19.02.1969
Sameinað þing: 29. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 760 í D-deild Alþingistíðinda. (3806)

109. mál, perlusteinsvinnsla í Loðmundarfirði

Dómsmrh. (Jóhann Hafstein):

Herra forseti. Hv. fyrirspyrjandi, 3. þm. Austf., hafði borið fram fsp. sína á fyrri hluta þessa þinghalds og gert grein fyrir fsp. á þingfundi, áður en fundum Alþ. var frestað, en ég óskaði eftir frestun málsins þá, vegna þess að þess var að vænta, að berast mundu á næstunni niðurstöður nýrrar rannsóknar í þessu máli. Og svo hefur einnig orðið. En spurt er um það, hver hafi orðið árangur af nýjustu rannsóknum á perlusteini í Loðmundarfirði og hvaða horfur séu á vinnslu hans til útflutnings.

Ég vil aðeins að gefnu tilefni fara nokkrum orðum um þetta mál svolítið út fyrir ramma fsp. um árangur hinna nýjustu rannsókna, en þetta mál hefur verið í athugun og rannsókn hjá iðnrn. s.l. tvö ár, 1967 og 1968, en áður höfðu ýmsar athuganir farið fram á vinnslu perlusteins, og mun Tómas Tryggvason jarðfræðingur hafa hafið athugun þessa máls eða möguleika á því, að unninn yrði perlusteinn hér á landi þegar árið 1948 og unnið að því meira og minna, þar til hann andaðist. Oft starfaði hann í samvinnu og samráði við erlenda sérfræðinga. Aldrei gat þó orðið af hagnýtri framleiðslu á þessu tímabili. En síðan mun það hafa verið á árinu 1967, að viðræður hófust um það milli mín og fulltrúa frá fyrirtækinu Johns Manville á aðalfundi Kísiliðjunnar í Mývatnssveit þá um sumarið og síðar á fundum hér í Reykjavik. En fulltrúar fyrirtækisins Johns Manville, sem er hluthafi í Kísíliðjunni, eins og kunnugt er, lýstu þá áhuga á því að athuga möguleikana á því að hefja í samvinnu við Íslendinga vinnslu á perlusteini. Fundahöld fóru fram á milli aðila og iðnrn. lét þessum aðilum í té grg. þá um sumarið. Ég held, að það hafi verið í ágústmánuði, en einnig skipaði ég þá n. manna til þess að vinna úr öllum þeim gögnum, sem fyrir lágu í iðnrn. og rannsóknastofnunum um þetta perlusteinsmál og þessi n. skilaði ítarlegri skýrslu um perluvinnslu í Loðmundarfirði og hún er víst dags., ef ég man rétt, í nóvembermánuði 1967.

Á sama tíma eða um sama leyti höfðu fulltrúar Johns Manville óskað eftir því að fá send sýni af perlusteininum, og það var gert á árinu 1967. Niðurstöður þeirra voru þær, að þeir þyrftu að fá frekari sýni og óskuðu eftir því að senda eigin mann til rannsókna, og það varð á árinu 1968 og einnig höfðu þá íslenzkir aðilar að tilhlutun iðnrn. frumkvæði um að taka sýni úr Loðmundarfirði og Prestahnjúk og senda það sjálfstætt til annarra rannsóknastofnana erlendra til þess að fá samanburð frá þeim og á þeim niðurstöðum, sem í ljós kæmu hjá Johns Manville. Johns Manville hefur perlusteinsvinnslu í Bretlandi og efnið til þessarar vinnslu þeirra þar kaupa þeir frá eyjunni „Milos“ í Miðjarðarhafi og það hafði hvarflað að þeim sú hugsun, að meira öryggi væri fyrir þá að hafa aðgang að perlusteinsvinnslu á Íslandi og samræma flutninga á vinnslu Kísilgúrverksmiðjunnar við Mývatn, — en kísilgúrinn er mjög léttur og fyrirferðarmikill í flutningum, — við flutninga á perlusteininum sem einhvers konar kjölfestu og gera þannig flutningana auðveldari og hugsanlega arðbærari. Þessir aðilar gerðu þeirri n., sem ég gerði grein fyrir áðan, að skipuð hefði verið af iðnrh., grein fyrir hugsanlegri stærð og kostnaði við verksmiðju, sem ynni úr perlusteininum í Loðmundarfirði, ef rannsóknirnar yrðu jákvæðar, útflutningsverðmæti, sem vænta mætti og arðgjöf frá slíkri verksmiðju.

