19.02.1969
Sameinað þing: 29. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 765 í D-deild Alþingistíðinda. (3811)

133. mál, efnahagssamvinna Norðurlanda

Fyrirspyrjandi (Magnús Kjartansson):

Herra forseti. Nú um eins árs skeið hefur verið framkvæmd býsna víðtæk könnun annars staðar á Norðurlöndum á möguleikunum á því, að Danmörk, Noregur, Svíþjóð og Finnland taki upp mun nánari efnahagssamvinnu, en tíðkazt hefur að undanförnu. Snemma á síðasta ári var n. embættismanna og sérfræðinga frá þessum löndum falið að framkvæma slíka könnun og taka sérstaklega til athugunar tíu tiltekna þætti efnahagsmála. Þessir sérfræðingar fengu afmarkaðan tíma til starfa sinna. Þeir áttu að skila niðurstöðum sínum um seinustu áramót og við það var staðið af þeirra hálfu. Þeir skiluðu slíkri skýrslu 3. jan. s.l. Þar kom fram, að samstaða reyndist býsna mikil um það, að unnt væri að koma á víðtækri efnahagssamvinnu á sumum þessum sviðum, en á öðrum var uppi nokkur ágreiningur og ýmislegt, sem frekari athugunar þyrfti við. Þetta mál var síðan rætt á fundum forsrh. Norðurlanda og nú nýlega var sérfræðingunum falið að starfa áfram og athuga alveg sérstaklega 7—8 tiltekin vandamál og skila niðurstöðum um þá athugun 15. júlí í sumar og ennfremur drögum að eins konar efnahagsbandalagssamningi Norðurlanda. Hins vegar virðist svo af ummælum forustumanna í þessum löndum, að taldar séu allverulegar líkur á því, að af þessu samstarfi geti orðið. Vandamálin eru ekki talin meiri en svo, að unnt sé að útkljá þau með pólitískum ákvörðunum eftir tiltölulega skamman tíma.

Hér er um að ræða þróun, sem mun hafa mjög mikil áhrif á Norðurlöndum, ef af þessum ákvörðunum verður og þess vegna skiptir þetta mál okkur Íslendinga einnig mjög verulegu máli. Við erum þátttakendur í norrænni samvinnu innan Norðurlandaráðs og víðar og það hefur verið stefna Íslendinga að vilja halda þeirri samvinnu áfram. Hitt gefur auga leið, að ef aðrar Norðurlandaþjóðir bindast í eins konar efnahagsbandalag, án þess að við séum tengdir því á nokkurn hátt, mundi það leiða til þess, að við fjarlægðumst Norðurlönd á þessu sviði.

Ríkisstj. Íslands átti þess kost að taka þátt í þessari athugun, sem framkvæmd hefur verið að undanförnu. Ég lét það í ljósi á þingi á síðasta ári, að mér hefðu þótt íslenzkir ráðamenn sýna furðu mikið tómlæti í því sambandi, því að enginn Íslendingur var ráðinn til slíkra starfa. Hæstv. forsrh. kvað ástæðuna þá, að ríkisstj. hefði ekki haft tiltæka menn til þess að vinna þessi verk. Hins vegar hafa íslenzk stjórnvöld fylgzt með gangi þessa máls, fengið öll gögn í sínar hendur og embættismenn ríkisstj. hafa setið á fundum, auk þess sem hæstv. forsrh. hefur setið á fundum, þar sem þessi mál hafa verið rædd.

Ég held, að það sé óhjákvæmilegt, að Íslendingar taki afstöðu til þessara viðhorfa og ég trúi ekki öðru en hæstv. ríkisstj. hafi gert sér nú þegar einhverja grein fyrir því, hvernig skynsamlegast verði að þessu máli staðið af hálfu Íslendinga. Þetta mál er það langt komið, að mér finnst vera tímabært, að hæstv. ríkisstj. geri grein fyrir því á þingi, hver viðhorf hennar eru til þessa máls, svo að almennar umr. og athuganir geti hafizt á vegum fleiri aðila hérlendis.