verði þá um 8 milljarðar 500 millj. kr. cif. á árinu 1969 miðað við nýja gengið. Þessi áætlun er byggð á reynslu áranna 1961–1968 um samhengi innflutnings, innflutningsverðs og tekna. Þá má gera ráð fyrir, að við þennan samdrátt á magni lækki meðaltalstollhlutfallið á árinu 1969 í 26.4% frá því að vera um 28% á yfirstandandi ári. Þessar líkur benda því til þess, að rétt sé að áætla aðflutningsgjöldin eins og meiri hl. fjvn. leggur til, 2 milljarða 244.8 millj. kr., þegar frá hafa verið dregnar til Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga 118.2 millj. kr.

Lagt er til, að liðurinn um leyfisgjald af bifreiðum og bifhjólum lækki úr 140 millj. kr. í 102.4 millj. eða um 37.6 millj. Á árinu 1967 voru fluttar til landsins 4103 leyfisgjaldsskyldar bifreiðar. Á árinu 1968 er gert ráð fyrir, að innflutningurinn verði um 2200 eða um 46.5% færri. Það er álit Efnahagsstofnunarinnar, að gera megi ráð fyrir enn meiri samdrætti í bílainnflutningi á næsta ári, þó að ekki sé gert ráð fyrir eins mikilli stökkbreytingu og átt hefur sér stað á milli áranna 1967 og 1968. Sú till., sem hér liggur fyrir, felur í sér 29% lækkun innflutnings á leyfisgjaldsskyldum bílum á árinu 1969 eða jafngildi þess í föstu verðgildi.

Álagður söluskattur fyrstu þrjá ársfjórðunga 1968 var um 8% hærri en árið 1967. Í ár er hins vegar gert ráð fyrir, að álagður söluskattur verði um 1 milljarður 400 millj. kr. Með hliðsjón af áætluðum breytingum einstakra þátta ráðstöfunar og framleiðslu í áætlun Efnahagsstofnunarinnar fyrir árið 1969 er hér gert ráð fyrir 12.2% aukningu álagningar frá yfirstandandi ári, þannig að söluskattur, þ.e. hluti ríkissjóðs, muni nema um 1 milljarði 440.14 millj. kr.

Varðandi rekstrarhagnað Áfengis- og tóbaksverzlunar ríkisins telur Efnahagsstofnunin, að með óbreyttu verði á áfengi og tóbaki hefði rekstrarhagnaður minnkað verulega og þá sérstaklega vegna hækkunar á innkaupsverði. Gera hefði mátt ráð fyrir, að hagnaðurinn á yfirstandandi ári hefði reynzt um 695 millj. kr. miðað við óbreytt gengi. Með hliðsjón af reynslu ársins 1968 og árangri síðustu verðhækkana telur Efnahagsstofnunin, að hagnaðurinn hefði varla orðið meiri en 511 millj. kr. á árinu 1969 miðað við óbreytt verð. Hér er hins vegar gert ráð fyrir, að hagnaður muni nema um 679 millj. kr. miðað við það verðlag, sem ákveðið var 1. des. s.l.

Varðandi kaftann um arðgreiðslur frá fyrirtækjum og sjóðum í B-hluta er aðallega um þrjár breytingar að ræða. Er það fyrst Keflavíkurflugvöllur, flugmálastjórn. Liðurinn hækkar um 11 millj. 772 þús. kr., og liðurinn um fríhöfn, Keflavíkurflugvelli, hækkar um 6 millj. 617 þús. Hér er um breytingar að ræða, sem leiða af gengislækkuninni. Liðurinn um landshafnir, 1 millj. 860 þús., er hins vegar felldur niður. Í ljós kom, að um ógreiddar skuldir landshafnanna væri að ræða og því ekki um raunhæfar tekjur að ræða.

Samkv. þeim brtt., sem meiri hl. fjvn. leggur til varðandi tekjubálk fjárlagafrv., verða niðurstöður af tekjubálki samtals 7 milljarðar 15 millj. 832 þús. kr.

Ég mun þá víkja að gjaldabálki frv. Við þann endurreikning, sem átt hefur sér stað á gjaldabálki fjárlagafrv., hefur í meginreglum verið stuðzt við eftirfarandi:

1. Laun hækka um 15%, en það er sú upphæð, sem talið er, að á vantaði til þess að mæta þeirri launahækkun, sem átti sér stað 1. des.