Í stórum dráttum hafa þannig á tveimur undanförnum árum farið fram mjög ítarlegar rannsóknir á perlusteini og með þeim hraða, sem við höfum ráðið mestum yfir, bæði hjá rannsóknastofu Johns Manville og annarra erlendra rannsóknastofa, sem ég skal nánar gera grein fyrir, og í samvinnu við iðnmrn. og Rannsóknastofnun iðnaðarins.

En ef fsp. sjálfri er svarað eingöngu með niðurstöðum nýjustu rannsókna, mundi það verða eitthvað á þessa leið, þó að ég aðeins í örfáum orðum minnist á perlusteininn sem slíkan til frekari skýringar.

Perlusteinn eða perlít, sem einnig hefur verið nefnt biksteinn, er glerkennt afbrigði af líparíti. Í venjulegu líparíti er bundið vatn oftast minna en 1/2%, en í perlíti 3–5%. Venjulegt líparít þenst ekki við hitun, en við hitun á perlíti myndar bundna vatnið aragrúa af gufubólum svo steinninn verður írauðkenndur, svipaður vikri. Þanið perlít er ágætt einangrunarefni og þar sem það er ólífrænt, er það endingarbetra en lífrænt einangrunarefni og brennur ekki. Perlítið er eftir þenslu notað bæði til blöndunar í steypu og í múrhúðun, svo og í léttsteypuveggi og einnig sem síunarefni, svipað og kísilgúr og mun það vera verðmætast, ef gæði þess eru nægjanlega mikil til þess að nota það sem síunarefni.

Perlít hefur einkum tvo kosti umfram vikur. Annars vegar er það flutt óþanið á markaðsstað, en það dregur mjög úr flutningskostnaði. Í öðru lagi er með mölun unnt að ákveða kornastærð perlíts fyrir þenslu. Vikur og þanið perlít hefur þá kosti fram yfir lífræn einangrunarefni, að þessi steinefni breytast ekki með tímanum og eru ekki eldfim. Lífræn einangrunarefni hafa þó á seinustu árum tryggt mjög markað fyrir vikur og perlít.

Kunnugt er um tvö stór perlítsvæði hér á landi. Auk þess hefur fundizt vottur allvíða, en einungis í tveimur stöðum, Loðmundarfirði á Austfjörðum og suðvestanlands í fjallinu Prestahnjúk er um verulegt magn að ræða. Milli Þórisjökuls og Geitlandsjökuls hefur svo mikið magn perlíts fundizt, að áframhaldandi rannsóknir virðast geta komið til greina. Báðir þessir staðir hafa þó þann annmarka, að erfitt er um flutning þaðan. Í Loðmundarfirði eru engin hafnarmannvirki og Prestahnjúkur er um 50 km frá Höfn í Hvalfirði. Þegar fyrir allmörgum árum voru gerðar tilraunir með þensluhæfni og gæði perlíts, bæði frá Loðmundarfirði og Prestahnjúk, en ekki varð af vinnslu, m.a. vegna þess tiltölulega mikla kostnaðar, sem fyrirsjáanlega yrði við töku efnisins og flutning á útskipunarstað og þaðan á markað.

Árið 1967 hófust viðræður við bandaríska fyrirtækið Johns Manville Corporation um vinnslu á perlíti hér á landi, en félag þetta er, eins og ég greindi frá áðan, meðeigandi í Kísilgúrverksmiðjunni við Mývatn. Var hugmyndin sú, ef gæði íslenzka perlítsins reyndust nægjanleg, að flytja það utan sem kjölfestu í sömu skipum og flyttu kísilgúr frá Mývatnsverksmiðjunni.

Í árslok 1967 voru tekin sýnishorn í Loðmundarfirði og þau rannsökuð í rannsóknarstofnun Johns Manville Corporation. Sérfræðingur Johns Manville töldu þessi sýnishorn of fá og lítil til þess, að þeir gætu myndað sér skoðun á efnisgæðum, og báðu þeir um að fá að senda mann til að taka frekari sýnishorn 1968. Var það samþykkt og sýnishornin tekin snemma í júní 1968 í samráði við landeigendur. Töku sýnishornanna önnuðust sérfræðingur Johns Manvilles og Þorleifur Einarsson jarðfræðingur. Rn. taldi rétt, að perlítið væri rannsakað á fleiri stöðum, en hjá rannsóknastofu Johns Manville og voru því um leið tekin á sömu stöðum sýnishorn, sem send voru ásamt sýnishornum úr Prestahnjúk til rannsóknar hjá Bundesanstalt für Bodenforschung í Hannover í Þýzkalandi og rannsóknastofnun Carlo Vivari í Tékkóslóvakíu. Niðurstöður athugana þessara sýnishorna liggja nú fyrir, en bárust ekki rn. fyrr en í janúarmánuði s.l. frá rannsóknarstofnununum tveimur, en aðeins niðurstöður Johns Manville höfðu borizt, áður en fsp. var borin fram.

