12.12.1968
Sameinað þing: 27. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 740 í D-deild Alþingistíðinda. (3773)

82. mál, olíumál

Hannibal Valdimarsson:

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðh. upplýsingar um málið og svör hans við fsp. Mér sýnist einsætt af þeim upplýsingum, sem hann gaf, að niðurstaða n. hefur verið sú, að á ýmsan hátt væri hægt að ná meiri hagkvæmni í dreifingu olíuvaranna til landsmanna en nú ætti sér stað. Það er t.d. auðsætt, að það er ekki hagkvæmni í því að hafa á hinum ýmsu stöðum úti um landið þrjár smásöludreifingarstöðvar hlið við hlið og síður en svo er það hagkvæmt, að hjá hverju olíufélagi fara jafnan tveir risastórir bílar, annar með benzín, hinn með olíu, út í hinar afskekktustu byggðir landsins, vaða gegnum vegi, sem varla þola slíkar bifreiðar, vor og haust og valda stórkostlegum skemmdum á þeim. Og þarna eru á ferðinni 6 risastórar bifreiðar með geysílegan þunga, þegar þær eru með fullu hlassi og valda miklu tjóni. Sex bifreiðar eru þarna á ferð í staðinn fyrir tvær og það er óhugsandi annað en þetta sé alldýr liður í dreifingu olíuvaranna til landsmanna.

Mig langar til þess að spyrja, ef ég mætti, í framhaldi af því, sem þegar er upplýst í málinu, hvort hæstv. ríkisstj. hafi þegar hugsað sér að gera eitthvað til þess að framkvæmd verði á þeim ábendingum, sem n. komst að niðurstöðu um og auðvelt væri að hefja framkvæmdir á innan langs tíma.