12.02.1969
Sameinað þing: 28. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 758 í D-deild Alþingistíðinda. (3798)

274. mál, kæra á hendur forstöðumanni vinnuhælisins á Litla-Hrauni

Fyrirspyrjandi (Ágúst Þorvaldsson):

Herra forseti. Ég vil þakka hæstv. dómsmrh. fyrir að hafa svarað fsp. þeirri, sem ég bar fram, svo langt sem hans svör ná. Á þeim var yfirleitt ekki mikið að græða. Ég hef séð álitsgerð fangelsisnefndar og ég sé það á því, sem þar er og því, sem ráðh. sagði, að það er mikið ósamræmi á milli álitsgerðarinnar og niðurstöðu rn. Ég hygg, að fangelsisnefndin hafi ætlazt til frekari aðgerða í þessu máli og að kærur þær, sem þarna voru bornar fram, eða kvartanir yrðu sumar hverjar teknar alvarlega og teknar til greina, en það er ekki hægt að segja, að hafi verið gert.

Ég játa, að það er erfitt að ræða þetta mál hér og ég mun ekki gera það frekar. En ég tel alveg nauðsynlegt, að hæstv. dómsmrh. hafi sjálfur nokkru meira eftirlit með þessum stað. Hann mætti gjarnan taka sér til fyrirmyndar fyrirrennara sinn í embættinu, núv. hæstv. forsrh. Þegar hann var dómsmrh., veit ég það með sannindum, að hann kom oft sjálfur á þennan stað og leit þar eftir og það veitti ábyggilega visst aðhald í þessari umræddu stofnun.

Ég vil upplýsa, að mér þykir það líka ákaflega leiðinlegt, að fyrrverandi forstjóri, ágætur maður, Guðmundur Jóhannsson, var búinn að koma þarna á fót merkilegu fyrirtæki, sem voru vinnuskálar fyrir fangana, þar sem þeir gátu unnið að smíðum. Tóku þeir að sér merkileg verkefni fyrir skólana hér, sem sé að smíða skólahúsgögn. En nú hefur þessi starfsemi algerlega verið lögð niður og mér er sagt af kunnugum, að verkfærin séu týnd. Ég álít, að þarna þurfi miklu meiri og nákvæmari gætur á að hafa af hálfu hins opinbera og það sé nauðsynlegt að hafa þarna á staðnum verkefni fyrir fangana.

Búskapurinn hefur að mestu leyti verið lagður niður. Jarðirnar, sem lagðar voru undir vinnuhælið, eru þó vel fallnar til búskapar á margan hátt, t.d. til garðræktar, sem er gott verkefni fyrir fanga. Innivinna á veturna er nauðsynleg og þessir vinnuskálar, sem þarna var búið að koma upp, sýndu merkilegan árangur og ef það er ekki tilraun til þess að bæta afbrotamenn að láta þá vinna að hagnýtum störfum, þá veit ég ekki hvað það er, sem hægt er að nota til þess að bæta þá.

Ég ætla ekki að hafa fleiri orð um þetta núna. En ég veit, að það er mikil ólga út af þessu máli í næsta nágrenni við vinnuhælið. Sjálfur skal ég játa, að ég er ekki kunnugur á þessum stað og hef ekki gert mér tíðar ferðir þangað, raunar aldrei komið þar.