2. Önnur rekstrargjöld hækka um 35%, en með því eru metin hlutföll erlends og innlends kostnaðar.

3. Á sama hátt hækkar viðhald um 20%.

4. Gjaldfallinn stofnkostnaður er almennt látinn haldast óbreyttur. Þó er um undantekningar að ræða, svo sem um byggingu menntaskóla, og gera má ráð fyrir, að n. beri fram brtt. við 3. umr. málsins, sem fela í sér verulegar hækkanir á framlögum til nýbyggingar skóla og hafna.

5. Yfirfærslur, er gert ráð fyrir, að haldist í flestum tilfellum óbreyttar. Þó er um nokkrar undantekningar að ræða, sem sérstaklega stendur á um. Það er einkum, þegar fjárveitingum er ætlað að standa undir erlendum kostnaði. Í því sambandi má nefna, að framlög til íslenzkra námsmanna hækka um rúmlega 13 millj. kr., til landhelgisgæzlu hækkar framlag vegna erlendra skulda um 8.5 millj. kr. og til byggingarsjóðs síldarleitarskips um rúmlega 2 millj. kr.

6. Liðir, sem fjármagnaðir eru með fyrir fram ráðstöfuðum tekjustofnum, breytast í samræmi við tekjuáætlun. Í því sambandi má nefna tekjur og gjöld Vegasjóðs. Í aths. við fjárlagafrv. var tekið fram, að þar sem vegáætlun lægi ekki fyrir, væru tölur varðandi vegagerð einfaldlega byggðar á áætlunum um tekjur Vegasjóðs og útgjöldum skipt í sem næst sömu hlutföllum og á fjárl. 1963. Við endurskoðun tekjuáætlunar Vegasjóðs er gert ráð fyrir minnkuðum tekjum og þá einkum vegna minni bifreiðainnflutnings, og eru útgjöld Vegagerðar þá lækkuð í samræmi við það. Hins vegar má gera ráð fyrir því, að þessar tölur kunni að breytast, þegar vegáætlun áranna 1969–1972 verður afgreidd frá Alþingi.

7. Liðir, sem heyra undir vexti og afborganir lána, er lagt til, að hækki til samræmis við breytt gengi og innlent verðlag varðandi vísitölutryggð lán, þar sem slíkt á við.

8. Tekjur stofnana í A-hluta eru í flestum tilfellum óbreyttar.

Varðandi einstök fyrirtæki og stofnanir í B-hluta fjárlagafrv. hefur n. þann fyrirvara, að enn sem komið er er ekki í öllum tilfellum unnt að kanna til hlítar þær breytingar, sem gera þarf vegna gengislækkunarinnar. Í því sambandi má sérstaklega nefna framleiðslustofnanir, t.d. eins og Sementsverksmiðjuna, þar sem ekki er enn þá búið að ákveða, hvaða verðlag verksmiðjan á að starfa við á næsta ári.

Ég mun þessu næst víkja að þeim brtt. meiri hl. n., sem eru á þskj. nr. 143 og ég hef ekki þegar gert að umtalsefni.

Koma þá fyrst till. n., sem falla undir starfssvið forsrn. og menntmrn. Er þar fyrst að geta þess, að aðalskrifstofa rn. var á árinu flutt að Hverfisgötu 6. Við það hækkar kostnaður við ræstingu um 72 þús. og annar rekstrarkostnaður um 42 þús. kr.

Stofnkostnaður menntaskóla er lagt til, að hækki um 6.4 millj. kr., eins og ég áður hef vikið að, og skiptist upphæðin þannig, að Menntaskólinn á Akureyri hlýtur 2.5 millj. kr., Menntaskólinn á Laugarvatni 1.6 millj. og Menntaskólinn við Hamrahlíð 2.3 millj. kr. Heildarframlag ríkisins til stofnframlaga menntaskóla nemur þá samtals 38 millj. 68 þús. kr.

Til Reiknistofnunar háskólans er lagt til að hækka framlag um 214 þús. kr. vegna aukins kostnaðar.

