12.02.1969
Sameinað þing: 28. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 753 í D-deild Alþingistíðinda. (3792)

124. mál, lífeyrissjóður fyrir alla landsmenn

Pétur Sigurðsson:

Herra forseti. Ég veit ekki, hvaðan það kemur hv. síðasta ræðumanni að tala um, að það ætti að gera honum sérstakan greiða með því að rjúfa þing. Það má vel vera, að það sé eitthvað í sambandi við bankastjórastöðu Landsbankans eða eitthvað annað, sem við þurfum endilega að gera það fyrir hans sérstöku hönd að rjúfa þing. Kannske á að ráða þeim málum annars staðar en hér innan sala Alþ. Það er mál, sem þeir þurfa frekar að ræða í sínum hópi heldur en hér meðal okkar, enda förum við ekki út í það, því að annað mál er á dagskrá.

Það, sem ég vildi aðeins koma að, er áhugi hv. fyrirspyrjanda á þessum sameiginlega lífeyrissjóði allra landsmanna. Ég minnist þess, að fyrir nokkrum árum náði stærsta verkalýðsfélag landsins samningum um lífeyrissjóð, en einmitt þessi hv. þm., sem hefur nú borið fram fsp., flokksmenn hans og önnur handbendi eyðilögðu það fyrir þeim mönnum, sem þá börðust fyrir því og höfðu náð samningum um þessi fríðindi og réttindi, sem ég tel vera sjálfsögð.

Það er ekkert launungarmál, að eitt höfuðmálið í þeirri erfiðu kjaradeilu, sem hefur staðið yfir meðal sjómanna og útvegsmanna, er deilan um lífeyrissjóð. Ég held hins vegar, að ekki fari dult, að samningar hafa náðst um þetta mál. En við sjáum á þessu dæmi og öðrum í sambandi við lífeyrissjóðina, sem hafa orðið til á undanförnum árum í frjálsum samskiptum launþega og vinnuveitenda, að þeir hafa orðið til vegna samninga. Þeir hafa orðið til vegna þess, að launþegarnir hafa fórnað ákveðnum kröfum gegn því að mynda slíka sjóði. Og ég vil eindregið, að það komi fram í þinginu og það komi til þeirrar n., sem fer með þetta mál, að það er ekki sama, hvernig verður haldið á þessu máli. Ef allt í einu á að steypa þessu í einn sjóð, eins og mér virðist, að sumir menn álíti, verður að fara með gát. Þetta kom jafnvel fram í þessari yfirlýsingu ríkisstj. á sínum tíma, sem ég hef ýmsa fyrirvara við, einfaldlega út af þessu, að við höfum margir hverjir barizt fyrir því árum saman og jafnvel fórnað okkar kröfum í launþegafélögunum til þess að ná þessum kjarabótum fram, sem við teljum þó, að komi kannske of seint fram fyrir marga. Við teljum, að við höfum verið að fórna þarna ákveðnum hlutum og við teljum alls ekki rétt, að um leið eigi á einhverju ákveðnu ári að flytja þetta til allra annarra, sem hafa tekið sitt í beinum krónukröfum og fengið það í sínum launum á undanförnum árum, meðan við höfum orðið að binda þetta í þessum sjóðum, sem verðbólgan hefur vissulega verið að eyðileggja á undanförnum árum. Og það höfum við vissulega, sem höfum barizt fyrir lífeyrissjóðum í verkalýðsfélögunum, orðið að sætta okkur við. Um leið og við höfum viljað stuðla að því, að þessi samtök, sem hafa staðið að þessu, söfnuðu í sjóði, hefur þetta rýrnað vegna verðbólgunnar. En þar fyrir utan er ég mjög hlynntur því, að áfram verði haldið á þessari braut. Það hlýtur að verða þjóðfélaginu fyrir beztu, að einhverjir launþegar geti leyft sér að taka af sínum launum til þess að setja í slíka sjóði, en ég vil beina því til þeirra manna, sem hafa með þetta mál að gera, að það er ekki jafneinfalt og virðist koma fram í ræðum sumra, sem tala um þetta mál, að það sé beinlínis hægt að segja: Við skulum setja lífeyrissjóð fyrir alla landsmenn. Ég spyr og hef spurt áður: Hvar standa þá þeir lífeyrissjóðir, sem fyrir eru? Hvað á að segja við þá menn, sem hafa á annan tug ára tekið á sig þær kvaðir að byggja upp stóra og mikla sjóði, sem nú eru til mikils gagns? Reyndar ekki fyrir þá sjálfa, heldur fyrir þjóðfélagið í heild, og þar á meðal minnist ég þess, að ríkisstj. og fleiri aðilar hafa ákveðið og samþykkt að taka af þessum sjóðum til úthlutunar í almenna veðlánakerfið fyrir húsbyggjendur. Þessir menn hafa safnað þessu fé, sem ég tel þeirra eign.

Mín ástæða til þess að koma hér upp er aðeins að benda á þetta atriði, að það eru fyrir hendi í dag sjóðir, sem aðilar hafa komið sér saman um í frjálsum samningum. Þeir eiga þá og það á ekki að vera grundvöllur fyrir því, að Alþ. eða aðrir geti leyft sér að taka þessa sjóði til sinnar ráðstöfunar. Það á heldur ekki að vera hægt, þegar kemur að því að semja væntanlegt frv. um almennan lífeyrissjóð, að ganga fram hjá því, að þarna eru frjálsir samningar, sem áttu sér stað á sínum tíma og eignamyndun þeirra aðila, sem að þeim samningum stóðu.