19.02.1969
Sameinað þing: 29. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 766 í D-deild Alþingistíðinda. (3812)

133. mál, efnahagssamvinna Norðurlanda

Menntmrh. (Gylfi Þ. Gíslason):

Herra forseti. Ríkisstj. hefur gert sér far um að fylgjast sem bezt með þeim umr. og athugunum, sem átt hafa sér stað um aukna efnahagssamvinnu Norðurlanda. Slík efnahagssamvinna hefur lengi verið á dagskrá á Norðurlöndum, en misjafnlega mikið um hana rætt eftir því, hvernig viðhorf hafa verið í viðskiptamálum landanna. Fyrir forgöngu dönsku ríkisstj. hófust sérstakar umr. um málið á s.l. vori. Boðaði forsrh. Dana til sérstaks fundar norrænna ráðh. 22. apríl s.l. um afstöðu Norðurlandanna til ástandsins í markaðsmálum Vestur-Evrópu og þá sérstaklega um aukna efnahagssamvinnu Norðurlanda. Ég sat þennan fund fyrir hönd Íslands. Var málið ennfremur rætt í efnahagsmálan. Norðurlandaráðs. Síðar hafa þessi mál verið til umr. á fundum forsrh. Norðurlanda og hefur Bjarni Benediktsson forsrh. setið tvo þessara funda, í Osló í okt. s.l. og í Stokkhólmi í byrjun þessa mánaðar. Sendiherrar Íslands á Norðurlöndum og Þórhallur Ásgeirsson ráðuneytisstjóri hafa mætt á nokkrum fundum norrænu embættismannana sem áheyrnarfulltrúar. Þeirri n. var á Kaupmannahafnarfundinum falið að semja bráðabirgðaskýrslu um aukna, norræna efnahagssamvinnu. Var sú skýrsla tilbúin í byrjun jan. s.l. Hefur hún síðan verið til umr. á þrem fundum forsrh. hinna fjögurra Norðurlandanna og verður aðalumræðuefnið á næsta fundi Norðurlandaráðs í Stokkhólmi í marz byrjun.

Ástæður þess, að áhugi hefur á ný orðið á nánara efnahagssamstarfi Norðurlanda eru fyrst og fremst þær, að tilraunir Dana, Norðmanna og jafnvel Svía til að fá inngöngu í Efnahagsbandalag Evrópu hafa ekki borið árangur og ekki er búizt við því, að úr rætist í þeim efnum á næstu árum. Hefur því verið talið æskilegt, að Norðurlöndin treystu samstarf sín á milli með norrænu tollabandalagi, sameiginlegri stefnu í viðskiptamálum og landbúnaðar– og sjávarútvegsmálum og ýmsum öðrum ráðstöfunum, sem hefðu norrænt efnahagsbandalag að markmiði. Þetta fyrirhugaða samstarf á að grundvallast á EFTA–samstarfinu, sem hefur leitt til myndunar á tollfrjálsum markaði fyrir iðnaðarvörur milli hinna Norðurlandanna, en það samstarf hefur haft í för með sér mjög mikla aukningu á viðskiptum milli landanna. Með norrænu tollabandalagi er átt við, að allir tollar verði felldir niður í innbyrðis viðskiptum og sameiginlegur ytri tollur verði tekinn upp gagnvart öðrum löndum.

Það var í upphafi ljóst, að Ísland gæti ekki á þessu stigi málsins orðið virkur þátttakandi í hinu fyrirhugaða efnahagssamstarfi, þar eð Ísland er ekki aðili að EFTA og hefur því ekki fellt niður tolla og innflutningshöft samkvæmt EFTA–samningnum, eins og hin Norðurlöndin hafa þegar gert.

Það er kunnara en frá þurfi að segja, að við flytjum miklu meira inn frá hinum Norðurlöndunum, en út til þeirra. Heildarafnám tolla gagnvart Norðurlöndunum einum, án þess að á móti fáist hliðstæð fríðindi fyrir íslenzkan útflutning til Norðurlanda, getur ekki komið til mála. Á því eru augljósir erfiðleikar. En til greina yrðu þá að koma í staðinn veruleg fríðindi á öðrum sviðum. Að mati ríkisstj. er aðild Íslands að EFTA því skilyrði þess, að um virka þátttöku Íslands í hinu fyrirhugaða efnahagssamstarfi Norðurlanda geti verið að ræða og er þetta ein af ástæðum þess, að ríkisstj. hefur hafið samningaviðræður um aðild Íslands að Fríverzlunarsamtökum Evrópu, að fenginni heimild Alþ. til þess. Ríkisstj. telur, að víðtækt samstarf við hin Norðurlöndin sé bæði æskilegt og hagkvæmt. Mun hún því halda áfram að vinna að því, að Ísland geti sem fyrst tekið þátt í hvers konar efnahagssamstarfi Norðurlanda, sem nú er um rætt.