Til Menntaskólans á Akureyri hækkar launaliður um 200 þús. vegna fjölgunar um eina bekkjardeild. Á sama hátt er lagt til, að launaliður við Menntaskólann við Hamrahlíð hækki um 230 þús.

Til Kennaraskólans hækkar gjaldfærður kostnaður um 140 þús. Er það vegna kaupa á tækjum til eðlís- og efnafræðikennslu. Þá er till. um að hækka launalið Kennaraskólans vegna fjölgunar á bekkjardeildum um 880 þús. kr. Kennaraskólinn býr nú við mjög þröngan húsakost miðað við nemendafjölda og hefur aðsókn að skólanum aldrei verið meiri en á þessum vetri. Fjvn. heimsótti skóla þennan fyrir nokkru og gerði sér ljóst, að miðað við þann nemendafjölda, sem nú situr skólann, er mjög brýn þörf fyrir aukið kennslurými, þó að n. að þessu sinni sjái sér ekki fært að bera fram till. um framlag til nýrrar byggingar. En til Æfinga- og tilraunaskóla Kennaraskólans er hins vegar lagt til, að framlag til stofnkostnaðar hækki um 1 millj. kr.

Lagt er til, að bifreiða- og ferðakostnaður fræðslumálaskrifstofunnar hækki um 50 þús. kr., en þessi upphæð hafði af vangá fallið niður í till. rn. Til sundskyldu í skólum landsins hækkar framlag um 370 þús. kr.

Launaliður við Hjúkrunarskóla Íslands, er lagt til, að hækki um 1 millj. 471 þús. vegna nýrra hjúkrunarnema. Hér er um laun að ræða fyrir nemendur í bóklegu námi. Nemendafjöldi í Hjúkrunarskóla Íslands er nú um 220.

Framlag til Myndlista- og handíðaskólans, er lagt til, að hækki um 174 þús. kr. vegna aukins kostnaðar.

Til Vistheimilisins í Breiðuvík hækkar gjaldfallinn stofnkostnaður um 100 þús. kr., en það er vegna endurbóta á húsnæði vistheimilisins.

Til Lánasjóðs ísl. námsmanna, er lagt til, að fjárveiting hækki um 13 millj. 7 þús. kr., eins og ég áður hef vikið að. Er það í beinu sambandi við erlendan kostnað, og verður þá heildarupphæðin, framlag til íslenzkra námsmanna, 44 millj. 752 þús. kr.

Þá er lagt til, að liðurinn náms- og fræðimenn hækki um 815 þús. kr., þar af til félagsheimilis stúdenta 450 þús. kr. vegna dagheimilis fyrir börn. Liðurinn til framhaldsnáms iðnaðarmanna erlendis hækkar um 220 þús. Þá er lagt til, að styrkur til erlendra námsmanna á Íslandi hækki um 145 þús. kr. og verði því samtals 945 þús.

Til Þjóðminjasafns er till. um 768 þús. kr. fjárveitingu. Er það til viðhalds og endurbóta á hitalögn hússins. Talið er, að þjóðminjasafnshúsið þurfi á verulegum endurbótum að halda á næstu árum. Er hér aðeins um einn áfanga að ræða af þeirri heildarviðgerð, sem talin er óumflýjanleg.

Lagt er til, að launaliður við Listasafn ríkisins hækki um 165 þús. kr. Er það vegna þess, að gert er nú ráð fyrir, að ritari við Listasafnið verði fastráðinn samkv. viðeigandi launaflokki, en starfsmaður þessi hefur að undanförnu verið lausráðinn hjá safninu.

Liðurinn til vísinda- og fræðimanna, er lagt til, að hækki um 150 þús. kr. Er þá gert ráð fyrir því, að dr. Jens Pálsson hljóti 100 þús. kr. af þeirri upphæð til mannfræðirannsókna á Íslendingum og dr. Sigurður Jónsson 5O þús. kr. til rannsókna á þörungagróðri við strendur landsins.

