12.12.1968
Sameinað þing: 27. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 742 í D-deild Alþingistíðinda. (3776)

82. mál, olíumál

Lúðvík Jósefsson:

Herra forseti. Það vakti athygli mína í sambandi við upplýsingar þær, sem hæstv. viðskrh. gaf um störf þeirrar n., sem ríkisstj. skipaði til þess að athuga dreifingarkostnað á olíu hér á landi, að það virtist vera, að n. hefði aðallega fjallað um það, hvað mætti gera olíufélögunum til handa í þessum málum. M.a. höfðu þeir helzt komizt að þeirri niðurstöðu, að það gæti verið hentugt fyrir olíufélögin, að þau mynduðu með sér eitt félag, enda væri það þá alveg tryggt, að þar kæmu ekki aðrir að. Auk þess var svo auðvitað tekið fram, að ef hægt væri að koma fram sparnaði með þessu nýja fyrirkomulagi, skyldi hann allur renna til þessara sömu olíufélaga. Og að því leyti til, sem kannske væri rétt að koma upp einni olíumóttökustöð í Reykjavík fyrir allt landið, þá væri sjálfsagt að gera það með þeim hætti að leggja sérstakan skatt á olíuverð í landinu og nota þann hagnað, sem af því fengist að flytja olíuna til landsins í stærri skipum en áður, til þess að olíufélögin eignuðust þessa olíustöð.

Það var margt gott í þessu, enda fór auðvitað ekkert á milli mála, að það var tilgangurinn með þessari nefndarskipun að athuga, hvernig mætti vernda þessa einokunaraðstöðu hjá olíufélögunum, sem þau hafa haft. En það hefur ekki verið aðalvandamálið í þessum efnum og ætti hæstv. viðskrh. að athuga það, — það hefur ekki verið aðalvandamálið í þessum efnum, hvernig væri hægt að hlúa meir og betur að olíufélögunum, en gert hefur verið. Það hefði kannske mátt reyna að koma upp því skipulagi hér á landi, að þau olíusamlög stórra notenda í landinu, eins og t.d. útvegsmanna, sem eru starfandi samkv. lögum, gætu fengið að kaupa olíu á réttu verði, á því heildsöluverði, á því innkaupsverði, sem ríkið hefur sjálft gert á olíunni. Því að það er ríkið, sem semur við hinn erlenda aðila um að kaupa olíu til landsins. Ríkið veit því, hvað er rétt heildsöluverð á olíunni og ætti m.a. að leyfa þessum dreifingarstöðvum að fá rétt heildsöluverð. En eins og skipulagið er nú og eins og þessi n., sem hér er að skýra frá sínu áliti, virðist vera sammála um, er það alveg fyrirmunað, að aðrir geti fengið rétt verð á olíunni en olíufélögin sjálf. Ég verð að segja, að það eru alveg furðuleg vinnubrögð hjá hæstv. ríkisstj. að ætla að halda sér á þennan hátt við það mikla vandamál, sem hér átti í rauninni að gera athugun á.

Í framhaldi af þessu kemur svo hæstv. viðskrh. og nefnir nokkrar tölur og það með þeim hætti, að maður skyldi halda, að hæstv. ráðh. héldi og hann tryði því, að sú væri raunin á, að olíuverð hér á landi hafi að undanförnu verið sambærilegt við það, sem er í okkar nágrannalöndum. (Gripið fram í.) Jæja, eða þeir, sem hafa matreitt þetta fyrir hæstv. ráðh. í þetta skipti. Ég býst ekki við, að hann hafi farið djúpt ofan í það sjálfur, — ekki haft aðstöðu til þess. En hér er verið að draga ýmiss konar skatta og gjöld frá verðlaginu innanlands. Svo er verið að birta alls konar verð að utan og hver segir, að þetta sé á sambærilegum grundvelli. Eitt veit ég þó, og það er af því að ég hef séð afreikningsnótur, að verðlag í septembermánuði s.l. var þannig, að gasolía, sem seld var til íslenzkra skipa í löndunarhöfnum í Vestur-Þýzkalandi, var á 40% lægra verði en hægt var að fá olíuna til skipanna hér á landi. Þetta er hægt að sanna með nótum. Og það hefur verið skýrt frá þessu opinberlega og enginn treyst sér til þess að hnekkja þessu. Enda tók ég eftir því, að hæstv. ráðh. var hér að lesa upp tölur um verð á gasolíu úr bílum og eins samanburð á verði á benzíni, sem segir í rauninni ekki neitt. Við vitum, að meginhlutinn af benzín verðinu hér og erlendis reyndar líka er skattar.

Nei, því fer víðs fjarri og það vita allir, sem hafa keypt olíu sjálfir, ýmist í enskum höfnum, þýzkum höfnum eða í okkar viðskiptalöndum og kaupa sams konar olíu hér, að á undanförnum árum hefur verið stórfelldur munur á þessu, verðlaginu hér í óhag. Það er því full ástæða til þess að snúa sér að því vandamáli, sem þessi rannsóknarnefnd kemst ekki hjá að drepa á, að hún verður auðvitað að viðurkenna það í leiðinni, að það mætti koma við betri nýtingu á bifreiðum og tækjum í sambandi við olíudreifinguna; það mætti fækka útsölustöðum, þar sem þeir eru margir á einum og sama stað o.s.frv. Auðvitað færi bezt á því í þessum efnum, að þar sem svo stendur nú á, að það er einmitt ráðh. Alþfl., hæstv. viðskrh., sem hefur með þessi mál að gera, að hann sýndi í einu tilfelli, að hann stæði við yfirlýsta stefnu Alþfl., flokksins hans og sneri sér að því að reyna að leysa þetta mál á þann hátt, sem hans eigin flokkur hefur lýst yfir, að sé hans stefna, en það er að vinna að því að koma upp ríkisverzlun með olíu og koma olíusölunni þannig fyrir á þann ódýrasta hátt, sem hægt er í landinu, en ekki að láta leiða sig til að vera að bauka við það, hvernig megi koma meiri gróða í kassann hjá olíufélögunum. Það er ekki aðalvandamálið í þessum efnum. Og ég vildi vænta þess, af því að það má heita fróðlegt, að hæstv. ráðh. vildi leyfa okkur þm. að sjá þessa nýju olíubók, sem hann var að skýra frá, nál. sem var upp á heila bók. Þetta hlýtur að vera opinbert álit. N. hefur verið skipuð og tilkynnt opinberlega og við þm. ættum að geta fengið að sjá þetta álit. Hér eru liggjandi fyrir þinginu till. um það, hvernig skuli skipa þessum málum og það væri ekki nema eðlilegt að fá að sjá þetta álit. Ég vildi fara fram á það við hann að hlutast til um, að við fengjum að sjá þetta merkilega álit, sem hér hefur verið skýrt frá.