12.02.1969
Sameinað þing: 28. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 751 í D-deild Alþingistíðinda. (3790)

124. mál, lífeyrissjóður fyrir alla landsmenn

Fyrirspyrjandi (Magnús Kjartansson):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðh. svörin. Ég ætlaðist ekki til þess, að hann færi að rekja í einstökum atriðum, hvernig þetta mál er á vegi statt og ég mun færa mér í nyt tilboð hans um að fá að skoða þau gögn, sem nú eru tiltæk. Það, sem fyrir mér vakti, var að fá vitneskju um það, hvort þetta mál væri komið á ákvörðunarstig eða ekki. Og eins og svar hans bar með sér, er málið ekki enn þá komið á ákvörðunarstig. Sú n., sem að því hefur unnið, hefur ekki enn þá lokið störfum og innan ríkisstj. virðist ekki vera um neina ákvörðun að ræða. Þetta finnst mér býsna athyglisvert atriði, m.a. vegna þess, að á flokksþingi Alþfl. s.l. haust voru samþykkt eins konar skilyrði í 8 liðum um þátttöku Alþfl. í ríkisstj. með Sjálfstfl. Þingið taldi nauðsynlegt, að eftirfarandi atriði yrðu þættir í væntanlegum efnahagsráðstöfunum, sagði í samþykkt þingsins, og þar er 3. liður svo hljóðandi með leyfi hæstv. forseta:

„Ákvörðun um að stofnaður verði lífeyrissjóður fyrir alla landsmenn eftir tiltekinn tíma og að allmannatryggingar verði efldar.“

Og síðan segir svo í ályktuninni í áframhaldi af þessu, með leyfi hæstv. forseta:

„Ef tekið verður tillit til þessara meginsjónarmiða, telur flokksþingið, að Alþfl. eigi að standa að þeim ráðstöfunum á þessu hausti, sem nauðsynlegar reynast til þess að leggja grundvöll að nýrri eflingu atvinnulífsins“ o.s.frv. Og enn fremur segir svo: „Náist samstaða milli stjórnarflokkanna um þessi meginatriði og önnur úrræði, sem Alþfl. getur fellt sig við, vill flokksþingið, að núverandi stjórnarsamstarfi verði fram haldið.“

Þannig setti þetta þing Alþfl. ráðherrum sínum skilyrði, fól þeim þá skuldbindingu að tryggja í sambandi við samninga um áframhaldandi stjórnarsamvinnu, að tekin yrði ákvörðun um að stofna lífeyrissjóð fyrir alla landsmenn.

Það voru raunar fleiri skilyrði, sem voru í þessari stjórnmálaályktun Alþfl. Fyrsta skilyrðið var að tryggja öllum vinnufærum fulla atvinnu. Menn vita, hvernig við það hefur verið staðið allt til þessa, þegar atvinnuleysingjar á Íslandi eru orðnir hátt á 6. þúsund. Ég hafði satt að segja vænzt þess, að Alþfl. mundi reyna að koma fram einhverju af þessum skilyrðum, sem sett voru af flokksþinginu í haust. Og enda þótt n. hafi ekki lokið formlegum störfum sínum, hefði verið hægt fyrir ríkisstj. að taka um það formlega ákvörðun og tilkynna hana á þingi, að það væri ætlun ríkisstj. að láta setja lög um lifeyrissjóð fyrir alla landsmenn eftir tiltekinn tíma. Ég hygg, að undirbúningi þessa máls sé það langt komið, að það þurfi ekki að dragast mjög lengi enn þá að koma þessu máli í höfn.