Þá er lagt til, að liðurinn um framlag Íslands til Norræna hússins hækki um 707 þús. kr., en það er það, sem á vantar, að Ísland leggi fram sinn hluta af byggingarkostnaðinum. Heildarbyggingarkostnaður Norræna hússins í Reykjavík er nú samkv. uppgjöri 46 millj. 800 þús. kr. og er því hlutur Íslands í byggingarkostnaðinum 7.8 millj. kr. Lagt er til að hækka fjárveitingu til Reykholtsstaðar um 250 þús. og skal verja upphæðinni til nauðsynlegra umbóta fyrir staðinn.

Þá er till. um fjárveitingar vegna kostnaðar við Ólympíuleikana í Mexíkó að upphæð 200 þús. kr., en kostnaður vegna þátttökunnar mun hafa farið nokkuð fram úr áætlun. Allt frá árinu 1924 hafa Íslendingar tekið þátt í svo nefndum yrkisskólaþingum, þar sem tekin er til meðferðar kennsla í hinum ýmsu atvinnugreinum. Yrkisskólaþing hefur aðeins einu sinni verið haldið á Íslandi, en það var árið 1949. Nú er ákveðið, að næsta yrkisskólaþing Norðurlanda verði haldið hér í Reykjavík á næsta ári, og með tilliti til þess er lagt til að veita 100 þús. kr. í þessu skyni.

Til Skíðaskólans í Kerlingarfjöllum er lagt til að veita 100 þús. kr. Skíðaskóli þessi mun hafa veitt fjölmörgum unglingum kennslu í skíðaíþróttinni og verið veruleg lyftistöng í þeim efnum. Þegar skólahúsið var byggt, gátu forráðamenn þess ekki fengið lán til framkvæmdanna án þess að það væri með gjaldeyristryggingu. Hér er því lagt til að létta nokkuð undir í þessum efnum.

Þá er lagt til að verja 50 þús. kr. til Skáksambands Íslands vegna þátttöku í Ólympíuskákmóti, sem haldið var í Lugano í Sviss á þessu ári.

Þá koma till. varðandi utanrrn. Þar eru tvær orðalagsbreytingar bornar fram að ósk rn., þannig að liður 309 verði með yfirskrift: Sendiráð Íslands hjá Sameinuðu þjóðunum og aðalræðismannsskrifstofa Íslands í New York. Enn fremur breytist yfirskrift liðarins 310 og verður Sendinefnd Íslands hjá NATO og sendiráð Íslands í Brüssel.

Þessu næst koma brtt., sem falla undir atvmrn. Er þar fyrst till. um hækkun á fjárveitingu til Landgræðslunnar að upphæð 1.7 millj. kr. vegna áburðarkaupa. Er hér um hliðstæða fjárveitingu að ræða við það, sem leiddi af gengisbreytingunni 1967 og þá var einnig tekið til greina.

Þá er lagt til, að framlag til togara, 40 millj. kr., verði fellt niður. Er það í beinu sambandi við ákvæði um ráðstöfun á gengishagnaði, sbr. frv. til l. um ráðstafanir í sjávarútvegi vegna breytingar á gengi íslenzkrar krónu.

Framlag til byggingar síldarleitarskips var áætlað samkv. frv. 3 millj. 750 þús. kr., en vegna gengisbreytingar er lagt til, að liðurinn hækki um 2 millj. 40 þús. kr. og verði því samtals 5 millj. 790 þús.

Á liðnum ýmislegt er till. um 100 þús. kr. fjárveitingu vegna skólabáts. Er hér orðið við óskum æskulýðsfélaganna í Reykjavík og Kópavogi, en það skilyrði fylgir fjárveitingunni, að hlutaðeigandi bæjarfélög leggi eigi minni upphæð fram í þessu skyni.

Þá kem ég næst að till., sem falla undir dóms- og kirkjumálarn. Er það fyrst till. um 207 þús. kr. fjárveitingu vegna bæjarfógetabústaðarins á Ísafirði.

Þá er lagt til, að launaliður til löggæzlu, hækki um 90 þús. og önnur rekstrargjöld hækki einnig um sömu upphæð. Hér er um fjárveitingu að ræða vegna löggæzlu, sem talið er óhjákvæmilegt að hafa á framkvæmdasvæðinu við Búrfell.