Þessar niðurstöður benda til, að þenjanlegt perlít, sem nota megi sem léttblendi, megi finna bæði í Loðmundarfirði og í Prestahnjúk, en hins vegar varla unnt að framleiða síunarefni úr perlíti í þessum námum. Efnið úr Loðmundarfirði er talið betra og léttara, en efnið úr Prestahnjúk. Úrslit rannsókna þeirra, sem gerðar voru á s.l. ári, má draga saman í stuttu máli, sem hér segir:

Perlítið er þenjanlegt. Þenslan er nægileg til vinnslu á léttblendi og til framleiðslu á léttum plötum í ágætis gæðaflokki. Styrkleiki þanda efnisins er góður. Þensluhluti tiltölulega hár. Þenslan er ekki nægjanleg til framleiðslu á góðum síunarefnum og síunareiginleikar þanda efnisins ekki nógu góðir. Of mikið af salla eða fínum úrgangi, 25–64%, myndast við framleiðsluna. Of mikil rýrnun er á efni við þensluna eða 15.3–27% miðað við 5% efnisrýrnun í góðum, erlendum perlíttegundum.

Á grundvelli rannsókna sérfræðinga sinna hefur Johns Manville tilkynnt iðnmrn., að félagið hafi ekki áhuga á þátttöku í perlítvinnslu hér á landi, en jafnframt hefur félagið boðið aðstoð sína við endanlegar rannsóknir í málinu, svo og við að koma upp nauðsynlegum mannvirkjum til efnistöku og vinnslu efnisins á námastaðnum, ef til kæmi.

Á árinu 1968 leituðu ýmsir erlendir aðilar, aðrir en Johns Manville, upplýsinga hjá iðnmrn. um möguleika til perlítvinnslu á Íslandi, þ.á.m. fyrirtæki í Bretlandi og Þýzkalandi, sem kváðust hafa áhuga á að fá sýnishorn efnisins til rannsóknar í eigin rannsóknarstofum. Sérfræðingar þeir, sem rannsakað hafa sýnishorn af perlíti úr Loðmundarfirði benda á, að sýnishornin hafi verið of fá, aðeins 6 í hverju landi, — þar er átt við Loðmundarfjörð og Prestahnjúk, — til að unnt sé að dæma endanlega um efnisgæðin með fullri vissu. Sérfræðingar Johns Manville hafa gert áætlun um, hvað gera þurfi til að ljúka endanlegri rannsókn bæði á efnismagni og gæðum perlíts í Loðmundarfirði. Er gert ráð fyrir, að náman verði nákvæmlega könnuð með borunum og á annan hátt og 400 sýnishorn þensluprófuð og rannsökuð. Er ljóst, að fullkomin rannsókn mun kosta töluvert fé.

Fyrri hluta fsp., — um árangurinn af þessum nýjustu rannsóknum, — telst svarað með því, sem rakið hefur verið, en síðari hluta fsp., — um horfur á vinnslu perlíts til útflutnings, — er ekki unnt að svara að svo stöddu. Ég vil taka fram, að í iðnrn. liggja fyrir ítarlegar skýrslugerðir um rannsóknir og einnig ítarlegar skýrslugerðir frá þeirri n., sem ég gat um áðan og iðnrh. skipaði 1967, en í n. áttu sæti Brynjólfur Ingólfsson ráðuneytisstjóri og Árni Þ. Árnason deildarstjóri í rn., Pétur Pétursson forstjóri og Hjörtur Torfason, en þess má geta, að n. starfar enn.

Ríkisstj. telur nauðsynlegt, að kannaðir verði til hlítar möguleikar á nýtingu perlíts og mun beita sér fyrir, að það verði gert á þessu ári. Um þetta hefur verið gerð ákvörðun í ríkisstj. á fundi hennar þann 13. febr. s.l.

Ég vil svo aðeins ljúka máli mínu með því, að ef einhverjir hv. þm. og þá kannske sérstaklega fyrirspyrjandi óska eftir að fá þessar frekari upplýsingar, sem eru allt of viðamiklar til þess að fara með þær í upplestri hér í þingsölunum, þá eru þær til reiðu í iðnrn.