12.12.1968
Sameinað þing: 27. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 741 í D-deild Alþingistíðinda. (3775)

82. mál, olíumál

Hannibal Valdimarsson:

Herra forseti. Ég held, að það sé misskilningur hjá hæstv. ráðh., að ég hafi nokkuð vikið að samanburði verðlags á olíuvörum hér á landi og í öðrum löndum. Það gerði ég ekki. En það skiptir ekki máli. Ég þakka hins vegar þær upplýsingar, sem hæstv. ráðh. gaf um verðlag á olíuvörum erlendis. Ég vil bara vona, að þó að hann kæmist að þeirri niðurstöðu, að hér væri olíuverð ekki óhagstæðara en í okkar nágrannalöndum, þá verði það ekki værðarpúði fyrir hæstv. ríkisstj. til þess að láta dragast á langinn að gera þær hagkvæmnis ráðstafanir, sem hægt virðist vera, því að sannarlega veitti íslenzkum sjávarútvegi ekki af því og landsmönnum yfirleitt með tilliti til þeirrar dýrtíðar, sem við búum við, að þess fyndust dæmi, að einhver vara fengist hér ódýrari, en í nálægum löndum. Ég held, að það ætti fljótt að bregða við og breyta þessu óhagstæða kerfi, sem við erum allir búnir að sjá, að er hneykslanlega óviturlegt og óhagkvæmt, í hagkvæmt horf, þannig að landsmenn gætu á þessu sviði haft af því hagnað að búa við lægra olíuverð, en aðrar þjóðir. Ég held, að þess sé full þörf, því að hér er um mjög þýðingarmikinn vöruflokk að ræða, sem kemur víða við sögu, bæði í einkaheimilishaldinu hjá íslenzkri þjóð og hjá okkar aðalatvinnuvegum.