Þá er till. um 1 millj. 617 þús. kr. fjárveitingu til Landsspítalans vegna kaupa á tækjum til gervinýrnaþjónustu. Starfræksla þessi hófst á s.l. sumri og þá með lánstækjum frá Svíþjóð, en með kaupum á þessum tækjum er talið, að fáist mun betri nýting á vinnu læknis, sem stjórnar þessari meðferð. Þá er einnig lagt til að hækka framlag til Landsspítalans til byggingar vegna hávoltageislunar um 21/2 millj. kr. Í þessu sambandi er rétt að geta þess, að áhugamenn hafa í samráði við Krabbameinsfélag Íslands boðið Landsspítalanum að gjöf tæki til hávoltageislunar, svo kölluð kóbalttæki, sem eru að verðmæti 3–4 millj. kr. Þarf að reisa þar sérstaka byggingu fyrir þessa starfsemi. Hér er þó aðeins um bráðabirgðaráðstöfun að ræða, en ætlunin mun vera að koma upp sérstakri byggingu við spítalann eða geislalækningadeild. Krabbameinsfélag Íslands hefur þegar boðið fram verulegt fjármagn í þessu skyni.

Þá kemur næst framlag til ríkisspítala, liðirnir 371–376. Þar er gert ráð fyrir að mæta kostnaðarhækkunum sjúkrahúsanna með því, að daggjöld hækki um 16.1% og aðrir tekjuliðir samsvarandi. Á þennan hátt verður framlag ríkisins óbreytt í heild, enda þótt það breytist til einstakra sjúkrahúsa. Hér er þó aðeins um bráðabirgðaráðstöfun að ræða, þar sem daggjöld hafa ekki enn verið ákveðin, og þá gert ráð fyrir, að endanlegar tölur liggi fyrir við 3. umr. málsins.

Til fávitahælis í Kópavogi er nýr liður að upphæð 400 þús. kr., en það er til kaupa á húsbúnaði fyrir stofnunina, sem nú hefur flutt í nýtt húsnæði.

Lagt er til, að liðurinn um byggingar sjúkrahúsa, sjúkraskýla og læknisbústaða annarra en ríkissjúkrahúsa hækki um 5 millj. 498 þús. og verður því samtals 41 millj. 169 þús. kr. Hann skiptist þannig, að til sjúkrahúsa, sjúkraskýla og heilsuverndarstöðva er varið 33 millj. 570 þús. kr. og til læknisbústaða 7 millj. 599 þús. kr. Að öðru leyti vísast til sérstaks yfirlits um fjárveitingar til einstakra sjúkrahúsa og læknisbústaða.

Þá er fjárveiting til St. Jósepsspítala í Reykjavík að upphæð 2 millj. 950 þús. kr. og til sjúkrahúss St. Fransiskusarsystra í Stykkishólmi að upphæð 500 þús. kr.

Liðurinn til heilsuverndarstöðva hækkar um 1 millj. 50 þús. kr., vegna þess, að styrkir til heilsuverndarstöðva voru vanáætlaðir um þessa upphæð í frv. Þá er lagt til, að veittar verði 300 þús. kr. til kaupa á lungnaröntgentæki fyrir berklavarnadeild Heilsuverndarstöðvar Reykjavíkur. Gert er ráð fyrir, að þetta sé fyrsta greiðsla af þremur vegna kaupa á þessum tækjum.

Þá er lagt til, að fjárveiting til Náttúrulækningafélags Íslands verði 320 þús. kr., en það er sama fjárupphæð og veitt er í fjárl. yfirstandandi árs.

Norræn bindindisþing eru haldin á þriggja ára fresti. Skiptast Norðurlöndin á um að halda þingin. Að þessu sinni mun það koma í hlut Íslands að standa fyrir umræddu bindindisþingi hér í Reykjavík. Er því lagt til að veita 50 þús. kr. fjárveitingu í þessu skyni.

Þessu næst koma brtt. varðandi félmrn., og þar er fyrst liðurinn 270, framlag til almannatrygginga. Gert er ráð fyrir, að upphæðinni verði skipt með sérstökum lögum. Hér eru teknar inn 90 millj. kr., sem er áætlaður hluti ríkissjóðs vegna fyrirheits ríkisstj. um 150 millj. kr. hækkun á bótum almannatrygginga. Ekki hefur endanlega verið gengið frá skiptingu þessa fjár á einstakar tegundir bóta, en það mun verða gert með sérstökum lögum síðar á þessu þingi. Eins og ég áður hef sagt, hefur ekki endanlega verið gengið frá daggjöldum sjúkrahúsanna og er því hér til bráðabirgða gert ráð fyrir 16.1% hækkun. Það er sama hlutfallstala og er á gjöldum ríkisspítalanna.

Í liðnum um framlög til sveitarfélaga er lagt til, að liðurinn vatnsveitur samkv. lögum hækki um 2.5 millj. kr. og verði þá samtals 10 millj. Þetta var talið óhjákvæmilegt, sérstaklega með tilliti til hækkunar á afborgunum og vöxtum vatnsveitunnar í Vestmannaeyjum. Þá er lagt til, að veittar verði 50 þús. kr. til aukningar vatnsmagni í Tungulæk á Rangárvöllum, en nægilegt vatnsmagn er talið forsenda þess, að rafstöð, sem þar er, komi að gagni.

Til Bjargráðasjóðs er till. um 3 millj. kr. fjárveitingu, en það er vegna væntanlegrar lagabreytingar um Bjargráðasjóðinn, sem boðuð hefur verið.

Þá er lagt til að hækka framlag ríkissjóðs til Atvinnujöfnunarsjóðs um 50 millj. kr., en af þeirri tipphæð er áætlað að verja allt að 30 millj. kr. til aðstoðar við frystihús, sem sérstaklega stendur á um.

Á liðnum um ýmis framlög er lagt til, að styrkur til elliheimila hækki um 60 þús., en það er vegna elliheimilisins á Blönduósi, sem ekki hefur notið styrks áður.

Sjúkraflugþjónustan í landinu á við mikla fjárhagsörðugleika að etja um þessar mundir. Flugþjónustan h.f., sem Björn Pálsson og Flugfélag Íslands standa að annars vegar og Tryggvi Helgason á Akureyri hins vegar, hefur unnið gott og ómetanlegt starf. Að þessu sinni er lagt til, að liðurinn til sjúkraflugs hækki um 125 þús. kr. og verður þá samtals 500 þús.

Þessu næst eru till. um byggingarstyrki til félagasamtaka. Þar er lagt til, að Blindrafélagið hljóti 120 þús. kr. byggingarstyrk, en það er sama upphæð og í fjárl. yfirstandandi árs, en auk þess eru veittar 800 þús. kr. til aðstoðar við blinda. Sjálfsbjörg, landssamband fatlaðra, hefur á fjárl. yfirstandandi árs 11/2 millj. kr., sem er byggingarstyrkur, og er hér lagt til, að veitt verði sama upphæð að þessu sinni. Þá er að lokum lagt til, að Bandalag ísl. skáta hljóti 100 þús. kr. styrk vegna húsakaupa.

Þá koma till. varðandi fjmrn. Þar er fyrst lagt til, að launaliður embættis ríkisskattstjóra hækki um 2.5 millj. kr. vegna fjölgunar á starfsliði í skattrannsóknardeild. Enn fremur er lagt til, að launaliður við embætti tollstjóra í Reykjavík hækki um 666 þús. kr., en vegna mistaka var hér um vanáætlun að ræða. Á sama hátt er lagt til, að launaliður tollgæzlunnar í Reykjavík hækki um 790 þús. kr., en þetta eru áætlanir vegna lífeyristryggingar þessara stofnana.

Næst koma brtt. meiri hl. n. við fjárveitingar, sem falla undir samgmrn. og iðnmrn. Er þar fyrst á liðnum 321 bygging strandferðaskipa. Lagt er til, að liðurinn hækki um 6 millj. kr., en það er vegna verðtryggingarákvæða í byggingarsamningi um strandferðaskipin, sem nú er verið að byggja á Akureyri.

Þá er lagt til, að byggingarstyrkur til flóabáta hækki um 983 þús. kr. Það er vegna gengisbreytingarinnar og skiptist upphæðin á milli Breiðafjarðarbáts og Djúpbáts, 735 þús. kr. til Breiðafjarðarbáts og 248 þús. kr. til Djúpbáts.

Þá er lagt til, að Veðurstofan hljóti 150 þús. kr. fjárveitingu til hafísrannsókna. Er talið, að hér sé um mikilsvert málefni að ræða og að þessi upphæð nægi til þess að leggja grundvöll að rannsóknum, sem ekki hafi verið sinnt eins og skyldi á undanförnum árum.

Þá er að lokum till. um fjárveitingu til Stýrimannaskólans í Vestmannaeyjum. Lagt er til, að veittur verði 600 þús. kr. styrkur til starfsemi skólans, en það er hliðstætt við fjárveitingu á fjárl. 1968.

Þá eru till. við 6. gr., en þar er lagt til að veita ríkisstj. eftirfarandi heimildir: Að selja áhaldaskemmu Vegagerðar ríkisins á Höfn í Hornafirði. Hér er um að ræða gamla skemmu, en Vegagerðin hefur komið sér upp nýju húsnæði á þessum stað. — Að heimila að endurgreiða aðflutningsgjöld og söluskatt af tækjum, sem gefin verða til mannúðar- og líknarstarfsemi. Gert er ráð fyrir, að endurgreiðsluheimildin nái ekki til innflutnings, sem er eldri en frá árinu 1968, enda setji fjmrn. nánari reglur um þessar endurgreiðslur. — Að heimila endurgreiðslu aðflutningsgjalda og söluskatts af vatnsleiðslurörum, sem bæjarstjórn Vestmannaeyja hefur flutt til landsins til lagningar neðansjávar. — Að fella niður toll og söluskatt af tækjum, sem keypt verða fyrir styrk þann, sem Tilraunastöð háskólans í meinafræði að Keldum hefur hlotið til greiðslu kostnaðar við rannsóknir í erfðafræði og lífefnafræði gerla. — Að ábyrgjast lán að fjárhæð 1 millj. kr. til greiðslu lausaskulda vegna byggingar Umferðarmiðstöðvarinnar í Reykjavík. — Að leyfa póst- og símamálastjórninni að selja húseign stofnunarinnar við Ennisbraut nr. 1 í Ólafsvík ásamt tilheyrandi lóðarréttindum. Að selja gamla húseign á Bíldudal til niðurrifs og brottflutnings af lóð Pósts og síma. Að selja gamla húseign stofnunarinnar ásamt eignarlóð í Djúpuvík í Árneshreppi, ef viðunandi boð fást. Gert er ráð fyrir, að söluverð hússins í Ólafsvík gangi upp í kostnað við byggingu húsa Pósts og síma á staðnum. Í Djúpuvík er starfsemin flutt úr húsinu og mun ekki svara kostnaði að gera við húsið. Þá er talið, að ekki muni svara kostnaði að flytja húsið á Bíldudal á nýjan byggingarreit, þar sem hér er um mjög lélegt hús að ræða, en nýtt hús hefur þegar verið byggt á staðnum.

Loks vil ég geta þess, að við fjárveitingu til flóabáta og vöruflutninga hefur samvn. samgm. flutt brtt. á sérstöku þskj., svo sem venja er, og mun frsm. n. gera grein fyrir þeim till. En samkv. till. n. á þskj. 149 fela þær í sér hækkun útgjalda, sem nemur samtals 3 millj. 155 þús. kr. Verði brtt. meiri hl. fjvn., sem fyrir liggja við þessa umr., ásamt till. samvn. samgm. samþykktar, mun greiðsluyfirlit ríkissjóðs verða þannig, að gjöld eru samtals 6 milljarðar 890 millj. 814 þús. kr. Tekjur verða þá samtals 7 milljarðar 15 millj. 832 þús. Lánahreyfingar út verða 90 millj. 68 þús., en lánahreyfingar inn 4 millj. 50 þús. Mismunur er þar upp á 86 millj. 18 þús. kr. Greiðslujöfnuður á rekstrarreikningi er því 125 millj. 18 þús., en á lánahreyfingum er mismunur upp á 85 millj. 18 þús. kr. og verður því greiðsluafgangurinn réttar 39 millj. kr.

Herra forseti. Ég hef þá lokið að gera grein fyrir brtt. meiri hl. fjvn, fyrir fjárlagafrv. fyrir árið 1969. Ég vænti, að till. hljóti samþykki Alþ., og legg til, að frv. verði að lokinni þessari umr. vísað til 3. umr.